Færsluflokkur: Bloggar

EES-samningurinn varðaði leiðina fyri útrásina og hrunið

Það er rétt hjá Birni Bjarnasyni að án aðildar Íslands að Evrópska efnahagssvæðinu hefði ekki komið til stofnunar útibúa íslenskra banka erlendis sem urðu stökkbretti fyrir útrásarvíkingana og leiddu af sér hrunið sl. haust.

Þegar árið 1990 benti ég í skýrslu Evrópustefnunefndar til Alþingis á hættuna af að innleiða hér meginreglur innri markaðar Evrópusambandsins, þ.e. svonefnt fjórfrelsi, með óheftum fjármagnshreyfingum. Um þerra fjallaði ég á bloggsíðu minni 21. nóvember 2008. Í séráliti mínu sem birtist í skýrslunni sagði ég m.a.:

Óheftir fjármagnsflutningar eru eitt undirstöðuatriði innri markaðar EB sem áformað er að yfirfæra til EFTA-ríkjanna. Ísland hefur sérstöðu að því leyti að hér eru miklar hömlur á þessu sviði. Með þátttöku í EES yrðum við skuldbundin til að aflétta þessum hömlum innan skamms og fórnuðum þannig þeim stjórntækjum í efnahagsstarfsemi sem í þeim felast.Þótt bent sé á vissa kosti sem fylgt geti fjármagnshreyfingum, tengjast þeim mörg vandamál, ekki síst fyrir litla efnahagsheild eins og þá íslensku. Þannig takmarka óheftar fjármagnshreyfingar verulega möguleikann á að reka sjálfstæða peningastefnu og hafa stjórn á gengi og vöxtum. Niðurstaðan af því að aflétta hömlum af fjármagnshreyfingum gæti að því er Ísland varðar orðið verulegt útstreymi á fjármagni úr landi, auk þeirrar hættu sem tengist spákaupmennsku og undandrætti frá sköttum."Frjáls" þjónustuststarfsemi varðar m.a. fjármálaþjónustu með óheftum rétti til hvers konar banka- og tryggingastarfsemi, ... Fyrir Ísland gæti "frelsi" á þjónustusviði haft í för með sér miklar breytingar sem m.a. kæmu fram í því að erlendum bönkum yrði leyft að starfa hérlendis með tilheyrandi heimild til fjármagnsflutninga milli landa.Fyrir liggur að í könnunar- og undirbúningsviðræðum voru engir ákveðnir fyrirvarar gerðir af Íslands hálfu ....  Telja verður með ólíkindum að ekki skuli hafa verið settir skýrir fyrirvarar af Íslands hálfu varðandi samningaviðræður um þjónustu- og fjármagnssviðið.“

 


mbl.is Aðild að EES réð úrslitum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stóriðjustefna á fallanda fæti

Grunnurinn að álbræðslu í Helguvík getur orðið verðugur minnisvarði um gjaldþrot stóriðjustefnu álflokkanna þriggja, Sjálfstæðisflokks, Framsóknarflokks og Samfylkingar. Fjárfestingarsamningur Össurar Skarphéðinsson við Norðurál sem ríkisstjórn Geirs H. Haarde samþykkti 23. des. 2008 verður vonandi aldrei lagður fyrir Alþingi til staðfestingar. Í honum fólst m.a. 5 milljarða bein ríkisaðstoð og afsal á skattlagningarvaldi umfram lágmarksprósentu. Um þennan gjafapakka til 360 þúsund tonna álbræðslu Norðuráls komu þeir sér saman Össur og Árni Matt. Eftir þennan gjörning átti framkvæmdum aðeins að seinka um 6-12 mánuði og gangsetja átti fyrsta áfanga eftir mitt ár 2011.

Samkvæmt tilkynningu Century Aluminium, eiganda Norðuráls, í gær, 19. febrúar, hafa allar framkvæmdir í Helguvík verið stöðvaðar og teknar til endurskoðunar.

Í grein á heimasíðu minni ( www.eldhorn.is/hjorleifur) sem jafnframt birtist í Morgunblaðinu geri ég grein fyrir því gjaldþroti stóriðjustefnunnar sem við blasir. Er þar m.a. vitnað til vandaðrar úttektar Indriða H. Þorlákssonar yfir stóriðjuframkvæmdir hérlendis. Í greininni segir m.a.:

Eftir að Kárahnjúkavirkjun og Fjarðaál komust á dagskrá hafa nokkrir hagfræðingar grafist fyrir um afkomu þessarar stærstu stóriðjuframkvæmdar hérlendis. Framan af beindust athuganir þeirra einkum að raforkusamningi Landsvirkjunar og Alcoa en nú hefur Indriði H. Þorláksson fv. ríkisskattstjóri litið yfir dæmið í heild, þ.e. efnahagslegt framlag allra þátta og birt niðurstöður sínar. Óhætt er að fullyrða að enginn hafi viðlíka forsendur og Indriði til að gera þetta dæmi upp þrátt fyrir leyndina yfir orkuverðinu. Niðurstöðurnar eru sláandi: „Ívilnanir í sköttum o.fl. til handa erlendum aðilum vegna stóriðju hafa m.a. verið réttlættar með því að þannig sé unnt að fá arð af orkuauðlindum. Lágt verð á raforku til stóriðju hefur á sama hátt verið réttlætt með þeim hag sem landið hefur af starfsemi stóriðjuvers. Margt bendir til þess að þversögnin í þessu hafi leitt til þess að við höfum leikið af okkur öllum trompunum og sitjum uppi með tapað spil.“ (Heimasíða: http://inhauth.blog.is/blog/inhauth/ )

Þá kröfu verður að gera að framvegis verði aflétt leynd á orkusölusamningum til stóriðju sem Finnur Ingólfsson innleiddi árið 1995. Það getur m.a. orðið viðfangsefni nýrrar stjórnar Landsvirkjunar sem fjármálaráðherra mun skipa á aðalfundi eftir sex vikur.
mbl.is Álver í Helguvík í óvissu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvar var Gylfi Zoega fyrir hrun?

Það er sérkennilegt að hlusta á boðskap hagfræðinga eins og Gylfa Zoega sem fyrst nú virðast vera að átta sig á þeirri alvarlegu stöðu sem stefna og andvaraleysi ríkisstjórnar Geirs H Haarde og forvera síðasta áratuginn hafa komið þjóðinni í. Það einkennilega er að maður minnist ekki að Gylfi og þorrinn allur af kollegum hans hafi sett fram miklar aðvaranir vegna efnahagsstöðunnar og stefnu nýfrjálshyggjunnar áður en kollsiglingin blasti við sl. haust. Sú staðreynd veikir trúverðugleika þeirra nú þegar þeir telja sig vera að vísa á leiðir út úr kreppunni.

Í rauninni sýnist Gylfi Zoega hafa þann boðskap helstan að flytja að Ísland eigi hið allra fyrsta að koma sér inn í Evrópusambandið, rétt eins og þar sé skjól að hafa til að leysa allan vanda. Honum og mörgum fleiri sem ræða stöðu mála hér heima fyrir virðist líka sjást yfir eða vilja ekki tala um þá sídýpkandi efnahagskreppu sem skekur nú heimsbyggðina og birtist mönnum í að bankar og fjölþjóðafyrirtæki eru í biðröðum eftir að komast undir pilsfald ríkisins, þess sama ríkis sem flestir hagfræðingar vildu til skamms tíma hvorki sjá né heyra að hefði afskipti af hinum óskeikula markaði.

Eflaust er Gylfi Zoega vel meinandi og kannski nafni hans á stóli viðskiptaráðherra gæti haft gagn af honum sem etikettumeistara í samskiptum við erlenda lánardrottna. Þá færi landið kannski að rísa með bættu viðmóti sem prófessorinn telur að ásamt hroka og ósveigjanleika sé að dæma Íslendinga í auralaust svarthol um langa framtíð. 


mbl.is Gylfi Zoëga: Svartar horfur á Íslandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Glæsilegur hópur í forvali VG í NA-kjördæmi

Það er mikill og fríður hópur sem gefur sig fram í forvali VG í Norðausturkjördæmi, eins og raunar er að gerast um allt land. Til viðbótar við trausta forystusveit sem fyrir var birtast hér fersk og ný andlit eins og Ingunn Snædal er dæmi um. Ljóðin hennar hafa yljað mörgum og ljóst er að hún hefur þegar margháttaða reynslu af fjölbreytilegum störfum. Velkomin Ingunn í liðsveit VG .
mbl.is Ingunn tekur þátt í forvali VG
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

ESB-þráhyggja Samfylkingarinnar

Samfylkingin lagði snemma á sínum ferli árið 2002 eftirfarandi spurningu fyrir flokksmenn sína:

"Á það að vera stefna Samfylkingarinnar að Íslendingar skilgreini samningsmarkmið sín, fari fram á viðræður um aðild að Evrópusambandinu og að hugsanlegur samningur verði síðan lagður fyrir þjóðina til samþykktar eða synjunar?"

Um 80% þeirra sem atkvæði greiddu í póstkosningu sögðu já en um 20% nei. Síðan hefur flokkurinn verið í vandræðum með þessa samþykkt því að alla götu síðan hefur Samfylkingin gleymt því að skilgreina hver hún telji að samningsmarkmið Íslendinga eigi að vera. Aðeins er þrástagast á því að sækja eigi um aðild að ESB. 

Vinstrihreyfingin grænt framboð hefur frá stofnun flokksins fyrir 10 árum margítrekað í samþykktum andstöðu sína við að Ísland leiti eftir aðild að Evrópusambandinu. Þannig hefur Jón Bjarnason skýra afstöðu flokksins til að vísa í um málið. Engin samþykkt hefur verið gerð af VG sem breyti þeirri afstöðu. Aðildarumsókn verður ekki lögð inn af Íslands hálfu nema skýr meirihluti sé fyrir slíku á Alþingi og hann hefur ekki birst þjóðinni enn sem komið er.

Annars berast hingað öðru hvoru yfirlýsingar frá ESB um að slík umsókn væri sambandinu kærkomin. Síðast var það Bilyana Ilieva Raeva frá Búlgaríu, þingmaður á Evrópuþinginu og formaður tengslanefndar þingsins við EES, þar á meðal Ísland og Noreg, sem lýsti þeirri skoðun sinni nýverið í grein á fréttavef Evrópuþingsins að Íslendingar gætu sem aðilar að sambandinu orðið mikilvægir hernaðarlegir bandamenn þess (could provide a strategic partner for the EU). Ákveðinn þyrnir á leið Íslands til aðildar að ESB gætu að vísu orðið sjávarútvegsmál, en skoða mætti að landið stæði að hluta eða að fullu utan sameiginlegu sjávarútvegsstefnunnar, AÐ MINNSTA KOSTI UM STUNDARSAKIR. Ekki voru það ný tíðindi.

Þá hafði Morgunblaðið (13. febrúar sl.) það eftir Lulzim Basha, utanríkisráðherra Albaníu undir fyrirsögn um þvera síðu: " Albanskur almenningur myndi fagna aðildarumsókn Íslands." Ekki ónýtt fyrir Samfylkinguna og Framsókn að fá slíkan stuðning sunnan af Balkanskaga. "Ég held að aðildarumsókn Íslands væri frábærar fréttir fyrir albanskan almenning og fyrir suðausturhluta Evrópu, sem nú horfa til aðildar að sambandinu." - Engum sögum fór af því hversu vel umræddur almenningur þekki til Íslands og íslenskra málefna, en það er altént huggun fyrir Samfylkinguna og Framsóknarflokkinn að fá svo ljúfar undirtektir við aðildarhugmyndir sínar úr þessu horni álfunnar.


mbl.is Evrópustefna VG skýr
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Frumvarp Steingríms J um bann við umferð kjarnorkuknúinna farartækja

Árekstur bresks og fransks risakafbáts á Atlantshafi í byrjun þessa mánaðar hefur vakið heimsathygli. Hvort skipið um sig er knúið kjarnorku og hafði um borð 16 langdrægar margodda kjarnaflaugar, samtals 32. Bresk yfirvöld ætluðu að halda atvikinu leyndu en franski sjóherinn birti frétt um það á heimasíðu sinni. Af talsmönnum Campaign for Nuclear Disarmament er talið að aðeins hafi munað hársbreidd að hér hafi orðið gífurlegt umhverfisslys með ófyrirsjáanlegum afleiðingum á stóru hafsvæði. Með ólíkindum þykir að slíkt atvik skuli hafa gerst og það milli kafbáta tveggja vinveittra grannþjóða.

Frá árinu 1987 að telja hefur Steingrímur J Sigfússon haft forystu um flutning frumvarps til laga "um friðlýsingu Íslands fyrir kjarnorkuvopnum og bann við umferð kjarnorkuknúinna farartækja." Markmið þess er að gera allt íslenskt yfirráðasvæði kjarnorkuvopnalaust og draga úr hættunni af kjarnrkuóhöppum hérlendis og á hafsvæðunum í grennd við Ísland. Mál þetta liggur fyrir yfirstandandi þingi og eru flutningsmenn með Steingrími úr öllum þingflokkum nema Sjálfstæðisflokki.

Væntanlega verður þessi voveiflegi árekstur kjarnorkukafbáta á miðju Atlantshafi til þess að frumvarp Steingríms verði lögfest og í kjölfarið unnið að því að afla hinu friðlýsta svæði alþjóðlegrar viðurkenningar. Slíkir samningar hafa verið samþykktir af fjölda ríkja á suðurhveli. Þannig eru Mið- og Suður-Ameríka, Suðaustur-Asía, Eyjaálfa og eyjarnar í Suður-Kyrrahafi ásamt Suðurskautslandinu svæði sem hafa verið friðlýst fyrir kjarnorkuvopnum.

 


Spennan vex á Evrusvæðinu

Það er fróðlegt að fylgjast með vaxandi spennu og hagsmunaárekstrum innan Myntbandalags Evrópu með sinn margprísaða evrugjaldmiðil. Á sama tíma og ýmsir hagfræðingar eru að vísa Íslendingum á evruna sem hina öruggu höfn, ef ekki í dag þá á morgun, birtast fréttir frá meginlandi Evrópu um vaxandi hagsmunaárekstra og áhyggjur um framtíð myntbandalagsins í dýpkandi kreppu. Það er einkum ástand fimm ríkja bandalagsins sem horft er til þessa stundina, en það eru Grikkland, Írland, Ítalía, Portúgal og Spánn. Eftir að hafa lagt hart að sér við að uppfylla Maastricht-skilyrðin og komast í evru-skjólið gagnvart gengissveiflum eru þessi lönd nú að upplifa þá spennitreyju sem þeim er gert að búa við til frambúðar. Efnahagur þessara ríkja byggir á ólíkum grunni miðað við gömlu iðnríkin sem ráða ferðinni í bandalaginu með Þýskaland í fararbroddi. Sjúkdómseinkennin eru vaxandi skuldsetning, versnandi samkeppnis- og greiðslustaða, vaxandi fjárlagahalli og gífurlegt atvinnuleysi þar sem Spánn er í fararbroddi með sín 14% án atvinnu þessa stundina.            Skuldabréfamarkaðir í þessum löndum eru yfirspenntir, einkum í Grikklandi og á Írlandi en einnig í fjölmennari ríkjum eins og Spáni og Ítalíu, þar sem skuldir hins opinbera eru komnar yfir 100% af vergri þjóðarframleiðslu. Á Spáni og á Írlandi stendur byggingariðnaður sérstaklega illa eftir mikla offjárfestingu síðustu árin.            Vangaveltur eru uppi um hvort einhver þessara ríkja verði að segja skilið við Myntbandalagið, en það er hægara sagt en gert og kostnaðurinn við að taka upp eigin mynt er sagður gífurlegur og slík gjaldmiðilsbreyting tæknilega flókin. Á hinu leitinu  blasir við hættan á að löndin lendi í vanskilum og greiðsluþroti og þá er spurningin hver geti komið til hjálpar. Reglur Myntbandalagsins gera ekki ráð fyrir slíkri uppákomu og þeir efnahagslega sterku í bandalaginu eru auk þess þegar hart keyrðir í kreppunni, ekki síst Þjóðverjar. Innan Evrusvæðisins getur því fyrr en varir blasað við neyðarástand með tilheyrandi pólitískum landskjálftum, þar sem fárra góðra kosta er völ. Valið kann að standa milli upplausnar eða endurskoðunar á meginreglum sem kalli á allt annan og meiri samruna og miðstýringu en Maastrict-sáttmálinn gerði ráð fyrir. Íslendingar gerðu rétt í að halda sig fjarri þessu spennusvæði, hlúa að eigin gjaldmiðli og sníða sér stakk að vexti.

Ánægjulegt að sjá Jóhönnu á ráðherrastóli

Það leggst vel í mig að Jóhanna Sigurðardóttir leiði ríkisstjórnina þennan spöl fram á vorið. Hún kom inn á þing í sömu kosningum og sá er þetta skrifar, þ.e. vorið 1978. Ég var samtíma henni á þingi í 21 ár. Kynntist henni lítið persónulega og var ekki alltaf sáttur við hennar málflutning, t.d. í húsnæðismálum þegar hún var ráðherra kringum 1990. Henni hætti til að kenna öðrum um þegar seint gekk að stytta biðraðir eftir íbúðalánum. Hins vegar leyndi sér ekki að hún var fylgin sé, enda kvartaði Jón Hannibalsson sáran undan henni sem samráðherra.

Nú reynir á Jóhönnu með öðrum hætti við borðsendann en sem fagráðherra. Það er betra að hafa hana í því hlutverki og vonandi miðar stjórninni áleiðis. Ég myndi hins vegar vera spar á loforð fyrirfram því að við ramman reip er að draga. Það á ekki bara við um Ísland heldur nánast um veröld víða nú í kreppunni, allt stopp í bönkum og helsta ráð kapítalistana að láta ríkið taka þá flesta yfir.

Ég tók eftir sneiðinni frá Jóhönnu til Björns Bjarnasonar í dag um að hann hefði verið svifaseinn. Ég hefði geymt mér slíka einkunnagjöf þar til í þinginu þegar fyrrum samráðherra hennar hefði getað svarað fyrir sig. Sjálfur þekki ég ekki málavöxtu, en mér hefur sýnst Björn athafnasamur sem ráðherra.

Dálítið finnst mér skrítin öll umræðan um samkynhneigð Jóhönnu svo sjálfsagt sem manni finnst að kynhneigð skipti ekki máli út fyrir ramma einkalífsins. En fordómarnir eru víða og kannski ryður Jóhanna einhverja braut á þessu sviði nánast óafvitandi. Það þarf víst ekki lengra en til Færeyja til að upplifa ramma fordóma gagnvart þessu sviði mannlegra samskipta.

Aðalatriðið er að Jóhanna reynist góður og sanngjarn verkstjóri yfir því ágæta liði sem settist með henni á ráðherrastóla í dag. 


mbl.is Birni þótti lítið leggjast fyrir Jóhönnu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Góðar óskir fylgja ríkisstjórn í erfiðu hlutverki

Það eru stór tíðindi að á einni viku er að verða til ný ríkisstjórn á Íslandi. Minnihlutastjórn Samfylkingar og Vinstri grænna mun starfa í tæpa þrjá mánuði fram að alþingiskosningum og glíma við afar erfið úrlausnarefni. Á þeim tíma fer fram kosningabarátta í aðdraganda þess pólitíska uppgjörs sem meirihluti þjóðarinnar hefur krafist að undanförnu. Væntanlega tekst stjórninni að þoka nokkrum af stefnumálum sínum áleiðis og á framkvæmdastig á þessum stutta tíma, en óvarlegt er að búast við miklu. Úrslit kosninganna munu ráða mestu um framhaldið til lengri tíma litið. 

Geysileg gerjun er í hugum Íslendinga eins og almennings víða um heim. Stoðir fjármála- og efnahagslífs hafa brostið og atvinnuleysi fer hríðvaxandi. Vantrú og gagnrýni á kapítalismann fer ört vaxandi en engar einfaldar lausnir eru í boði. Krafan um lýðræði og opið stjórnkerfi á ríkan hljómgrunn. Taka verður til á öllum sviðum samfélagsmála ætli menn í reynd að komast á spor sjálfbærrar þróunar. Yfirvofandi ógnir loftslagsbreytinga af mannavöldum gera verkefnið enn brýnna. Lykill að farsælli lausn á hrikalegum vanda felst í setja á dagskrá ný gildi undir gömlum merkjum um jöfnuð, réttlæti og hófsemi samhliða gjörbreyttri sambúð manna við umhverfi sitt á heimilinu jörð.

 


Evrusvæðið gæti senn riðað til falls

Þýska vikuritið Die Zeit hefur eftir Strauss-Kahn framkvæmdastjóra Alþjóða gjaldeyrissjóðsins að evru-myntbandalagið kunni að sundrast.

Á þetta benti ég í grein í fréttablaðinu í nóvemberbyrjun 2008, sbr. heimasíðu mína www.eldhorn.is/hjorleifur 1. nóvember 2008.

Þar sagði undir millifyrirsögninni Hvað verður um myntbandalag ESB? eftirfarandi:

"Þær hremmingar sem nú ganga yfir efnahagskerfi veraldar eiga eftir að hafa djúpstæð áhrif og innan tíðar getur blasað við gjörbreytt landslag í viðskiptum og alþjóðamálum. Það á m.a. við um forsendur hnattvæðingarinnar og ríkjasamsteypur eins og Evrópusambandið. ESB og Evru-svæðið innan þess er afar illa búið undir þá kreppu sem nú ristir æ dýpra í efnahagslíf heimsins. Þýskaland, sem ásamt Frakklandi er burðarás í Evru-myntbandalaginu, er sem vöruútflytjandi afar viðkvæmt fyrir samdrætti. Þótt Evru-löndin séu ekki skuldsettari á heildina litið en Bandaríkin hefur hagvöxtur þar verið langtum minni og aldurssamsetning önnur og óhagstæðari líkt og hið sama á einnig við um Japan. Að auki er atvinnuleysi innan ESB þegar gífurlegt vandamál, um 70% meira en í Japan og tvöfalt meira en verið hefur í Bandaríkjunum. Efnahagsvöxturinn sem átti að fylgja innri markaðnum hefur látið á sér standa og ESB er þannig afar illa undir frekari samdrátt búið. Leiðandi ríki á Evrusvæðinu hafa að undanförnu brotið meginreglur Maastricht-sáttmálans um ríkisfjármál, skuldsetningu og efnahagslegan stöðugleika. Aðsteðjandi kreppa getur því fyrr en varir sett myntbandalagið í uppnám. Kjarninn í hertum áróðri hérlendis fyrir að Ísland sæki um aðild að ESB hvílir þannig á ótraustum grunni, svo ekki sé litið til annarra þátta sem mæla gegn aðild. Heilvita menn ættu að sjá að við núverandi aðstæður og dýpkandi alþjóðlega kreppu framundan væri hreint glapræði að fara að bindast Evrópusambandinu í meira mæli en orðið er."

  

 


mbl.is Nær Evrópu með Vinstri grænum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband