Færsluflokkur: Bloggar
26.3.2009 | 18:48
Ráðleysi og ósamstaða á meðan kreppan dýpkar
Heimurinn stendur frammi fyrir dýpstu efnahagskreppu í 80 ár. Framundan er fundur 20 helstu efnahagsvelda veraldar (G20) en það sem við blasir er ósamstaða og ringulreið. Hagfræðingar og talsmenn um efnahagsmál greinir á um hver vera eigi viðbrögðin og hvert skuli stefna til að vinna bug á kreppunni. Hugmyndir Obama Bandaríkjaforseta um að dæla áfram risastórum upphæðum í banka og efnahagslíf mæta mikilli tortryggni á Bandaríkjaþingi og í ýmsum Evrópuríkjum. Það er helst að Gordon Brown styðji hugmyndir Hvíta hússins og fær bágt fyrir hjá mörgum.
Næststærsta efnahagskerfi heims, Japan, stendur frammi fyrir hrikalegum samdrætti. Útflutningur hefur fallið um 50% á einu ári og Alþjóða gjaldeyrissjóðurinn spáir nær 6% samdrætti á árinu 2009.
Innan Evrópusambandsins er ástandið óbjörgulegt svo ekki sé meira sagt. Talsmaður sambandsins nú á fyrrihluta ársins, Tékkinn Mirek Topolanek, tapaði meirihluta sínum sem forsætisráðherra heima fyrir og sambandið er þannig hálflamað í aðdraganda Evrópuheimsóknar Bandaríkjaforseta. Efnahagsmál margra ESB-ríkja eru í uppnámi, ekki síst á svæðinu austanverðu með efnahag Lettlands í rúst og Ungverjaland á í miklum erfiðleikum, að ekki sé horft austuryfir til Úkraínu.
Leiðtogar víða í álfunni óttast þá félagslegu gerjun sem fylgir sívaxandi atvinnuleysi. Á Írlandi mættu 120 þúsund manns í kröfugöngu fyrir fáum dögum og í Frakklandi gæti verið skammt í götuuppreisnir. Enginn veit í raun hvort Evrópusambandið kemst heilt út úr kreppunni, einnig Myntbandalagið með evruna. Í ljósi þessa eru þeim mun undarlegri tillögur sumra stjórnmálaflokka hérlendis, Samfylkingar og Framsóknar, að Íslandi eigi að sækja um aðild að ESB.
Athyglisverðast af öllu er þó vöntun á gagnrýninni umræðu um framtíðarskipan heimsbúskaparins, burt frá því eymdarkerfi kapítalismans sem dregið hefur löndin niður í kviksyndi sem engin sannfærandi leið er upp úr. Það er grimm öld sem bíður mannkyns ef ekki tekst að koma þróun landanna inn á sjálfbært spor, gjörólíkt þeirri braut sem fetuð hefur verið um langa hríð.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
24.3.2009 | 22:23
Málflutningur Þorsteins Pálssonar afar ósannfærandi
Það er einkennilegt með þann mæta mann Þorstein Pálsson að hann hefur fest sig í aðild að Evrópusambandinu sem allrameinabót líkt og Samfylkingin. Þetta lið lætur eins og evra væri handan við hornið ef Ísland væri orðið aðili að sambandinu. Flestum hagfróðum ber saman um, einnig þeim sem kappsfullir eru um aðild, að evra er ekki í sjónmáli fyrir Ísland næstu 5-10 árin eins og nú er komið málum, þótt Ísland álpaðist inn í ESB. Ágúst Valfells sem rætt var við í Spegli RÚV í kvöld taldi meira að segja óvíst að áratugur nægði til að Ísland yrði tækt í Myntsambandið.
Skýrustu rökin gegn upptöku evru birtust hins vegar frá hagfræðingi í grein Kára Arnórs Kárasonar í Morgunblaðinu sl. mánudag (23. mars) undir fyrirsögninni Á að kasta krónunni? Lið fyrir lið hrakti hann málflutning evru-sinna og sýndi fram á hætturnar af því ef þeirra ráðum væri fylgt.
Rök andstæðinga aðildar styrkjast með hverjum degi og ástandið innan sjálfs Evrópusambandsins talar sínu máli. Vonandi kemst Þorsteinn Pálsson fyrr en seinna niður á jörðina í þessu máli.
Nær væri að menn reyndu að endurskoða þá hörmungarstöðu sem óbeislaður kapítalismi er að leiða heimsbyggðina í og tækju upp umræðu um leiðir hvað við skuli taka. Eða er það kannski hugmyndin að hefja bara sama leikinn aftur?
Kapprætt um ESB | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
24.3.2009 | 17:07
Hugarórar og rangfærslur fyrrverandi bankamálaráðherra
Það kemur kannski ekki mjög á óvart að fyrrum bankamálaráðherra kynni sér ekki mál og fari með rangfærslur og fleipur á Alþingi. Hér tekur þó steininn úr þegar þessi frambjóðandi Samfylkingarinnar getur ekki vitnað rétt í stuttorða samþykkt landsfundar VG um svonefnd Evrópumál, hvað þá lagt út af efni hennar.
Í ályktuninni er ítrekuð andstaða VG við aðild að Evrópusambandinu eins og lesa má hér fyrir neðan. Samkvæmt frétt Mbl.is staðhæfði Björgvin "að í landsfundarafgreiðslu VG hefði falist mikil opnun í Evrópumálum þegar talað væri um tvöfalda þjóðaratkvæðagreiðslu. Þessi afstaða markaði tímamót." Hvers konar órar eru þetta? Í samþykktum landsfundarins er ekki að finna orð um "tvöfalda þjóðaratkvæðagreiðslu".
Samþykkt landsfundarins er svohljóðandi: "Vinstrihreyfingin - grænt framboð telur nú sem fyrr að hagsmunum Íslands sé best borgið utan Evrópusambandsins. Sjálfsagt er og brýnt að fram fari opin og lýðræðisleg umræða um samskipti Íslands og sambandsins. Landsfundur VG leggur áherslu á að aðild Íslands að ESB eigi að leiða til lykta í þjóðaratkvæðagreiðslu. Landsfundur telur mikilvægt að fyrirkomulag þjóðaratkvæðagreiðslu fái rækilega umræðu og að hliðsjón verði höfð af væntanlegum stjórnarskrárbreytingum og hvað eðlilegt getur talist þegar afdrifaríkar ákvarðanir eru teknar um framsal og fullveldi."
Kollhnísafréttaskýringar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
23.3.2009 | 21:47
Lesið Kára Arnór: Á að kasta krónunni?
Það bar við á þessum mánudegi að Morgunblaðið birtir á miðopnu grein eftir Kára Arnór Kárason hagfræðing undir fyrirsögninni Á að kasta krónunni?
Ég hvet sem flesta, ekki síst evru-trúboða til að kynna sér sjónarmið Kára, sem hefur leyft sér þann munað að hugsa norðan heiða þar sem hann hefur starfað lengi og farsællega. Í öllu falli gæti hagfræðingaelítan hér syðra sitthvað af honum lært.
Þetta er grein sem byggir á innsæi og þekkingu um málefni ESB og Stöðugleika- og vaxtarsáttmálann að baki Evrusamstarfinu. Um veruna í þeim viðjum segir Kári meðal annars:
"Þótt það kosti blóð, svita og tár að vera inni, kann að kosta enn meira að fara út. Allar skuldir bæði viðkomandi ríkis sem og fólks og fyrirtækja eru í evrum. Upptaka sjálfstæðrar myntar myndi því framkalla gjaldeyriskreppu samdægurs með skelfilegum afleiðingum. Löndin eru því föst þar sem kvalafull aðlögun í gegnum vinnumarkaðinn með tilheyrandi félagslegum óróleika virðist eina leiðin. Verði félagslegur óróleiki of mikill kann samstarfið að springa eða að þjóðirnar verða neyddar til að að taka upp millifærslukerfi til að bjarga því. Aðeins framtíðin mun leiða það í ljós."
Ég mæli sérstaklega með því að ASÍ-forystan kynni sér sjónarmið Kára Arnórs og komi greiningu hans á framfæri við umbjóðendur sína.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
10.3.2009 | 11:58
Bresk skýrsla um loftslagsbreytingar segir tvísýnt um árangur
Nýkomin er út skýrsla Hadley Centre hjá bresku veðurstofunni um horfur í loftslagsmálum, byggð á útekt í risatölvu. Niðurstaðan er í senn athyglisverð og ógnvekjandi. Árangur eða mistök í að skera verulega niður í losun gróðurhúsalofts næstu 10 árin geta ráðið úrslitum um hvort takist að koma böndum á hlýnun Jarðar áður en það verður um seinan og hreinn voði blasi við mannkyni í lok þessarar aldar.
Undirbúningsviðræður vegna ráðstefnunnar í Kaupmannahöfn síðla á þessu ári um samkomulag um næsta losunartímabil eftir Kyótó hefjast eftir um þrjár vikur og breska skýrslan flytur mönnum gagnlegt nesti fyrir þann fund og framhaldið. Eins og stendur eykst losun gróðurhúsalofts um nálægt 3% árlega en frá og með árinu 2015 þyrfti þetta að hafa snúist við þannig að losun drægist saman ár hvert um 3% upp frá því. Þá gætu menn gert sér vonir um að takast mætti að ná markinu 50% minnkun í losun árið 2050 frá því sem hún var árið 1990.
Niðurstöður Hadley Centre sýna fram á að nái heimsbyggðin ekki saman um ofangreint markmið í Kaupmannahöfn standi veröldin frammi fyrir miklum hörmungum vegna hlýnunar og annarra breytinga í aldarlok, langtum verra ástandi en stjórnmálamenn hafi hingað til viljað horfast í augu við.
Í ljósi þessa er dapurlegt að heyra um innlegg Framsóknar- og Sjálfstæðisflokksþingmanna sem hafa það eitt til mála að leggja á Alþingi að krefjast beri í Kaupmannahöfn áframhaldandi undanþágu frá samningsmarkmiðum Íslandi til handa. Eru menn sem þannig tala með réttu ráði?Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
8.3.2009 | 12:15
Sigurstranglegur listi með Kolbrúnu áfram í forystusveitinni
Keik og stolt í sjötta sætinu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
3.3.2009 | 22:27
Írar búa við evru en eru samt í gífurlegum efnahagsvanda
Írar í vanda og reyna að bjarga | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
Þjóðin virðist vera að átta sig á því hversu fráleitt það væri að Ísland færi að sækja um aðild að Evrópusambandinu. Könnun Stöðvar 2 og Fréttablaðsins nú er sú þriðja í röð sem sýnir meirihluta gegn aðildarumsókn. Fyrst voru það rösk 50%, síðan hátt í 60% og nú um 54% sem lýsa sig andvíga því að sækja um aðild.
Samhengið í afstöðu eftir því hvaða flokka fólk segist myndu kjósa er einnig athyglisvert. Nær þrír af hverjum fjórum Sjálfsæðismönnum eru andvígir aðild, um 62% kjósenda VG og 60% kjósenda Framsóknarflokksins. Hefur sá síðastnefndi þó nýlega samþykkt á flokksþingi að reyna eigi á aðild í viðræðum, en sú stefna nýtur greinilega ekki stuðnings meirihluta meðal fylgjenda flokksins. Þá virðast fleiri en áður innan Samfylkingarinnar eða 22,5% vera andvíg því að sækja um aðild.
Þetta er eðlileg og ánægjuleg þróun, því að hún sýnir að fólk hefur áttað sig á að með aðild að ESB er engan bjarghring að hafa gegn afleiðingum bankahrunsins sl. haust. Upptaka evru væri líka hvergi í sjónmáli næstu árin og aðild stórfellt hættuspil litið til framtíðarhagsmuna þjóðarinnar.
Við allt þetta bætist síðan ástandið sem er að skapast innan Evrópusambandsins og minnt var á með neyðarfundi leiðtoga þess í dag. Er það þó aðeins upphaf að langtum meiri þrengingum og deilum milli aðildarríkja. Jafnvel gera menn því skóna, eins og lesa má um í síðasta hefti tímaritsins The Economist nú í vikunni, að evruhópurinn kunni að sundrast þegar fram í sækir. Hvaða heilvita manni dettur í hug að fara að leggja inn aðildarumsókn af Íslands hálfu á tímum sem þessum, jafnvel þótt menn hafi verið því fylgjandi áður en kreppan hófst fyrir alvöru?
Meirihluti andvígur ESB-umsókn | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
1.3.2009 | 17:36
Verndun strandminja spennandi verkefni
Það var skemmtileg tilbreyting að skreppa í gær austur á Norðfjörð og spjalla þar við áhugahóp um verndun vita og annarra strandminja. Þarna stóðu áhugasamtök undir forystu Sigurbjargar Árnadóttur fyrir málþingi og fengu sem framsögumenn auk undirritaðs Kristján Sveinsson frá Siglingamálastofnun sem fjallaði um vita á Austfjörðum og Hörð Sigurbjarnarson á Húsavík sem kynnti afþreyingu á sjó í formi hvalaskoðunar.
Vitafélag Íslands mun hafa starfað frá því um 2000 og byggir á svipuðum grunni og áhugafélag í Noregi, sem margt gott hefur látið af sér leiða. Sjálfur hef ég reynt að halda til haga upplýsingum um útræði, heimver og útver á Austfjörðum í ritum mínum um Austurland. Af ótrúlega miklu er að taka um þessi efni og kynning á því og verndun slíkra minja getur auðgað mannlífið og störf að ferðaþjónustu.
Eystra er nú snjór í meðallagi , land allt undir hvítum feldi og líflegt var á skíðasvæðum á þessum sólbjarta degi.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
22.2.2009 | 20:07
Evrópusamband í uppnámi ekki fýsilegt fyrir Ísland
Hver höndin er upp á móti annarri innan ESB eins og fram kemur nú í aðdraganda leiðtogafundar þess. Efnahagskreppan í einstöku aðildarríkjum dýpkar dag frá degi. Í gær þyrptust 100-200 þúsund Írar út á götur í kröfugöngu gegn ástandinu. Á Írlandi er gjaldmiðillinn evra og gerir það stjórnvöldum ókleift að grípa til sértækra aðgerða. Í Lettlandi hafa geisað götubardagar undanfarið þar sem krafist er afsagnar ríkisstjórnar landsins sem tengt hefur gjaldmiðilinn lati við evru en sú ráðstöfun bindur hendur stjórnvalda. Þetta er þó sú leið sem ýmsir ESB-sinnar hérlendis hafa lagt til með krónuna. Svipað ástand og í Lettlandi getur skapast fyrr en varir í öðrum Eystrasaltsríkjum og víðar innan sambandsins, m.a. í Búlgaríu. Í Grikklandi hefur allt verið í uppnámi mánuðum saman. Í kjarnaríkum ESB, Frakklandi og Þýskalandi grefur óánægja almennings um sig og skýrir það m.a. orðaflaum Sarkosys Frakklandsforseta um siðbættan kapítalisma. Hann hefur ástæðu til að óttast að franskur almenningur rísi upp þegar ástandið versnar.
Hvernig í ósköpunum dettur Samfylkingunni og Framsóknarflokknum í hug að krefjast við þessar aðstæður að Ísland sæki um aðild að Evrópusambandinu?
Evrópuríki funda um kreppuna | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (18)