Spennan vex á Evrusvæðinu

Það er fróðlegt að fylgjast með vaxandi spennu og hagsmunaárekstrum innan Myntbandalags Evrópu með sinn margprísaða evrugjaldmiðil. Á sama tíma og ýmsir hagfræðingar eru að vísa Íslendingum á evruna sem hina öruggu höfn, ef ekki í dag þá á morgun, birtast fréttir frá meginlandi Evrópu um vaxandi hagsmunaárekstra og áhyggjur um framtíð myntbandalagsins í dýpkandi kreppu. Það er einkum ástand fimm ríkja bandalagsins sem horft er til þessa stundina, en það eru Grikkland, Írland, Ítalía, Portúgal og Spánn. Eftir að hafa lagt hart að sér við að uppfylla Maastricht-skilyrðin og komast í evru-skjólið gagnvart gengissveiflum eru þessi lönd nú að upplifa þá spennitreyju sem þeim er gert að búa við til frambúðar. Efnahagur þessara ríkja byggir á ólíkum grunni miðað við gömlu iðnríkin sem ráða ferðinni í bandalaginu með Þýskaland í fararbroddi. Sjúkdómseinkennin eru vaxandi skuldsetning, versnandi samkeppnis- og greiðslustaða, vaxandi fjárlagahalli og gífurlegt atvinnuleysi þar sem Spánn er í fararbroddi með sín 14% án atvinnu þessa stundina.            Skuldabréfamarkaðir í þessum löndum eru yfirspenntir, einkum í Grikklandi og á Írlandi en einnig í fjölmennari ríkjum eins og Spáni og Ítalíu, þar sem skuldir hins opinbera eru komnar yfir 100% af vergri þjóðarframleiðslu. Á Spáni og á Írlandi stendur byggingariðnaður sérstaklega illa eftir mikla offjárfestingu síðustu árin.            Vangaveltur eru uppi um hvort einhver þessara ríkja verði að segja skilið við Myntbandalagið, en það er hægara sagt en gert og kostnaðurinn við að taka upp eigin mynt er sagður gífurlegur og slík gjaldmiðilsbreyting tæknilega flókin. Á hinu leitinu  blasir við hættan á að löndin lendi í vanskilum og greiðsluþroti og þá er spurningin hver geti komið til hjálpar. Reglur Myntbandalagsins gera ekki ráð fyrir slíkri uppákomu og þeir efnahagslega sterku í bandalaginu eru auk þess þegar hart keyrðir í kreppunni, ekki síst Þjóðverjar. Innan Evrusvæðisins getur því fyrr en varir blasað við neyðarástand með tilheyrandi pólitískum landskjálftum, þar sem fárra góðra kosta er völ. Valið kann að standa milli upplausnar eða endurskoðunar á meginreglum sem kalli á allt annan og meiri samruna og miðstýringu en Maastrict-sáttmálinn gerði ráð fyrir. Íslendingar gerðu rétt í að halda sig fjarri þessu spennusvæði, hlúa að eigin gjaldmiðli og sníða sér stakk að vexti.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Athyglisverður pistill Hjörleifur. Eitt sjónarhorn af annars hringlaga umræðu í þjóðfélaginu um nýjan gjaldmiðil. Viltu meina að fall okkar eftir hrunið hafði ekki verið mýkra ef við hefðum haft evruna sem gjaldmiðil? Skil ég þig þá rétt að þú sérð fyrir þér að það verði hagur heimila og atvinnulífs að halda í krónuna áfram? Sem leiðir að annarri spurningu, hvernig stakk eigum við þá að sníða okkur?

Einar Áskelsson (IP-tala skráð) 13.2.2009 kl. 12:10

2 Smámynd: Hjörleifur Guttormsson

Sæll Einar. Útrásin margumrædda gerðist í skjóli EES-samningsins og regluverks ESB um bankarekstur sem hér var innleitt. Þetta blasir við og m.a. talsmenn Sjálfstæðisflokksins hafa ítrekað dregið það fram í umræðunni að undanförnu. Þótt við hefðum verið í ESB undanfarið vantar mikið á að við hefðum uppfyllt Maastricht-skilyrðin fyrir upptöku evru. Svo mun einnig verða um margra ára skeið héðan í frá, þótt Íslend gengi í ESB. Öll er þessi umræða um evru sem lausnarorð úti í buska. - Því verðum við að hlúa að okkar eigin gjaldmiðli og unnt er að búa við hann áfram sem hingað til, ef menn ekki stunda glæframennsku eins og að undanförnu og vinna þjóðarbúið hægt og bítandi upp úr skuldafeninu.

Hjörleifur Guttormsson, 13.2.2009 kl. 19:38

3 Smámynd: Ægir Óskar Hallgrímsson

Skemmtileg póstur Hjörleifur, já ég er ansi spenntur yfir framvindu mála innan ESB, ég er ekki hlynntur ESB og vona svo innilega að við höldum okkar sjálfstæði sem við börðumst fyrir með kjafti og klóm á sínum tíma, ég bara vil ekki trúa því að við afsölum sjálfstæði okkar á nýjan leik.

Ægir Óskar Hallgrímsson, 13.2.2009 kl. 22:25

4 Smámynd: Sigurbjörn Sveinsson

Ef ég man rétt þá uppfylltum við Maastricht skilyrðin um miðjan 10. áratuginn eða um það leyti sem Framsókn kom að ríkisstjórninni. Ekki ætla ég að kenna Framsókn um, að allt fór illa. Ég held við verðum að fara að beina sjónum okkar að bankamönnum. Pólitísk markmið mega ekki skapa þeim tækifæri til að sleppa í skjóli reyksins eins og Kára úr brennunni.

Sigurbjörn Sveinsson, 14.2.2009 kl. 01:27

5 Smámynd: Konráð Ragnarsson

Ég er Evrópusinni!

Þá meina ég að ég vil að við göngum í ESB!

Vegna þess,

að þrátt fyrir einstaka náttúru,auðlindir,eigin mynt,nóg af fiski ,eigin tungu, mikils þjóðarstolts og fámenna þjóð, þá hef ég ekki séð okkur betur borgið!

Hér er alltaf hæsta verð á vörum,hæstu vextir,mesta verðbólga,ónýtur gjaldmiðill,fákeppni,lág laun, lítið aðhald á misnotuðu valdi,fjölmiðlar í heljargreipum og annað sem ég nenni ekki að nefna að svo stöddu!

Við erum öll búin að prófa þetta og erum að fatta það að við getum verið sjálfstæð þjóð þó að við veljum sambönd við aðrar þjóðir og útlenskan gjaldmiðil!

Við gætum jafnvel haft það betra,hver veit nema á sé reynt!

Það er ekkert að því að hafa þjóðarstolt og vilja varðveita viss gildi sem þjóð!

Það sem ég skil ekki er þessi þröngsýni að hvað sem það kostar skulum við kyngja hverju sem er í nafni sjálfstæðar og þjóðarstolts!

Hvers vegna ekki vera í samvinnu og samstarfi með þjóðum sem líkjast okkur og hafa söma gildi!

Getum við ekki losnuð úr þeim ánauðum að halda við séum gullstangir sem allar þjóðir ásælast og allt annað sé blábilja.

Er ekki hrokinn okkar og þjóðarrembingur að gjalþrota þjóðina í augnablikinu!

Ég lít þína andstöðu sem hræðslu við það óþekkta,sem sagt betra að vera heima en að heiman, þó húsið brenni! 

Konráð Ragnarsson, 14.2.2009 kl. 09:20

6 Smámynd: Kristján P. Gudmundsson

Sæll, Hjörleifur, ég hefi fylgst töluvert með gangi mála innan ESB á Breiðbandinu.

Þetta er góður pistill hjá þér, Hjörleifur, og hann segir það sama og lesa má á

textavarpi flestra lylilstöðva á meginlandi Evrópu.

Ég vorkenni frændum okkar Írum, og vissulega eiga fleiri jaðarþjóðir um sárt að binda.

Með kveðju frá Siglufirði, KPG.

Kristján P. Gudmundsson, 14.2.2009 kl. 09:29

7 Smámynd: Andri Geir Arinbjarnarson

Sæll Hjörleifur, Gott innlegg inn í ESB umræðuna. Því miður er oft skammt öfganna á milli á Íslandi. Ekki mátti blása á útrásarvíkingana á meðan allt gekk vel, en nú eru þeri allir glæpamenn. Sama með ESB, við vorum miklu betri en ESB þegar allt gekk vel en nú er það okkar eina haldreipi. Vandamál Íslands er að hér er engin langtíma efnahagsstefna sem er traust og ábyggileg. Það er hlaupið úr einu í annað og þjóðin skiptir um skoðun á einu augnabliki. Við eru rótlaus þjóð og erum nú vélarvana út á rúmsjó, en í staðin fyrir að gera við véina er allir að rífast um hvert eigi að setja stefnuna. Hvað varðar gjaldmiðilinn, þá er evran bara þýska markið í nýjum búning. Það eru aðeins 3 lönd í Evrópu sem geta og kunna að búa við sterkan og öflugan gjaldmiðil, það eru: Þýskaland, Holland og Sviss. Danir hafa reynt þetta og tekist nokkuð vel en það hefur kostað miklar fórnir. Sérstaklega bjuggu Danir við hátt atvinnuleyis um mörg ár á meðan þeir voru að læra að tileinka sér þann aga sem fylgir sterkum gjaldmiðli. Agi og fagleg vinnubrögð eru ekki aðalsmerki Íslendinga. Hvort sem evran eða krónan verður fyrir valinu mun þjóðin þurfa að taka á sig erfiðar fórnir. Vandamálið er, að þessar fórnir eru mismunandi eftir því hvor gjadmiðill er valinn. Pólitískir hagsmunir mun á endanu ráða för og munu hafa mjög víðtækar afleiðingar fyrir komandi kynslóðir. Það er vonandi að þjóðin verði upplýst um afleiðingarnar áður en til ákvarðanatöku kemur.

Andri Geir Arinbjarnarson, 14.2.2009 kl. 11:47

8 Smámynd: Hjörleifur Guttormsson

Það er hægt að taka undir með þér, Andri, að agi og fagleg vinnubrögð hafa ekki verið aðalsmerki okkar Íslendinga. Vonandi lærum við eitthvað af efnahagsáfallinu, en áhrif þess eru aðeins að litlu leyti komin fram. Endurreisnin verður verkefni næsta kjörtímabils og tekur eflaust enn lengri tíma. Við höfum ekkert til ESB að sækja í þann leiðangur heldur verðum að treysta á okkur sjálf. Það væri mikið víxlspor að ætla að ganga í Evrópusambandið við þessar aðstæður, þó ekki væri nema vegna þess að sjálft bandalagið er í kreppu og óvíst til hvers hún leiðir á þeim bæ. Evra er hvort eð er ekki í boði í fyrirsjáanlegri framtíð.

Við Konráð vil ég segja að auðvelt er að skilja vonbrigði og óþolinmæði ungs manns með óstjórnina hér innanlands. Hins vegar yrði aðild að ESB enginn dans á rósum eins og ýmis aðildarríki þess eru að reyna á eigin skinni á þessum vetri. Afstaða mín gegn aðild hefur ekkert með þjóðarstolt að gera, þó að það geti verið gott í hófi. Og ég undirrstrika að við eigum að rækta góð samskipti við ESB eins og aðra granna. Það hins vegar hentar okkur ekki af mörgum ástæðum að gerast þar aðilar, síst af öllu á miklum óvissu- og gerjunartímum í alþjóðamálum.

Norrænt samstarf er það nærtækasta og það ber að styrkja og jafnframt reyna að þróa gagnkvæm og góð tengsl hér á norðvestursvæðinu, bæði við Færeyjar og Grænland. Saman með þeim getum við vonandi áður langt um líður myndað traust samstarf um auðlindavernd á norðanverðu Atlantshafi og  í Norður-Íshafi, ekki síst ef Norðmenn kæmu með jákvæðum hætti inn í það samhengi.

Hjörleifur Guttormsson, 14.2.2009 kl. 13:32

9 Smámynd: Gunnlaugur B Ólafsson

Heill og sæll frændi

Finnst hæpið að kenna EES samningnum um óráðsíu tengda útrás og fallvalta spilaborg íslenskra banka. Hef meiri trú á að þar hafi einhverjir Hólmsteinskir draumar um að breyta landinu í skattaparadís ráðið för.

Ef til voru það hagsmunir Sjálfstæðisflokks við að innleiða græðgisvæðinguna að hafa eftirlitsstofnanirnar veikar. Þær voru í liði með útrásinni eins og Gylfi Magnússon hefur bent á.

Þannig var hægt að þróa tengsl við Jómfrúareyjar, arabíska auðmenn og rússneska mafíu. Sameiginleg Heimssýn má ekki verða til þess að þú farir að hrósa "talsmönnum Sjálfstæðisflokksins".  Mbk,  G

Gunnlaugur B Ólafsson, 16.2.2009 kl. 13:00

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband