Færsluflokkur: Bloggar

Í gapastokkinn hjá ESB

Sé þessi frétt áreiðanleg stefnir í að ríkisstjórnin gangi beint í gapastokkinn hjá ESB. Fram að þessu hafa ráðherrarnir sagt að ekki komi til greina að ganga að afarkostum.

Hér er fullyrt "... að það sé sameiginleg afstaða allra ESB-ríkjanna 27 að leggjast gegn því að Ísland fái aðstoð Alþjóðagjaldeyrisstjóðsins nema fyrst verði samið um Icesafe-skuldirnar." Þar er komin skýring á ólíkum viðbrögðum Norðurlandanna, þar sem ESB-ríkin Svíþjóð, Danmörk og Finnland hafa haft neikvæðari afstöðu til að aðstoða Íslendinga með lánum en Noregur og Færeyjar.

Hér birtast í skýru ljósi afleiðingar EES-samningsins, en það er ákvæði hans um að eitt verði yfir alla að ganga á EES-svæðinu sem nú er beitt gegn Íslandi.

Kannski verður atlaga ESB gegn Íslandi til þess að augu manna opnist fyrir því hversu fráleitt það er að ætla að sækja um aðild að þessum klúbbi þar sem gömul nýlenduveldi ráða ferðinni.


mbl.is Samningar um Icesave eina leiðin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

EES-samningurinn og ESB-ríki koma í bakið á Íslendingum

Staðan sem Ísland er í gagnvart ESB-ríkjunum Bretlandi, Hollandi og Þýskalandi í deilu um Icesafe-reikningana tengist aðild okkar að EES-samningnum frá 1994. Útþensla íslensku einkabankanna gerðist í skjóli ESB-tilskipana og hefði ekki gerst sem raun bar vitni án lögfestingar gegnum EES-samninginn. Hömlulausir fjármagnsflutningar eru eitt af svonefndum fjórfrelsum sem eru grunnstoðir innri markaðarins.

Önnur meginstoð er skráð í 4. grein EES-samningsins þar sem stendur: Hvers konar mismunun á grundvelli ríkisfangs er bönnuð á gildissviði samnings þessa nema annað leiði af einstökum ákvæðum hans. - Nú er okkur sagt að það sé þetta ákvæði sem þjóðirnar þrjár ætli að beita fyrir sig í kröfunni um greiðslu Íslands á Icesafe-reikningunum, fremur en tilskipanir um bankastarfsemi.

Forseti Íslands vakti á fundi með erlendum sendiherrum athygli á að afstaða norrænu ESB-ríkjanna Svíþjóðar, Danmerkur og Finnlands gagnvart Íslandi í yfirstandandi deilum væri önnur en Norðmanna og Færeyinga sem standa utan ESB. Er ósennilegt að Evrópusambandsaðild fyrrnefndu ríkjanna þriggja valdi hiki þeirra við að styðja einarðlega við bak Íslendinga?

Íslendingar hljóta að spyrja sig í þessari stöðu, hvort það sé skynsamlegt miðað við framtíðarhagsmuni að sækjast eftir aðild að Evrópusambandinu.

 


Samfylkingin rammflækt í neti svikinna kosningaloforða

Samfylkingin er orðin svo rammflækt í neti kosningaloforða sinna um Fagra Ísland að talsmenn hennar vita ekki lengur sitt rjúkandi ráð. Stóriðjustoppið margfræga birtist mönnum nú sem reipdráttur tveggja ráðherra Samfylkingarinnar, þeirra Össurar og Björgvins G, um það eitt hvort álverið fyrir sunnan eða norðan, í Helguvík eða á Húsavík, skuli hafa forgang. Einhverjir héldu að með því að blaðra á dögunum um að setja ætti rannsóknaboranir í Gjástykki í mat á umhverfisáhrifum væri iðnaðarráðherrann að hugga umhverfissinnað fólk í eigin flokki. Þetta er greinilega algjör misskilningur. Ráðherrann ætlar að láta framkvæmdaleyfi forvera síns, Jóns Sigurðssonar, standa og því verður ekki breytt með umhverfismati. Í viðtalinu lætur Össur hins vegar að því liggja að Skipulagsstofnun geti með áliti sínu stöðvað slíka framkvæmd. Á því hefur þvert á móti verið hamrað síðustu mánuði að slíkt vald hafi Skipulagsstofnun ekki eftir að lögum var breytt 2005, sbr. 11. og 13. grein laga nr. 101/2000.Kórónan í viðtalinu er svo krafa iðnaðarráðherrans um að lögð verði ný hálendislína milli Kárahnjúkavirkjunar og Húsavíkur.  Muna menn ekki að Halldór Ásgrímsson og aðrir talsmenn fyrir Kárahnjúkavirkjun héldu því stíft fram að með virkjun fyrir austan væru raflínur til annarra landshluta óþarfar og menn spöruðu sér slíka fjárfestingu?Er nema von að formaður Samfylkingarinnar og þingflokksformaðurinn Lúðvík fullyrði í dag í fjölmiðlum að fullkominn einhugur ríki innan Samfylkingarinnar um Fagra Ísland! Sjaldan hefur mislukkuðu slagorði verið snúið svo gersamlega á haus.  

 

 

 


mbl.is Össur skammar Landsvirkjun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stefnumörkun Þingvallanefndar 1988. Hvað er að gerast?

 

Árið 1988, 27. maí, samþykkti Þingvallanefnd skipuð Þórarni Sigurjónssyni, Þorsteini Pálssyni og undirrituðum Stefnumörkun í skipulagsmálum þjóðgarðsins. Þar segir í lið 3.24: Sumarbústaðir innan þjóðgarðsins:"Samningar um sumarbústaði í þjóðgarðinum renna út á næstu árum. Þessir samningar verða ekki framlengdir, nema þá til 10 ára í senn.Ákvæði verða sett í samninga, m.a. um hámarksstærðir húsa, frjálsa og hindrunarlausa umferð, forkaupsrétt og kauprétt, þannig að þjóðgarðurinn geti smám saman eignast þau mannvirki sem þörf er talin á vegna skipulagsins.Girðingar verða ekki leyfðar umhverfis hvern sumarbústað enda verði allir bústaðir innan einnar girðingar.Gert verður deiliskipulag af sumarbústaðasvæðinu."Eðilegt er að Þingvallanefnd upplýsi nákvæmlega hvað gert hefur verið í sumarbústaðamálum þjóðgarðsins eftir að þessi stefnumörkun var samþykkt 1988 en með henni var snúið frá fyrri stefnu, t.d. voru samningar um bústaði í upphafi gerðir til allt að 50 ára. Undirritaður telur, nú eins og þegar stefnan var mótuð 1988, að allir sumarbústaðir einkaaðila undir Hallinum í landi þjóðgarðsins, þ.e. á svæðinu sunnan Valhallar meðfram Þingvallavatni, eigi að víkja. Með því einu er unnt að bæta fyrir það hneyksli sem fólst í úthlutun sumarbústaðalóða í þjóðgarðslandinu á tímabilinu frá 1930 til 1970.Svo virðist sem þetta hafi ekki gengið eftir. Eðlilegt er að krefjast þess að Þingvallanefnd geri nú hreint fyrir sínum dyrum og marki stefnu sem samræmist lögum um þjóðgarðinn en samkvæmt þeim "skulu Þingvellir við Öxará og grenndin þar vera friðlýstur helgistaður allra Íslendinga." (Lög nr. 59/1928).
mbl.is Þyrlur sveima yfir þjóðgarði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skynsamleg ákvörðun sjávarútvegsráðherra

Skynsamleg er sú ákvörðun sjávarútvegsráðherra að halda sig við áður markaða stefnu um þorskkvóta á næsta fiskveiðiári. Hún fer ekki langt frá tillögu Hafrannsóknarstofnunar sem gekk út á 124 þúsund tonna aflamark eða sem svarar 20% úr viðmiðunarstofni.  Innan fárra ára kemur í ljós hver árangur verður af þessari viðleitni til að vernda þorskstofninn.

 


mbl.is Þorskkvótinn 130 þúsund tonn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hremmingar hjá Evrópusambandinu

Það ætlar ekki af ESB að ganga. Drjúgur meirihluti Íra felldi á dögunum Lisabon-samninginn sem koma átti í staðinn fyrir andvana stjórnarskrá. Nú neitar forseti Póllands að undirrita samninginn þótt pólska þingið hafi staðfest hann. Í Þýskalandi ríkir óvissa um stöðu samningsins gagnvart þarlendri stjórnskipan og í Tékklandi er enn óvíst um afdrif samningsins í þinginu. Staðan í þessu "lýðræðisbandalagi" er slík að ráðandi öfl annars staðar en á Írlandi þora ekki að boða til þjóðaratkvæðagreiðslu um samninginn. ESB hefur fram að þessu stefnt markvisst að því að minnka vægi aðildarríkjanna og þróa sambandið í átt að ríkisheild. Þessi stefna mætir nú vaxandi andstöðu almennings í flestum ESB-löndum.

Stefna Samfylkingarinnar er gagnrýnislaus tilbeiðsla á Evrópusambandinu og fyrirvaralaus krafa um að Íslendingar gangi í klúbbinn. Þar virðist reynslan engu máli skipta eða stjórnarhættir sem gefa lýðræðinu langt nef. Undir þessa kröfu taka sum samtök atvinnurekenda hérlendis og talsmenn bankanna sem öðrum fremur bera ábyrgð á þeim vandræðum sem peningamálastefnan hérlendis hefur ratað í. Vonandi bera sem flestir gæfu til að hlusta ekki á þessi óráð. Að því hlýtur líka að koma að fólk innan Samfylkingarinnar rísi gegn leiðsögn Ingibjargar og Össurar í þessu máli og opinberri stefnu Samfylkingarinnar um ESB-aðild sem knúin var fram fram með póstkosningu við stofnun flokksins.

 

 


Dapurlegur endir á góðum ásetningi

Mér finnst vanta skýringu á því hvers vegna bjarndýrið var skotið á þessari stundu.

Gátu menn búist við að bangsi biði einfaldlega án viðbragða eftir því að verða svæfður?

Fjölmiðlaupphlaupið og glannalegar yfirlýsingar staðgengils umhverfisráðherra á fyrri stigum málsins þóttu mér vera skot yfir markið. Við verðum að temja okkur meiri hófstillingu í umfjöllun um sjálfsagða viðleitni til að bjarga lífverum í útrýmingarhættu. Það er einfaldlega skylda íslenska ríkisins sem aðila að viðkomandi aðþjóðasáttmálum og þarflaust að blanda einkaaðilum í kostnaðarhlið slíkra mála.

Nú er að sjá hvort þriðji hvítabjörninn birtist eins og draumspakur maður norður þar sér fyrir sér.

Vonandi verða stjórnvöld þá betur undirbúin og fjölmiðlarnir á lágu nótunum.

 

 


mbl.is Ísbjörninn að Hrauni dauður
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Róttækar tillögur um breytta fiskveiðistjórnun

Það hefur verið ánægjulegt að vinna í starfshópi VG undanfarna mánuði og margt á dagskrá. Síðustu vikur hefur hópurinn einbeitt sér að því að fara yfir álit mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna og móta tillögur um æskileg viðbrögð. Þær eru í senn róttækar og raunsæjar. Flokkurinn leggur áherslu á sem víðtækasta samvinnu um viðbrögð af Íslands hálfu við áliti mannréttindanefndarinnar og þá endurskoðun laga um stjórn fiskveiða sem ráðast verður í hið fyrsta.

Tillögur að svari eru eftirfarandi en þeim fylgir ítarleg greinargerð sem lesa má á heimasíðunni www.vg.is

Starfshópur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs um sjávarútvegsmál hefur í samráði við stjórn og þingflokk unnið tillögur að æskilegu svari til mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna. Tillögurnar eru af hálfu VG einnig hugsaðar sem almennt innlegg til málsins, til málefnalegra skoðanaskipta og upplýstrar umræðu. Þær eru okkar framlag í því skyni að takast megi góð þverpólitísk samvinna um endanlega úrlausn málsins. Tillögur VG að svari eru eftirfarandi:1.     Mannréttindanefnd Sþ verði í svari íslenskra stjórnvalda fullvissuð um að þau taki niðurstöður nefndarinnar mjög alvarlega og muni gera sitt ítrasta til að mæta áliti hennar.2.     1. gr. laga um stjórn fiskveiða verði breytt á þann veg að inn í markmiðshluta greinarinnar komi orðið jafnræði og hljóði greinin þá á eftirfarandi hátt: „Nytjastofnar á Íslandsmiðum eru sameign íslensku þjóðarinnar. Markmið laga þessara er að stuðla að verndun og hagkvæmri nýtingu þeirra og tryggja með því trausta atvinnu og byggð í landinu um leið og jafnræðis verði gætt við úthlutun afnotaréttar og aðgengi að hinni sameiginlegu auðlind. Úthlutun veiðiheimilda skv. lögum þessum myndar ekki eignarrétt eða óafturkallanlegt forræði einstakra aðila yfir veiðiheimildum.“3.     Íslensk stjórnvöld munu þegar hefja vandaðan undirbúning að nauðsynlegum lagabreytingum í því skyni að gera það mögulegt að innkalla aflaheimildir frá núverandi handhöfum. Endurráðstöfun þeirra verður að framkvæma þannig að jafnræðis sé gætt við úthlutunina í samræmi við álit mannréttindanefndarinnar. Um leið er ljóst að gæta þarf meðalhófssjónarmiða og sanngirni gagnvart núverandi handhöfum og tryggja þeim eðlilegan aðlögunartíma til að forðast kollsteypur og að réttur þeirra verði ekki fyrir borð borinn, sbr. tölulið 7.4.     Til að flýta fyrir og hefja þegar aðlögun að framtíðarskipan mála munu stjórnvöld tryggja með lögum að unnt verði frá og með næsta fiskveiðiári að halda eftir hluta þeirra aflaheimilda sem leigðar eru innan ársins (t.d. 5%), þegar til endurúthlutunar kemur að ári.5.     Fest verði í lög að skapist forsendur til að auka heildarafla í einstökum tegundum umfram jafnstöðuafla allmargra undangenginna ára (t.d. 3-5 ára) verði slíkt svigrúm notað að hluta eða öllu leyti til að flýta innleiðingu hins nýja stjórnunarfyrirkomulags.6.     Við endurráðstöfun þeirra aflaheimilda sem til ríkisins koma með þessum hætti verða jafnræðissjónarmið sérstaklega höfð í huga um leið og þess verður kappkostað að styrkja stöðu minni sjávarbyggða og byggja þar upp vissan lágmarksafnotarétt, frumburðarrétt viðkomandi strandsvæða. Þar verði um óframseljanlegar byggðatengdar aflaheimildir að ræða. Með almennum leikreglum verði ætíð tryggt að jafnræðissjónarmiða sé gætt um leið og önnur markmið fiskveiðistjórnarlaga eru tryggð, þ.m.t. hagkvæm nýting auðlindarinnar, umhverfisvernd og sjálfbær þróun.7.     Íslensk stjórnvöld munu þegar á þessu ári hefja heildarendurskoðun laga um stjórn fiskveiða og verður álit mannréttindanefndar Sþ haft til hliðsjónar við þá endurskoðun. Leitað verður eftir þverpólitískri þátttöku í þeirri endurskoðunarvinnu þannig að hafðir verði með í ráðum  fulltrúar allra þingflokka, sem og helstu heildarsamtaka útgerðar- og fiskvinnsluaðila, sjómanna og fiskverkafólks, sjávarbyggða og annarra sem málið varðar sérstaklega.8.     Íslensk stjórnvöld munu sjá til þess að mannréttindanefnd Sþ fái reglubundið upplýsingar um framvindu málsins og verði upplýst um hvert einstakt skref sem stigið verður til að koma til móts við álit nefndarinnar.

 


Vanhugsuð mótmæli vörubílstjóra

Oftar en ekki hef ég haft samúð með þeim sem nota rétt sinn til friðsamlegra mótmæla. Til að slíkt beri árangur þurfa sjónarmið að vera sett fram með skýrum hætti og helst að tengjast almannahagsmunum.

Í tilviki hóps vörubílstjóra sem efnt hefur til mótmæla síðustu mánuði er hvorugu til að dreifa. Alþjóðlegar hækkanir á eldsneyti verða ekki umflúnar hér fremur en annars staðar. Skattlagning ríkisins hefur haldist óbreytt í krónutölu og hið opibera stendur undir viðhaldi og nýframkvæmdum í vegakerfinu sem kallað er eftir úr öllum áttum. Eðlilegt er að almenningur kveinki sér við hækkuðu bensínverði en vörubílstjórar eiga þess kost að velta þeim af sér með því að hækka þjónustu sína.

Til lengri tíma litið er raunhækkun á jarðefnaeldsneyti jákvæð þar eð hún er líkleg til að draga úr óhóflegri notkun þessara mengandi orkugjafa og hvetja til þróunar vistvænna lausna og almenningssamgangna í stað óhóflegrar notkunar einkabílsins.

Vörubílstjórar ættu að láta af vanhugsuðum mótmælum sínum sem ekkert jákvætt leiða af sér og horfa með öðrum fram á veginn.


Helsjúkt ósjálfbært efnahagskerfi

Umræðan frá því í haust um alþjóðleg efnahagsmál og blikurnar hérlendis hefur verið lærdómsrík og sýnt fram á hrikalega veikleika í fjármálakerfi heimsins og ráðaleysi manna við að afstýra meiriháttar ófarnaði, kreppu eða þaðan af verra. Þekking í hagvísindum er ekki upp á marga fiska og stór hluti hagfræðinga ber fyrir sig kennisetningar um óskeikulleika markaðarins og segja að forðast beri flest það sem sært geti þá heilögu kú.

Í greinum og viðtölum um liðin áramót og undanfarna daga hafa ýmsir hagfræðingar og álitsgjafar hérlendis stigið fram á sviðið og undirstrikað óvissuna sem ríkir á fjármálamörkuðum jafnt hér heima og erlendis. Á gamlársdag lýsti Friðrik Már Baldursson því hvernig húsbyggjendur í Bandaríkjunum hefðu í stórum stíl verið blekktir með sérinnpökkuðum gylliboðum lánastofnana til að fjárfesta í íbúðarhúsnæði  langt umfram greiðslugetu. (Mbl. 31. des 2007) Virt matsfyrirtæki gáfu þessum tilboðum toppeinkunnir en afleiðingarnar hafa verið að birtast í svonefndri íbúðarlánakreppu þar vestra, stórfelldum afskriftum banka og falli hlutabréfa um veröld víða. „Það verður ekki fyrr en búið er að hreinsa óþverrann úr kerfinu sem það kemst í samt lag á ný“ sagði Friðrik Már. Hann undirstrikaði jafnframt óvissuna um hvenær það gerist og benti á að sennilega muni þetta hafa áhrif á íslenska banka.

Margar aðrar raddir endurómuðu það sama um áramótin. „Óvissa að veislunni lokinni“ var fyrirsögn Björns Jóhanns Björnssonar á viðskiptasíðu Moggans þennan síðasta dag liðins árs. Í áramótablaði Markaðarins vék Tryggvi Þór Herbersson að því hvernig Seðlabankar víða um heim eru milli steins og sleggju. „Þetta sýnir hve gríðarlega alvarleg staðan er“ segir hann í grein sinni.Morgunblaðið hefur fengið tiltal frá talsmönnum banka og fjármálafyrirtækja hérlendis fyrir að fjalla um þessa þróun síðustu vikur og benda á afleiðingar sem eru að koma fram hérlendis og sem rekja má til aðsteðjandi kreppu. Ritstjórar blaðsins hafa svarað fyrir sig fullum hálsi í tveimur Reykjavíkurbréfum í röð, því síðara nú sunnudaginn 27. janúar. Blaðið á þakkir skildar fyrir einarðan málflutning og fréttir um þessi háalvarlegu efni sem gera má ráð fyrir að skelli á íslensku efnahagslífi á þessu ári. Þar mun ekki standa á að almenningur fái sendan reikninginn. Það er víðar en vestanhafs sem bankar hafa verið greiðviknir í lánveitingum til húsnæðiskaupa, að ekki sé talað um eyðslulán í daglega neyslu og sólund.Ekki eru allir bankamenn og ráðgjafar undir þá sök seldir að reyna að fegra ástand og horfur. Dæmi um það eru tvær greinar Ragnars Önundarsonar í Morgunblaðinu í þessum mánuði, sú fyrri undir fyrirsögninni „Lánakreppan kallar á nýja hagstjórn“ (7. janúar 2008). Sú síðari eftir hann „Oftrú á afskiptaleysi“ birtist 26. janúar. Þar gagnrýnir Ragnar harðlega ábyrgðarlaus allt að 100% íbúðarkaupalán bankanna til almennings sem sum hver hafi runnið til eyðslu en ekki íbúðarkaupa. „Bankar eru með hundruð milljarða í íbúðalánum sem enginn annar en þeir sjálfir hafa metið. Vandinn er líkur þeim sem amerískir bankar glíma við, að vísu enn dulinn vegna þenslu. Það kemur að skuldadögum og útlánatöpum. Fjölmörg heimili verða fórnarlömb þessa“ segir Ragnar og bendir á nauðsyn aðhalds með bönkunum.„Fjármálastormurinn orðinn að fellibyl“ segir höfundur Reykjavíkurbréfs Morgunblaðsins í dag og vitnar í Georg Soros um "Öfgar markaðarins og bókstafstrú“. Allt eru það réttar aðvaranir. En kreppa samtengds fjármála- og efnahagskerfis heimsins er langtum djúpstæðari en atburðir síðustu mánaða vitna um. Driffjöður þessa kerfis er neysla og ofurneysla á Vesturlöndum þvert ofan í þá vitneskju sem fyrir liggur um áhrifin á umhverfið og heilsu manna í þokkabót. Hnattvædda efnahagskerfið sem innleitt var í núverandi mynd með hömlulausum („frjálsum“) rafrænum fjármagnsflutningum fyrir 15-20 árum er orðið að meinvætti sem seint verður ráðið við ef bábyljan um óskeikulleika markaðarins verður höfð að leiðarljósi.

Hjörleifur Guttormsson

   

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband