Færsluflokkur: Bloggar

Stórtíðindi í færeyskum stjórnmálum

Fari svo sem horfir að Þjóðveldisflokkurinn verði sigurvegari kosninganna í Færeyjum eru það pólitísk stórtíðindi. Högni Hoydal er efnilegur forystumaður og sigur flokksins kemur ekki á óvart þrátt fyrir skoðanakannanir þar sem flokknum var spáð slakri útkomu. Niðurstaða sem gildir ræðst í kjörklefanum.

 Til hamingju Þjóðveldismenn. Til sóknar fyrir sjálfstæði Færeyja.

 Hjörleifur Guttormsson

 


mbl.is Þjóðveldisflokkurinn stærstur í Færeyjum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þorskurinn og forysta Framsóknarflokksins

Þegar neyðin er stærst þá er hjálpin næst, segir máltækið. Þetta sannast á Framsóknarforystunni með Guðna í fararbroddi. Hafi menn ekki skilið hvað upp snýr í sjávarútvegsmálum þá vísa ég á grein Guðna formanns í Mogga í dag, laugardag 14. júlí, bls. 33. Þar er að finna lausnarorð á vanda sjávarútvegsins fram reidd í skýru og myndrænu máli, og eitt gullkornið rekur annað:

"Vísindamaðurinn er ekki stjórnmálamaður. Hans ræða á að vera já, já og nei, nei."

"Sjómaðurinn, hann þekkir það að það vellur þorskur út úr kjafti þorsksins af því að þorskurinn étur sjálfan sig ef ekki er annað æti, - og kannski hvort sem er. Þorskstofninn á Íslandsmiðum étur 1.000 tonn úr hafinu á klukkustund eða yfir 20 þúsund tonn á sólarhring. Hluti af því er þorskur. Síldin, sem er vaxandi á Íslandsmiðum, étur seiðin. Hvalastofnarnir hirða ætið frá þorskinum og éta þorskinn sjálfan."

Það er augljóst að Guðni hefur lært bókhald hjá forvera sínum Halldóri Ásgrímsyni og klikkar hvergi. Nú er bara að vona að Styrmir ritstjóri og Einar K. ráðherra setji sig rækilega inn í þessi vísindi áður en það er um seinan fyrir þjóðfélagið, sjómannastéttina og þorskinn.


Ótrúlega heimskulegt tal

Það er einkennilegt að nota þjóðhátíðardaginn til að senda frá sér þvælu eins og tveir þingmenn Vestfirðinga þeir Sturla Böðvarsson og Einar Oddur kusu að gera, mér skilst sá fyrrnefndi í þjóðhátíðarræðu. Jóni Sigurðssyni frá Rafnseyri hefði áreiðanlega verið misboðið yfir slíkum málflutningi. Ákvörðunin sem stjórnvöld standa frammi fyrir á næstu dögum er um hversu mikið eigi að leyfa að veiða af þorski á næsta fiskveiðiári en þeir félagar hafa enga skoðun á því heldur hlaupa um víðan völl út af fiskveiðistjórnunarkerfinu með framsali veiðiheimilda og öðru því sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur borið ábyrgð á um áratugi. Kannski eru þeir í einhverjum sálfræðihernaði gegn Einari K. sjávarútvegsráðherra, en þá væri heiðarlegra að segja það beint út hver skilaboðin séu.


Samfylkingin og seðlabankastjórarnir

Margt skoplegt ber við í stjórnmálaumræðunni, einnig þegar alvörumál eru á dagskrá. Meirihluti bankaráðs Seðlabankans samþykkti launahækkun upp á allt að 200 þúsund krónur á mánuði til bankastjóranna þriggja. Að samþykktinni stóðu fulltrúar fyrrverandi ríkisstjórnarflokka og núverandi stjórnarflokka, þar í hópi tveir fulltrúar Samfylkingarinnar. Aðeins einn bankaráðsmaður, Ragnar Arnalds fulltrúi Vinstri grænna greiddi atkvæði gegn þessari launahækkun.

Þessi ákvörðun hefur eðlilega valdið hneykslan og ekki lítur sporslan betur út eftir að upplýst hefur verið að auk launa upp á um 1,5 milljónir kr. á mánuði sé bankastjórunum greitt sérstaklega fyrir þá nauðung að þurfa að sitja fundi með bankaráðinu, þókknun sem nemur 110 þúsund kr. á mánuði að mér skilst.

Varla hafði þessi ákvörðun meirihluta bankaráðsins verið kynnt þegar formaður Samfylkingarinnar lýsti því aðspurð að þessi ákvörðun væri afar óheppileg og gott ef ekki röng. Síðan bættust í hópinn á Alþingi í gær (12. júní) þingflokksformaður Samfylkingarinnar Lúðvík Bergvinsson sem sagði þetta fráleit skilaboð inn í það efnahagsástand sem nú ríkir og Helgi Hjörvar sagði ákvörðunina "hljóta að vekja efasemdir um bankastjórnun." Um leið fagnaði hann því þó sérstaklega að fulltrúar Samfylkingarinnar í bankaráðinu hefðu fengið þessari rausnarlegu hækkun áfangaskipt!

Fyrirfram vissu menn að Samfylkingin er merkilegur jafnaðarmannaflokkur en að boðleiðirnar innan hans væru með þessum hætti er eflaust nýtt fyrir marga.


Þorskstofninn, sjávarútvegsráðherrann og varúðarnálgun

Hafrannsóknastofnun hefur talað skýrt. Hámarksafli þorsks á næsta fiskveiðiári verði 130 þúsund tonn. Í skýrslu Hafró stendur m.a.: "Stærð veiðistofns er nú metinn nálægt sögulegu lágmarki og stærð hrygningarstofnsins er aðeins um helmingur þess sem talið er að gefi hámarks afrakstur. Nýliðun síðustu sex árin hefur verið slök og meðalþyngd allra aldurshópa er í sögulegu lágmarki. Í ljósi þessa telur Hafrannsóknastofnunin mikilvægt að veiðihlutfall verði nú þegar lækkað og að aflamark á komandi árum miðist við 20% af viðmiðunarstofni í stað 25% sem verið hefur."

Þetta er niðurstaðan eftir að sjávarútvegsráðherrar hafa um áratugi hundsað ráðgjöf Hafró um árlegan hámarksafla í þorski og ákveðið að taka meira og stundum langtum meira en vísindaleg ráðgjöf hefur sagt til um. Þessi hentistefna hefur undið upp á sig og gjaldþrot hennar blasir nú við. Viðbrögð sjávarútvegsráðherrans á sjómannadegi bera þess hins vegar ekki vott að hann hyggist bæta ráð sitt. Þrástagast er á að 25% veiðireglan sem hann setti sjálfur gæfi að óbreyttu heimild til að veiða 178 þúsund tonn. Það er ekki að sjá að Einar K. hafi heyrt nefnda varúðarnálgun í fiskveiðum. Í stefnu Vinstri grænna undir yfirskriftinni Græn framtíð segir m.a. um það atriði:

"Við framkvæmd sjálfbærrar sjávarútvegsstefnu ber að taka mið af alþjóðsáttmálum og samþykktum. Ákvæði þeirra á að festa í sessi með því að lögfesta mikilvæga þætti er varða m.a. varúðar- og vistkerfisnálgun í fiskveiðum." Nánar er skýrt að varúðarnálgun snerti m.a. veiðar úr einstökum tegundum, aflareglur og skilgreiningu eða lögfestingu á líffræðilegum hættumörkum. - Það sýnist ekki vanþörf á að rétta sjávarútvegsráðherranum hjálparhönd svo að hann hlaupi ekki með fjöregg þjóðarinnar fyrir björg.


Bush, loftslagsmálin og íslenska ríkisstjórnin

Bush enn-USA-forseti gerir garðinn frægan víðar en í Írak. Í loftslagsmálum er hann króaður af. Í gær, viku fyrir fund G-8 ríkjanna, gerði hann örvæntingarfulla tilraun til að þykjast vilja gera eitthvað gegn loftslagsbreytingum af mannavöldum. Lausnarorðið var að kalla til funda 15 helstu syndaselina í losun gróðurhúsalofttegunda til að spjalla um markmið, sem hann nefndi þó ekki hver ættu að vera. Hvarvetna eru tilburðir þessa forseta olíuauðhringanna fordæmdir og í besta falli sagðir hlægilegir. Aðeins gamli Írak-bandamaðurinn Tony Blair einnig á útleið sagði þetta skref í rétta átt.

En hvað ætlar SS-stjórn Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks að gera í loftslagsmálum? "Ríkisstjórnin stefnir að því að ... gera skýra áætlun um samdrátt í losun gróðruhúsalofttegunda" segir í stjórnarsáttmálanum. Og auk þess: "Íslendingar eiga að stefna að því að taka forystu í baráttunni gegn mengun hafsins og alþjóðlegu starfi til að bregðast við loftslagsbreytingum." Minna mátti það ekki vera. En hvernig er enn hulin ráðgáta. Á að falla frá "íslenska undanþáguákvæðinu" fyrir stóriðju hér og nú? Á að reyna að endurtaka leikinn frá og með 2012 og biðja um endurnýjaða undanþágu? Umhverfisráðherrann þarf kannski að fara að lesa sig til um þetta eins og varðandi Þjórsárverin.


Merkileg upptalning í stjórnarsáttmála

Í stjórnarsáttmálanum eru talin upp nokkur svæði sem „verði undanskilin nýtingu og jarðrask þar óheimilt ÞAR TIL framtíðarflokkun hefur farið fram ... Slík svæði eru Askja, Brennisteinsfjöll, Hveravellir, Kerlingarfjöll, Kverkfjöll og Torfajökull.” Það er engu líkara en að Framsóknarmenn hafi haldið hér á penna en þeir birtu hliðstæða skrá í kosningabaráttunni. Askja hefur verið friðlýst náttúruvætti síðan 1978 og Hveravellir síðan 1960. Kverkfjöll eru þegar innan Vatnajökulsþjóðgarðs og allir flokkar hafa tekið undir að friðlýsa beri Brennisteinsfjöll og Torfajökulssvæðið. Sama á við um Jökulsá á Fjöllum, nema hér er tekið skýrt fram að VATNASVIÐI árinnar verði bætt við Vatnajökulsþjóðgarðinn. Fyrir því hafa Vinstri græn barist og fengu þingmenn úr öðrum flokkum á Alþingi með á slíka tillögu á síðasta þingi (65. mál á 133. löggjafarþingi) en tillagan fékkst þó ekki afgreidd. Er gott að sjá þessa stefnu nú njörvaða niður í stjórnarsáttmála. Með þessu bætist mikið land við þjóðgarðinn, ekki síst austan Jökulsár, þ.e. aðrennslissvæði Kreppu, Arnardalur,  Möðrudalur, Hólsfjöll og mikil lönd í Öxarfirði.

Fleira um stjórnarmyndunina getið þið lesið á heimasíðu minni www.eldhorn.is/hjorleifur


Stóriðjuveisla í undirbúningi

Undir lok næstu viku verður samstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar sest á stóla. "Frjálslynd umbótastjórn" segir Ingibjörg formaður og telur vandalaust að ganga frá málefnasamningi. Það er sennilega rétt hjá henni, því að engin skýr skil eru á milli þessara flokka nema í afstöðunni til aðildar að Evrópusambandinu. Það mál nefndi Samfylkingin varla í kosningabaráttunni og því verður örugglega ekki hreyft í stjórnarmyndunarviðræðum.

Stóriðjumálin munu heldur ekki þvælast fyrir. Samfylkingin skrifaði í auðlindanefndinni síðastliðið haust fyrirvaralaust upp á allar tillögur stjórnarflokkanna. Áfram verður haldið undirbúningi álbræðslu á Húsavík og í Helguvík og Samfylkingin í Hafnarfirði bíður bara eftir nýrri skipulagstillögu frá Alcan um stækkun. Þá verður íbúakosning greiðlega endurtekin. Þeir sem bágt eiga með að trúa því lesi viðtalið við Lúðvík Geirsson í Viðskiptablaðinu 9. maí sl. Framundan er stóriðjuveisla með tilheyrandi gullöld og gleðitíð.

 


Hringekja jöfnunarsætanna

Margir eru að kvarta undan því að þeir skilji lítið í kosningakerfinu sem menn fengu sýnishorn af hvernig virkar á kosninganótt. Þetta er skiljanlegt þegar sýnikennsla fer fram að jafnaði aðeins á fjögurra ára fresti. Ég er enginn aðdáandi þessa kerfis, greiddi atkvæði gegn viðkomandi stjórnarskrárbreytingu og frumvarpi að kosningalögum árið 1999. Rök fyrir afstöðu minni má lesa á heimasíðu (ræður á 123. löggjafarþingi) www.eldhorn.is/hjorleifur Aðeins örfáir þingmenn voru þá andsnúnir frumvarpinu og á mismunandi forsendum.

Eitt af því sem fundið er að er rúllettan sem birtist í úthlutun jöfnunarsæta. Hún er ekki það versta í reglunum þar eð bakgrunnurinn er að ná jöfnun í þingmannatölu milli framboða. Eru menn andvígir því? Slík jöfnunarkerfi hafa verið í lögum í mismunandi formi a.m.k. síðar 1942, kölluð uppbótarsæti og viðkomandi þingmenn "landskjörnir". Um tíma bættu menn "flakkara" ofan á sem 63. þingmanninum. Ég vorkenni ekkert þeim frambjóðendum sem í hlut eiga að bíða niðurstöðu á kosninganótt og fyrir áhorfendur er þetta býsna spennandi. Þeir sem illa þola spennuna geta farið að sofa og mótekið úrslitin í morgunsárið. Það eru margir aðrir ágallar verri á kosningalögum.


Bjarghringur ríkisstjórnarinnar

Ríkisstjórnin heldur þingmeirihluta sínum með 48,4% atkvæða á bak við sig. Íslandshreyfingin fékk 3,3% atkvæða sem voru langt frá því að skila þingsæti en nægðu sem bjarghringur fyrir stóriðjustjórnina. Fyrir mánuði benti ég á að þessi gæti orðið niðurstaðan og kallaði það óvinafagnað að efna í slíka vegferð. Enginn véfengir rétt manna til að spreyta sig með nýju framboði en málefnastaðan bauð ekki upp á flan af þessu tagi af hálfu stóriðjuandstæðinga örfáum vikum fyrir kosningar.

Það var dapurlegt að hlýða á Ómar Ragnarsson á talninganótt reyna að breiða yfir afleiðingar gerða sinna. Engin innistæða er fyrir þeirri fullyrðingu hans að Í-listinn hafi komið með ný rök gegn stóriðjustefnunni inn í kosningabaráttuna. Þau lágu öll fyrir áður en það framboð hans birtist. Örvæntingarfullar skýringar um að Í-listinn hafi tekið eitthvað teljandi af fylgi sínu frá Sjálfstæðisflokknum eru út í hött. Um þetta er hins vegar ekki að fást nú að leikslokum.  Eftir stendur að framboð Í-listans hafði úrslitaáhrif á niðurstöðu kosninganna og getur haft í för með sér keðjuverkun á landsstjórnina á því kjörtímabili sem hófst í morgunsárið 13. maí. 

 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband