Færsluflokkur: Bloggar

Iðnaðarráðherra viðheldur sérkjörum fyrir stóriðju

Iðnaðarráðherra Samfylkingarinnar mun leggja fyrir Alþingi innan skamms að staðfesta svonefndan fjárfestingarsamning vegna allt að 360 þúsund tonna álvers í Helguvík. Hefur ráðherrann þegar fallist á samninginn fyrir sitt leyti en í honum felast sérkjör fyrir álbræðslu Norðuráls umfram annað atvinnulíf í landinu. Samningurinn hefur ekki verið gerður opinber en Össur ráðherra segir hann hliðstæðan sérsamningi vegna álbræðslu Alcoa-Fjarðaáls á Reyðarfirði. Með þessu gerist ráðherrann forgöngumaður fyrir áframhaldandi sérkjör til handa stóriðjunni á kostnað annarrar atvinnustarfsemi í landinu.

 Hópur fólks innan Samfylkingarinnar sem kallar sig Græna netið varaði 5. janúar sl.  sterklega við þessum samningi sem feli í sér ígildi nokkurra miðjarða króna ríkisstyrks að því er fram kemur á heimasíðu Samfylkingarinnar. Þar má m.a. lesa:

 "Stjórn Græna netsins lýsir miklum efasemdum og furðu vegna svokallaðs fjárfestingarsamnings sem iðnaðarráðherra hyggst "láta staðfesta" við álfélagið sem hyggur á rekstur við Helguvík. ... Sé það krafa frá Sjálfstæðisflokknum að stjórnvöld efni til sérstakrar fyrirgreiðslu við Helguvíkuráformin spyr stjórn Græna netsins hversu langt forystumenn Samfylkingarinnar hyggist ganga fyrir stjórnarsamstarf sem ekki nýtur trausts meðal þjóðarinnar. Við hvetjum ráðherra flokksins og þingmenn að leggja þegar í stað frá sér þetta afsláttarplagg og móta þess í stað skýrar áætlanir um uppbyggingu atvinnulífs sem hæfir Nýja Íslandi, á grundvelli grænnar orku, hugvits og skynsamlegrar nýtingar náttúruauðæfa."

Össur hafnar þessari gagnrýni í grein í Morgunblaðinu 9. janúar og telur þennan gjörning lýsandi fordæmi og segir orðrétt: "Úr iðnaðarráðuneytinu verður því áfram kastað beitum sem reist gætu stórfiska handa samfélagi í nauðvörn andspænis hrikalegum horfum um atvinnuleysi." - Hér er á ferðinni nákvæmlega sama réttlætingin fyrir sérkjörum handa orkufrekum stóriðjufyrirtækjum eins og heyra mátti í tíð ríkisstjórna Davíðs Oddssonar og Halldórs Ásgrímssonar, nema þá var beitt byggðarökum. - Samfylkingin segist með þessu ætla að halda áfram sömu stóriðjustefnunni og iðnaðarráðherrann dregur ekkert af sér í stórkarlalegum yfirlýsingum.

Í þessari atvinnustefnu Samfylkingarinnar felast kaldar kveðjur til þeirra sem tala fyrir breyttum áherslum í atvinnuuppbyggingu og stuðningi við sprotafyrirtæki. Orð iðnaðarráðherrans og yfirlýsingar um að hlúa beri að sprotastarfsemi eru ómerk og svo virðist sem hann botni hvorki upp né niður í hvers konar jarðveg þurfi til að hlúa að slíkum nýgræðingi.

Andstæður eru að skerpast innan Samfylkingarinnar milli ráðherranna sem feta slóð Valgerðar Sverrisdóttur í stóriðjumálum. Þannig koma fram sterkar aðvaranir frá fleirum en Græna netinu. Framskvæmdastjóri Samfylkingarinnar Skúli Helgason segir t.d. um álstefnuna í áramótagrein á heimassíðu flokksins:

"Sú atvinnustefna klauf þjóðina í andstæðar fylkingar, rétt eins og hersetan frá 1949 og enn eimir eftir af þeirri hugsun í stjórnmálunum að böl eins og dunið hafa á þjóðinni síðustu mánuði megi bæta með nýju álveri, helst fleiri en einu, hratt og vel. Þetta er úrelt hugsun, einn skýrasti lærdómur haustsins er sá að í stórtækum úrræðum eins og álverum liggur vandinn ekki lausn hans ..."

Við þetta er því að bæta að ofan á allt annað er alls óvíst um orkuöflun til álvers í Helguvík. Aðeins hefur verið tryggð raforka fyrir fjórðung umrædds álvers og jafnvel þótt allar hugmyndir um viðbót frá jarðhitavirkjunum að viðbættri Búðarhálsvirkjun séu teknar með í dæmið hrekkur það ekki til. Óðagot af því tagi sem blasir við í undirbúningi framkvæmda  í Helguvík ekki síður en í áformunum um álver á Bakka við Húsavík er ávísun á hrikaleg mistök ofan á allt annað sem tengist stóriðjunni.


Brengluð afstaða Samfylkingarinnar

Það er rétt skelfilegt að fylgjast með talsmönnum Samfylkingarinnar þegar kemur að hryðjuverkum Ísraelsmanna gagnvart íbúum Gaza. Ingibjörg utanríkisráðherra sem í upphafi ferils síns í ríkisstjórn virtist ætla að láta til sín taka í deilunum fyrir botni Miðjarðarhafs en birtist nú líkt og væri hún handhafi Rauða krossins með nokkrar krónur í aðhlynningarstörf. Hver er stefna ríkisstjórnarinnar og utanríkisráðherrans sérstaklega gagnvart svívirðilegu framferði Ísraelsríkis?

Árni Páll sem sagður er varaformaður utanríkismálanefndar segir hér að "það sem við getum fyrst og fremst gert er að koma sjónarmiðum á framfæri við stjórnvöld á svæðinu." En hvaða sjónarmiðum? Um það heyrist hvorki hósti né stuna frá Samfylkingunni á meðan blóðið eitt vökvar hrjóstrin á Gaza.


mbl.is Nýr kafli í hörmulegri sögu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hikandi iðrunarmerki ráðamanna um áramót

Það var fróðlegt að fylgjast með ræðum oddvita eins og forsætisráðherra og forseta Íslands um áramótin. Báðir sýndu nokkur iðrunarmerki út af stuðningi við útrásina og að hafa sofið á verðinum, fosetinn þó ákveðnar en forsætisráðherrann. Betra en ekki - svo langt sem það nær. Það breytir ekki því að báðir koma laskaðir úr áföllum ársins og geta ekki vænst þess að verða teknir alvarlega í sínum hlutverkum á næstunni.

Langsamlega skeleggasta röddin úr toppkórnum heyrðist frá Karli biskupi sem var í senn beinskeyttur og talaði mannamál og fór að minna á föður sinn og forvera á biskupsstóli. Það var tími til kominn að vara við hugtakinu Nýja Ísland með viðbótinni hf eins og Karl gerði, því að enn sjást engin merki þess frá valdhöfum að þeir hafi lært nokkurn skapaðan hlut af hruninu og eru þess sýnilega albúnir að halda við hringekjunni komist hún í gang á nýjan leik.

Annars eru það leikfimiæfingarnar kringum Evrópusambandið sem vekja mesta athygli mína. Um ESB sagði að vísu forsetinn ekki nokkurn skapan hlut, hvað sem veldur, en forsætisráðherrann vill nú skella sér í kosningar um það eitt,  hvort leggja eigi inn aðildarumsókn og nýta góuna í að fá um það svar frá kjósendum, hafi ég skilið hann rétt.  Ingibjörg hefur nú botnað þá vísu með því að vekja athygli á að til greina komi að kjósa í leiðinni til Alþingis. Hún er greinilega orðin nokkuð uggandi um Samfylkinguna í þeim ólgusjó sem ríkisstjórnin hefur stigmagnað að undanförnu, sjálf orðin viðskila við þjóðina.

Nú er það opinbert leyndarmál að ekki þarf neinar "aðildarviðræður" við Evrópusambandið til að fá fram hvaða kostir bjóðast á Brussel-eyrinni. Allt liggur það opið og klárt í sáttmálum og reglum ESB og spurningin bara hvort menn nenna að lesa þá texta og þá aðildarsamninga sem liggja á borðinu og eru orðnir býsna margir, ekki færri en 27 ríki flækt í þetta net, þar sem fjármagnið hefur forgang umfram allt annað. Stjórnmálaflokkarnir eiga að hafa til þess döngun, vilji þeir láta taka sig alvarlega framvegis, að svara hver fyrir sig, hvort þeir vilji að Ísland gangi í Evrópusambandið og fórni þannig því sem eftir lifir af fullveldinu, auk alls annars sem glatast í þeirri vegferð. Þeir stjórnmálaflokkar sem ætla að bera kápuna á báðum öxlum í þessu örlagaríka máli fyrir framtíð Íslendinga dæma sig úr leik fyrr en síðar.

 


Slit stjórnmálasambands við Ísrael

Heimsbyggðin horfir með skelfingu til framferðis Ísraela á Gaza. Ríki sem um áratugi hefur hundsað samþykktir Sameinuðu þjóðanna gengur nú fram með purkunarlausum hætti hervalds gagnvart Palenstínumönnum. Á fjórða hundrað liggja í valnum á Gaza og hátt í 1000 manns eru særðir, mikill hluti þeirra óbreyttir borgarar. Í einni árásinni dóu fimm dætur einnar og sömu fjölskyldu, sú yngsta fjögurra ára. Ísraelsstjórn hótar nú landhernaði og að ganga milli bols og höfuðs á Hamashreyfingunni sem notið hefur stuðnings meirihluta fólks á Gaza. 

Íslendingar bera sögulega mikla ábyrgð á tilkomu Ísraelsríkis í kjölfar síðari heimsstyrjaldarinnar. Því ber íslenskum stjórnvöldum að sýna nú hug sinn til framferðis Ísraela með því að lýsa yfir slitum stjórnmálasambands við Ísrael láti stjórnvöld þar ekki þegar í stað af hernaðaraðgerðum sínum.


Samfylkingin án samningsmarkmiða um ESB-aðild

Grein Stefáns Jóhanns Stefánssonar

Varaborgarfulltrúi Samfylkingarinnar í Reykjavík, Stefán Jóhann Stefánsson, hefur valdið uppnámi innan Samfylkingarinnar með grein sem birtist í Morgunblaðinu 23. desember sl. undir fyrirsögninni "ESB-stefna Samfylkingar?". Þar rekur hann hvernig staðið var að stefnumótun flokksins í Evrópumálum á árunum 2002-2003. Mikið hefur verið gert úr því að Samfylkingin sé eini flokkurinn sem hafi skýra stefnu um að sækja um aðild að Evrópusambandinu og hefur verið vísað í því sambandi í póstkosningu haustið 2002. Spurningin sem um 80% svarenda guldu jáyrði sitt við hljóðaði þannig:

"Á það að vera stefna Samfylkingarinnar að Íslendingar skilgreini samningsmarkmið sín, fari fram á viðræður um aðild að Evrópusambandinu og að hugsanlegur samningur verði síðan lagður fyrir þjóðina til samþykktar eða synjunar?"

Landsfundarsamþykkt Samfylkingarinnar 2003 

Haustið 2003 markaði Samfylkingin stefnu sína í Evrópumálum með eftirfarandi samþykkt:

"Samfylkingin ákvað á stofnfundi sínum vorið 2000 að gera heildstæða úttekt um tengsl Íslands og Evrópusambandsins. Á grunni víðtækra upplýsinga tók síðan almennur flokksfélagi í Samfylkingunni ákvörðun í sögulegri kosningu haustið 2002 um að setja aðildarumsókn að Evrópusambandinu á stefnuskrá flokksins á grundvelli skilgreindra samningsmarkmiða. Í ljósi áhrifaleysis og einstakra milliríkjamála verður æ ljósara að erfitt verður að byggja á EES-samningnum til frambúðar.

Samfylkingin mun því stofna sérstakan 9 manna málefnahóp um Evrópumál sem m.a. skoði ávinning Íslands af aðild að Evrópusambandinu, skilgreini hver helstu samningsmarkmið eigi að vera við aðildarumsókn, meti stöðu EFTA og EES- samningsins og greini áhrif evrunnar á íslenskt efnahagslíf."

Samningsmarkmiðin aldrei verið skilgreind

Í grein sinni í Morgunblaðinu rekur síðan Stefán Jóhann framhaldið. Framkvæmdastjórn Samfylkingarinnar skipaði skömmu síðar umræddan starfshóp og var Stefán Jóhann meðal þeirra sem beðin voru um að vera í hópnum.

"Óskað var ítrekað eftir því að hann [starfshópurinn] kæmi saman, en af því varð aldrei og því hefur ekkert starf farið fram svo vitað sé. Þess vegna verður ekki séð að Samfylkingin hafi fylgt því eftir sem samþykkt var í póstkosningunni og samþykkt á landsfundi árið 2003, þ.e. að skilgreina svokölluð samningsmarkmið sem væru forsenda umsóknar um aðild að Evrópusambandinu."

Lýðræði fyrir borð borið

Ekki er að undra að varaborgarfulltrúanum þyki lítið leggjast fyrir lýðræðisleg vinnubrögð í eigin flokki í svo stóru máli þar sem hann segir:

"Ætla mætti að í svo stóru máli yrðu lýðræðislegar samþykktir virtar. Enn hefur engin sjáanleg vinna farið fram um samningsmarkmiðin meðal flokksmanna með þeim hætti sem samþykkt var í póstkosningunni 2002 og áréttað í landsfundarsamþykktum eftir það. Þjóðin veit því enn ekkert um hvað Samfylkingin vill semja, þ.e. hver stefna hennar sem flokks er þegar kæmi að því að semja."

Ingibjörg reynir að drepa málinu á dreif

Samdægurs og grein Stefán Jóhanns birtist í Morgunblaðinu var Ingibjörg Sólrún spurð á Stöð 2 um álit sitt á málflutningi hans og sagði hún af því tilefni:

"Ég er nú ekki sammála honum [Stefáni Jóhanni] því að það hefur verið mikil Evrópuumræða í flokknum árum saman raunar og fyrir síðustu kosningar þá var tekin heilmikil atrenna að þessum málum og m.a. var vinnuhópur sem að vann í því að móta samningsmarkmiðin og í honum voru fjölmargir einstaklingar sem að hafa mikla þekkingu á málaflokknum."

Samningsmarkmiðin enn óskilgreind

Í kosningastefnuskrá Samfylkingarinnar fyrir alþingiskoningarnar 2007 er ekkert að finna um samningsmarkmið flokksins komi til aðildarviðræðna vi'ð ESB en þar stendur eftirfarandi skv. heimasíðu Samfylkingarinnar:

"Samfylkingin vill að utanríkisstefna þjóðarinnar verði mótuð í ljósi þjóðarhagsmuna og sé sæmandi sjálfstæðri þjóð. Sótt verði um aðild að Evrópusambandinu og aðildarviðræður hafnar. Unnið verði að víðtækri samstöðu um samningsmarkmið og niðurstöður bornar um þjóðaratkvæði."

Af þessu er ljóst að Samfylkingin hefur ekki unnið heimavinnuna í Evrópumálum, ekki unnið samkvæmt eigin flokkssamþykktum og aðeins liggja fyrir útvatnaðir og almennir textar eins og ofangreint brot úr kosningastefnuskrá ber vott um.


Hinn eitraði EES-kokteill og annar enn göróttari

Fróðlegt var að lesa ummæli Jónasar H. Haralz fv. bankastjóra Landsbankans í Fréttablaðinu á Þorláksmessu þess efnis að ástæður fyrir bankahrunsins hérlendis sl. haust sé að finna í samningnum um Evrópska efnahagssvæðið. Um þann gjörning sagði hann m.a.:"Við fáum frelsið og möguleikana til að setja upp fyrirtæki á öllu svæðinu, en við höfum ekki umgjörðina, höfum ekki aðhaldið, ekki fasta og örugga mynt og ekki sterkan og öflugan Seðlabanka á bak við okkur. Þess vegna var þetta í reynd mikið óheillaspor fyrir okkur, nokkurs konar eitraður kokteill, þegar horft er til baka ..."Undirritaður benti á það í aðdraganda EES-samningsins 1990 hversu varhugavert væri fyrir Ísland sem lítið hagkerfi að innleiða fyrirvaralaust frjálsar fjármagnshreyfingar, en á þær aðvaranir var ekki hlustað. Ég lagðist eindregið gegn EES-samningnum eins og um hnútana var búið og taldi hann raunar brjóta gegn stjórnarskránni. Nú hefur Geir H. Haarde líkt og Jónas Haralz bent á ESB-tilskipanir sem ástæðu fyrir því að íslenska fjármálakerfið hrundi. - Þetta ættu menn að hafa í huga þegar rifjaður er upp lofsöngur margra um EES-samninginn, þar á meðal Jóns Hannibalssonar þáverandi utanríkisráðherra sem réði ferðinni þegar Ísland ánetjaðist EES.Þetta afdrifaríka dæmi nú "eftir á að hyggja" hjá þeim Geir H. og Jónasi H. er vert að gaumgæfa því að það færir okkur heim sanninn um þá refilsstigu sem flókin samningagerð getur leitt heilt þjóðfélag út á, gæti menn ekki að sér við hvert fótmál.Þetta á enn frekar við um Evrópusambandið en EES með öllum sínu gífurlega flóknu reglum og þar bætist við stórfellt valdaframsal sem ekki verður auðveldlega aftur tekið, m.a. að ganga undir dómsvald Evrópudómstólsins. Jónas Haralz vildi líkt og Gylfi Þ. Gíslason að Ísland gengi í Evrópubandalagið (eins og það þá var nefnt) fyrir hálfri öld og enn munu báðir þessir öldungar vera á sömu skoðun. Þar greinir okkur á, því að svo afdrifaríkur sem EES-samningurinn hefur reynst er aðild að Evrópusambandinu enn varhugaverðari og afdrifaríkari. Ekki er sú staðhæfing Jónasar sem fram kom í tilvitnuðu viðtali studd traustum rökum, að hefðu Íslendingar gengið í ESB þegar árið 1994 hefði "umgjörðin" komið í veg fyrir ófarnaðinn. Slík ályktun verður auðvitað hvorki sönnuð eða afsönnuð. Engan veginn er víst að slík innganga hefði leitt til aðildar Íslands að myntbandalagi ESB og upptöku evru á árinu 2008 eða fyrr. Jónas eins og fleiri sannfærðir ESB-sinnar reynir að nýta fjármálakreppuna nú til að koma Íslandi "alla leið" inn í ESB og gefur sér að Sjálfstæðisflokkurinn muni nú hlýða kalli hans. Einnig sú forsögn er óvissu háð og væri betur að glöggir menn vísuðu þjóðinni á annað og tryggara vað á leið inn í óvissa framtíð.

Jón Bjarki - ungur maður sem á heiður skilið

Það var eflaust ekki auðvelt skref fyrir Jón Bjarka Magnússon að afhjúpa ritstjóra DV með þeim hætti sem hann gerði. Í því efni lét hann samvisku sína ráða og fyrir það á hann heiður skilið.

Með þessu hefur Jón Bjarki sýnt fram á með ótvíræðum hætti hvernig eigendur einkarekinna fjölmiðla beita áhrifavaldi sínu til að grípa fram fyrir hendur blaðamanna og stjórna því sér í hag sem kemur fyrir almenningssjónir.

Af ýmsum talsmönnum fjölmiðla hefur verið reynt að andmæla gagnrýni um tengsl eigenda og ritstjórnar en nú liggur það fyrir í tilviki DV með ótvíræðum hætti. Margir hafa líka áttað sig á ofurvaldi eigenda gagnvart Fréttablaðinu og kollsteypa Morgunblaðsins eftir að Styrmir lét þar af ritstjórn blasir við þeim sem sjá vilja.

Hér er um að ræða einn stærsta veikleikann á íslensku samfélagi, því að fjölmiðlar hafa að sjálfsögðu afar skoðanamyndandi áhrif með svipuðum hætti og auglýsingar.

Davíð Oddson gerði heiðarlega tilraun til að takmarka kverkatak einstakra auðmanna á fjölmiðlum en þáverandi stjórnarandstaða bar ekki gæfu til að stuðla að lagasetningu sem reisti skorður við eignarhaldi fjársterkra aðila - að ekki sé talað um hlut forseta Íslands í því samhengi.

Vonandi blæs fordæmi blaðamannsins unga öðrum heiðarlegum blaðamönnum kapp í kinn þannig að þeir standi vörð um starfsheiður sinn gegn íhlutun valdsmanna og fjármagnseigenda.

 


mbl.is Reynir biðst afsökunar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hlutur Samfylkingarinnar og ISG í efnahagshruninu

Það er mikil kokhreysti hjá formanni Samfylkingarinnar að ætla að þvo hendur sínar og Samfylkingarinnar af því hvernig nú er komið í íslensku efnahagslífi.

Sjálf klauf hún sig út úr þingflokki kvennalistans upp úr 1990 til að styðja EES-samninginn með óheftum fjármagnsflutningum sem eina af meginstoðum samningsins. Á grundvelli EES-tilskipana gátu íslensku einkabankarnir síðan farið um víðan völl erlendis og stofnað þar útibú og efnt til Icesafe-reikninga og viðlíka gjörninga.

Samfylkingin studdi einkavæðingu margra ríkisfyrirtækja, þar á meðal ríkisbankanna, sem afhentir voru síðan gæðingum á silfurfati.

Samfylkingin og ISG sem borgarstjóri studdu Kárahnjúkavirkjun og álbræðslu Alcoa en skuldsetning þjóðarbúsins og ofurþenslan í kjölfarið áttu drjúgan hlut í hruninu sl. haust með stóraukinni skuldsetningu þjóðarbúsins og Landsvirkjunar. 

Samfylkingin í stjórnarandstöðu hlúði með ráðum og dáð að útrásinni og dró þar taum Baugsveldisins sérstaklega.

Samfylkingin boðaði og studdi skattalækkanir þegar þenslan var sem mest í efnahagslífinu sl. 5 ár.

Í ríkisstjórn aðhafðist Samfylkingin ekkert frekar en Sjálfstæðisflokkurinn til að bregðast við hættuboðum og aðvörunum vegna yfirbyggingar fjármálageirans.

Ofsafrjálshyggjan sem ISG kennir öðru fremur um hvernig komið er blómstraði hérlendis með beinum og óbeinum stuðningi Samfylkingarinnar. Evrópusambandið sem Samfylkingin hefur að meginstefnumáli að Ísland verði aðili að byggir á niðurnjörvaðri frjálshyggju sem getur hvenær sem er tekið á sig mynd þeirrar ofsafrjálshyggju sem formaður Samfylkingarinnar telur meginorsök þess hvernig nú er komið málum hérlendis.

 

 


mbl.is Ingibjörg: Orsökin liggur í ofsafrjálshyggjunni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað verður um stækkunaráformin í Straumsvík?

Það er ekki aðeins að tekjur Landsvirkjunar hafi dregist mikið saman vegna lækkunar á álverði heldur má einnig búast við að álfyriræki, bæði Rio Tinto Alkan, Alcoa og Century dragi við sig að ráðast í nýfjárfestingar.

Hvað verður um áformin um stækkun í Straumsvík?

Hvað verður um fyrirhugaðar framkvæmdir við Búðarhálsvirkjun?

Eru líkur á að Helguvíkurál haldi áfram með framkvæmdir?

Álver á Bakka við Húsavík er augljóslega úti í buska.

Fróðlegt væri að fá heildarmat innvígðra á stóriðjudæmið hérlendis, bæði framkvæmdaáform og einnig raforkusamninga sem passað er að birta ekki í skjóli viðskiptaleyndar.


mbl.is Rio Tinto dregur saman seglin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Í áttina en betur má ef duga skal

Umhverfisráðherra er hér að framfylgja lögboðinni skyldu um að leggja fram náttúruverndaráætlun til fjögurra ára. Það sem hér kemur fram er góðra gjalda vert en betur má ef duga skal. Friðlýsing Gerpissvæðisins hefur t.d. verið á dagskrá NAUST frá því 1973 og var svæðið formlega tekið inn á verkefnaáætlun umhverfisráðuneytisins um aldamótin 2000. Lítið hefur þó þokast í því máli hingað til af stjórnvalda hálfu.

Á náttúruverndaráætlun 2005-2008 var stefnt að friðlýsingu 14 svæða, en aðeins eitt af þeim hefur komist í framkvæmd. Stóð þó Alþingi og umhverfisráðneytið að baki þeirri áætlun.

Eitthvað mikið þarf að breytast í vinnubrögðum umhverfisráðuneytisins og undirstofnana þess eigi að komast skriður á þessi brýnu málefni.


mbl.is Þrettán ný svæði friðlýst
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband