Hinn eitraði EES-kokteill og annar enn göróttari

Fróðlegt var að lesa ummæli Jónasar H. Haralz fv. bankastjóra Landsbankans í Fréttablaðinu á Þorláksmessu þess efnis að ástæður fyrir bankahrunsins hérlendis sl. haust sé að finna í samningnum um Evrópska efnahagssvæðið. Um þann gjörning sagði hann m.a.:"Við fáum frelsið og möguleikana til að setja upp fyrirtæki á öllu svæðinu, en við höfum ekki umgjörðina, höfum ekki aðhaldið, ekki fasta og örugga mynt og ekki sterkan og öflugan Seðlabanka á bak við okkur. Þess vegna var þetta í reynd mikið óheillaspor fyrir okkur, nokkurs konar eitraður kokteill, þegar horft er til baka ..."Undirritaður benti á það í aðdraganda EES-samningsins 1990 hversu varhugavert væri fyrir Ísland sem lítið hagkerfi að innleiða fyrirvaralaust frjálsar fjármagnshreyfingar, en á þær aðvaranir var ekki hlustað. Ég lagðist eindregið gegn EES-samningnum eins og um hnútana var búið og taldi hann raunar brjóta gegn stjórnarskránni. Nú hefur Geir H. Haarde líkt og Jónas Haralz bent á ESB-tilskipanir sem ástæðu fyrir því að íslenska fjármálakerfið hrundi. - Þetta ættu menn að hafa í huga þegar rifjaður er upp lofsöngur margra um EES-samninginn, þar á meðal Jóns Hannibalssonar þáverandi utanríkisráðherra sem réði ferðinni þegar Ísland ánetjaðist EES.Þetta afdrifaríka dæmi nú "eftir á að hyggja" hjá þeim Geir H. og Jónasi H. er vert að gaumgæfa því að það færir okkur heim sanninn um þá refilsstigu sem flókin samningagerð getur leitt heilt þjóðfélag út á, gæti menn ekki að sér við hvert fótmál.Þetta á enn frekar við um Evrópusambandið en EES með öllum sínu gífurlega flóknu reglum og þar bætist við stórfellt valdaframsal sem ekki verður auðveldlega aftur tekið, m.a. að ganga undir dómsvald Evrópudómstólsins. Jónas Haralz vildi líkt og Gylfi Þ. Gíslason að Ísland gengi í Evrópubandalagið (eins og það þá var nefnt) fyrir hálfri öld og enn munu báðir þessir öldungar vera á sömu skoðun. Þar greinir okkur á, því að svo afdrifaríkur sem EES-samningurinn hefur reynst er aðild að Evrópusambandinu enn varhugaverðari og afdrifaríkari. Ekki er sú staðhæfing Jónasar sem fram kom í tilvitnuðu viðtali studd traustum rökum, að hefðu Íslendingar gengið í ESB þegar árið 1994 hefði "umgjörðin" komið í veg fyrir ófarnaðinn. Slík ályktun verður auðvitað hvorki sönnuð eða afsönnuð. Engan veginn er víst að slík innganga hefði leitt til aðildar Íslands að myntbandalagi ESB og upptöku evru á árinu 2008 eða fyrr. Jónas eins og fleiri sannfærðir ESB-sinnar reynir að nýta fjármálakreppuna nú til að koma Íslandi "alla leið" inn í ESB og gefur sér að Sjálfstæðisflokkurinn muni nú hlýða kalli hans. Einnig sú forsögn er óvissu háð og væri betur að glöggir menn vísuðu þjóðinni á annað og tryggara vað á leið inn í óvissa framtíð.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Baldur Gautur Baldursson

Ég las grein Jónasar Haralz. Fannst hann koma vel að kjarna málsins. Ætti í raun að birta alla greinina á blogginu, en núna hefi ég því miður ekki aðgang að blaðinu lengur.

Góð grein eftir snjallan mann!

Baldur Gautur Baldursson, 29.12.2008 kl. 11:30

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband