Færsluflokkur: Bloggar

Litast um á páskadagsmorgni

Eins og gildir um flesta tilbreytingu í daganna rás liggja rætur páskahalds aftur í forneskju, löngu fyrir daga kristninnar. Nafnið er þó rakið til hebresku þar sem pesah var heiti á einhvers konar alþýðuhátíð með vorkomu og talið merkja hlaup eða stökk, sem vísar í ærsl almúgafólks. Á þessum tíma fæðast fyrstu lömbin og vænta má um sama leyti bygguppskeru. Meðal Gyðinga var haldin páskahátíð eftir vorjafndægur og hjá kristnum söfnuðum var þá minnst upprisu Krists sem þeir töldu hafa orðið um þetta leyti. Páskaheitið berst svo til okkar gegnum grísku, latínu og fornsaxnesku að talið er. Engilsaxar tala hins vegar um Easter og Þjóðverjar um Ostern, sem er gamalt heiti á vorhátíð norðan Alpa, tengt austur-átt þar sem hækkandi sól rís er vorið nálgast. Á Norðurlöndum hélst hins vegar páska-nafngiftin sem fyrirfinnst í íslenskum handritum frá því um 1200 og er þá sem karlkynsorð í fleirtölu líkt og nú.

Allir vita að páskar eru hreyfanleg hátíð innan almanaksins þannig að munað getur 35 dögum frá tunglkomu eftir vorjafndægur. Eftir þessari höfuðhátíð dansar síðan fjöldi annarra tyllidaga frá upphafi lönguföstu og þar til um níu vikum eftir páska. Árni Björnsson, sá mikli meistari daganna, talar um hræranlegar hátíðir fyrir þetta helgidagakerfi, sem á latínu kallast festa mobilia, á ensku movable feasts og á þýsku bewegliche Feste.

Margt er á hreyfingu um þessa páska í okkar samfélagi eins og víðar um heiminn og aðeins hálfur mánuður í ögurstund alþingiskosninga. Krepputímarnir sem við nú erum vitni að munu skilja eftir sig djúp spor í minni margra, enda láta þeir fáa ósnortna. Enginn veit hvenær og hvernig þeim hremmingum muni  linna. Margir upplifa kreppuna líkt og náttúruhamfarir og hneigjast til að halda að þeir fái engu ráðið um frekari framvindu. Alltof lítið fer fyrir umræðu um ástæður þessara efnahagslegu hamfara sem eiga sér langan aðdraganda. Upptök þeirra er að finna í efnahagskerfinu sem þróast hefur á Vesturlöndum um aldir og kennt er við kapítalisma. (sjá heimasíðu: www.eldhorn.is/hjorleifur) Engu er líkara en þorri hagfræðinga kynoki sér við að varpa ljósi á það samhengi. Ástæðan er sennilega sambland af ónógri yfirsýn og þeirri blindu trú á markaðinn sem byrgt hefur mörgum sýn síðustu áratugina.

Kreppan verður vonandi mörgum tilefni til að hrista af sér doðann. Aðeins með þátttöku og umhugsun getur fólk orðið þess megnugt að byggja upp bærilegt líf og koma í veg fyrir að allt falli í sama far. Hættan á því að það gerist er veruleg eins og best sést af viðbrögðum margra stjórnmálamanna og kom vel í ljós í yfirborðskenndum yfirlýsingum leiðtogafundar iðnríkjanna 20 í byrjun þessa mánaðar. 

Hér á Íslandi ristir umræðan ekki djúpt á heildina litið. Vinstri grænir eru eini stjórnmálaflokkurinn sem nú í aðdraganda kosninga gerir kröfu um að önnur gildi verði ráðandi í samfélaginu framvegis. Flokkurinn hefur allt frá því hann var stofnaður fyrir 10 árum varað við fyrirsjáanlegri kollsiglingu og krafist róttækra breytinga með sjálfbæra þróun og hófstillingu sem leiðarljós til framtíðar litið. Vinstri grænir hafa andæft af þrótti stóriðjustefnunni, varað við útrásinni og gert kröfu um að siðræn gildi en ekki auðgildi ráði för í samfélaginu.

Ekki aðeins ráðandi stjórnmálaöfl heldur einnig fjölmiðlar hafa brugðist hlutverki sínu og auðveldar það ekki almenningi að halda áttum. Enn er oftast fjallað um stjórnmálaflokkana sem óskipt mengi sem sé undir sömu sök selt. Þetta birtist m.a. í spillingarumræðu síðustu daga tengt fjárstyrkjum til stjórnmálaflokka. Einnig þar hefur Vinstrihreyfingin - grænt framboð sérstöðu með opið bókhald um langt árabil og hófsemi í fjáröflun og fjárútlátum tengt starfsemi sinni. Yfir þessu er þagað þunnu hljóði, sem kannski er vorkunn þegar keppinautar eiga í hlut, en opinberir fjölmiðlar hafa hér enga slíka afsökun.

Ánægjulegasti viðburður í dymbilvikunni var frumsýning myndarinnar Draumalandið. Þar er á ferð fólk sem hefur áttað sig meira en "til hálfs" og hristir rækilega upp í  oss "svefngöngum vanans" svo notuð séu orð úr Söknuði Jóhanns Jónssonar. Framleiðandinn Sigurður Gísli Pálmason kom hugsun sinni skýrt til skila í viðtali við Fréttablaðið í gær, laugardag. Meðal þess sem hann bendir á er að eftir að grýla kommúnismans hvarf af sviðinu hafi læðst upp að okkur nýr einræðisherra " ... sem enginn tók eftir  en við lútum öll með einhverjum hætti. Þessi nýi einræðisherra er hagvöxturinn. Allt gengur út á að þjóna honum. Vöxtur, viðbót, aukning. Það verður að vera meira í dag en í gær. Þetta þýðir það eitt að neyslan þarf að aukast og það er út af fyrir sig mjög óheilbrigt. Fólk krossar sig ef hagsvöxturinn dregst saman."

Sigurður Gísli nefnir síðan mörg dæmi um hvernig hagvaxtarkrafan hafi bitnað harkalega á samfélagsgerðinni. Hann hvetur til sjálfbærni og að skapa frið og jafnvægi í okkar tilvist. "Það sem skiptir máli er að heilbrigð siðfræði búi að baki. Á því er mikill skortur, bæði hér á Íslandi og annars staðar. Og ef til vill liggja tækifærin til framtíðar í þeirri hugsun. Kannski er það alltaf gildismatið sem vísar veginn til góðs og ills."

Það er góð tilbreyting að hlýða á slíkan boðskap. Frumkvæði aðstandenda Draumlandsins vekur með manni bjartsýni á þessum páskadagsmorgni.

 

Viðtalið við Sigurð Gísla Pálmason ættu sem flestir að lesa

Viðtalið í Fréttablaðinu við framleiðanda kvikmyndarinnar Draumalandið er frábært ekki síður en myndin. Sigurður Gísli Pálmason kemur þar skýrt til skila boðskap sem á erindi við sem flesta. Þótt hann hafi sjálfur fyrirvara gagnvart stjórnmálaflokkum falla sjónarmið hans að mínu mati í einu og öllu að hugmyndum Vinstri grænna um framtíð íslensks samfélags. Greining Sigurðar á  því sem gerst hefur hér á landi síðustu 10-15 árin er í senn skörp og hittir í mark. Það er athyglisvert að lesa slíkt uppgjör frá einstaklingi sem aldist upp við rekstur stórs fjölskyldufyrirtækis og taldi sig vera til hægri í stjórnmálum. Auk þess að vera holl leiðsögn getur viðtalið skerpt og dýpkað skilning manna á kvikmyndinni og er því kærkomin greinargerð frá framleiðanda þessarar einstaklega góðu myndar.

Hér skal aðeins bent á eitt efnislegt atriði af fjölmörgum sem ástæða væri til að draga fram úr viðtalinu. Sigurður Gísli bendir á hvernig ríkið þröngvaði sér inn með Kárahnjúkavirkjun og álbræðslu á Reyðarfirði. "Þetta átti stóran þátt í að setja efnahagslífið á hliðina. - Fyrir hrun ætluðu menn aftur af stað og ráðast í framkvæmdir tvöfaldar á við Kárahnjúka. Eftir hrun ætla menn enn þá að ráðast í þær framkvæmdir. Sem sagt; það sem kom okkur í kreppuna á að koma okkur út úr henni. Þetta er skelfilega undarleg hugsun."

Viðtalið finna menn í Fréttablaðinu í dag, laugardag, á bls. 16-18.


Jóhanna Sig og Dagur B til Írlands um páskana?

Heyrst hefur að forsætisráðherra svo og varaformaður Samfylkingarinnar hafi bókað far til Írlands um páskahelgina til að kynna sér afrakstur ESB-aðildar og evruvæðingar Eyjarinnar grænu. Samfylkingin er "flokkurinn með planið" að sögn Dags varaformanns og allt byggir á að sækja um ESB-aðild strax eftir kosningar. Það er því eðlilegt að nýja forystuteymið bregði sér til Írlands til að koma heim með fréttir frá fyrstu hendi fyrir lokaslag kosningabaráttunnar um reynslu Íra af evru ofan á ESB-aðild.

Vonandi komast ekki margir landsmenn yfir tímaritið The Economist frá 21. mars nú vikurnar fyrir kosningar, því að það gæti varpað skugga á "planið". Fyrirsögn blaðsins um efnahagsstöðu Írlands er "The party is definitely over" (Veislunni er örugglega lokið). Meðal þess sem þar má lesa á bls. 33-34 er eftirfarandi:

 

"Írland upplifir nú dýpri kreppu en nokkurt annað ESB-ríki. Efnahagsstarfsemin sem mun hafa skroppið saman um 2.5% árið 2008 gæti til viðbótar dregist saman um 6.5% í ár. Atvinnuleysið hefur tekið stökk frá 5% í 10.4%, sem er jafnvel meira en í Bandaríkjunum. ... Og kreppan í opinberum fjármálum hefur knúið ríkisstjórnina til að leggja fram neyðarfjárög þann 7. apríl."

"Heilbrigður greiðsluafgangur á miðjum síðasta áratug hefur snúist upp í mikinn halla áratug síðar, merki um að Írland hefur orðið of dýrt land. ... Brothætt efnahagslíf og áframhald á versnandi samkeppnisstöðu hefur gert skuldabréfamarkaði óörugga um möguleika Írlands að vinna sig upp upp úr fjármáladýkinu. ... Aukafjárlögin í apríl verða fjórði fjármálapakkinn á einu ári. Í febrúar ... lagði ríkisstjórnin gjald á eftirlaunagreiðslur ríkisstarfsmanna sem rýrði greiðslur um 7.5%. Sársaukinn af niðurskurði mun vaxa í apríl. Tekjuskattur mun nær örugglega hækka, fjárveitingar til framkvæmda verða stöðvaðar sem og fleiri útgjöld."

"Sumir hagfræðingar vilja sjá samkomulag um að skera samhliða niður laun ríkisstarfsmanna og hjá einkafyrirtækjum.  Sem evru-meðlimur getur Írland ekki lækkað gengi til að verða samkeppnishæft á ný. Þess vegna verða launin að lækka. ... Írland leitar nú lausnar í lækkuðum launum, enda þótt heimilin séu skuldum vafin. Á sama tíma og mörg lönd hyggjast örva efnahagsstarfsemina með fjárútlátum, er Írland að skera niður á fjárlögum. ... Ef aðlögun innan evru-svæðisins þýðir launalækkanir, þá er það reikningur sem Írland virðist vera reiðubúið að borga." Þannig lýkur þessari áhugaverðu grein í Economist.

 

Það verður einkar fróðlegt fyrir fjölmiðla að sækja blaðamannafund formanns og varaformanns Samfylkingarinnar eftir væntanlega heimkomu þeirra frá Írlandi upp úr páskum. Sérstaklega verður forvitnilegt að heyra um blessun evrunnar fyrir Íra og hvernig sól fari loks að rísa yfir Íslandi eftir um 10 ár með þennan skínandi gjaldmiðil í höfn, - það er að segja ef "planið" um aðild gengur eftir að loknum kosningum.

Glæsilegir fulltrúar VG í Kraganum

Tvöföldun á fylgi VG í skoðankönnun í Kraganum kemur ekki á óvart. Framboð Vinstri grænna með Guðfríði Lilju, Ögmund og Ólaf Þór í efstu sætum er afar sigurstranglegt. Guðfríður Lilja er forystukraftur sem um munar, Ögmundur hefur reynsluna og Ólafur afar vinsæll af störfum sínum í Kópavogi. Mér kæmi ekki á óvart að einnig hann banki á dyr þegar kemur að úthlutun þingsæta. Þjóðin þarf á traustri forystu VG að halda nú þegar á móti blæs.


mbl.is VG tvöfaldar fylgið í Kraganum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Draumalandið - snilldarkvikmynd fyrir unga sem aldna

Bók Andra Snæs Draumalandið sló í gegn. Kvikmynd Sigurðar Gísla Pálmasonar og félaga bætir um betur með sterku myndmáli, meitluðum skeytingum og atburðarás sem spannar öll eftirstríðsárin. Fjöldi kunnuglegra andlita birtist á tjaldinu inn á milli náttúrulífsmynda og sláandi eyðileggingar.

Myndin afhjúpar aðferðafræði auðhringanna sem hafa verið að ná fótfestu hérlendis til að koma hér upp stóriðjuverum í bandalagi við stjórnmálamenn, ráðherra og fulltrúa í sveitarstjórnum. Aðferðirnar hafa verið svipaðar hérlendis og í vanþróuðum ríkjum eins og John Perkins rekur á sannfærandi hátt.

Inngangsorð leikstjórans Þorfinns Guðnasonar á frumsýningunni voru tímabær hvatning til þjóðarinnar um að halda vöku sinni, láta ekki eyðileggja það sem við eigum dýrmætast, náttúru landsins og sjálfstæði.

Háskólabíó var troðfullt og undirtektir með langvinnu lófataki gáfu til kynna að verkið skilaði sínu.


Framsókn og Sjálfstæðisflokkur vegviltir í loftslagsmálum

Loftslagsútspil Framsóknar og Sjálfstæðisflokks á Alþingi verður sögulegt plagg. Aldrei hafa þessir gömlu stóriðjuflokkar opinberað skammsýni sína jafn átakanlega og í þessu stærsta umhverfismáli samtímans. Í stað þess að Ísland leggist á árar  til að draga úr losun gróðurhúsalofts á heimsvísu heimta þeir framlengingu á sérréttindum með "íslenska ákvæðinu". Ísland keppir nú við Bandaríkin um heimsmet í losun gróðurhúsalofttegunda á mann. Nú þegar ný forysta í Bandaríkjunum er að sjá að sér stíga þeir Sigmundur Davíð og Bjarni Ben fram á völlinn og vilja herða enn á stóriðjusókninni þannig að Ísland verði örugglega óskoraður umhverfissóði á heimskortinu.

Fá lönd eiga jafn mikið undir því og Ísland að böndum verði komið á loftslagsbreytingar af mannavöldum. Verkefnið er að hver þjóð leggist á árar til að MINNKA losun gróðurhúslofts um a.m.k. 50% næstu áratugina. Í stað þess að taka undir slíkt heimta þingmenn þessara flokka nú fríspil fyrir Ísland, sjálfsafgreiðslu til að menga meira og meira. Rökin eru "vinnumarkaðssjónarmið" og "rekstrargrundvöllur íslenskra orkufyrirtækja."

Ég hefði haldið að orðstír Íslands væri nógu illa komið þótt slík boð bætist ekki við til alþjóðasamfélagsins.


mbl.is Sjálfstæðismenn og framsóknarmenn í meirihluta
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Seðlabanki ESB hafnaði strax hugmyndum AGS um evru-upptöku

Eitthvað er hún síðborin þessi fyrirspurn Sigurðar Kára. Vikur eru síðan greint var frá því í fréttum að aðildarríki evru-Myntbandalagsins og Seðlabanki ESB léðu ekki máls á þessum hugmyndum AGS um upptöku evru án uppfylltra Maastricht-skilyrða.

Þar fyrir utan gæti slíkt orðið mikil hermdargjöf fyrir umrædd ríki eins og m.a. sést af evru-tengingu gjaldmiðils Lettlands. Vandi Letta er ekki síst að geta ekki lækkað gengi galdmiðilsins vegna slíkrar bindingar.

Ráðlegast er fyrir Íslendinga að hætta þessu rausi um gjaldmiðilsskipti og átta sig á að við hljótum að búa við krónuna næstu árin og hún gæti reynst okkur nothæfur gjaldmiðill einnig til framtíðar litið. Krónan er ekki orsök efnahagshrunsins hérlendis heldur kollsigling útrásarvíkinganna sem ofhlóðu þjóðarskútuna a.m.k. 10-falt umfram burðargetu á meðan stjórnvöld horfðu á aðgerðarlaus.


mbl.is Tenging við evru skapar erfiðleika
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Formannaumræða og eftirleikur Í vikulokin

Afstaða til krónunnar og Evrópumálin voru þungamiðja formannaumræðu í sjónvarpinu síðastliðið föstudagskvöld. Formaður VG hafði skýra afstöðu til mála að vanda. Við munum búa við krónuna næstu árin og eigum ekki að tala hana niður. VG er nú sem fyrr andvígt ESB-aðild og ríkisstjórnir undanfarið hafa tekið mið af ólíkum viðhorfum landsmanna í þeim efnum. Aðeins Jóhanna Sigurðardóttir klifaði á ESB-aðild og formaður Framsóknar fylgdi í humátt á eftir.

Í þættinum Í vikulokin endurómaði Hrannar aðstoðarmaður Jóhönnu viðhorf Samfylkingarinnar sem ætlar augljóslega að spóla í þessu ESB-fari í kosningabaráttunni. Þetta fólk skilur greinilega ekki mannamál hvað þá að geta lesið í pólitísku stöðuna og hug meirihluta landsmanna.

 


Samfylkingin kemst hvorki lönd eða strönd til aðildarviðræðna við ESB

Einkennileg er sjálfseyðingarhvöt Samfylkingarinnar. Eftir að Vinstri græn og Sjálfstæðisflokkurinn hafa undirstrikaða andstöðu sína við aðild að Evrópusambandinu halda nýkjörin formaður og varaformaður Samfylkingarinnar áfram að tala eins og þeirra sé að ákveða að hefja aðildarviðræður við framkvæmdastjórnina í Brussel.

Sú hrokafulla afstaða sem lýsti sér í málflutningi Jóhönnu Sigurðardóttur á landsfundi í dag um aðildarumsókn og ekki síður málflutningur þeirra pilta, Dags og Árna Páls, sem kepptu um varaformennskuna í Samfylkingunni, er fljótvirk og örugg leið til að þjóðin snúi baki við hugmyndum þeirra um ESB-aðild um langa framtíð. Það er út af fyrir sig ágætt.

Samfylkingin getur auðvitað rembst eins og rjúpa við staur fyrir og eftir kosningar með þetta hugðarefni sitt, en hvar á hún von á liðstyrk? Ekki kemur hann frá Vinstri grænum í þessu máli. Kannski reynir Jóhanna að banka upp á hjá Bjarna Ben. nýkjörnum formanni til að mynda ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokknum. Verði henni að góðu. En er líklegt að hún verði bænheyrð þar?

Samfylkingin er að stefna líkum á vinstristjórn eftir kosningar í uppnám ætli hún að halda Brussel-þráhyggjunni til streitu. 


mbl.is Tvöföld atkvæðagreiðsla tilgangslítil
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Einnig Sjálfstæðisflokkurinn eindregið gegn ESB-aðild

Fagna ber eindreginni ályktun landsfundar Sjálfstæðisflokksins gegn ESB-aðild. Með því hafa tveir stórir stjórnmálaflokkar, Vinstri grænir og Sjálfstæðisflokkurinn, talað skýrt í þessu máli og augljóst að af aðild Íslands að Evrópusambandinu verður ekki í fyrirsjáanlegri framtíð. Hver sem úrslit alþingiskosninga verða eftir mánuð má telja útilokað miðað við fylgiskannanir að mynduð verði ríkisstjórn að þeim loknum sem sæki um aðild að ESB.

Skoðanakannanir undanfarið sýna líka að ekki er meirihlutafylgi við umsókn, hvað þá um aðild að ESB. Fyrirliggjandi afstaða VG og D veldur því líka að afar ósennilegt er að til þjóðaratkvæðagreiðslu komi um aðildarumsókn á næsta kjörtímabili.

Athyglisvert er orðalagið í ályktun Sjálfstæðismanna þar sem segir: "Komist Alþingi eða ríkisstjórn að þeirri niðurstöðu að sækja beri um aðild ..." skuli fara fram þjóðaratkvæðagreiðsla um þá ákvörðun. Slík ákvörðun verður auðvitað ekki tekin fyrir atbeina þeirra stjórnmálaflokka sem andvígir eru aðild og þannig stendur Samfylkingin nú sem fyrr einangruð með þetta áhugamál sitt.


mbl.is Þjóðin fái að skera úr um ESB-aðild
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband