Færsluflokkur: Bloggar

Berlusconi styður Tony Blair sem forseta ESB

Með Lissabon-sáttmála Evrópusambandsins er stigið stórt skref í samruna í átt að Evrópustórveldi. Samkvæmt sáttmálanum kýs ráðherraráð ESB sér  forseta til tveggja og hálfs árs í senn og sambandið fær sérstakan talsmann í utanríkis- og hermálum. Þótt þessi stjórnarskrár-bastarður sé ekki genginn í gildi er kosningabarátta um væntanlegan forseta komin í fullan gang. Þar fer fremstur sem forsetaefni hægrikratinn Tony Blair, fyrrum forsætisráðherra Breta, eindreginn stuðningsmaður Bush fyrrverandi forseta Bandaríkjanna í Írakstríðinu.

Margt bendir til að hægri menn sem ráða lögum og lofum í sambandinu eftir kosningar til Evrópuþingsins sl. vor geti vel sætt sig við Blair sem forseta ESB. Síðast í gær, 14. október, fékk Blair eindregna stuðningsyfirlýsingu frá persónulegum vini sínum Berlusconi, forsætisráðherra Ítalíu, sem eins og Blair studdi Bush með ráðum og dáð í Írakstríðinu. Blair eyddi sumarleyfi 2004 með fjölskyldu sinni sem heiðursgestur í villu Berlusconis á Sardiníu, þeirri sömu og verið hefur í hámælum að undanförnu vegna veisluhalda og kvennafars ítalska forsætisráðherrans.

Það er ekki amalegt fyrir Íslendinga að eiga kost á að skríða inn í Evrópusambandið undir slíkri forystu!


Orkulausir Bakkabræður í Helguvík

Helguvíkurál er á strandstað, ekki vegna staðfestu umhverfisráðherra um mat á  línulögnum, heldur blasir við að ekki er orka til að knýja samkeppnishæfa álverksmiðju. Botninn er suður í Borgarfirði og stóriðjuliðið klórar sér í höfðinu eins og þeir Gísli, Eiríkur og Helgi. Það hefnir sín nú að Þórunn Sveinbjarnardóttir hafði sem umhverfisráðherra ekki kjark eða skilning til að setja stóriðjuáformin á Reykjanesi í sameiginlegt matsferli, eins og hún síðar gerði varðandi álverksmiðjuáformin við Húsavík. Með slíku heildstæðu mati hefði komið í ljós að mikið vantar á að orka sé til staðar suðvestanlands í 360 þúsund tonna álbræðslu, jafnvel þótt öllum háhitasvæðum yrði fórnað án tillits til náttúruverndar.

Samkvæmt greiningu Sigmundar Einarssonar jarðfræðings er ekki einu sinni orku að hafa suðvestanlands fyrir 250 þúsund tonna ársframleiðslu, þótt umhverfisverndarsjónarmið komi ekki við sögu, og vantar heil 75 MW upp á! Fyrir 360 þúsund tonna verksmiðju vantar um 270 MW til að dæmið gangi upp.

Þrátt fyrir þetta heimtar stóriðjufylkingin að farið verði á stað með framkvæmdir nú þegar. Offorsið í Vilhjálmi Egilssyni leyndi sér ekki á Umhverfisþingi, og nú rekur Árni Sigfússon bæjarstjóri sinn kór upp á svið, allt án þess að svara grundvallarspurningum. Hann lét raunar taka skóflustungu þegar vorið 2008 og Samfylkingin klappaði með Björgvin G í fararbroddi. Er mönnum sjálfrátt?

Vera má að Norðurál fallist á að byggja minna álver til að byrja með, 150 þúsund eða 200 þúsund tonn. En slíkt fyrirtæki er ekki samkeppnisfært alþjóðlega. Það er engin tilviljun að Alcoa miðar nú við 360 þúsund tonn sem lágmark og Norsk Hydro vildi 480 þúsund tonn hið minnsta. Menn eiga ekki að falla í þá gildru að semja um slíka "áfangaskiptingu" vitandi að þegar auðhringnum hentar kemur krafan um stækkun eða ég er farinn! - Eina rökrétta niðurstaðan, vilji Norðurál ekki horfast í augu við staðreyndir og hætta við framkvæmdina, er að setja alla framkvæmdina, verksmiðju, raflínur og orkuöflun, strax í sameiginlegt mat á umhverfisáhrifum.


Umhverfisþing með áherslu á sjálfbæra þróun

Um liðna helgi var haldið Umhverfisþing sótt af yfir 400 skráðum þátttakendum. Yfirlit um það helsta sem þar gerðist má lesa á heimasíðu minni www.eldhorn.is/hjorleifur Þetta var 6. þingið af þessu tagi frá aldamótum og tók þá við af Náttúruverndarþingum.  Meginmál þingsins nú var að fjalla um sjálfbæra þróun í íslensku samfélagi og skilaði sér fjöldi hugmynda í framlögðum gögnum og erindum. Fulltrúar félagasamtaka og hagsmunaaðila ávörpuðu þingið svo og ungt fólk sem lýsti viðhorfum sínum til samfélagsins. Hrund Skarphéðinsdóttir talaði fyrir hönd umhverfisverndarsamtaka og gagnrýndi harðlega áframhaldandi stóriðjustefnu sem birtist í áformum um 760 þúsund tonna árlega viðbót í álframleiðslu á sama tíma og flest er á huldu um hvaðan raforka eigi að koma til þeirrar starfsemi. Við allt annan tón kvað hjá Vilhjálmi Egilssyni framkvæmdastjóra Samtaka atvinnulífsins, en hann taldi alltof hægt miða í stóriðjuframkvæmdum og gagnrýndi harðlega ákvarðanir umhverfisráðherra um frekari skoðun einstakra þátta eins og Suðvesturlínu. Eitt fróðlegasta erindið flutti Hjalti Þór Vignisson sveitarstjóri Hornafjarðar en hann var heiðursgestur þingsins. Minnti hann m.a. á heilræði Þórbergs Þórðarsonar að sjá hið stóra í því smáa. Ljóst er að leið Hornfirðinga þræðir spor sjálfbærrar þróunar en það sama verður ekki sagt um stóriðjusóknina þar sem stöðugt er verið að bæta eggjum í eina og sömu körfu. 

Forsætisráðherra farin á taugum og þarfnast sárlega hvíldar

Síðustu útbrot í Icesafe-málinu er í senn alvarleg og dapurleg. Forsætisráðherra pantar greinargerðir frá Gylfa Magnússyni viðskiptaráðherra og frá Seðlabankanum til að hafa í nesti á fund með talsmanni Samtaka atvinnulífsins og flokksbróður sínum Gylfa Arnbjörnssyni forseta ASÍ. Umsagnirnar við fyrirspurnum forsætisráðherra eru notaðar til að draga upp einskonar dómsdagsspá um íslensk efnahagsmál verði ekki tafarlaust skrifað upp á Icesafe. Jóhanna segir þetta vera staðreyndir, en á sama tíma færir hún þjóðinni engar fréttir af viðbrögðum Breta og Hollendinga, bara að Íslendingar verði að kyssa á vöndinn. Hagstæðari skilaboð gátu þessir andskotar okkar ekki fengið frá Íslandi.

Margt hafa menn séð í þessum Icesafe-sirkus en þetta er það raunalegasta hingað til. Forsætisráðherrann hefur greinilega tapað dómgreind sinni um hvað teljist sæmandi vinnubrögð. Ekkert er ólíklegra til að þjappa mönnum saman um niðurstöðu hér innanlands en slíkar tiltektir. Það fylgir sögunni að hvorki seðlabankastjóri né fjármálaráðherra vissu um væntanlega birtingu þessara umsagna en sá síðarnefndi biður fólk að halda ró inni.

Nú er vart annað til ráða en panta pláss á hvíldarheimili fyrir forsætisráðherrann á meðan hún safnar kröftum og reynir að jafna sig fyrir átök komandi viku.


Evrópusambandið sýnir sitt rétta andlit

Bretar og Hollendingar hafa í Icesafe-málinu notið óskoraðs stuðnings Evrópusambandsins sem lagst hefur á sveif með þeim í gegnum Alþjóða gjaldeyrissjóðinn og komið í veg fyrir lánveitingar til Íslands. Aðildarríki ESB hafa jafnframt verið knúin til að skrifa upp á þessa stefnu, jafnt norrænu ríkin og Pólverjar sem nýlega veittu Íslendingum lán, sem ekki er þó sagt til reiðu fyrr en Icesafe-deilan hefur verið leyst á forsendum Breta og Hollendinga.

Til Icesafe var stofnað af Landsbankanum í krafti tilskipana Evrópusambandsins frá 1997 og 2004 sem Íslendingum var gert að innleiða gegnum EES-samninginn. Í bakgrunni eru síðan ákvæðin um óhefta fjármagnsflutninga sem hluti af innri markaði ESB. Án aðildar Íslands að þessum tilskipunum hefði ekkert Icesafe orðið til og ef til vill ekkert bankahrun hérlendis þótt útrásarvíkingar færu geyst.

Tilskipanirnar um tryggingakerfi innistæðueigenda eru hins vegar það óljósar að alls er óvíst að mati virtra lögfræðinga að íslenska ríkið sé ábyrgt fyrir Icesafe-reikningunum og beri skylda til að bæta handhöfum þeirra tjónið. Um þetta segja m.a. Stefán Már Stefánsson prófessor sérfróður í Evrópurétti og Lárus Blöndal hæstaréttarlögmaður í grein í Morgunblaðinu 12. júní 2009:

"VIÐ undirritaðir höfum ritað allmargar greinar þar sem við höfum fært lögfræðileg rök fyrir því að okkur sem þjóð beri ekki að endurgreiða þeim innistæðueigendum sem lögðu inn hjá íslensku bönkunum erlendis fyrir hrunið. Við höfum ekki fengið nein málefnaleg rök sem hnekkja okkar ályktunum.

Ríkisábyrgð verður ekki til úr engu. Til að hún stofnist þarf afdráttarlausa lagaheimild sem ekki er til staðar í dag vegna innistæðutryggingasjóðs. Við höfum verið þátttakendur í samstarfi ríkja í Evrópu þar sem við höfum tekið upp reglur sem samdar hafa verið af Evrópusambandinu. Ekkert í þeim reglum gerir íslenska ríkið ábyrgt fyrir starfsemi íslenskra einkabanka. Þær reglur hafa hins vegar ekki staðist þær væntingar sem ESB hefur byggt upp í kringum þær. Þær reyndust gallaðar og náðu ekki markmiðum sínum. Þeir ágallar geta hins vegar ekki verið á ábyrgð íslenskrar þjóðar að okkar mati."

Í Spegli RÚV 4. október sl. sagði Eiríkur Tómasson lagaprófessor að hann legði ekki dóm á lagalegt réttmæti krafna Breta og Hollendinga og það sé umdeilanlegt, m.a. þar eð tryggingakerfi í ESB-löndunum séu ekki einsleit.

Þessi mál eru áfram í brennipunkti stjórnmálaumræðunnar og 23. október næstkomandi gætu hafist innheimtuaðgerðir af hálfu Breta og Hollendinga vegna Icesafe.


Undanhald samkvæmt áætlun

Já, þetta gengur erfiðlega hjá Nató í Afganistan og ekki nema von að vígreifur Rasmussen vilji fá Rússa með sér í leikinn. Þeir hafa reynsluna af undanhaldi og uppgjöf í Afganistan sællar minningar, en þá voru það Bandaríkjamenn sem studdu héraðshöfðingjana og Taliban með ráðum og dáð gegn Rússum sem þá voru enn í Sovétinu. Það er annars skrítið að Fogh minnist ekki á Össur utanríkisráðherra sem hlýtur þó að vera honum vel kunnugur úr Norðurlandaráði. Össur ræður að vísu ekki yfir hersveitum en hann gæti minnt framkvæmdastjórann danska í nauðum á heilræði Steins Steinars úr kvæðinu "Undanhald samkvæmt áætlun", þar sem segir:

Og stríð mitt er nútímastríð, en ekki af því taginu,

að standa til lengdar í tvísýnum vopnabrýnum.

Þið vitið að jörðin er líkt og knöttur í laginu.

Og loksins kemst maður aftan að fjandmanni sínum.


mbl.is Segir sigur mögulegan í Afganistan
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Brotthvarf Ögmundar úr ríkisstjórn og óviss eftirleikur

Í greinarkorni á heimasíðu minni www.eldhorn.is/hjorleifur rýni ég í Icesafe-málið eins og það hefur þróast frá hruni, núverandi stöðu þess og horfur framundan. Þar segir m.a.

"Þeir atburðir sem leiddu til afsagnar Ögmundar eru líklegir til að gera þá lausn sem oddvitar ríkisstjórnarinnar virðast stefna að erfiðari en ella. Í framhaldi af því að Jóhanna lyfti veldissprota sínum var leitað eftir því að þingflokkar Samfylkingar og Vinstri grænna veittu formönnum flokkanna umboð til að leiða Icesafe-málið til lykta. Ljóst er af fréttum og viðtali í gær [1.okt.] við Guðfríði Lilju Grétarsdóttur þingflokksformann VG að umboð af hálfu þingflokks hennar tekur aðeins til þess að leitt verði í ljós á hvaða nótum unnt væri að ná málamiðlun við Hollendinga og Breta. Einstakir þingmenn VG hafa þannig ekki skuldbundið sig fyrirfram til að samþykkja lagabreytingu við lögin um ríkisábyrgð, verði hennar talin þörf."

Orkuöflun til álvera í Helguvík og á Bakka stenst ekki gagnrýna skoðun

Sigmundur Einarsson jarðfræðingur skrifar 1. október gagnmerka grein í Smuguna (http://www.smugan.is/pistlar/adsendar-greinar/nr/2327) undir fyrirsögninni Hinar miklu orkulindir Íslands. Getum við virkjað endalaust?.

Þetta er skýrt framsett og vel rökstudd grein hjá Sigmundi sem ég hvet sem flesta til að lesa.

Í niðurlagi hennar segir m.a.:
"Álver í Helguvík og á Bakka myndu soga til sín nær alla orkuna frá orkulindum á Suður-, Suðvestur- og Norðausturlandi, ekki bara frá jarðvarmavirkjunum heldur einnig frá vatnsaflsvirkjunum. Þar með er farin nánast öll hagkvæmasta orkan í landinu."

Lokaorð höfundar eiga erindi við sem flesta:
"Því miður er það svo að stóri sannleikurinn um hinar miklu orkulindir Íslands er tómt plat. Þetta eru skýjaborgir sem byggðar eru á raupi óábyrgra manna sem ógerlegt er að vita hvort eða hvað hugsa. Það er fráleitt að æða út í framkvæmdir við álver eins og gert er í Helguvík og halda að það „reddist einhvern veginn“ þegar fyrirsjáanlegt er að það reddast ekki."

Sigmundur hefur af ásettu ráði ekki tekið umhverfisverndarsjónarmið með í röksemdir sínar nema í fáum tilvikum, en sé það gert verður galskapur stóriðjuliðsins enn augljósari. Benda mætti einnig á aðvaranir Stefáns Arnórssonar jarðefnafræðings og prófessors um sjálfbæra nýtingu háhitasvæða.

Þessi grein Sigmundar ætti að vera skyldulesning fyrir alþingismenn og ráðherra og ríkisstjórn svo og forseta Íslands sem erlendis hefur kynt undir glórulausar hugmyndir um orkulindir Íslands. Sérstaklega ættu þingmenn Suðurlandskjördæmis og Norðurlands eystra þar sem umrædd álver yrðu staðsett að taka úttekt Sigmundar til sameiginlegrar meðferðar í sinn hóp.

Ábendingar Sigmundar renna styrkum stoðum undir nauðsyn þess að allar stóriðjuframkvæmdir er varða álver í Helguvík, orkuöflun og orkuflutning til þess, verði tafarlaust settar í sameiginlegt umhverfismat.


Jóhanna miðar ESB-tundurskeytinu á Vinstri græna

Stefnuræða Jóhönnu var full af óbilgirni í garð VG og lofar ekki góðu fyrir stjórnarsamstarfið. Dýrðaróður hennar um Evrópusambandsaðild var þriðjungur ræðunnar, rétt eins og ráðherrann væri í miðjum kosningaslag. Með röngum staðhæfingum og gylliloforðum um gildi ESB-aðildar fyrir Ísland vó formaður Samfylkingarinnar að samstarfsflokknum sem er á öndverðri skoðun og laskaði þegar í upphafi undirstöður eigin ríkisstjórnar. Margt bendir til að stjórnin lifi ekki af Brussel-ferlið sem framundan er fari svo að Alþingi og síðan ríkisstjórn fallist á að sækja um aðild.

Forsætisráðherrann staðhæfði m.a. að aðildarumsókn að ESB myndi ein og sér tryggja stöðugt gengi, lækkun vaxta, endurvekja traust alþjóðasamfélagsins og erlendra fjárfesta á Íslandi og sópa burt verðtryggingu með krónunni. ESB-aðild yrði sérstakur happfengur fyrir íslenskan sjávarútveg og landbúnað og opni fyrir umfangsmikið styrkjakerfi til bænda sem fái "nauðsynlegt öryggi" með inngöngu í Evrópusambandið.

Hafi menn verið í vafa um að Samfylkingin muni skrifa upp á hvað sem er í aðildarviðræðum í Brussel þarf enginn að efast lengur eftir þennan boðskap.

Sennilega hefur enginn forsætisráðherra skotið sig jafn rækilega í fótinn við upphaf ferils síns og Jóhanna nú gerði. Haldi fram sem horfir verður hennar tíma ekki langur á stóli forsætisráðherra.

 

 


mbl.is Leiði mótun sjávarútvegsstefnu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bindi eða ekki bindi - það er spurningin

Loksins tók forysta Alþingis á sig rögg og aflétti þeirri þrúgandi kvöð af karlkyns þingmönnum að þurfa að bera hálsbindi í þingsölum. Þessi tímamótaákvörðun sem forsætisnefnd þingsins tók að tillögu sómakærs skrifstofustjóra er í fullu samræmi við það langa nef sem gömlum hefðum um aðhald og forsjálni hefur verið gefið á útrásartímum. Þar voru einmitt víkingarnir okkar sem skildu hálsbindin eftir heima þegar þeir lögðu til atlögu við gömul virki jafnt í Danmörku sem á Stóra-Bretlandi. Hver man ekki eftir Jóni Ásgeiri með opna skyrtuklauf þess albúinn að gera atlögu að Windsor-kastala? Sjálfsagt vilja alþingismenn ekki vera minni bógar nú þegar þeir hyggjast hefna harma sinna út af Icesafe og öðrum yfirgangi hermdarverkaliðsins handan Atlantsála.  

 

Auðvitað verður ekki staðar munið við skyrtuklaufina og ólukkans hálsbindið. Er ekki sjálfsögð og eðlileg krafa karlkynsins að fá að íklæðast stutterma bolum einum saman að ofan merktum helstu hugðarefnum viðkomandi hverju sinni, nú eða einfaldlega bera á sér brjóstin? Ég geri ráð fyrir að skrifstofustjóri og forsætisnefnd geti ekki haft á móti því að menn fái að hnykla vöðvana til áréttingar úr ræðustól þingsins. Er ekki frjálsræði í þessu landi? Við erum öll á vatnaskilum. Tie or no tie – that is the question.

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband