Færsluflokkur: Bloggar

Jóðsótt Össurar og ESB-mús Samfylkingarinnar

ESB-kaflinn í samstarfsyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar er sérkennileg samsuða og stjórnskipulegur óskapnaður. Tillögudrögin að aðildarumsókn feta sömu slóð og eiga eftir að verða fræg í annars litríkri sögu Alþingis. Um aðdragandann vísa ég til greinar á heimasíðu minni www.eldhorn.is/hjorleifur þar sem rakinn er sá fádæma flumbrugangur sem öll málsmeðferðin endurspeglar.

Hingað til hafa utanríkismál samkvæmt stjórnarskrá og hefðum verið í verkahring ríkisstjórnar hverju sinni en utanríkismálanefnd Alþingis verið framkvæmdavaldinu til ráðuneytis. Hér er þessu snúið á haus þar sem grautað er saman án nokkurra skýringa aðkomu þingsins að málinu annars vegar og ríkisstjórnarinnar hins vegar. Með því að gera "utanríkisráðherra" en ekki ríkisstjórnina að flytjanda þingsályktunartillögu um aðildarumsókn að Evrópusambandinu liggur sú tillaga fyrir sem þingmannamál samkvæmt 55. grein stjórnarskrárinnar. VG sem stjórnarflokkur hefur þannig enga formlega aðkomu að flutningi tillögunnar. Væri hér ríkisstjórnarmál á ferðinni hefði tillagan komið fram í nafni ríkisstjórnarinnar með heimild frá forseta lýðveldisins samkvæmt 25. grein stjórnarskrár.

Bæði samstarfsyfirlýsingin og tillögutextinn með greinargerð, sem leynd hefur nú verið létt af, bera merki um sundurlausa og órökræna málafylgju, enda kallast þar á tveir heimar: Samfylkingin með sína allrameinabót í formi ESB-aðildar og VG sem sem andstæðingur aðildar. Útkoman verður tvíátta samsetningur, sannkallað Janusarandlit, sem á eftir að setja mark sitt á framhaldið.

Tillögudrögin slá því föstu samkvæmt orðanna hljóðan að út úr viðræðum við ESB komi aðildarsamningur sem þjóðin greiði atkvæði um. Er það ætlun Samfylkingarinnar að undirrita samning hvað sem það kostar? Greinargerðin bendir til að svo sé, enda í góðu samræmi við fyrirvaralausan áróður flokksins fyrir aðild. Í greinargerðinni stendur m.a.: "Stjórnvöld áskilja sér rétt til að mæla með eða leggjast gegn samningnum þegar hann liggur fyrir enda eru settir margvíslegir fyrirvarar við hugsanlegan stuðning við málið." Þetta hrópar í himininn. Á fyrst að gera samning og "þegar hann liggur fyrir" að mæla með eða leggjast gegn honum?

Annað hvort verður undirritaður samningur af báðum aðilum, Íslandi og ESB, eða ekki, auðvitað með fyrirvara um niðurstöðu í þjóðaratkvæðagreiðslu. Er það ætlan "utanríkisráðherra" að bera undir þjóðina ófrágenginn samning, einhver drög sem hann sem stjórnvald hefur ekki tekið afstöðu til ? Þá fyrst væri skrípaleikurinn fullkomnaður.

Í greinargerð er aftur og aftur vísað til hagsmunaaðila og fulltrúa þeirra sem upplýsa skuli um framvindu viðræðna. Ekki er að sjá að það sama gildi um almenning þrátt fyrir orð um "gagnsætt ferli".

Af efni og lengd þess texta sem til stendur að leggja fyrir Alþingi og sem varðar stærsta ágreiningsmál í sögu lýðveldisins mætti ætla að flutningsmaður hafi samið hann í bloggham sínum á næturþeli. Fari svo að músin sleppi inn í þingsalinn verður örugglega uppi fótur og fit.

 


mbl.is ESB-tillagan birt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ekki er sopið kálið þótt í ausuna sé komið

ESB-þráhyggja Samfylkingarinnar er meinvættur í íslenskum stjórnmálum og á eftir að bitna stórlega á því brýna endurreisnarstarfi sem ætti að vera meginverkefni stjórnvalda næstu árin. Það er því óskandi að Alþingi stöðvi í fæðingu áformin um að leggja inn umsókn um aðild að Evrópusambandinu og beini kröftum sínum og framkvæmdavaldsins í annan og uppbyggilegan farveg.

Umsókn um ESB-aðild af Íslands hálfu mun sigla í strand þegar á umræðustigi hjá framkvæmdastjórn ESB, verði hún á annað borð tekin þar fyrir. Menn munu strax reka sig á þann vegg sem lög og reglur Evrópusambandsins eru og sem ekki samrýmast þjóðarhagsmunum Íslendinga. Því er ólíklegt að í tíð núverandi ríkisstjórnar eða á kjörtímabilinu liggi fyrir aðildarsamningur sem forsvaranlegt sé að leggja fyrir þjóðina. Áður yrði raunar ef til kæmi að rjúfa þing vegna breytinga á stjórnarskrá og þær alþingiskosningar sem fylgdu myndu enn og aftur snúast um aðildina að ESB. Margir eru nú þegar farnir að kvarta yfir þessu "ESB-kjaftæði", en hver halda menn að verði stemmningin eftir að rimman hefur staðið hérlendis í mörg ár í viðbót.

Allt kostar þetta brölt stórar upphæðir og orku fjölmargra aðila innan og utan þings og tefur fyrir vinnu að þeim raunverulegu og miklu vandamálum sem blasa við Íslendingum. Stjórnarflokkarnir eru á öndverðum meiði í þessu stórmáli og deilur um það á næstu misserum munu draga úr þrótti og starfi við brýn úrlausnarefni sem almenningur gerir kröfu til að leyst verði úr fyrr en seinna.

 


mbl.is Aðildarumsókn fari í júlí
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Enginn meirihluti hefur verið tryggður fyrir aðildarumsókn að ESB

Þótt utanríkisráðherra fái að leggja fram á Alþingi tillögu um að sótt verði um aðild að Evrópusambandinu er nú ljóst eftir myndun ný ráðuneytis að Samfylkingin hefur enga tryggingu fyrir því að slík tillaga nái fram að ganga.

Ekki er meirihluti stjórnarþingmanna fyrir slíkri tillögu þar eða þingmenn Vinstri grænna hafa óbundnar hendur í afstöðu til hennar. Fram kom á flokksráðfundi VG að fimm þingmenn VG hafa þegar ákveðið að leggjast gegn samþykkt slíkrar tillögu og þeir verða eflaust fleiri áður lýkur.

Sá sem þetta ritar hefur verið andvígur því að slík tillaga sé lögð fram í nafni ríkisstjórnarinnar enda stangast það berlega á við landsfundarsamþykkt VG. Nú verður það Samfylkingarinnar að leita stuðnings við málið á Alþingi og margt á eftir að gerast áður en fylgi sé tryggt við slíka málsmeðferð.

Það er ömurlegt til þess að vita að upptaka eigi tíma Alþingis á næstu vikum vegna þráhyggju Samfylkingarinnar um ESB-aðild.  Jafnframt dæmist mikil vinna  og kostnaður á stjórnkerfið vegna undirbúnings að aðildarumsókn með öllu því sem til slíks heyrir. Þetta minnir á leiðangur fyrri ríkisstjórna til að tryggja Íslandi aðild að Öryggisráðinu með tilheyrandi brambolti og kostnaði upp á mörg hundruð milljónir króna.

Þótt meirihluti yrði fyrir aðildarumsókn á Alþingi er óvíst að Evrópusambandið taki við slíku erindi frá ríkisstjórn sem er tvíklofin í afstöðu sinni til aðildar. Þar fyrir utan eru yfirgnæfandi líkur á að samningi, ef til kæmi, yrði hafnað í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Stefna Samfylkingarinnar um aðildarumsókn að ESB er að öllu leyti hið mesta óráð, einnig með hliðsjón af þeim miklu og erfiðu verkefnum sem bíða ríkisstjórnarinnar. Átök um ESB-aðild sem óhjákvæmilega myndu fylgja í kjölfar umsóknar myndu bitna á brýnum verkefnum og veikja til muna slagkraft ríkisstjórnarinnar til að fást við þau. Með ofuráherslu Samfylkingarinnar á ESB-aðild er jafnframt lífi ríkistjórnarinnar til lengri tíma litið teflt í tvísýnu. Æskilegast er að Alþingi stöðvi þennan leiðangur í fæðingu og þar reynir bæði á VG og flokkana í stjórnarandstöðu.

 

 


mbl.is Ákvörðun um ESB í höndum þjóðarinnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Óskammfeilin afskipti stækkunarstjóra ESB af íslenskum málefnum

Afskipti Olle Rehn "stækkunarstjóra ESB" af íslenskum málefnum eru afar ámælisverð. Fréttastofa RÚV lagði lykkju á leið sína nú sem oftar til að ræða við þennan finnska kommissar í framkvæmdastjórn ESB.

Í viðtalinu sá Rehn ástæðu til að undirstrika að "Ísland eigi heima í ESB" og "því fyrr sem Ísland gangi inn þeim mun meiri líkur eru á að þeir geti haft áhrif á mótun sjávarútvegsstefnu sambandsins." Steininn tók síðan úr þegar stækkunarstjórinn staðhæfði að það skipti máli hvaða ríki fari með formennsku hverju sinni og nú væri "tækifæri fyrir Íslendinga sem þeir ættu að grípa á meðan Svíar eru í forsæti."

Ég tel að íslensk stjórnvöld eigi að mótmæla opinberlega slíkum afskiptum Evrópusambandsins af íslenskum málefnum sem eru bæði óskammfeilin og gróf íhlutun í undeildasta mál íslenskra stjórmála nú um stundir.


Loftslagsógnin, norðurslóðir og olíuvinnsla

Íslendingum eins og fleirum gengur illa að leggja saman tvo og tvo. Áframhaldandi notkun olíu sem meginorkugjafa stefnir mannkyninu í hreinan voða þegar í tíð barnabarna okkar. Þar eru allir á sama báti þótt láglend ríki, kóraleyjar og norðurslóðir séu í bráðastri hættu.

Undir Norður-Íshafinu er talið að felist meira en fimmtungur af ónotuðum forða jarðefnaeldsneytis á jörðinni. Verði ráðist í olíuvinnslu á norðurslóðum og þessum forða brennt á næstu áratugum getur loftslagsvandinn orðið óviðráðanlegur. Með frekari hlýnun losnar úr læðingi metan, öðru nafni mýragas, úr freðmýrum og frá hafsbotni en það er 20 sinnum öflugri gróðurhúsalofttegund en koldíoxíð (CO2). Verkefnið ætti að vera að koma í veg fyrir þá þróun.

Væru þjóðir heims og ekki síst þær sem búa næst Íshafinu ábyrgar gerða sinna myndu þær sameinast um að stöðva þennan ófarnað og ráðast ekki í frekari olíuvinnslu og olíuleit á norðurslóðum. Þar hafa menn Antarktis sem lýsandi fordæmi. - Í stað slíkrar umræðu ber mest á vangaveltum um hvað sé hægt að græða til skamms tíma litið á afleiðingum hlýnunar. Ég heyrði ekki betur en Ásta Ragnheiður Jóhannsdóttir ráðherra hafi tekið undir þann boðskap í Tromsö.

Á landsfundi sínum í mars 2009 samþykkti Vinstrihreyfingin grænt framboð m.a. eftirfarandi um norðurslóðir:

"Landsfundur VG telur að Ísland eigi að beita sér fyrir umræðu allra hlutaðeigandi ríkja um friðlýsingu Norðurheimsskautssvæðisins. Benda má á það samkomulag sem gildir um umsvif á Suðurskautssvæðinu."

Gamalt íslenskt orðtæki hvetur til þess að byrgja brunninn áður en barið dettur ofan í.


mbl.is Hlýnun jarðar ógnar eyjasamfélögum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lýðskrum og veruleiki

Daginn fyrir kjördag auglýsti Jóhanna Sigurðardóttir í öllum fjölmiðlum: „ESB snýst um vinnu og velferð.“ Hver er raunveruleikinn hvað þetta varðar? Atvinnuleysistig innan ESB hefur um langt skeið verið á allt öðru og lakara róli en hérlendis. Um skeið tókst að ná atvinnuleysi niður í 6-7% að meðaltali en síðustu tvö árin hefur það vaxið til muna og er nú að meðaltali 8% í aðildarríkjunum. Verst er ástandið  á Spáni með 17.5% án vinnu og yfir 4 milljónir atvinnuleysingja, í Lettlandi og Litáen um og yfir 14% og á Írlandi 10%. Í Þýskalandi er atvinnuleysi nú 8,6%, tvöfalt meira í landinu austanverðu en í vesturhlutanum. Alvarlegast er atvinnuleysið í ESB hjá ungu fólki á aldrinum 15–24 ára og nemur nú að meðaltali 17,5%. Á Spáni er atvinnuleysið hjá þessum aldurshópi um 32%, í Svíþjóð 24%, í Ungverjalandi 22% og í Finnlandi 17%. Þetta eru meðaltöl en víða á landsbyggð í ESB er atvinnuleysið langtum meira.
            Ekki er að undra þótt forystumenn í ESB-ríkjunum hafi vaxandi  áhyggjur af félagslegum óróa vegna atvinnuleysisins, niðurfærslu launa og annarri skerðingu á réttindum almennings. Þannig hafa Michael Sommer forseti þýska verkalýðssambandsins DGB og Gesine Schwan forsetaframbjóðandi þýskra sósíaldemókrata nýlega varað við að til óeirða kunni að draga síðar á árinu og í Frakkandi gerast svipaðar raddir háværar.
            Eins og sjá má af þessu getur málflutningur oddvita Samfylkingarinnar um ESB sem kjölfestu „vinnu og velferðar“ ekki flokkast undir annað en ómerkilegasta lýðskrum.

Lítið við á heimasíðu minni www.eldhorn.is/hjorleifur Þar er að finna umfjöllun um marga fleiri þætti sem varða þróun mála innan Evrópusambandsins

Gleðilega hátíð 1. maí


Fréttaskýring Times gott innlegg í ESB-umræðuna

Glöggt er gests augað má segja um innlegg Maddox hjá The Times í gær. Hann bendir á veika samningsstöðu Íslands gagnvart ESB og að við ættum að skoða aðra kosti og ætla okkur tíma til þess. ESB muni þrýsta á um fiskveiðiréttindi, ekki síst Spánverjar. Óvíst sé að Evrópusambandið vilji hleypa inn nýjum ríkjum í bráð.

Þetta eru sjónarmið sem ættu að teljast sjálfsögð frá bæjardyrum okkar Íslendinga. Ég orðaði þetta þannig árið 1990 í séráliti sem fulltrúi í Evrópustefnunefnd Alþingis á þeim tíma:

"Færa má fyrir því gild rök að Ísland óháð viðskiptabandalögum sé langtum betur sett en með því að verða jaðarsvæði í evrópsku efnahagsbandalagi. Ísland er á margan hátt í öðruvísi stöðu landfræðilega, viðskiptalega og menningarlega en önnur Norðurlönd, að ekki sé talað um gamalgróin iðnríki Vestur-Evrópu. Landfræðileg staða okkar getur gagnast þjóðinni í samskiptum til margra átta. Landið er miðlægt á Norður-Atlantshafi í þjóðbraut til austurs og vesturs, en liggur einnig vel við vaxandi samskiptum milli Evrópu og Austur-Asíu um norðurheimsskautið. Ef við höldum þétt utan um náttúruauðlindir okkar til lands og sjávar og vendum umhverfið fyrir mengun og ofnýtingu er unnt að halda hér uppi lífskjörum til jafns við það sem best gerist annars staðar."

Í greininni sinni í The Times í gær segir Maddox:

"Iceland is in a difficult bargaining position if it does apply to join the European Union. After last year’s financial eruption the needs are obvious – a currency to replace the krona and a way of recovering a reputation for stability. The passion for the EU within the new leftwing coalition, elected at the weekend, is understandable. It seems to chime with the mood of many voters, though the national pride in independence runs deep. But Iceland’s weakness is that it has resolved its ambivalence about the Union at precisely the point when the EU has shut the door. There cannot be any more expansion unless Ireland votes “yes” to the proposed new rules for running the Union in its referendum this year. Nor, probably, can any new countries join until Croatia and Slovenia resolve a sea border dispute, which Slovenia is raising as a bar to Croatia’s entry. Even if those obstacles are overcome, other governments are aware of Iceland’s desperation and will push hard for concessions on fishing rights. The Spanish presidency of the EU, in the first half of 2010, would surely press that point. Iceland does not have many attractive alternatives to EU membership. But it can make the best of a weak hand by reminding the EU that there are other clubs it could join – it could adopt the dollar or seek entry to a North American trade alliance. From the middle of the Atlantic, Iceland has always been good at playing the US off against Europe, and both against Russia. That has brought mistrust, but it remains its best card.

Last year’s trauma delivered two main lessons. First, it is probably impossible for a tiny open country to maintain its own freely floating currency. Indeed, the view that the krona should be swapped for the euro was a matter of direct debate in Icelandic politics two years ago, with hardliners recommending that Iceland do so unilaterally, without joining the EU.

That is possible, in theory. Some tiny countries have – Montenegro and Kosovo. But Montenegro is the only significant case. It managed “euroisation” in 2002, before the currency was so entrenched. But the European Central Bank and the EU loathe the practice, and the penalties would be severe – delaying EU membership if not obstructing it permanently. But if the adoption of a stable outside currency is essential, the euro remains out of reach. Iceland needs to think of alternatives. The dollar, Norwegian krone or Swiss franc are options that have flickered over the landscape of Icelandic politics, even if its trading patterns make them less attractive. Similarly, Iceland needs to think about the purpose that EU membership would serve, beyond access to the euro. For years it has found the European Economic Area a good substitute. The second lesson from the collapse was that EEA membership had some unexpected pitfalls, such as legal uncertainty about obligations to recompense savers in its banks. Iceland undeniably needs to repair its reputation – to dispel any sense that the Government did not know the rules. Joining the EU would be one answer, but it is not the only one. Addressing the nervousness head-on by compensating foreign savers who lost money after the collapse of its banks is one immediate step. EU accession talks would be painful. The potential fishing rights dispute cannot be brushed away, even if fish exports are now a small part of Iceland’s economy. Iceland manages its stocks well; the EU does not. The new Government is surely right in looking towards Brussels. But it might strengthen its hand by waiting and exploring alternatives."  

 


mbl.is Ísland þurfi að spila vel úr veikri stöðu gegn ESB
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eystrasaltsríkin og "blessun" ESB-aðildar

Í þessari frétt um 10-15% efnahagssamdrátt í Eystrasaltsríkjunum blasa við mönnum afleiðingar ESB aðildar, en verst er ástandið í Lettlandi sem bundið hefur gjaldmiðil sinn við evru.

Hvernig dettur mönnum í hug að reyna að telja okkur Íslendingum trú um að ESB-aðild myndi gagnast Íslandi við að komast upp úr efnahagsþrengingum, fyrir utan allt annað sem henni fylgir svo sem varanlegt afsal yfirráða yfir náttúruauðlindum okkar. 


mbl.is 12,5% samdráttur í Litháen
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mikil eftirsjá í Kolbrúnu Halldórsdóttur af þingi

Það helsta sem skyggir á ágætan sigur Vinstri grænna í kosningunum er að missa Kolbrúnu Halldórsdóttur af Alþingi Íslendinga. Hún hefur unnið þar frábært starf í þágu VG og þjóðarinnar í áratug og haldið á lofti málstað náttúru- og umhverfisverndar. Ég hygg að starfsfélagar hennar í öllum flokkum geti vottað að hún hefur rækt störf sín af stakri samviskusemi og sett sig inn í flókin mál af kostgæfni.

Það hefur mætt á VG allan þennan áratug í baráttu gegn stóriðjustefnu stjórnvalda og á því sviði eins og mörgum öðrum hefur Kolbrún staðið vaktina sem fulltrúi flokksins í umhverfisnefnd þingsins. Það var því eðlilegt og við hæfi að hún veldist til að gegna starfi umhverfisráðherra við stjórnarskipti fyrir skemmstu. Í aðdraganda alþingiskosninga 2007 vann hún ásamt hópi félaga frábært starf við að gera grein fyrir umhverfisstefnu VG í ritinu Græn framtíð. Þar er að finna vegarnesti sem endast mun lengi í baráttunni fyrir sjálfbærri þróun.

Málafylgja Kolbrúnar hefur hins vegar engan veginn einskorðast við umhverfis- og auðlindamál í allri sinni breidd, því að áhugasvið hennar liggja víða. Um  þetta vitnar fjöldi þingmála sem hún hefur haft frumkvæði að, m.a. í menntamálum og jafnréttis- og kvenfrelsismálum. Hún hefur fært inn í þingið mál sem mörgum þóttu fráleit í upphafi en síðan hafa orðið að lögum og margir vildu nú kveðið hafa. Nýjasta dæmi um það er breyting á hegningarlögum um kaup á vændi.

Kolbrúnu er auðvitað ekki allt gefið fremur en öðrum og eitt af því sem hún hefur ekki sinnt er að gæta að eigin stöðu á velli stjórnmálanna, safna liði til stuðnings við sig persónulega. Mér var ljóst í aðdraganda kosninganna nú, þar sem hún í forvali færðist niður í þriðja sæti á framboðslista í Reykjavík suður, að tvísýnt yrði um endurkjör hennar, eins og nú liggur fyrir eftir kosningaúrslit. Ég treysti því hins vegar að Vinstrihreyfingin grænt framboð sem hún átti drjúgan hlut í að vinna brautargengi sjái til þess að þekking hennar á fjölmörgum sviðum nýtist um ókomin ár.

 

 


mbl.is Úrslitin persónuleg vonbrigði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Samfylkingin í erfiðri stöðu með litla fylgisaukningu

Þvert ofan í það sem blindir fjölmiðlar reyna að enduróma er Samfylkingin um margt í erfiðri stöðu eftir að hafa aðeins náð 29,8% fylgi í kosningunum en hafði 31% árið 2003. Þetta er staðan eftir að Íslandshreyfingin gekk til liðs við Samfylkinguna fyrir kosningar og einhver ótalinn fjöldi á að hafa bæst flokknum út á kröfuna um ESB-aðild. Hvert fór það lið semfyrir var? Á sama tíma og viðbótin sem Samfylkingin fær er 11,2% bætir VG við sig 51,7% og sú aukning er fengin m.a. út á einarða andstöðu við ESB-aðild.

Ljóst er að Samfylkingin hefur enga stöðu til að setja VG eða öðrum flokkum kosti í Evrópumálum. Það er rétt sem formaður Framsóknar segir: "Ég tel reyndar að fylgi Samfylkingarinnar sé viðkvæmara nú en oft áður vegna þess að það byggist svo mikið á tveimur hlutum. Annars vegar Jóhönnu Sigurðardóttur og hins vegar Evrópusambandinu."

Við þetta bætist að Samfylkingin hefur ekki mótað sér nein samningsmarkmið varðandi aðildarumsókn. Jóhanna er í stöðu Rauðhettu litlu sem stefnir beint í gin úlfsins. Það er greinilega afar brýnt að kveðja út björgunarsveitir til að stöðva feigðarflan þessara einfeldninga sem boðuðu aðild að ESB sem allra meina bót fyrir kosningar.


mbl.is VG verður að gefa eftir í Evrópumálum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband