Færsluflokkur: Bloggar
12.6.2010 | 15:52
Ísland dragi umsóknina tafarlaust til baka
Það er háðung fyrir íslensku ríkisstjórnina að vera með umsókn um aðild Íslands á biðlista hjá Evrópusambandinu. Hér er sáralítill stuðningur við þetta furðulega tiltæki sem VG lét Samfylkinguna teyma sig út í við stjórnarmyndun fyrir ári. ESB er sjálft í slíkum vandræðum að æ meiri óvissa er um framtíð þess, fyrst af öllu evruna sem notuð var sem tálbeita hér eftir hrunið.
Í Noregi birtist í dag skoðanakönnun sem sýnir meiri andstöðu við ESB-aðild þar í landi en áður hefur mælst: 62,5% eru á móti aðild á meðan aðeins 26,7% eru fylgjandi. Jafnvel í Hægriflokknum hefur vindurinn snúist, en 55% af kjósendum þess flokks segjast nú myndu greiða atkvæði gegn aðild.
Össur utanríkisráðherra ætti að sjá sóma sinn í að senda hraðbréf til Brussel fyrir þjóðhátíðardaginn 17. júni og tilkynna framkvæmdastjórninni að Ísland sé hætt við umsókn að ESB. Í leiðinni sparast 7-10 milljarða, sem svarar til fjórðungs þess sem á að skera niður á fjárlögum næsta árs.
Umsóknin er ekki á dagskrá | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (32)
15.2.2010 | 08:24
Feigðarflan kallar á endurskoðun
Fregnir af mannskaða og fólki í nauðum á Langjökli í tvígang á síðustu vikum lætur engan ósnortinn. Menn hrósa happi þegar björgun tekst giftusamlega en jafnframt vakna margar spurningar um ferðir og ferðatilhögun á jöklum landsins. Ég tel að atburðir síðustu vikna á Langjökli og ófáar hliðstæður á liðnum árum kalli á endurskoðun ferðamála að því er varðar ferðalög, ekki síst vélknúna umferð á jöklum landsins.
Yfirstjórn ferðamála í landinu ætti hið fyrsta að kalla til hóp valinkunnra til að fara yfir alla þætti ferðamennsku á jöklum landsins og gera tillögur um hvernig að skuli standa framvegis. Þar þarf að leita svara við mörgum grundvallarspurningum sem varða skipulag slíkra ferða og öryggisþætti, leyfisveitingar til þeirra aðila sem reka þjónustu sem tengist jöklaferðum, leiðsögn, tryggingar og eftirlit. Jafnframt ætti að fara yfir hvaðeina sem lýtur að umhverfisáhrifum slíkra ferða, mengunarhættu vegna sívaxandi umferðar, áhrif á aðkomuleiðir og jaðarsvæði jöklanna og truflun gagnvart þeim sem kjósa göngu- og skíðaferðir á jöklum.
Við skulum líka hafa í huga að Langjökull og Þingvallasvæðið er hluti af framtíðar vatnsforðabúri höfuðborgarsvæðisins og mengun á og í jöklinum af völdum umferðar getur komið fram mörgum áratugum síðar í grunnvatni. Þannig er að fjölmörgu að hyggja, einnig að siðferðilegum álitaefnum. Ræða þarf þessi málefni m.a. við þá sem telja sig hafa hagsmuna að gæta í bráð, en síðast en ekki síst eru það framtíðarhagsmunir alls almennings og mælikvarðar um sjálfbærni sem eiga að ráða stefnunni. Horfa ber til þess hvernig að málum er staðið í umgegni við jökla erlendis, m.a. í Noregi og í Ölpunum. Óbreytt og versnandi ástand í umgengni við jöklana hérlendis stefnir í óefni sem kemur öllum í koll. Látum nýliðna viðburði okkur að kenningu verða.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
5.1.2010 | 18:07
Icesafe-málið er samsafn rangra ákvarðana í 15 ár
Íslenska þjóðin situr áfram föst í Icesafe-dýkinu og sér hvergi í land. Sú ótrúlega staða að einkabankar geti stofnað til skuldbindinga í útlöndum sem leiði til endurkröfu á íslenska ríkið á rætur í EES-samningnum sem ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Alþýðuflokks stóð að fyrir 15 árum og helmingur þingflokks Framsóknar skrifaði upp á.
Icesafe-skuldbindingarnar áttu drjúgan þátt í að fella íslensku bankana haustið 2008 og þáverandi ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar skrifaði upp á endurkröfu Breta og Hollendinga og fékk hana samþykkta með ályktun Alþingis 5. desember 2008 svohljóðandi:
"Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að leiða til lykta samninga við viðeigandi stjórnvöld vegna innstæðna í útibúum íslenskra viðskiptabanka á Evrópska efnahagssvæðinu á grundvelli þeirra sameiginlegu viðmiða sem aðilar hafa komið sér saman um."
Meðal þeirra sameiginlegu viðmiða sem þarna er vísað til og birt voru í greinargerð stjórnartillögunnar stóð m.a.:
"Aðilar [íslensk, bresk og hollensk stjórnvöld] komu sér saman um að tilskipunin um innstæðutryggingar hafi verið felld inn í löggjöfina um Evrópska efnahagssvæðið í samræmi við samninginn um Evrópska efnahagssvæðið og gildi því á Íslandi með sama hætti og hún gildir í aðildarríkjum Evrópusambandsins." Um pólitíska niðurstöðu sagði m.a. í greinargerð: "Gert er ráð fyrir því að þau ríki sem hlut eiga að máli muni aðstoða sjóðinn við að standa undir þessu verkefni og það verði í formi lánveitinga viðkomandi ríkja til sjóðsins með ábyrgð íslenska ríkisins."
Þessari málsmeðferð greiddu atkvæði þingmenn Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks, þingmenn Framsóknar sátu hjá en allir viðstaddir þingmenn VG greiddu á móti svo og Pétur H. Blöndal. Breytingartilaga Péturs H. Blöndal um að bera ætti væntanlega samningana undir Alþingi var felld af stjórnarliðinu.
Með þessari samþykkt Alþingis á aðventu 2008 var brautin vörðuð sem leitt hefur í núverandi stöðu. Á því ber núverandi ríkisstjórn einnig ábyrgð og hún hefur vissulega gert ýmis mistök í meðferð málsins.
Með synjun forseta Íslands í dag á staðfestingu á lögunum um ríkisábyrgð frá því á gamlársdag er deilan um Icesafe færð á nýtt óvissustig sem áskorendurnir undir kröfu um þjóðaratkvæðagreiðslu hafa margir hverjir enga grein gert sér fyrir. Hvergi hillir undir leikslok í þeirri hryllingsóperu sem efnt hefur verið í sl. 15 ár undir merkjum EES-samningsins.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
7.12.2009 | 11:36
Ísland úr skammarkróknum
Það er góðra gjalda vert að Ísland er á leið úr skammarkróknum sem fyrri stjórnvöld komu okkur í samhliða Kyótóbókuninni. Eflaust eiga eftir að heyrast ramakvein hérlendis frá ýmsum vegna þessarar stefnubreytingar.
Annað mál er það að horfurnar varðandi niðurstöður Kaupmannahafnarfundarins eru ekki bjartar og þau markmið sem samningamenn ráðandi ríkja og ríkjahópa nú ræða um sem viðbrögð við loftslagsvandanum ná alltof skammt. Það þýðir að vandinn vex og glíman fram undan verður þeim mun erfiðari.
Loftlagsráðstefnan sett | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
7.12.2009 | 11:26
Kaupmannahöfn: Markmið sem duga skammt
Loftslagsbreytingarnar fela í sér skelfilegustu ógn sem mannkynið hefur staðið frammi fyrir til þessa. Með loftslagssamningi Sameinuðu þjóðanna í Ríó 1992 var hættan viðurkennd af alþjóðasamfélaginu en viðbrögðin hafa verið alltof hikandi til þessa. Kýótó-bókunin var áfangi en náði alltof skammt og nú reynir á langtum ákveðnari og stærri skref. Vísindalegur grunnur hefur styrkst mikið síðasta áratuginn og meirihluti mannkyns virðist samkvæmt skoðanakönnunum viðurkenna loftslagsógnina sem vandamál. Ráðstefnan í Kaupmannahöfn er 15. ársþing aðila að loftslagssamningnum og það sem nú knýr á eru nýjar og langtum metnaðarfyllri ákvarðanir í framhaldi af Kýótó. Því miður bendir fátt til að þær séu í boði í Kaupmannahöfn og það hefur í för með sér að vandinn vex og getur orðið óviðráðanlegur fyrr en varir. Um hvað snýst þetta?
Lítum á það sem Kevin Anderson forstöðumaður Tyndall rannsóknastöðvarinnar í Manchester á Englandi telur að þyrftu að verða niðurstöðurnar í Kaupmannahöfn til að ná því markmiði að stöðva hlýnun á heimsvísu við 2°C, en það eru mörk sem alþjóðasamfélagið virðist sammála um að stefna beri að. Um þetta segir Anderson í blaðinu Independent í dag m.a.:
"Ríku löndin (OECD-ríkin) þurfa að ná fram samdrætti í heildarlosun gróðurhúsalofts frá og með árinu 2012, minnka losun frá orkuframleiðslu um að minnsta kosti 60% til ársins 2020 og losna að fullu undan notkun jarðefnaeldsneytis ekki síðar en 2030. Samhliða þessu þurfa þróunarríkin (utan OECD) að ná fram lækkun í heildarlosun gróðurhúsalofts um árið 2025 og hætta að fullu notkun jarðefnaeldsneytis í orkukerfum sínum árið 2050. Slíkur samdráttur er sem stendur langt frá því sem samningamenn í Kaupmannahöfn ætla sér svo mikið sem að íhuga."
Það er jafn gott að stjórnmálamenn sem og almenningur geri sér grein fyrir því að þau markmið sem nú eru til umræðu í Kaupmannahöfn duga skammt. Með skammsýni og ráðleysi er þannig stefnt í ólýsanlega ófæru fyrir líf á jörðinni í fyrirsjáanlegri framtíð.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
22.11.2009 | 14:27
Lýsandi hrossakaup um ólýðræðislega uppbyggingu ESB
Niðurstaða Evrópusambandsins í vali nýrrar forustu í kjölfar Lissabon-stjórnarskrárinnar eykur enn á andlýðræðislega ásýnd Brusselveldisins. Eftir miklar þrautir og baktjaldamakk urðu leiðtogar aðildarríkjanna sammála um gera belgískan hægrimann að fyrsta forseta ESB og nær óþekkta konu úr lávarðadeild breska þingsins sem aldrei hefur verið kosin til nokkurra verka að utanríkisráðherra sambandsins. Hún uppfyllti þau skilyrði að vera úr hópi sósíaldemókrata og kvenmaður en mjög hefur hallað á konur í virðingarstöðum í ESB.
Forsetanum nýja, Van Rompuy, er lýst sem lægsta samnefnara sem stóru ESB-löndin sættu sig við og hann muni varla trufla þau með róttækum hugmyndum sem gangi gegn hagsmunum þeirra. Helsta dægrastytting hans er sögð vera að yrkja "haikus"-ljóð í japönskum stíl og stunda hjólhýsaferðir. Barónessan sem nú á að verða rödd ESB á vettvangi utanríkismála og stýra 5000 manna sveit dipómata í 130 sendiráðum ESB er sögð litlaus (uncharistmatic) og reynslulaus á sviði utanríkismála. Bæði verða þau vel haldin í launum, enda sambandið þekkt fyrir rausnarlega þókknun til starfsmanna sinna og þingmanna á Evrópuþinginu.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
13.11.2009 | 21:39
Gátan um raforku til Helguvíkuráls áfram óráðin
Sigmundur Einarsson jarðfræðingur hefur skrifað nýja grein á www.smugan.is og svarar þar skilmerkilega þeim sem gert hafa lítið úr röksemdum hans um að mikið vanti á að tryggð sé raforka til álverksmiðju í Helguvík. Undir niðurlag greinarinnar sem ber fyrirsögnina "Er HS-Orka í krísu í Krýsuvík?" segir Sigmundur:
"Bygging álversins mun vera hafin. Það ku bráðvanta háspennulínur. Og svo vantar fjármagn til hafnarframkvæmda. En orkuöflun virðist vera aukaatriði. Þar er fjármagn ekki eina vandamálið. Það vantar ekki bara orku. Það vantar orkulindir. Hvernig er þetta hægt? Hér hefur framkvæmdaröðin riðlast svo um munar."
Sigmundur vísar á iðnaðarráðherra og orkumálastjóra og biður þá um svar við spurningunni: Hvar er orkan fyrir álverið? Það eru áreiðanlega margir sem kjósa að fá svar við þeirri spurningu og í þeim hópi jafnvel fyrirtækið Norðurál.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
5.11.2009 | 22:35
Er ekki kominn tími til að Ísland losi sig úr Schengen?
Íslendingar voru árið 2001 plataðir inn í Schengen af þáverandi utanríkisráðherra. Áróðursmiðinn var sú staðhæfing hans að þá þyrftu Íslendingar ekki að sýna vegabréf á öllu EES-svæðinu. Allir vita nú hver innistæða er fyrir slíku og hvaða verði aðildin hefur verið keypt. Nú rápa glæpagengin inn og út úr landinu án þess vegabréfaeftirliti verði við komið og dæmdir erlendir sakborningar í farbanni sleppa ítrekað úr landi þrátt fyrir bann á pappírnum. Lögreglumenn víða um land eru farnir að láta til sín heyra eins og ályktun félags þeirra á Vestfjörðum 28. október sl. ber vott um.
Sá sem þetta skrifar varaði sem þingmaður eindregið við Schengen-aðild á árunum 1998 og 1999. Auk ítrekaðra fyrirspurna til þáverandi utanríkis- og dómsmálaráðherra flutti ég tillögu til þingsályktunar "um úttekt á Schengen-aðild og innflutningi fíkniefna" (sjá 597. mál á 122. löggjafarþingi og 11. mál á 123. þingi). Tillagan fékk þá jákvæða umsögn frá lögreglustjóranum í Reykjavík og ríkislögreglustjóri sagði í umsögn að þarft gæti verið að fram færi úttekt á líklegum áhrifum Schengen-aðildar. Þetta nægði þó ekki þáverandi ríkisstjórnarmeirihluta til að samþykkja tillögu mína sem í hvorugt skiptið fékkst afgreidd út úr nefnd á Alþingi.
Nú hafa menn átta ára reynslu af Schengen og ég hygg þeir séu ekki margir sem séu ánægðir með hana. Sérstaklega hafa neikvæð áhrif af aðildinni aukist og orðið auðsæ eftir stækkun ESB í austurátt frá og með árinu 2005. Ekkert mælir með því fyrir eyríki eins og Ísland að binda sig í slíkt kerfi.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (24)
22.10.2009 | 12:00
Jarðvarmaorka fyrir Helguvík og Bakkaál er ekki í hendi
Á fundi um Sjálbæra nýtingu jarðhitans sem m.a. iðnaðarráðuneytið og Ísor boðuðu til í gær, miðvikudag, var staðfest að ekkert er fast í hendi um orku frá háhitasvæðum til álbræðslna í Helguvík og við Húsavík. Spurningu minni um Helguvík svaraði Ólafur Flóvenz þannig að orka sé til staðar í iðrum jarðar "en ekki víst að við náum henni upp og á þeim kostnaði sem áætlað er". Nauðsynlegt sé að rannsaka mörg umrædd svæði með því að bora rannsóknaholur m.a. í Krísuvík og í Trölladyngju. Ósvarað sé spurningum um matsskyldu m.a. við Eldvörp og Grindavíkurveg. - Það sjónarmið var sem rauður þráður í erindum sérfræðinganna á fundinum að fara þurfi hægt í nýtingu jarðhitasvæðanna til að finna hvar liggi sjálfbær nýtingarmörk þeirra. Sé markmiðið að safna orku í stór iðnaðarverkefni þurfi helst að hafa mörg svæði undir í einu til að dreifa áhættu.
Í erindi Grétars Ívarssonar sem fjallaði um reynslu og stöðu Orkuveitu Reykjavíkur kom fram að nú sé teflt á tæpasta vað með heitavatnsöflun og hætta sé á skorti hvenær sem er ef kuldakast skellur á. Nesjavellir eru fullnýttir og pípan þaðan flytur ekki meira vatn. Hann vék líka að hættu af jarðskjálftum og eldgosum á svæðum Orkuveitunnar og hugsanlegum skemmdarverkum. Á Reykjaneshrygg virðist gjósa með 2500 ára hléum á milli.
Í umræðum minnti Kristján Sæmundsson jarðfræðingur á goshættuna og að í því samhengi séu Brennisteinsfjöll virkust. Þar hafi goshrina átt upptök sín fyrir landnám og færst þaðan vestur eftir skaganum. Stóð goshrinan í 500 ár eða fram á 13. öld. Þetta geti endurtekið sig og byrji þá líklega í Brennisteinsfjöllum eins og síðast. Fyrir norðan hafi komið til gliðnunar einu sinni á öld síðustu þúsund árin og þar þurfi meiri og betri athuganir en hingað til.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
16.10.2009 | 09:34
Dæmigerð viðbrögð stóriðjurisa
Fréttirnar frá Suður-Afríku um að Rio Tinto Alcan hafi hætt í bili við fyrirhugað Coega-álver vegna áforma þarlendra stjórnvalda um raforkuverðshækkun þurfa engum að koma á óvart. Þetta eru dæmigerð viðbrögð stóriðjuauðhrings. Það sama gildir um viðbrögð þessa fyrirtækis hérlendis vegna áforma stjórvalda um orkuskatt á álverksmiðjuna í Straumsvík.
Menn ættu að rifja upp deilu íslenskra stjórnvalda 1981-1984 við Alusuisse, þáverandi eiganda Ísal, um skattgreiðslur og raforkuverð. Þá tókst íslenskum stjórnvöldum að knýja auðhringinn til að gefa eftir vegna þess að hægt var að sanna á hann stórfelld undanskot frá skattgreiðslum til íslenska ríkisins. Niðurstaðan varð tvöföldun á raforkuverði til Landsvirkjunar, breyting sem bjargaði Landsvirkjun frá stórfelldum áföllum vegna óviðunandi raforkusamnings við Ísal til langs tíma.
Rio Tinto Alcan hættir við í S-Afríku | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)