Orkulausir Bakkabræður í Helguvík

Helguvíkurál er á strandstað, ekki vegna staðfestu umhverfisráðherra um mat á  línulögnum, heldur blasir við að ekki er orka til að knýja samkeppnishæfa álverksmiðju. Botninn er suður í Borgarfirði og stóriðjuliðið klórar sér í höfðinu eins og þeir Gísli, Eiríkur og Helgi. Það hefnir sín nú að Þórunn Sveinbjarnardóttir hafði sem umhverfisráðherra ekki kjark eða skilning til að setja stóriðjuáformin á Reykjanesi í sameiginlegt matsferli, eins og hún síðar gerði varðandi álverksmiðjuáformin við Húsavík. Með slíku heildstæðu mati hefði komið í ljós að mikið vantar á að orka sé til staðar suðvestanlands í 360 þúsund tonna álbræðslu, jafnvel þótt öllum háhitasvæðum yrði fórnað án tillits til náttúruverndar.

Samkvæmt greiningu Sigmundar Einarssonar jarðfræðings er ekki einu sinni orku að hafa suðvestanlands fyrir 250 þúsund tonna ársframleiðslu, þótt umhverfisverndarsjónarmið komi ekki við sögu, og vantar heil 75 MW upp á! Fyrir 360 þúsund tonna verksmiðju vantar um 270 MW til að dæmið gangi upp.

Þrátt fyrir þetta heimtar stóriðjufylkingin að farið verði á stað með framkvæmdir nú þegar. Offorsið í Vilhjálmi Egilssyni leyndi sér ekki á Umhverfisþingi, og nú rekur Árni Sigfússon bæjarstjóri sinn kór upp á svið, allt án þess að svara grundvallarspurningum. Hann lét raunar taka skóflustungu þegar vorið 2008 og Samfylkingin klappaði með Björgvin G í fararbroddi. Er mönnum sjálfrátt?

Vera má að Norðurál fallist á að byggja minna álver til að byrja með, 150 þúsund eða 200 þúsund tonn. En slíkt fyrirtæki er ekki samkeppnisfært alþjóðlega. Það er engin tilviljun að Alcoa miðar nú við 360 þúsund tonn sem lágmark og Norsk Hydro vildi 480 þúsund tonn hið minnsta. Menn eiga ekki að falla í þá gildru að semja um slíka "áfangaskiptingu" vitandi að þegar auðhringnum hentar kemur krafan um stækkun eða ég er farinn! - Eina rökrétta niðurstaðan, vilji Norðurál ekki horfast í augu við staðreyndir og hætta við framkvæmdina, er að setja alla framkvæmdina, verksmiðju, raflínur og orkuöflun, strax í sameiginlegt mat á umhverfisáhrifum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gísli Már Marinósson

Sæll Hjörleifur. Málið snýst fyrst og fremst um atvinnu fyrir okkur sem búum hér á suðurnesjunum. Fólk hér er örvæntingafullt. Atvinnuleysi mikið. Fólk er að missa eignir sínar. Fólk er að flytja úr landi í tugum talið. Finnst þér það allt í lagi. Hvernig á að auka skatttekjur ef fólk er atvinnulaust eða flutt burt af landinu?

Gísli Már Marinósson, 12.10.2009 kl. 21:56

2 Smámynd: Guðmundur Eyjólfur Jóelsson

Það er fleirra sem má nefna línan hingað suður eftir er keyrð á +30%afköstum og það mun ekki vera til rafmagn til að keyra á 'Ásbrú þegar búið verður að breyta öllu þar í 220 v hvað þá þegar netbúið verður tilbúið Það er verið að skerða okkar möguleika til atvinnuuppbyggingu með slíkri ákvarðanatöku .Annað sem mér finnst vera skrítið en sýnir sjálfstæðisflokkinn í hnotskurn er að á sama tíma og OR á að svara því hvort þeir ætli að kaupa vélasamstæðu og borga inn á þá samstæðu þá heimtar Reykjavíkurborg að 3 milljarða arður verði greiddur til eigenda sem er Reykjavíkurborg og er búin að borga 1 milljarð inn á vélarnar en tapast líklega út af þessum gjörning ,'eg er kannski einfaldur en ég skil ekki svona hvað á að segja það er eins og gera eigi allt til að valda sundrungu hjá stjórninni sama hvað það kostar og hvað er almenningur þeim er skítsama um hann bara að sjálfstæðismenn komist til valda .þetta snýst bara um það í þeirra augum, langsótt kannski við sjáum til .

Guðmundur Eyjólfur Jóelsson, 13.10.2009 kl. 10:38

3 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Álfyrirtækin gera orkukaupasamninga til 20-40 ára og fara því ekkert fyrr en í fyrsta lagi að þeim tíma liðnum, ef þau hafa á annað borð skrifað undir samninga.

Og ef þau kjósa að fara að þeim tíma liðnum, þá er ekki verið að ráðstafa orkunni í þá að eilífu, eins og hræðsluáróðursmeistarar gegn stóriðju halda fram. Þá verður væntanlega hægt að ráðstafa orkunni "í eitthvað annað".

Gunnar Th. Gunnarsson, 13.10.2009 kl. 15:25

4 Smámynd: Hjörleifur Guttormsson

Góðu viðmælendur.

Spurningin um Helguvíkurál snýst um það hvort skynsamlegt sé fyrir Íslendinga að ráðstafa allri orku suðvestanlands og meira til í þetta eina fyrirtæki, að viðbættum náttúruspjöllum og mengun. - Þá þarf líka að hafa í huga að fjárfesting á bak við hvert starf í orkufrekum iðnaði er um 1000 milljónir á mann, en í almennum iðnfyrirtækjum aðeins nokkrir tugir milljóna.

Hjörleifur Guttormsson, 15.10.2009 kl. 10:47

5 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Hvaða máli skiptir hvað hvert starf kostar, þegar Íslendingar eru ekki að borga fyrir það?

Megi þessi störf kosta sem mest

Gunnar Th. Gunnarsson, 15.10.2009 kl. 11:28

6 Smámynd: Hjörleifur Guttormsson

Sæll Gunnar.

Þetta er misskilningur, með orkufrekum iðnaði á ég við heildina, orkuver. orkuflutning og verksmiðju. Íslendingar kosta til meira en helmingnum af fjárfestingunni, að mestu með lántökum. Verksmiðja í erlendri eigu nýtur hér margháttaðra sérkjara, lágs orkuverðs og skatta, og arðurinn flyst að stórum hluta úr landi. Þar fyrir utan er síðan fórnarkostnaður í umhverfinu, mengun og náttúruspjöll.

Hjörleifur Guttormsson, 15.10.2009 kl. 22:15

7 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Einmitt!. Raforkuverin, línulagnir og annað tengt orkuöfluninni eru fjárfestingar, svokallaðar langtímafjárfestingar. Þær eru framkvæmdar með lánsfé og taka ekki opinbert fjármagn frá annari þjónustu frá hinu opinbera. Fjárfestingin borgar sjálf afborganir af lánum, ríkissjóður kemur þar ekki nærri, nema sem ábyrgðaraðili að lánunum.

Nefndu eitt dæmi þar sem þarf að fara í ríkissjóð til þess að borga af þessum fjárfestingum.

Gunnar Th. Gunnarsson, 16.10.2009 kl. 00:13

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband