Bresk skýrsla um loftslagsbreytingar segir tvísýnt um árangur

Nýkomin er út skýrsla Hadley Centre hjá bresku veðurstofunni um horfur í loftslagsmálum, byggð á útekt í risatölvu. Niðurstaðan er í senn athyglisverð og ógnvekjandi. Árangur eða mistök í að skera verulega niður í losun gróðurhúsalofts næstu 10 árin geta ráðið úrslitum um hvort takist að koma böndum á hlýnun Jarðar áður en það verður um seinan og hreinn voði blasi við mannkyni í lok þessarar aldar.

Undirbúningsviðræður vegna ráðstefnunnar í Kaupmannahöfn síðla á þessu ári um samkomulag um næsta losunartímabil eftir Kyótó hefjast eftir um þrjár vikur og breska skýrslan flytur mönnum gagnlegt nesti fyrir þann fund og framhaldið. Eins og stendur eykst losun gróðurhúsalofts um nálægt 3% árlega en frá og með árinu 2015 þyrfti þetta að hafa snúist við þannig að losun drægist saman ár hvert um 3% upp frá því. Þá gætu menn gert sér vonir um að takast mætti að ná markinu 50% minnkun í losun árið 2050 frá því sem hún var árið 1990.

Niðurstöður Hadley Centre sýna fram á að nái heimsbyggðin ekki saman um ofangreint markmið í Kaupmannahöfn standi veröldin frammi fyrir miklum hörmungum vegna hlýnunar og annarra breytinga í aldarlok, langtum verra ástandi en stjórnmálamenn hafi hingað til viljað horfast í augu við.

Í ljósi þessa er dapurlegt að heyra um innlegg Framsóknar- og Sjálfstæðisflokksþingmanna sem hafa það eitt til mála að leggja á Alþingi að krefjast beri í Kaupmannahöfn áframhaldandi undanþágu frá samningsmarkmiðum Íslandi til handa. Eru menn sem þannig tala með réttu ráði? 

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Baldur Gautur Baldursson

Er einmitt um þessar mundir að taka þátt í samræðuhópi um umhverfismál hér úti. Hægagangur virðist líka eiga við hér ytra, en Andreas Carlgren umhverfismálaráðherra virðist vera einbeittum um að núna eigi hjólin í umhverfismálunum að vera farin að snúast til varnar náttúrunni og framtíðinni. Hækkun eiturefna og útblástursskatts vill hann meina að muni verða til að "umhverfisvænir" bílar verði heldur fyrir kostinum nú þegar fólk sér verðmuninn á bílunum og á rekstri bílanna. Ég spyr nú bara eru til "umhverfisvænir bílar"?   Enginn bíll er umhverfisvænn...

En núna er umræðan komin í fullan swing hér úti!   Úr Dagens nyheter:  http://www.dn.se/opinion/debatt/vi-hojer-nu-skatten-rejalt-pa-koldioxid-och-diesel-1.816758

Baldur Gautur Baldursson, 10.3.2009 kl. 20:36

2 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

ER það skattlagningin sem heillar ykkur vinstrimenn svona upp úr skónum varðandi loftslagsmál? Gefið þið ekkert fyrir þær efasemdarraddir sem heyrast í síauknum mæli meðal vísindamanna um að útblásturinn sé e.t.v. ekki ástæðan fyrir hlýnuninni, sem vel að merkja hefur stöðvast alla þessa öld?

Gunnar Th. Gunnarsson, 11.3.2009 kl. 09:56

3 Smámynd: Baldur Gautur Baldursson

Gunnar:  Vandinn er ekki bara í formi útblásturs bíla. Vandinn er margþættur og ljóst að fólk sér ekki heildarmyndina, því hún er svo stór, svo víðfem. Mengun í hafi og niðurbrot á endurnýjunarmöguleikum og hreinsunarmöguleikum hafsins (sjá t.d. Eyrarsund við Svíþjóð, hafið er dautt!) til að vinna úr spilliefnum og að gefa vaxtarmöguleika fyrir auðlyndir okkar. Rányrkja er að gelda ræktunarsvæði út um allan heim. Rányrkjan gerir landið svo veikt að minnstu breytingar, s.s. þurrkar, vindlag og/eða rigningar gera að þessi lönd munu ekki geta orðið að eyðimörkum, uppblásturssvæðum eða gersamlega horfið.   Við þurfum ekki að leita langt, skoðum hvað gerðist á Íslandi.  Tilgátur um að heimurinn sé alltaf að ganga í gegnum breytingar - breytingar með nokkurra þúsundára millibili eru áhugasamar.  En rannsóknir sýna og sanna að áhrif mengunar og loftlagsbreytinga eru með öðrum hætti en áður. Hér er um heimatilbúinn vanda að ræða.

Baldur Gautur Baldursson, 11.3.2009 kl. 10:57

4 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Pistill Hjörleif er um loftslagsmál og hlýnun og þú nefnir skattlagningu.

En að sjálfsögðu er öll umræða um mengun og mengunarvarnir af hinu góða. Það er samt óþarfi að láta móðursýki ráða för og útblástursskattur gæti valdið meiri hörmungum hjá mannfólkinu en mengun í andrúmsloftinu.

Gunnar Th. Gunnarsson, 11.3.2009 kl. 12:52

5 Smámynd: Gunnlaugur B Ólafsson

Takk fyrir að halda mönnum við efnið í umhverfismálum, Hjörleifur. Nú þegar allur bílainnflutningur er stop þá væri æskilegt að breyta algjörlega um tón í bílainnflutningi. Fella niður gjöld á vistvæna smábíla.

Við höfum byggt upp mjög dreifða höfuðborg, sem gerir skipulagningu góðra almenningssamgangna erfiða. Því þarf að vera mikill metnaður og átak að skipta jeppaflotanum af götunum og fá vistvæna borgarbíla.

                    Með kærri kveðju,  G

Gunnlaugur B Ólafsson, 20.3.2009 kl. 09:00

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband