Sjávarútvegsráðherra gerir í bólið sitt

Einar K. Guðfinnsson stóð sig lengi vel nokkuð vel á stóli sjávarútvegsráðherra. Nú undir lok ferils síns hefur hann þó gert í bólið sitt, annars vegar með útgáfu viðbótarkvóta í þorski til tveggja ára og nú sitjandi í starfsstjórn með reglugerð um stórhvala- og hrefnuveiðar til 5 ára.

Þetta eru dapurlegar og fálmkenndar ákvarðanir sem spilla fyrir skynsamlegri auðlindanýtingu hérlendis og munu varpa löngum skugga á orðstír Íslands erlendis. Var þó ekki á bætandi eftir bankahrunið sem ríkisstjórn Geirs H. Haarde ber ábyrgð á.

Aukinn þorskveiðikvóti gengur gegn þeirri 20% aflareglu sem ráðherrann hafði áður tekið undir og setur stórt spurningarmerki við það einhliða vald sem sjávarútvegsráðherra, hver sem hann er, hefur fengið til að ákvarða aflamark í einstökum tegundum nytjastofna.

Hvalveiðireglugerðin mun ekki standa lengi spái ég eftir að ný stjórn hefur verið mynduð. Útgáfa hennar ber vott um örvílnun. Björg Thorarensen lagaprófessor segir skv. forsíðufrétt í Morgunblaðinu 28. janúar að unnt eigi að vera að breyta slíkri ákvörðun ráðherra í starfsstjórn án þess að það baki ríkinu skaðabótaábyrgð.

Rökleysa er hjá ráðherranum að telja sig vera að fara hér að ráðum Hafrannsóknastofnunar. Hennar niðurstaða skv. ástandsskýrslu segir aðeins um hvað óhætt væri að veiða án þess að skaða viðkomandi stofna en ekkert um að í slíkar veiðar skuli ráðist.

Fyrir heildarhagsmuni Íslands var ákvörðun ráðherrans glapræði og hermdargjöf, einnig fyrir sjávarútveginn með tilliti til sölu afurða erlendis.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Baldur Gautur Baldursson

Sennilega var hann sæll eftir að hann hafði sprænt á sig og heitt þvagið hélt honum heitum og æsing fréttarinnar um "valdbeitingu ráðherrans" var í ljósvakamiðlum. En nú er hann bara kaldur og blautur og gleðirdrífan yfirstaðin.  Uss.... kaldur, blautur og illa lyktandi.

Baldur Gautur Baldursson, 31.1.2009 kl. 21:16

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband