Meirihluti vill ekki sækja um ESB-aðild

Um 60% aðspurðra vilja ekki að sótt verði um aðild að ESB samkvæmt skoðanakönnun Fréttablaðsins sem birt er í dag. Þetta eru mikil umskipti frá könnun í október sl. þegar tæp 70% landsmanna töldu að sækja bæri um aðild. Meirihluti stuðningsmanna allra stjórnmálaflokka nema Samfylkingarinnar vilja nú ekki sækja um aðild og í þeim flokki styðja nú 73% aðild sem er veruleg fækkun frá stöðunni á liðnu hausti.

Hér eru mikil tíðindi á ferð í ljósi þeirrar háværu kröfu Samfylkingarinnar að sækja eigi um ESB-aðild. Undanfarið hefur raunar verið að koma í ljós minnkandi stuðningur við aðild þannig að viðsnúningurinn í þessari síðustu könnun kemur ekki svo mjög á óvart.

Augu landsmanna eru að opnast fyrir því hversu holt er undir röksemdum um að ESB-aðild muni leysa efnahags- og gjaldmiðilsvandann hérlendis en á því hefur Samfylkingin og ýmsir talsmenn Samstaka atvinnulífsins og ASÍ klifað. Rökin gegn aðild eru yfirgnæfandi ef fólk setur sig inn í gangverk Evrópusambandsins. Þegar við bætast fréttir um þá djúpstæðu kreppu sem þar grefur nú um sig með sívaxandi atvinnuleysi og mismunun lífskjara mun væntanlega fjara enn frekar undan hugmyndinni um að vænlegt sé fyrir Ísland að hugsa til aðildar að þessu fyrirhugaða stórveldi.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnlaugur B Ólafsson

Ég held að það sé staðreynd að þeim fer jafnt og þétt fjölgandi sem vilja fara í aðildarviðræður. Það er bæði skilningur í atvinnulífi og jafnframt hefur engin andstaða verið við þá löggjöf sem við höfum þurft að taka upp (ef frá eru taldir íslenskir flutningabílstjórar sem telja að þeir séu undantekningin og geti keyrt svefnlausir).

Reynslan af löggjöf ESB sýnir að þau styrkja ýmiskonar réttindi og eru yfirleitt til hagsbóta fyrir almenning. Þar má nefna til sögunnar umbætur er lúta að rétti almennings til að hafa áhrif í umhverfis og skipulagsmálum. Evrópusambandið hefur reynst öflugasti vettvangur fyrir umhverfissinnað fólk að hafa áhrif í hinum stærri málum s.s. varðandi hlýnun jarðar og fleira.

Engin ástæða er til að dæma samstarf þjóða innan Evrópu ævinlega úr leik. Jafnvel þó að gallar séu klárlega á sambandinu þá er ekki þar með sagt að það megi ekki bæta og breyta líkt og íslenskri stjórnskipan. Þessi skoðanakönnun er gerð í miðjum hvirfilbyl þar sem að fólk vildi ná fram breytingum strax. Burt með ríkisstjórn og flokksræði, inn með stjórnlagaþing og lýðræði. Þannig að þetta er fyrst og fremst þessi tímarammi.

Það þýðir ekki að bjóða fólki með sér í gönguferð sem er að verða of seint í leikhús. Þegar athyglin beinist frá bráðaaðgerðum og að stöðu okkar sem þjóð meðal þjóða til lengri tíma, tengslum og myntsamstarfi, þá er ESB ikke det værste man har. Með kærri kveðju, G

Gunnlaugur B Ólafsson, 28.1.2009 kl. 17:08

2 Smámynd: Hjörleifur Guttormsson

Sæll frændi. Ósköp er að sjá hversu lítið og yfirborðslega þú hefur kynnt þér Evrópusambandið og það regluverk sem að baki býr. Í Morgunblaðinu í dag birtist eftir mig eftirfarandi grein sem ég miðla þér hér með. Það er annars heldur döpur vegferð sem þú hefur lagt upp í með Samfylkingunni í Evrópumálum, en auðvitað verður þú að reyna að sjá fótum þínum forráð

. Ég held Samfylkingin eigi eftir að fara flatt á sínum einfeldningslega boðskap um evru og ESB-aðild sem allra meina bót. Hér fer á eftir Morgunblaðsgrein mín undir fyrirsögninni

Evrópusambandið, Ísland og umhverfismálin

Það er mikil einföldun þegar umhverfisráðherra og fulltrúi hans í Brussel (sjá Mbl. 9. og 12. janúar sl.) leitast við að gylla Evrópusambandið sem sérstakt forystuafl í umhverfismálum. Framganga ESB á þessu sviði er misjöfn eftir því hvar borið er niður og efnahagsstefna sambandsins vinnur gegn markmiðinu um sjálfbæra þróun. Samanburðurinn við stöðu umhverfismála hérlendis segir fyrst og fremst sína sögu um tregðu og skammsýni íslenskra stjórnvalda í umhverfismálum um langa hríð. Baráttan fyrir umhverfisvernd á sér fremur rætur í starfsemi Sameinuðu þjóðanna og baráttu umhverfissamtaka víða um heim en innan framkvæmdastjórnar ESB þar sem flest annað en umhverfisvernd hefur forgang. 

Alþjóðleg samvinna á umhverfissviði

Síðustu fjóra áratugina hefur alþjóðleg samvinna í umhverfismálum aukist stig af stigi og haldist að nokkru í hendur við vaxandi skilning á þeim vanda sem mannkynið stendur frammi fyrir vegna fjölþættra áhrifa af iðnvæðingu og fólksfjölgun. Sameinuðu þjóðirnar hafa með stofnunum sínum, alþjóðaþingum og sáttmálum verið kveikjan að þessari samvinnu og frjáls umhverfisverndarsamtök rekið á eftir úrbótum og unnið ómetanlegt starf. Gildir það jafnt innan þjóðríkja og á alþjóðavettvangi. Þetta víðtæka alþjóðlega samstarf vill stundum gleymast þegar kemur að svæðisbundinni samvinnu, sem hvað Ísland varðar er einkum á vettvangi Norðurlandaráðs, Evrópska efnahagssvæðisins og Norðurheimskautsráðsins. Á Ríó-ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna 1992 voru samþykkt mikilvæg stefnumið og sáttmálar á umhverfissviði. Evrópusambandið hefur síðan á mörgum sviðum lagt sig fram um að móta reglur og viðmiðanir sem einnig hafa verið teknar upp í löggjöf hérlendis innan ramma EES-samningsins. Enn hefur þó ekki tekist að fá lögfest hér á landi meginmarkmið umhverfisréttar. 

Umhverfisáhrif innri markaðar ESB

Innri markaður Evrópusambandsins sem stofnað var til1992 var aðferð evrópskra auðhringa til að ná frumkvæði í harðnandi samkeppni á alþjóðamörkuðum. Fjórfrelsið svonefnda, þ.e. frjálst streymi af vörum, þjónustu, fjármagni og vinnuafli óháð landamærum þjóðríkja var þar burðarásinn og varð kjarninn í samningnum um Evrópska efnahagssvæðið. Ákvæði þess samnings um óheftar fjármagnshreyfingar og tilskipanir um  bankastarfsemi eru bakgrunnur bankahrunsins hér á landi sl. haust og þeirrar þróunar sem til þess leiddi. Frá upphafi var ljóst að vaxtarhagfræðin að baki innri markaðarins samræmdist illa hugmyndunum um sjálfbæra þróun. Þetta mátti lesa í „Taskforce skýrslu“ framkvæmdastjórnar ESB 1990 þar sem m.a. var bent á að að flutningastarfsemi innan svæðisins myndi aukast um 30–50%. Síðasta heildarúttekt Umhverfisstofnunar Evrópu (EEA) frá árinu 2005 ber vott um að þrátt fyrir  jákvæðan árangur á ýmsum sviðum séu vistfræðileg fótspor (ecological footprints)   Evrópusambandsins margföld umfram það sem sjálfbært geti talist, þ.e. 5 hektarar á mann í stað 1–2 ha. Orkunotkun og losun gróðurhúsalofts fer vaxandi á ESB-svæðinu og sýnilegir erfiðleikar eru í vegi að ná settum markmiðum í loftslagsmálum og á mörgum öðrum sviðum.

Fjórfrelsið á kostnað umhverfisins

Innan Evrópusambandsins má segja að umhverfisþættir séu á þriðja farrými, þar eð tilskipanir sem gera ráð fyrir óheftri samkeppni á vöru- og þjónustusviði hafi forgang. Í þessu sambandi hefur verið bent á svonefnda umhverfistryggingu eða „miljøgaranti“ í grein 100 A í Rómarsamningnum sem heimili aðildarríkjum að setja eða viðhalda strangari reglum en almennt gildi innan ESB. Þetta hefur reynst haldlítið eftir að ESB-dómstóllinn hefur ítrekað dregið úr vægi slíkrar tryggingar. Á þetta reyndi m.a. í svonefndum PCP-dómi ESB-dómstólsins árið 1994 sem féll á þann veg að ekki mætti banna umrætt efni sem við bruna getur breyst í díoxín. Jafnframt var kveðið svo á að ekki megi beita þessu ákvæði nema fyrirfram liggi fyrir heimild frá framkvæmdastjórn ESB og sérstakur rökstuðningur verði að fylgja til að heimila undanþágur frá sameiginlegum reglum vegna umhverfissjónarmiða.   

Þjóðríkin svipt samningsumboði

Meðal afdrifaríkustu þátta af ESB-aðild er sú staðreynd að aðildarríkin eru svift samningsumboði á umhverfissviði og í öðrum samningum við þriðju aðila. Þetta birtist m.a. á vettvangi allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna, í undirstofnunum þeirra og á stefnumarkandi þingum eins og glöggt kom í ljós á ráðstefnunni um sjálfbæra þróun í Jóhannesarborg árið 2002. Þar eins og í Ríó og víðar notuðu fulltrúar Noregs málfrelsi sitt og tillögurétt sem ríkis utan ESB til að ná fram ávinningum á umhverfissviði og koma í veg fyrir undanhald. Í drögum að lokaályktun ráðstefnunnar var setning þess efnis að sáttmálar á umhverfissviði verði framvegis að falla að viðskiptareglum WTO. Á þetta hafði ESB og Bandaríkin fallist en Noregur og Etíópía andmæltu og söfnuðu liði sem nægði til að ákvæðið var fellt út. Á hliðstæðan hátt gæti Ísland utan Evrópusambandsins tekið málstað umhverfisins ef vilji stæði til.

Hjörleifur Guttormsson, 28.1.2009 kl. 17:33

3 Smámynd: Gunnlaugur B Ólafsson

Takk fyrir þetta Hjörleifur, eins og þig getur grunað að þá vildi ég gjarnan vera þér sammála um Evrópumálin og met þína þekkingu á því sem mörgu öðru.

Hinsvegar sé ég ekki ástæðu til að mér sé skákað algjörlega út af borðinu á þeirri forsendu að ég sé fákunnandi eða yfirborðslegur í skrifum.

Á endanum trúi ég að uppgjörið snúist ekki um sigur með rökum. Með sitt hvor gleraugun má afla sér rökstuðnings fyrir ólíkri niðurstöðu. Kostirnir eru fleiri en gallarnir eða öfugt.

Sífellt fleiri mál byggja á alþjóðlegum úrlausnum. Fjarlægðir eru afstæðar og ferðalag til Reykjavíkur af Austurlandi fyrir fimmtíu árum var meira mál en að fara nú til meginlandsins.

Við eigum að fylgja Norðurlandaþjóðunum og stilla með þeim strengi og hafa sameiginleg áhrif í samvinnu innan Evrópu. Þannig finnst mér það borðleggjandi hverjum við tilheyrum og viljum vera samferða í heimspólitíkinni.

Finnst þér það ekki merkilegt að ekki hafi skapast deilur í íslensku samfélagi út af nokkurri lagasetningu eða reglugerð frá ESB nema hvíldartíma atvinnubílstjóra?

Ef þetta er jafn skelfilegt fyrirbæri og sumir láta, afhverju er engin óánægja með samskiptin? Þó sumir og jafnvel hátt settir, hafi viljað komast undan okkar alþjóðlegu skuldbindingum.

Varðandi umhverfismálin þá skrifaði Árni Finnsson formaður Náttúruverndarsamtaka Íslands skrifar ágæta grein sem að hann nefnir "ESB er meira en evra"

Held að VG geti farið flatt á orðræðu sem gengur út á að mála ESB eingöngu svörtum litum og sem afsprengi auðhringa. Það er töluvert meira en kola- og stálbandalag. Með kærri kv.  G

Gunnlaugur B Ólafsson, 29.1.2009 kl. 00:04

4 Smámynd: Hjörleifur Guttormsson

Sæll frændi.

Það er misskilningur hjá þér að ekki hafi verið ágreiningur um lögfestingu tilskipana ESB hérlendis nema varðandi hvíldartíma bílstjóra. Þú hefur ekki fylgst vel með þessu. Hins vegar er þannig um hnútana búið í EES-samstarfinu að einstök ríki eiga þess ekki kost að neita að innleiða tilskipanir frá Brussel nema eiga á hættu gagnaðgerðir af hálfu ESB, sem kippt getur ákveðnum sviðum samstarfsins úr sambandi.

Þrátt fyrir það hafa ítrekað verðið deilur á Alþingi eins og í norska Stórþinginu um einstakar tilskipanir. Hér má m.a. nefna tilskipunina um samkeppni á raforkumarkaði og í Noregi eins og raunar í ýmsum ESB-ríkjum hafa staðið miklar deilur um þjónustutilskipun ESB.

Sú kreppa sem yfir Ísland reið fyrst Evrópuríkja sl. haust með falli bankanna á rætur sínar í EES-samningnum, þ.e. fjórfrelsisreglunni um óheftar fjármagnshreyfingar. Tilskipanir ESB um bankastarfsemi eru þessu tengdar. Án þessara tilskipana og aðildar okkar að EES hefði útrásin ekki orðið með þeim hætti sem kollsigldi íslensku fjármálakerfi.

Sá sem þetta skrifar margvaraði við afleiðingum EES-samningsins á Alþingi 1990-1993 eins og lesa má um í þingskjölum, m.a. hættunni af óheftum fjármagnshreyfingum fyrir lítið hagkerfi eins og það íslenska.

Hjörleifur Guttormsson, 29.1.2009 kl. 10:13

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband