7.4.2009 | 11:17
Framsókn og Sjálfstæðisflokkur vegviltir í loftslagsmálum
Loftslagsútspil Framsóknar og Sjálfstæðisflokks á Alþingi verður sögulegt plagg. Aldrei hafa þessir gömlu stóriðjuflokkar opinberað skammsýni sína jafn átakanlega og í þessu stærsta umhverfismáli samtímans. Í stað þess að Ísland leggist á árar til að draga úr losun gróðurhúsalofts á heimsvísu heimta þeir framlengingu á sérréttindum með "íslenska ákvæðinu". Ísland keppir nú við Bandaríkin um heimsmet í losun gróðurhúsalofttegunda á mann. Nú þegar ný forysta í Bandaríkjunum er að sjá að sér stíga þeir Sigmundur Davíð og Bjarni Ben fram á völlinn og vilja herða enn á stóriðjusókninni þannig að Ísland verði örugglega óskoraður umhverfissóði á heimskortinu.
Fá lönd eiga jafn mikið undir því og Ísland að böndum verði komið á loftslagsbreytingar af mannavöldum. Verkefnið er að hver þjóð leggist á árar til að MINNKA losun gróðurhúslofts um a.m.k. 50% næstu áratugina. Í stað þess að taka undir slíkt heimta þingmenn þessara flokka nú fríspil fyrir Ísland, sjálfsafgreiðslu til að menga meira og meira. Rökin eru "vinnumarkaðssjónarmið" og "rekstrargrundvöllur íslenskra orkufyrirtækja."
Ég hefði haldið að orðstír Íslands væri nógu illa komið þótt slík boð bætist ekki við til alþjóðasamfélagsins.
Sjálfstæðismenn og framsóknarmenn í meirihluta | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Fróðlegt væri að sjá rökin fyrir því að fáar þjóðir eins og Íslendingar eigi jafn mikið undir því að komið verði böndum á loftslagsmálin. Hvers vegna telurðu að Íslendingar eigi flestum þjóðum fremur meira í húfi? Hef hvergi séð það áður.
Sigurður Þór Guðjónsson, 7.4.2009 kl. 11:56
Sæll Sigurður.
Ísland liggur á mótum hafstrauma úr norðri og suðri. Það eru þessi skil sem mestu valda um fjölbreytni og grósku vistkerfa í hafinu á Íslandsmiðum. Hlýnun mun raska þessu ástandi með ófyrirsjáanlegum afleiðingum fyrir íslenskan sjávarútveg.
Þess utan kann svo að fara að með hlýnun verði breyting á afli Golfstraumsins og að hann skili sér ekki hingað eða úr krafti hans dragi í norðaustanverðu Atlantshafi.
Þær þjóðir sem fyrst og harðast verða úti ef fram fer sem horfir eru íbúar lágra Suðurhafseyja sem beinlínis fara í kaf við hækkandi sjávarborð.
Hjörleifur Guttormsson, 7.4.2009 kl. 15:41
Sæll Hjörleifur.
Það er sjaldan ein báran stök. Ég var í netsímaskrá Mbl.is og þar gat að líta fína auglýsingu frá Framsókn með mynd af Sigmundi Davíð. Ég smellti á myndina af eðlislægri forvitni og beið í eftirvæntingu nokkur augnalok og hvað kom í ljós ?
Fatal Error ! Þetta veit ekki á gott, tel ég. Þótt Framsókn eigi nóga peninga, eiga þeir ekki að eyða þeim í ónýtar auglýsingar.
Með kveðju, KPG.
Kristján P. Gudmundsson, 7.4.2009 kl. 16:24
Sæll aftur Hjörleifur.
Varðandi hlýnun Jarðar hefur mér skilist, að Össur ráðherra vilji ólmur hefja útboð á borreitum á Drekasvæðinu, þar sem talið er að finna megi bæði gas og olíu ? Þarna gæti böggull fylgt skammrifi, nema hvað ?
Það má lítið útaf bregða við þessar aðstæður, svo að ekki verði stórfelld spjöll eða náttúruslys, sem getur orðið okkur, Íslendingum og grannþjóðum okkar dýrkeypt sem þú bendir réttilega á.
Vinstri Grænir verða heldur betur að standa á bremsunni, ef þið farið í stjórn með Samfó að loknum kosningum.
Með kveðju, KPG.
Post scriptem : Ég hefði átt að segja , standa á bremsunum, því að Samfó vill ein flokka biðja Brussel-valdið um inngöngu í ESB !
Kveðja, KPG.
Kristján P. Gudmundsson, 7.4.2009 kl. 16:55
Meðal annarra orða: Er að lesa frábæra bók þína um Úthérað!
Sigurður Þór Guðjónsson, 7.4.2009 kl. 21:33
Sammála þér Kristján um að menn þurfa heldur betur að gæta að sér áður en ráðist er í olíuvinnslu á Drekasvæðinu eins og annars staðar í Norður-Íshafi.
Landsfundur VG ályktaði raunar um þetta mál og taldi að Íslendingar ættu að beita sér fyrir friðlýsingu Norðurheimskautssvæðisins svipað og gert hefur verið á Suðurskautslandinu.
Stóra hættan í samhengi loftslagsbreytinga varðar losun metans úr freðmýrum og af hafsbotni ef ekki tekst að stöðva mengun loftshjúpsins með gróðurhúsalofti. Metan er 20 sinnum öflugra gróðurhúsaloft en koldíoxíð.
Þakka þér Sigurður umsögnina um árbók Ferðafélagsins 2008. Það er gott að heyra frá glöggum mönnum hvernig þeim líkar svona verk.
Hvet að endingu sem flesta til að horfa á mynd Andra Snæs og félaga Draumalandið sem nú er sýnd í Háskólabíó. Hún lætur engan ósnortinn.
Hjörleifur Guttormsson, 8.4.2009 kl. 08:27
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.