Mótsagnakenndur málflutningur Samfylkingarinnar

Vikum saman hefur Samfylkingin kallað eftir afsögn Davíðs Oddssonar. Halda mætti að þar með væri öllu réttlæti fullnægt eftir bankahrunið. Hver ráðherrann á fætur öðrum hefur tönnlast á þessari kröfu, Ingibjörg og Össur þar í fararbroddi, fyrir utan bankamálaráðherrann Björgvin sem vissi ekki nokkurn skapaðan hlut hvað var að gerast. - Eftir ræðu Davíðs hjá Viðskiptaráði bregður hins vegar svo við að Ingibjörg formaður veitti Davíð erkifjanda siðferðisvottorð, hann hefði ekkert misjafnt aðhafst sem seðlabankastjóri, og aðeins það eitt út á hann að setja að hafa verið að vasast í stjórnmálum hér á árum áður. 

Sá sem þetta ritar hefur lengi verið þeirrar skoðunar að fyrrum stjórnmálamenn eigi ekki að koma nálægt bankastjórastörfum og brýnt sé að lögfesta þá skipan. Hins vegar hefur nánast verið hefð fyrir slíku eins og sést ef litið er til baka: Steingrímur Hermannsson, Jón Sigurðsson krati og Tómas Árnason svo nokkrir fyrrum ráðherrar séu nefndir.

Sjálf hefur Ingibjörg upplýst að hún hafi setið eina 6 fundi með Seðlabankamönnum fyrr á árinu, m.a. þann 6. febrúar þegar lesnar voru upp háalvarlegar aðvaranir Seðlabankans um stöðu bankanna og horfur framundan. Ekki verður öðru trúað en hún sem formaður hafi komið þessum aðvörunum áfram til samráðherra í Samfylkingunni, þar á meðal til bankamálaráðherrans sem segist vera alveg stikkfrí. Samfylkingin hefur greinilega ætlað að firra sig ábyrgð með því að benda á sökudólginn Davíð Oddsson. Það er ótrúverðugt og nú er Ingibjörg farin að skynja það og dregur heldur betur í land. Kannski bankamálaráðherrann sé líka farinn að ókyrrast. Vissi Björgvin kannski meira en hann lætur?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband