Hrikaleg uppgjöf í Icesafe-deilunni

Niðurstöðunni sem utanríkisráðherra, formaður Samfylkingarinnar, nú hefur kynnt í deilunni við Evrópusambandið um Icesafe-reikningana verður ekki jafnað við neitt annað en afarkosti. Vinnubrögð ríkisstjórnarinnar í þessu örlagaríka máli hafa verið forkastanleg og bæta gráu ofan á svart.

Fullkomin óvissa er um hversu mikið fæst fyrir svonefndar eignir Landsbankans fyrrverandi og vissara að gera ráð fyrir að það verði lítið þegar til kastanna kemur. Óvissuna um þetta staðfesti reyndar Sigurjón fv. bankastjóri í viðtali við Stöð 2. Hér er verið að skrifa upp á reikning sem örugglega nemur hundruðum milljarða og sem fellur á Íslendinga að greiða næstu ár og áratugi.

Evrópusambandið hefur sýnt sitt rétta andlit í þessu máli og jafnframt er ljóst hverju fjórfrelsi EES-samningsins er að valda Íslendingum, samningurinn sem Jón Hannibalsson kynnti upp úr 1990 með þeim orðum að hann færði þjóðinni  allt fyrir ekkert! 

Það er sögulegt að á undirskriftardegi þessa Icesafe-víxils hafa Sjálfstæðisflokkur og Framsókn ákveðið að svara innan fárra vikna spurningunni um hvort stefnt skuli að aðild Íslands að Evrópusambandinu. Afarkostirnir sem ESB nú hefur sett Íslendingum ættu að auðvelda þessum flokkum svarið séu þeir ekki með öllu heillum horfnir.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Jæja kæri, nú hefur lansölumönnunum tekist það. Nú er þetta búið. Það er engin leið að leysa þetta. Nú þarf blóðuga byltingu.  Allir Íslendingar þurfa að flýja úr landi og senda tekjur heim til að standa straum af þessari sturlun. Og á meðan situr alþingi og ræðir um menningarhús og fitusýrur í matvælum.  Skömm mín og reiði á sér engin takmörk. Ég vil blóð.

Jón Steinar Ragnarsson, 17.11.2008 kl. 05:16

2 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Lögleysa EU felst í því að aldrei skal litið til aðstæðna og aldrei skal hvikað frá einum stafkrók dogmans, því þá fellur ritningargreinin um sjálfa sig vegna fordæmis.  Þetta vilja menn í ofanálag við að henda landinu í hendur auðhringa. Hinn endanlega, hreinræktaða Fasisma.

Jón Steinar Ragnarsson, 17.11.2008 kl. 05:22

3 Smámynd: Baldur Gautur Baldursson

Allt sem víkur að starfsemi IMF sýnir okkur ljótustu myndir hins vestræna auðvalds. Dæmin um þvinganir, niðurbrot á uppvaxandi lýðræðisfyrirkomulagi og jafnvægi er að finna víða sem afreksverk IMF.   Eftir IMF er slóð ljótra verka þar sem vaxandi löndum hefur verið komið á nánast steinaldarstigið.

Af hverju reyndum við ekki fyrir okkur utan Evrópu með lán og lánafyrirgreiðslur?  Allt betra en IMF.

Baldur Gautur Baldursson, 17.11.2008 kl. 07:24

4 Smámynd: Ásta Steingerður Geirsdóttir

Sæll Hjörleifur og þakka þér skeytið í haust.

Ég er bara harmi slegin hvernig þessir svokölluðu forsvarmenn þjóðarinnar haga sér. Veruleikafyrringin er slík að með fádæmum hlýtur að teljast. Það er skelfing til þess að hugsa að heil þjóð skuli vera sett að veði fyrir eigin hagsmuni og valdagræðgi. Þetta ráðherraslekti og svokallaðir seðlabankastjórar eru í vinnu hjá okkur og hrædd er ég um að hinum almenna launamanni hefði fljótt verið sparkað hefði hann ekki sinnt vinnu sinni betur en þessir prelátar hafa gert. Þeir hafa  liðið áfram í eigin heimi á hraða skjaldbökunnar, blaðrað innantómar klisjur á blaðamannafundum og étið hver upp eftir öðrum. Þeir gera gys að okkur sem mótmælt hafa undangengnar helgar og skella skollaeyrum við hrópum almennings á réttlátar kröfur. Þetta er sjálfsagt þetta svokallaða lýðræði sem svo gumað er af. Samfylkingarfólk ætti að skammast sín, að taka þátt í svona ljótum leik. Ég er MJÖG reið og skal engann undra. Það er búið að selja okkur. Hvað annað er hægt að kalla þennan hrylling.

Ásta Steingerður Geirsdóttir, 18.11.2008 kl. 17:37

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband