Hremmingar hjá Evrópusambandinu

Það ætlar ekki af ESB að ganga. Drjúgur meirihluti Íra felldi á dögunum Lisabon-samninginn sem koma átti í staðinn fyrir andvana stjórnarskrá. Nú neitar forseti Póllands að undirrita samninginn þótt pólska þingið hafi staðfest hann. Í Þýskalandi ríkir óvissa um stöðu samningsins gagnvart þarlendri stjórnskipan og í Tékklandi er enn óvíst um afdrif samningsins í þinginu. Staðan í þessu "lýðræðisbandalagi" er slík að ráðandi öfl annars staðar en á Írlandi þora ekki að boða til þjóðaratkvæðagreiðslu um samninginn. ESB hefur fram að þessu stefnt markvisst að því að minnka vægi aðildarríkjanna og þróa sambandið í átt að ríkisheild. Þessi stefna mætir nú vaxandi andstöðu almennings í flestum ESB-löndum.

Stefna Samfylkingarinnar er gagnrýnislaus tilbeiðsla á Evrópusambandinu og fyrirvaralaus krafa um að Íslendingar gangi í klúbbinn. Þar virðist reynslan engu máli skipta eða stjórnarhættir sem gefa lýðræðinu langt nef. Undir þessa kröfu taka sum samtök atvinnurekenda hérlendis og talsmenn bankanna sem öðrum fremur bera ábyrgð á þeim vandræðum sem peningamálastefnan hérlendis hefur ratað í. Vonandi bera sem flestir gæfu til að hlusta ekki á þessi óráð. Að því hlýtur líka að koma að fólk innan Samfylkingarinnar rísi gegn leiðsögn Ingibjargar og Össurar í þessu máli og opinberri stefnu Samfylkingarinnar um ESB-aðild sem knúin var fram fram með póstkosningu við stofnun flokksins.

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband