Feigðarflan kallar á endurskoðun

Fregnir af mannskaða og fólki í nauðum á Langjökli í tvígang á síðustu vikum lætur engan ósnortinn. Menn hrósa happi þegar björgun tekst giftusamlega en jafnframt vakna margar spurningar um ferðir og ferðatilhögun á jöklum landsins. Ég tel að atburðir síðustu vikna á Langjökli og ófáar hliðstæður á liðnum árum kalli á endurskoðun ferðamála að því er varðar ferðalög, ekki síst vélknúna umferð á jöklum landsins.

Yfirstjórn ferðamála í landinu ætti hið fyrsta að kalla til hóp valinkunnra til að fara yfir alla þætti ferðamennsku á jöklum landsins og gera tillögur um hvernig að skuli standa framvegis. Þar þarf að leita svara við mörgum grundvallarspurningum sem varða skipulag slíkra ferða og öryggisþætti, leyfisveitingar til þeirra aðila sem reka þjónustu sem tengist jöklaferðum, leiðsögn, tryggingar og eftirlit. Jafnframt ætti að fara yfir hvaðeina sem lýtur að umhverfisáhrifum slíkra ferða, mengunarhættu vegna sívaxandi umferðar, áhrif á aðkomuleiðir og jaðarsvæði jöklanna og truflun gagnvart þeim sem kjósa göngu- og skíðaferðir á jöklum.

Við skulum líka hafa í huga að Langjökull og Þingvallasvæðið er hluti af framtíðar vatnsforðabúri höfuðborgarsvæðisins og mengun á og í jöklinum af völdum umferðar getur komið fram mörgum áratugum síðar í grunnvatni. Þannig er að fjölmörgu að hyggja, einnig að siðferðilegum álitaefnum. Ræða þarf þessi málefni m.a. við þá sem telja sig hafa hagsmuna að gæta í bráð, en síðast en ekki síst eru það framtíðarhagsmunir alls almennings og mælikvarðar um sjálfbærni sem eiga að ráða stefnunni. Horfa ber til þess hvernig að málum er staðið í umgegni við jökla erlendis, m.a. í Noregi og í Ölpunum. Óbreytt og versnandi ástand í umgengni við jöklana hérlendis stefnir í óefni sem kemur öllum í koll. Látum nýliðna viðburði okkur að kenningu verða.

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Eru ekki komnir einhvejrir peningalegir hagsmunir inn í þetta sem brengla alla sýn eins og fyrri daginn.

Sigurður Þór Guðjónsson, 15.2.2010 kl. 11:31

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband