26.4.2009 | 11:05
VG ótvíræður sigurvegari kosninganna
Í tvennum kosningum 2007 og 2009 hefur VG verið hástökkvarinn: Fer úr 8,8% í 14,3% og nú 21,7% og 14 þingmenn. Sigur VG opnar á rauðgræna meirihlutastjórn ef Samfylkingin áttar sig í ESB-málum.
Íslendingar eru ekki á leið inn í Evrópusambandið eins og Samfylkingin reynir að telja sínu fólki og umheiminum trú um. Sjálf hefur hún engin samningsmarkmið önnur en bara inn, inn í gin úlfsins. Slíku fólki er ekki treystandi fyrir íslenskum hagsmunum. ESB sjálft er á leið í djúpa kreppu sem óvíst er hvort sambandið lifir af í núverandi mynd.
Framundan bíða erfiðustu pólitísk verkefni á lýðveldistímanum. Arfleifð þríflokksins (D+B+S) skilur víða eftir sviðna jörð og rústir. Við þessar aðstæður reynir öðru fremur á VG að jafna byrðunum, rífa þjóðina upp úr hörmungunum samhliða því að standa vörð um náttúru og umhverfi. Endurmótun stjórnarskrár bætist við þau verk sem bíða.
Frjálslyndi flokkurinn er horfinn í gröf sem hann gróf sér sjálfur. Borgarahreyfingin fyllir í sæti hans á Alþingi, tímabundið afl að eigin sögn og óráðið um flest.
Stjórnarmyndun getur tekið tíma þótt mikið sé þrýst á VG og Samfylkingu að endurnýja samstarfið með stjórnarsáttmála til frambúðar. Það er næsti kapall nú eftir að þjóðin hefur fellt sinn dóm.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
25.4.2009 | 10:49
Gaman og alvara í Laugardalslaug að morgni kjördags
Ég naut þess að heimsækja Laugardalslaug í morgun, taka sundsprett og hlýja mér með kunningjum í heita pottinum. Björn Bjarnason var á næstu braut eins og venjulega en við Bjarni Guðnason busluðum saman og rifjuðum á eftir upp kosningabaráttu í alþingiskosningum á Austurlandi 1978 og 1979. Bjarni var þá í 1. sæti fyrir Alþýðuflokkinn í Austurlandskjördæmi en ég í 3. og síðan 2. sæti fyrir Alþýðubandalagið. - Fyrnefndu kosningarnar lyftu A-flokkunum í áður óþekktar hæðir með um 45% samanlagt og 14 þingmenn hvor flokkur. Bjarni var ekkert langt frá því að vinna þingsæti eystra en fór af landi brott alla leið til Ástralíu á ráðstefnu viku fyrir kjördag. Fiskisagan flaug um allt Austurland samdægurs og við settum í fyrirsögn kosningablaðs: "Frambjóðandi Alþýðuflokksins farinn á kengúruveiðar í Ástralíu." Þetta kann að hafa kostað Bjarna þingsætið. Bjarni er með skemmtilegri mönnum og í pottinum rifjaði hann upp veru sína í Hraunkoti í Lóni þaðan sem hann fór með Sigurlaugu og Skafta á framboðsfund 1937 9 ára gamall. Þar sló hann mig út því ég man fyrst eftir framboðsfundi sem ég sótti á Reyðarfirði fyrir haustkosningarnar 1949. Saman hefðum við Bjarni getað bætt ýmsu kryddi í stjórnmálasögu fyrri hluta 20. aldar ef sagnfræðingur hefði verið nærstaddur.
Alvaran leyndi sér hins vegar ekki undir niðri meðal baðgesta í Laugardalslaug. Maður sem sjaldan er margmáll tók af skarið um að ekki myndi hann nú kjósa Sjálfstæðisflokkinn sem staðinn væri að því að hafa þegið mútur voldugra hagsmunasamtaka fyrir síðustu kosningar. Annar kvað upp úr um það óspurður í tveggja manna tali að nú færi hann beint á kjörstað og kysi það sem verst kæmi Sjálfstæðisflokknum. Því er ljóst að það sýður á mörgum fyrrum stuðningsmönnum flokksins. - Árni Björn "kristni" var staðinn að því að dreifa miðum á setbekki karlabaðklefanna merkta x0. Hann er því kominn í heilan hring í flokkaflórunni og endar sennilega hjá Ástþóri undir kvöld.
Nú er Dagur umhverfisins og vel til fundið að líta við í Iðnó eftir hádegið þar sem rýnt verður í framtíðina. Allt eru það smáræði erfiðleikarnir sem við blasa á Íslandi og heimsbyggðinni allri hjá þeim ógnum sem barnabörnin þurfa að glíma við vegna röskunar á umhverfi jarðar af mannavöldum þegar líður á þessa öld. Miðað við þær horfur er jafngott að Íslendingar gæti vel að því sem þeir þó eiga, landi og fiskimiðum, og gangi ekki stórveldabandalögum á hönd.
Svo sjáum við til kvað kemur upp úr kössunum þá kvöldar.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
24.4.2009 | 11:36
Nú hriktir í stoðum Evrópusambandsins
Degi fyrir kosningar auglýsir formaður Samfylkingarinnar: "ESB snýst um vinnu og velferð." Önnur eins öfugmæli hafa ekki sést lengi, því að atvinnuleysi slær nú fyrri met í ESB og kjaramismunun vex þar hröðum skrefum. Þessa dagana hriktir í stoðum stærstu ríkja ESB, Þýskalands, Frakklands og Bretlands, vegna þunga efnahagskreppunnar og ótta valdhafa við uppreisn almennings.
Þýskir fjölmiðlar ræða þessa dagana hræðslu ráðamanna við félagslega upplausn og óeirðir þegar líður á árið. Ein helsta efnahagsstofnun Þýskalands (ifo í Munchen) spáir 6% samdrætti og að fjöldi atvinnulausra verði 4,7 milljónir síðar á árinu. Í hópi þeirra sem vara við óeirðum eru Michael Sommer forseti verkalýssambandsins DGB og Gesine Schwan forsetaframbjóðandi sósíaldemókrata. Skyldi Jóhanna Sig hafa talað við þessi skoðanasystkin sín nýlega?
Ekki er ótti franskra valdhafa við félagslegan óróa og alþingi götunnar minni þessa vordaga. Henri Guaino aðstoðarmaður Sarkozys forseta sagði í sjónvarpi fyrir fáum dögum að pólitíska ókyrrðin fari vaxandi, "hætta á upplausn og uppreisn sé mjög mikil." Franska stjórnin býr sig nú undir erfiða vordaga. Ekki bindur almenningur traust sitt við franska krata þar sem hver höndin er upp á móti annarri. Í kosningum til Evrópuþingsins í júní stefnir í stóraukið fylgi við miðjumanninn Bayrou og andkapítalistann Besancenot.
Í Bretlandi eru horfurnar ekki bjartar hjá Gordon Brown, og risið á New Labour sjaldan verið lægra. Atvinnuleysi í síðasta mánuði nam 6,7% og stefnir í 10% innan árs að mati bresku hagstofunnar. Jafnframt hrúgast upp opinberar skuldir. Samfylkingin mun hins vegar hafa gleymt að senda fulltrúa sinn Björgvin G. Sigurðsson til Bretlands nú fyrir kosningarnar til að kynna sér ástandið eins og gert var hér um árið.Svona eru horfurnar í meginstoðum ESB-framtíðarlands Samfylkingarinnar, og hefur þá ekki verið skyggnst til litlu burðarásanna allt um kring, Írlands, Lettlands, Ungverjalands og Grikklands þar sem jaðrar við neyðarástand, eða til Spánar þar sem atvinnuleysið stefnir nú í 20%. Skiptir hér engu hvort þarlendir búa við evru eða eigin gjaldmiðil.
Hvernig væri að Jóhanna brygði sér út fyrir pollinn eftir helgina með Björgvin G. með sér sem túlk, þ.e. áður en boðið verður upp í dansinn um aðildarumsókn?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)
22.4.2009 | 10:28
Málflutningur á ótrúlega lágu plani
Mig rak í rogastand að hlýða á viðtal við Jóhönnu Sigurðardóttur á sjónvarpsvef Mbl í gær. Hún hafði efnislega ekkert fram að færa annað en tönnlast á ESB-aðild sem allrameinabót. Hún tók meira að segja undir með Benedikt Jóhannessyni sem rekur nú stanslaust hræðsluáróður um annað hrun ef Íslendingar kyngi ekki ESB-aðild.
Eitt af því sem borið er á borð og Jóhanna skrifaði upp á með Benedikt framkvæmdastjóra er að umsókn um ESB-aðild strax í júní sé svo mikilvæg þar eð Svíar verði í forsæti fyrir ESB á seinni helmingi ársins. Þetta afhjúpar slíka fávisku að halda mætti að viðkomandi sé ekki sjálfrátt. Umsókn um ESB-aðild fer ekki í hendur formennskuríkis hverju sinni heldur til framkvæmdastjórnarinnar í Brussel sem sér um samninga við önnur ríki.
Álíka gáfulegur er forsíðuuppsláttur Fréttablaðsins um að Bretar muni hjálpa Íslandi inn í ESB á mettíma og bæta með því fyrir að beita hryðjuverkalögum á Íslendinga. Flest er þannig tínt til af merkingarlausu þvaðri til stuðnings við áróður ESB-liðsins. Þegar fréttin er útfærð aftar í blaðinu kemur í ljós að viðkomandi ráðherra breskur nefnir sérstaklega að "aðgangur að fiskimiðum" yrði væntanlega stórt atriði! Það er von að Bretar myndu "fagna og styðja sterklega" ESB-aðildarumsókn Íslands, svo enn sé vitnað í þennan fréttamiðil Þorsteins Pálssonar.
S- og V-listar bæta heldur við | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (35)
21.4.2009 | 10:31
Það munar um Bjarna Harðarson í stuðningi við VG
Það er afar ánægjulegt að sjá hvernig andstæðingar ESB-aðildar eru að þétta raðirnar með stuðningi við VG í kosningunum á laugardaginn.
Það var Bjarna Harðarsyni líkt að stíga skrefið nú þegar línur eru að skýrast og ljóst hve mikið er í húfi að VG sem einarður andstæðingur aðildar komi sterkt úr úr kosningunum.
Andstæðingar hafa vænt Bjarna um hringlandahátt en þar er ég á annarri skoðun. Með framgöngu sinni fyrst innan Framsóknarflokksins, síðan í tilraun til sérframboðs Lýðræðishreyfingarinnar með andstöðu við ESB-aðild sem meginmál og nú með stuðningsyfirlýsingu við VG sýnir Bjarni samkvæmni og að það það eru málefni sem ráða hans för.
Ég er sannfærður um að Bjarni kemur ekki einn síns liðs nú á síðustu dögum kosningabaráttunnar heldur fylgja honum margir sem kunna að hafa verið í vafa um hvernig þeir ættu að verja atkvæði sínu.
Bjarni Harðarson styður VG | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
19.4.2009 | 19:29
Hræðsluáróður Benedikts Jóh lýsir vel örvæntingu ESB-liðsins
Mér kom í hug orðatiltækið "Að hefna þess í héraði sem hallaðist á Alþingi" við að sitja undir síbyljuáróðri Benedikts Jóhannessonar framkvæmdastjóra síðustu daga í ríkisfjölmiðlunum. Sem Sjálfstæðisflokksmaður hefur Benedikt lengi verið ákafur talsmaður inngöngu Íslands í Evrópusambandið og hefur nú brugðið á það ráð að ganga berserksgang til að reyna að hræða þjóðina til stuðnings við málstað sinn. Benedikt framkvæmdastjóri segir að verði "ekki gripið til ráðstafana nú þegar er líklegt að yfir þjóðina dynji annað stóráfall og þjóðin verði um langa framtíð föst í fátæktargildru." (Mbl. 16. apríl 09)
Málflutningur Benedikts er allur í miklum upphrópanastíl og markast af ótta hans við að verði ekki sótt strax eftir kosningar um aðild að ESB blasi við að "þjóðin missir af Evrópulestinni næstu tíu ár." Röksemdafærslan er kostuleg, m.a. sú að aðildarumsókn strax sé "sérstaklega mikilvæg í ljósi þess að á seinni hluta árs verður Svíþjóð í forsvari í Evrópusambandinu", en síðan taki við sjálfur óvinurinn Spánn. Innlegg Benedikts ber á heildina litið annaðhvort vott um fávisku varðandi starfshætti og grundvallareglur ESB eða óvenju grófar missagnir að yfirlögðu ráði.
Hér helgar tilgangurinn meðalið, því að Benedikt hefur gerst forgöngumaður um nýja Kópavogssamþykkt undir vörumerkinu "sammála". Þar er reynt að fá sem flesta til að hylla Evrópusambandið og skrifa upp á örvæntingarákall eftir aðild, þar eð "Ólíklegt virðist að eftir kosningar verði sótt um aðild tafarlaust eins og þó er lífsnauðsyn", eins og framkvæmdastjórinn segir í Mbl. og hefur endurtekið síðan í þremur viðræðuþáttum á RÚV og í Silfri Egils í dag.
Það hallaði mjög á Benedikt og skoðanabræður hans á landsfundi Sjálfstæðisflokksins á dögunum. Í fundargerð af landsfundinum í marslok segir m.a. um framgöngu þessa magnaða víkings:
"Benedikt Jóhannesson: Segir okkur með ríkisstjórn sem færi Ísland nú marga áratugi aftur á bak. Þess vegna vill hann ekki álykta nú efnislega um þetta mál [Evrópusambandið], honum er það ljóst, að það yrði ekki að sínu skapi. Telur umræðuna enn vera óþroskaða. Vill ekki láta þetta mál splundra þjóðinni. Fylgir líkl. nefndartillögunni (Temmilegt klapp)"
Nefndarálitinu sem þarna er vitnað til var síðan breytt enn frekar andstætt óskum Benedikts og ályktaði landsfundurinn gegn aðild þvert á sjónarmið hans. Eitthvað virðist Benedikt hafa farið út af sporinu eftir yfirlýsinguna á landsfundinum í lok mars, því að nú reynir hann hvað hann getur að sundra þjóðinni með herópi sínu. - Það er þannig komið að hefndum sbr. orðtækið sem vitnað var til hér í upphafi, en það vísar til þess að margir eru djarfari á heimaslóðum en annars staðar. Þar er Benedikt nú umvafinn gæsku Samfylkingarinnar eftir að hafa gegnt af hollustu um skeið í garði Guðlaugs Þórs sem formaður TR.
Þess má svo geta að orðtækið "Að hefna þess í héraði sem hallaðist á Alþingi" er rakið til lausavísu eftir Pál lögmann Vídalín (d. 1727) svohljóðandi:
Kúgaðu fé af kotungi/ svo kveini undan þér almúgi;/ þú hefnir þess í héraði,/ sem hallaðist á alþingi.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
18.4.2009 | 10:20
Samfylkingin að fara á taugum með slitinn naflastreng við Brussel
Það er grátbroslegt að sjá taugaveiklun Samfylkingarinnar og attaníossa út af því að öll sund eru að lokast varðandi eina siglingaljós flokksins - aðild að Evrópusambandinu. Látið er að því liggja að Ísland sé að missa af gullnu tækifæri meðan lestin til Brussel blússar framhjá.
Þetta er nákvæmlega sami hræðsluáróðurinn og beitt hefur verið gagnvart Noregi og fleiri ríkjum sem ekki hafa verið ginnkeypt fyrir innlimun í evrópskt stórríki. Boðskapurinn um ávinning af ESB-aðild er mesta öfugmælavísa sem sett hefur verið saman af stjórnmálaflokki. Hann hefur reyndar verið kyrjaður hér af krötum í hálfa öld.
Ég bendi mönnum á að kynna sér þau fjölmörgu atriði sem mæla gegn ESB-aðild og ég geri grein fyrir á heimasíðu minni www.eldhorn.is/hjorleifur
Þreyta í stækkun ESB | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
16.4.2009 | 19:33
Samfylkingin farin að tapa fylgi á ESB-áróðrinum
Einhliða og órökstuddur áróður Samfylkingarinnar fyrir aðild Íslands að Evrópusambandinu er farinn að bitna á fylgi flokksins. Almenningur áttar sig æ betur á hversu hættuleg stefna er hér á ferðinni. Um það fjalla ég í dag nánar á heimasíðu minni www.eldhorn.is/hjorleifur Þar kemur m.a. fram að aðild á ESB myndi koma á fjölmörgum sviðum koma illa niður á íslensku samfélagi, m.a. fullveldi okkar, atvinnuvegum og launafólki.
Samfylkingin reynir að kaupa fólk til fylgis við ESB-aðild með því að vísa á evru sem gjaldmiðil sem allir mega vita að ekki stendur til boða næstu 5-10 árin jafnvel þótt Ísland gengi í ESB strax á morgun. Það er raunar ótrúlegt að núverandi forsætisráðherra með sína reynslu skuli bera slíkt rugl á borð fyrir kjósendur. Jóhanna er auðvitað ekki svo skyni skroppin að hún viti ekki hvers konar blekking býr hér að baki og Össur hefur reyndar haft hægt um sig í þessu máli upp á síðkastið. Bæði átta sig auðvitað á að engin von er til þess að Samfylkingin fái undirtektir annarra flokka við kröfu sinni um að hefja aðildarviðræður við Evrópusambandið eftir kosningar - sem betur fer.
Annars er áfram traustur stuðningur við ríkisstjórnina og fátt sem bendir til annars en að kosningarnar eftir rúma viku skili henni meirihluta á Alþingi.
VG í sókn - Samfylking stærst | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (14)
16.4.2009 | 13:12
ESB-áróður Samfylkingar Íslandsmet í óskammfeilni
Það er fróðlegt að fylgjast með færibandaáróðri Samfylkingarinnar um aðild að Evrópusambandinu sem flokkurinn lýsir sem allrameinabót. Ljóst er að Samfylkingin er með bundið fyrir bæði augu þegar kemur að því að meta íslenska hagsmuni og ESB-aðild. Það er látið sem sjávarútvegurinn sé það eina sem fórna þurfi á altari aðildar en sannleikurinn er sá að álitaefnin varða flesta málaflokka. Ég vísa þeim sem kynna vilja sér fjölmargt af því sem mælir gegn aðild að ESB á grein á heimasíðu minni www.eldhorn.is/hjorleifur . Þar er auk auðlindanna m.a. nefnt sjálft fullveldið, svigrúm Íslands í samskiptum við aðrar þjóðir, rödd okkar hjá Sameinuðu þjóðunum, þróun lýðræðis, sveigjanlega efnahagsstefnu, atvinnuvegi eins og landbúnað, atvinnuöryggi, umhverfisvernd og fjölmarga þætti félags- og jafnréttismála. Á öllum þessum sviðum myndi aðild að Evrópusambandinu þrengja að hagsmunum Íslendinga í bráð og lengd.
Samfylkingin á fáa bandamenn sem keyra vilji Ísland inn í Evrópusambandið. Meirihluti landsmanna áttar sig á þeim holhljómi sem er á bak við síbylju flokksins sem þessa dagana er að slá Íslandsmet í óskammfeilni.
ESB aðild samofin endurreisninni | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Jón Bjarnason er ekki að segja nein óvænt tíðindi um einangrun Samfylkingarinnar í því áhugamáli hennar að Ísland sæki um aðild að Evrópusambandinu. Fyrir aðildarumsókn er hvorki stuðningur meðal þjóðarinnar ef marka má skoðanakannanir né heldur á Alþingi miðað við stefnu stjórnmálaflokkanna.
Bæði Vinstri grænir og Sjálfstæðisflokkurinn hafa með landsfundarsamþykktum sínum útilokað fyrir sitt leyti að stefna að aðild að ESB og ekki eru líkur á að Samfylkingunni nægi haltrandi stuðningur Framsóknarflokksins að loknum kosningum til að mynda meirihluta á Alþingi um aðildarumsókn.
Síbyljuáróður Samfylkingarinnar fyrir ESB-aðild sem orðin er þungamiðjan í stefnu flokksins nú í aðdraganda alþingiskosninganna er ómerkilegur blekkingaleikur, þar á meðal að láta svo sem evra væri þannig innan seilingar. Flestum er ljóst að jafnvel þótt Ísland yrði komið í Evrópusambandið strax á morgun stæði því ekki evra til boða næstu 5-10 árin. Hér er Samfylkingin því að veifa röngu tré sem engin innistæða er fyrir.
Þar fyrir utan gæti evra orðið myllusteinn um háls Íslendinga eins og nú er komið í ljós í nokkrum ESB-ríkum eins og Írlandi og Lettlandi. Vegna evrubindingar eru þar nú lokuð sund til að rétta við hríðversnandi efnahag. Lettar geta ekki vegna evru-tengingar lækkað gengi gjaldmiðils síns og Írar með sína evru hafa þann eina kost að skera niður ríkisútgjöld og lækka laun alls almennings í stórum stíl. Um þetta ætti Samfylkingin með Jóhönnu í fararbroddi að fræða kjósendur í stað ómerkilegustu kosningabeitu sem lengi hefur sést hérlendis.
Segir Samfylkinguna að einangrast í ESB-umræðunni | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)