Evrópusambandið sýnir sitt rétta andlit

Bretar og Hollendingar hafa í Icesafe-málinu notið óskoraðs stuðnings Evrópusambandsins sem lagst hefur á sveif með þeim í gegnum Alþjóða gjaldeyrissjóðinn og komið í veg fyrir lánveitingar til Íslands. Aðildarríki ESB hafa jafnframt verið knúin til að skrifa upp á þessa stefnu, jafnt norrænu ríkin og Pólverjar sem nýlega veittu Íslendingum lán, sem ekki er þó sagt til reiðu fyrr en Icesafe-deilan hefur verið leyst á forsendum Breta og Hollendinga.

Til Icesafe var stofnað af Landsbankanum í krafti tilskipana Evrópusambandsins frá 1997 og 2004 sem Íslendingum var gert að innleiða gegnum EES-samninginn. Í bakgrunni eru síðan ákvæðin um óhefta fjármagnsflutninga sem hluti af innri markaði ESB. Án aðildar Íslands að þessum tilskipunum hefði ekkert Icesafe orðið til og ef til vill ekkert bankahrun hérlendis þótt útrásarvíkingar færu geyst.

Tilskipanirnar um tryggingakerfi innistæðueigenda eru hins vegar það óljósar að alls er óvíst að mati virtra lögfræðinga að íslenska ríkið sé ábyrgt fyrir Icesafe-reikningunum og beri skylda til að bæta handhöfum þeirra tjónið. Um þetta segja m.a. Stefán Már Stefánsson prófessor sérfróður í Evrópurétti og Lárus Blöndal hæstaréttarlögmaður í grein í Morgunblaðinu 12. júní 2009:

"VIÐ undirritaðir höfum ritað allmargar greinar þar sem við höfum fært lögfræðileg rök fyrir því að okkur sem þjóð beri ekki að endurgreiða þeim innistæðueigendum sem lögðu inn hjá íslensku bönkunum erlendis fyrir hrunið. Við höfum ekki fengið nein málefnaleg rök sem hnekkja okkar ályktunum.

Ríkisábyrgð verður ekki til úr engu. Til að hún stofnist þarf afdráttarlausa lagaheimild sem ekki er til staðar í dag vegna innistæðutryggingasjóðs. Við höfum verið þátttakendur í samstarfi ríkja í Evrópu þar sem við höfum tekið upp reglur sem samdar hafa verið af Evrópusambandinu. Ekkert í þeim reglum gerir íslenska ríkið ábyrgt fyrir starfsemi íslenskra einkabanka. Þær reglur hafa hins vegar ekki staðist þær væntingar sem ESB hefur byggt upp í kringum þær. Þær reyndust gallaðar og náðu ekki markmiðum sínum. Þeir ágallar geta hins vegar ekki verið á ábyrgð íslenskrar þjóðar að okkar mati."

Í Spegli RÚV 4. október sl. sagði Eiríkur Tómasson lagaprófessor að hann legði ekki dóm á lagalegt réttmæti krafna Breta og Hollendinga og það sé umdeilanlegt, m.a. þar eð tryggingakerfi í ESB-löndunum séu ekki einsleit.

Þessi mál eru áfram í brennipunkti stjórnmálaumræðunnar og 23. október næstkomandi gætu hafist innheimtuaðgerðir af hálfu Breta og Hollendinga vegna Icesafe.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Vestarr Lúðvíksson

Þetta er heila málið: Íslenska þjóðin var ekki í ábyrgð fyrir tryggingarsjóð ínnistæðna í einkabönkunum og Alþingi Íslendinga getur ekki leyft sér að traðka á saklausum almenningi á Íslandi, nóg er samt !!!

Vestarr Lúðvíksson, 7.10.2009 kl. 18:21

2 Smámynd: Jóhann Birkir Bjarnason

takk fyrir þetta þetta er akkurat það sem ég hef haldið fram nokkuð lengi meir að segja. takk takk algjörlega sammála.

Jóhann Birkir Bjarnason, 7.10.2009 kl. 23:33

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband