Mikil eftirsjá í Kolbrúnu Halldórsdóttur af þingi

Það helsta sem skyggir á ágætan sigur Vinstri grænna í kosningunum er að missa Kolbrúnu Halldórsdóttur af Alþingi Íslendinga. Hún hefur unnið þar frábært starf í þágu VG og þjóðarinnar í áratug og haldið á lofti málstað náttúru- og umhverfisverndar. Ég hygg að starfsfélagar hennar í öllum flokkum geti vottað að hún hefur rækt störf sín af stakri samviskusemi og sett sig inn í flókin mál af kostgæfni.

Það hefur mætt á VG allan þennan áratug í baráttu gegn stóriðjustefnu stjórnvalda og á því sviði eins og mörgum öðrum hefur Kolbrún staðið vaktina sem fulltrúi flokksins í umhverfisnefnd þingsins. Það var því eðlilegt og við hæfi að hún veldist til að gegna starfi umhverfisráðherra við stjórnarskipti fyrir skemmstu. Í aðdraganda alþingiskosninga 2007 vann hún ásamt hópi félaga frábært starf við að gera grein fyrir umhverfisstefnu VG í ritinu Græn framtíð. Þar er að finna vegarnesti sem endast mun lengi í baráttunni fyrir sjálfbærri þróun.

Málafylgja Kolbrúnar hefur hins vegar engan veginn einskorðast við umhverfis- og auðlindamál í allri sinni breidd, því að áhugasvið hennar liggja víða. Um  þetta vitnar fjöldi þingmála sem hún hefur haft frumkvæði að, m.a. í menntamálum og jafnréttis- og kvenfrelsismálum. Hún hefur fært inn í þingið mál sem mörgum þóttu fráleit í upphafi en síðan hafa orðið að lögum og margir vildu nú kveðið hafa. Nýjasta dæmi um það er breyting á hegningarlögum um kaup á vændi.

Kolbrúnu er auðvitað ekki allt gefið fremur en öðrum og eitt af því sem hún hefur ekki sinnt er að gæta að eigin stöðu á velli stjórnmálanna, safna liði til stuðnings við sig persónulega. Mér var ljóst í aðdraganda kosninganna nú, þar sem hún í forvali færðist niður í þriðja sæti á framboðslista í Reykjavík suður, að tvísýnt yrði um endurkjör hennar, eins og nú liggur fyrir eftir kosningaúrslit. Ég treysti því hins vegar að Vinstrihreyfingin grænt framboð sem hún átti drjúgan hlut í að vinna brautargengi sjái til þess að þekking hennar á fjölmörgum sviðum nýtist um ókomin ár.

 

 


mbl.is Úrslitin persónuleg vonbrigði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hildur Helga Sigurðardóttir

Er sammála því að eftirsjá sé að Kolbrúnu á þingi.  Synd er ef hún hefur goldið þess að vera einlægur náttúrverndarsinni.   Ekki veitir nú af slíkum...

Hildur Helga Sigurðardóttir, 27.4.2009 kl. 04:32

2 Smámynd: GH

Sammála því. Hætt við að þetta sé merki um að VG sé að verða meira V en G því að Kolbrúnu var ekki hafnað af kjósendum heldur í forvali -- eða hvað það heitir -- flokksmanna.

GH, 27.4.2009 kl. 12:45

3 Smámynd: Gústaf Gústafsson

Já, get tekið undir það. En hún hefur á stundum þótt nokkuð þver.  Síðustu daga held ég að stundum hefði hún átt að hugsa fyrst og tala svo, í stað þess að tala fyrst og hugsa svo. Hræddur um að þetta hafi kostað okkur nokkuð mörg atkvæði.

En góð kona og litrík.

Gústaf Gústafsson, 27.4.2009 kl. 14:31

4 Smámynd: Björgvin R. Leifsson

Kolbrún er, ásamt þér Hjörleifur, besti talsmaður umhverfisverndar, sem Ísland hefur átt á þingi. Það er skömm að því að henni hafi verið hafnað, fyrst af flokkssystkinum sínum í Rvík og svo af kjósendum.

Björgvin R. Leifsson, 27.4.2009 kl. 18:33

5 Smámynd: Magnús Bergsson

Ég er sammála. Það er mikil eftirsjá í svona góðum talsmanni náttúruverndar. Í raun er ég ekki sáttur við niðurstöðu kosninganna þó VG hafi í sjálfu sér unnið ágætan sigur. Ég er grautfúll yfir því að missa Kolbrúnu út úr umhverfisráðuneytinu, því hún var að mínu mati fyrsti umhverfisráðherra okkar íslendinga.

En einhverra hluta vegna kom Kolbrún ekki heldur vel út í forvalinu. Ég hef svo sem orðið var við óánægju fólks með hana, en það á sér allt sammerkt að láta sér umhverfismál í léttu rúmi liggja. Það hefur líka mátt taka eftir því að fréttamenn höfðu ekki áhuga á því að ræða við Kolbrúnu um nokkurt mál nema það væri öruggt að svarið mundi verða NEI. Kolbrún hefði kannski átt að nýta sér leikarahæfileikana og leika á fréttamenn fremur en að vera einlæg.

Það er ekkert grín að vera einlægur talsmaður umhverfisverndar fyrir þjóð sem tuddast áfram í bullandi ofneyslu, á heimsmet í orkusóun og kann ekki að snúa höfði nema með því að ræsa bílvél.

Nú verð ég bara að bíða og vona að þjóðin fái jafn góðan umhverfisráðherra. Í fljótu bragði sé ekki hver það getur orðið.

Magnús Bergsson, 28.4.2009 kl. 03:46

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband