Nú hriktir í stoðum Evrópusambandsins

Degi fyrir kosningar auglýsir formaður Samfylkingarinnar: "ESB snýst um vinnu og velferð." Önnur eins öfugmæli hafa ekki sést lengi, því að atvinnuleysi slær nú fyrri met í ESB og kjaramismunun vex þar hröðum skrefum. Þessa dagana hriktir í stoðum stærstu ríkja ESB, Þýskalands, Frakklands og Bretlands, vegna þunga efnahagskreppunnar og ótta valdhafa við uppreisn almennings.

Þýskir fjölmiðlar ræða þessa dagana hræðslu ráðamanna við félagslega upplausn og óeirðir þegar líður á árið. Ein helsta efnahagsstofnun Þýskalands (ifo í Munchen) spáir 6% samdrætti og að fjöldi atvinnulausra verði 4,7 milljónir síðar á árinu. Í hópi þeirra sem vara við óeirðum eru Michael Sommer forseti verkalýssambandsins DGB og Gesine Schwan forsetaframbjóðandi sósíaldemókrata. Skyldi Jóhanna Sig hafa talað við þessi skoðanasystkin sín nýlega?

Ekki er ótti franskra valdhafa við félagslegan óróa og alþingi götunnar minni þessa vordaga. Henri Guaino aðstoðarmaður Sarkozys forseta sagði í sjónvarpi fyrir fáum dögum að pólitíska ókyrrðin fari vaxandi, "hætta á upplausn og uppreisn sé mjög mikil." Franska stjórnin býr sig nú undir erfiða vordaga. Ekki bindur almenningur traust sitt við franska krata þar sem hver höndin er upp á móti annarri. Í kosningum til Evrópuþingsins í júní stefnir í stóraukið fylgi við miðjumanninn Bayrou og andkapítalistann Besancenot.

Í Bretlandi eru horfurnar ekki bjartar hjá Gordon Brown, og risið á New Labour sjaldan verið lægra. Atvinnuleysi í síðasta mánuði nam 6,7% og stefnir í 10% innan árs að mati bresku hagstofunnar. Jafnframt hrúgast upp opinberar skuldir. Samfylkingin mun hins vegar hafa gleymt að senda fulltrúa sinn Björgvin G. Sigurðsson til Bretlands nú fyrir kosningarnar til að kynna sér ástandið eins og gert var hér um árið. 

Svona eru horfurnar í meginstoðum ESB-framtíðarlands Samfylkingarinnar, og hefur þá ekki verið skyggnst til litlu burðarásanna allt um kring, Írlands, Lettlands, Ungverjalands og Grikklands þar sem jaðrar við neyðarástand, eða til Spánar þar sem atvinnuleysið stefnir nú í 20%. Skiptir hér engu hvort þarlendir búa við evru eða eigin gjaldmiðil.

Hvernig væri að Jóhanna brygði sér út fyrir pollinn eftir helgina með Björgvin G. með sér sem túlk, þ.e. áður en boðið verður upp í dansinn um aðildarumsókn?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ragnar Gunnlaugsson

Við erum að verða svo sammála Hjörleifur.

Ragnar Gunnlaugsson, 24.4.2009 kl. 12:57

2 Smámynd: Marteinn Unnar Heiðarsson

Þetta er bara sannleikurinn og ekkert annað,en hversvegna segir samfó alltannað varðandi ESB??hverju eru þeir búnir að lofa ESB það væri gaman að vita!!!!!!!

Marteinn Unnar Heiðarsson, 24.4.2009 kl. 13:08

3 Smámynd: Einar Sveinn Hálfdánarson

og VG (Ögmundur) búnir að lofa að gera það sem þarf til að koma okkur í ESB. Hvað kýst þú á morgun?

Einar Sveinn Hálfdánarson, 24.4.2009 kl. 13:19

4 Smámynd: Ragnhildur Kolka

Og dýfurnar eiga eftir að verða fleiri í Evrópu, því samdráttur í framleiðslugreinunum er víða kominn á þriðja tug prósenta og þegar vanskil fara að segja til sín af fullum þunga í bankakerfinu, þá standa bankarnir berskjaldaðir.

Ólíkt stóru bönkum í BNA hafa evrópskir bankar ekki fjármagn nema fyrir 1/3-1/2 þess sem búist er við að falli á þá.

Ragnhildur Kolka, 24.4.2009 kl. 13:43

5 Smámynd: Helgi Jóhann Hauksson

EItt er víst að innan ESB og með evru hefði ein ríkasta þjóð heims um langt skeið ekki orðið fyrsta fórnarlamb kreppunnar með nær algerru hruni. Enn eru jafnvel fátæk ríki austur-Evrópu ekki jafn illa leikin.

Stormurinn geysar eftir sem áður en aldrei er mikilvægara að hafa traustan grunn og eitthvert skjól. Þegar óveður gengur yfir heldur fólk á sér lífi með því að standa þétt saman ekki á kostnað neins en með ávinning fyrir alla. Í okkar stormum þjöppum við okkur saman og höldum hita hvert á öðru. - Eftir sem áður gengur stormurinn yfir, skilur eftir sig ummerki og veldur skaða en ekki nærri eins miklum og annars yrði.

Þrátt fyrir allt fer ESB ekki með nema 1% af þjóðarframleiðlsu ríkjanna eða að meðaltali 236 evrur á hvern íbúa. ESB og evra er grunnur sem byggt er, en hver byggir fyrir sig.

Helgi Jóhann Hauksson, 24.4.2009 kl. 17:06

6 Smámynd: Björgvin R. Leifsson

Samfylkingin auglýsir grimmt að það þurfi að kanna kosti þess að ganga í ESB en ætla væntanlega ekki að kanna gallana líka. Þvílíkur sértrúarsöfnuður.

Björgvin R. Leifsson, 24.4.2009 kl. 18:38

7 Smámynd: Hjörleifur Guttormsson

Góði Helgi Jóhann.

Mér sýnist óskhyggjan vera að bera þig nokkuð langt af leið. Litið mörg ár til baka hafa engar forsendur verið fyrir Ísland sem aðila ESB að taka upp evru vegna Maastricht-skilyrðanna. Útrásin margumtalaða gerðist í skjóli ESB-tilskipana gegnum EES, þannig að segja má að hrunið hafi gerst vegna þeirrar tengingar.

ESB er ekki sæluhús þar sem þjóðir leita sér skjóls í óveðri heldur harðsnúið samkeppnisumhverfi þar sem sá veikasti verður undir.

Þótt ESB-fjárlögin snúist ekki um háar upphæðir er sambandið yfirþjóðleg stjórnstöð, skrifstofubákn með 25 þúsund embættismenn innanborðs og ESB-framkvæmdastjórnina skipaða kommissörum einu stofnun sambandsins sem lagt getur fram lagafrumvörp sem eru grundvöllur tilskipana, þ.e. regluverksins mikla.

Með fullri virðingu finnst mér þú og Samfylkingin þurfa að kynna sér innviði sambandsins betur áður farið er að gylla aðild sem frambúðarlausn á málefnum Íslendinga.

Hjörleifur Guttormsson, 24.4.2009 kl. 19:05

8 Smámynd: Helgi Jóhann Hauksson

Sæll Hjörlefur

Ég eyddi reyndar þó nokkru púðri í að kynna mér ESB og fiskveiðistefnu þess 1997 þegar ég skrifaði lokaritgerð í stjórnmálafræði um efnið. Og hef fylgst með ESB með þann grunn síðan.

Tvennt kom mér mest á óvart. Annað var hve lítið efni var til hér á landi um fiskveiðistefnu ESB. Jafnvel á bókasafni Sjávarútvegsráðuneytisins og hjá LÍÚ var nær ekkert efni til um ótrúlega flóru sérlausna fiskveiðistefnunnar. Mest allt efni þurfti ég að panta frá útlöndum. Hitt var hve afvegaleidd umræðan reyndist vera hér og lítill vilji til að byggja hana á staðreyndum og réttum upplýsingum. 

Ég hef af því þónokkuð samviskubit að hafa ekki nennt undangengin 12 ár að eltast við að leiðrétta ranghugmyndir og rangfærslur um ESB og fiskveiðistefnuna. Og tel að svo sé um marga sem þekki vel til ESB og það hafi valdið því að Ísland eitt ríkasta landa heims hafði ekki leitað sér skjóls hjá ESB með evru fyrir grunn. - Ranghugmyndirnar og hræðsluáróðurinn fengu að þrífast.

Helgi Jóhann Hauksson, 24.4.2009 kl. 19:33

9 Smámynd: Haraldur Hansson

Spurning hvort þessi frétt sé byggð á ranghugmyndum um fiskveiðistefnu ESB. Ef marka má Vísi.is er Grænbókin sem rætt er um frá Framkvæmdastjórn sambandsins.

Haraldur Hansson, 24.4.2009 kl. 19:58

10 Smámynd: Helgi Jóhann Hauksson

Til að skilja fréttina væri gott fyrir hvern sem er að þekkja stöðu og eðli stofnanna ESB, hlutverk framkvæmdastjórnar sem er embættismanna hliðin og svo hver tekur endanlegar ákvarðanir sem er ráðherraráðið þar sem engin mál fara í gegn í eindreginni óþökk aðildarríkis. Einnig að tilgangur skýrslunnar er að hleypa af stað umræðum og vinnu fyrir endurskoðun fiskveiðistefnunnar sem fer fram á 10 ára fresti og næst 2012.

Reglan um „hlutfallslegan stöðugleika“ sem gildir um veiðar úr hverju rannsóknahólfi ICES er við líði vegna þess að ríkin og þjóðirnar sætta sig ekki við neitt annað hverju sem embættismanahliðin veltir upp.

Helgi Jóhann Hauksson, 24.4.2009 kl. 20:24

11 Smámynd: Stefán Óli Sæbjörnsson

Það hefur margt breyst frá 1997 Helgi Jóhann, loka ritgerðir í viðskiptafræðum líkt og þínum lokaritgerðum hafa örugglega tekið á sig nýja mynd. Heimurinn er allt anna,það sem Hjörleifur bendir á eru staðreyndirnar í dag og við það þurfum við að lifa og taka ákvarðanir út frá en ekki lokaritgerð frá 1997 hún er úreld.

Við erum íslensk og ég trúi á íslenskt sjálfstæði og ég trúi því að við getum staðið undir okkur sjálf, þessi kreppa er tímabundin en ekki langvarandi ef haldið er rétt á spilunum. Ef við hinsvegar förum í panikk og afsölum okkur réttindum tökum við þær ákvarðanir ekki til baka. Þess vegna verur VG að segja NEI þeir tala um það a' þau hafi staðið á sínum stefnumálum  þartil í dag en ég vona það  að SJS standi við orð sín og láti ekki margsprungna Samfylkingu blinda samvisku sína og hún teymi hann í þá óvissu sem Samfylkingin telur ESB vera, látum hana ferakar vera.

Gleðilegt sumar

Stefán Óli Sæbjörnsson, 25.4.2009 kl. 03:09

12 Smámynd: Helgi Jóhann Hauksson

Ég hélt ég hefði verið að segja að ég hef fylgst með málum ESB á þessum grunni Stefán, og reyndar var það stjórnmálafræði.

Reyndar er Hjörleifur ekkert að segja í þessari grein sem varðar inngöngu í ESB. Það er hvorki ný saga eða úrelt að það geti komið til óeirða eða upplausnar í Frakklandi eða Bretlandi eða Þýskalandi vegna kreppu og hefur ekkert með rök með eða móti ESB aðild okkar að gera. Né heldur hvers virði þekkingargrunnur er.

Helgi Jóhann Hauksson, 25.4.2009 kl. 03:42

13 Smámynd: Marteinn Unnar Heiðarsson

Samfylkingin kærð fyrir landráð.

Samfylkingin var kærð fyrr í dag fyrir landráð.  Einhverra hluta vegna hefur þetta hvergi birst í nokkrum fjölmiðli.

Lesið kæruna hér.

Marteinn Unnar Heiðarsson, 25.4.2009 kl. 06:18

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband