Framsóknarflokkurinn ætlar ekki að virkja Geysi

Það ótrúlega hefur gerst. Framsóknarforystan hefur kynnt sáttatillögu í virkjanamálum þar sem boðuð eru stórtíðindi. Flokkurinn býður m.a. fram til sátta að ekki skuli ráðist í virkjun Geysis né heldur í gufuaflsvirkjun innan friðlýsta svæðisins á Hveravöllum. Þá hyggst flokkurinn ekki ganga gegn nýsamþykktum lögum um Vatnajökulsþjóðgarð með virkjun í Kverkfjöllum og Vonarskarði, og er það auðvitað rótæk stefnubreyting sem líklegt er að leitt geti til sátta innan flokksins. Þar ber þó skugga á því að til þess að ná þessu í gegn í eigin ranni varð forystan að reka Jóhannes Geir stjórnarformann Landsvirkjunar sem mun hafa sett sig upp á móti svo miklu undanhaldi frá fyrri stefnu.

Ekki er þó allt falt til sátta samkvæmt litríkri tillögu formanns og umhverfisráðherra Framsóknar. Virkjanirnar í Neðri-Þjórsá skulu í gegn hvað sem líður nöldri í Bjarna Harðarsyni kandídat  í 2. sæti á lista flokksins á Suðurlandi. Svipaða sögu er að segja um Langasjó sem flokksforystan getur áfram  vel hugsað sér að nýta fyrir Skaftárveitu og Þjórsárver eru enn á biðlista og ráðast örlög Norðlingaölduveitu af styrk B-listans á Alþingi að loknum kosningunum.

Sem sjá má er forystan á hröðum flótta frá fyrri stefnu í von um að geta elt upp eitthvað af glötuðu fylgi og trausti sem nokkuð hefur rýrnað frá dögum þeirra Eysteins og Jónasar frá Hriflu.

 Margt er þó áfram óráðið samkvæmt sáttatillögunni því að ekkert er þar minnst á gamla góða Gullfoss með öllum sínum megavöttum. Það getur því enn verið tíðinda að vænta þegar nær dregur kosningum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gestur Guðjónsson

Á kortinu er grein gerð fyrir afstöðu Framsóknar til þeirra svæða sem rammaáætlun 1 og 2 tóku fyrir. Hefði einhverjum af þeim kostum verið sleppt, hefði færsla þín hljóðað þannig að Framsókn væri ekki að taka afstöðu. Framsókn kemur til dyranna eins og hún er klædd og gerir grein fyrir sinni afstöðu, ólíkt öðrum framboðum. Mér þætti gaman að vita hvort VG vilji stöðva framkvæmdir á Kröflusvæðinu, þótt Alþingi sé búið að veita virkjanaleyfi, sem og í Svartsengi. Hvar ætlar VG að taka fjármagn fyrir þeim skaðabótum sem það myndi kosta? Úr heilbrigðiskerfinu, velferðinni eða menntakerfinu?

Gestur Guðjónsson, 25.4.2007 kl. 21:38

2 Smámynd: Gylfi Björgvinsson

Sæll Hjörleifur

 Þú  lætur eins  og  Framsókn  hafi  stjórnað landinu  ein í  langan tíma  og muni gera það  um langan  aldur  enn um  sinn  ég  vona  að  svo  verði en  vonast eftir  að  kosningabaráttan  verði ekki  í  þessum  dúr heldur  málefnaleg

Gylfi Björgvinsson, 25.4.2007 kl. 22:16

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband