Jóhanna miðar ESB-tundurskeytinu á Vinstri græna

Stefnuræða Jóhönnu var full af óbilgirni í garð VG og lofar ekki góðu fyrir stjórnarsamstarfið. Dýrðaróður hennar um Evrópusambandsaðild var þriðjungur ræðunnar, rétt eins og ráðherrann væri í miðjum kosningaslag. Með röngum staðhæfingum og gylliloforðum um gildi ESB-aðildar fyrir Ísland vó formaður Samfylkingarinnar að samstarfsflokknum sem er á öndverðri skoðun og laskaði þegar í upphafi undirstöður eigin ríkisstjórnar. Margt bendir til að stjórnin lifi ekki af Brussel-ferlið sem framundan er fari svo að Alþingi og síðan ríkisstjórn fallist á að sækja um aðild.

Forsætisráðherrann staðhæfði m.a. að aðildarumsókn að ESB myndi ein og sér tryggja stöðugt gengi, lækkun vaxta, endurvekja traust alþjóðasamfélagsins og erlendra fjárfesta á Íslandi og sópa burt verðtryggingu með krónunni. ESB-aðild yrði sérstakur happfengur fyrir íslenskan sjávarútveg og landbúnað og opni fyrir umfangsmikið styrkjakerfi til bænda sem fái "nauðsynlegt öryggi" með inngöngu í Evrópusambandið.

Hafi menn verið í vafa um að Samfylkingin muni skrifa upp á hvað sem er í aðildarviðræðum í Brussel þarf enginn að efast lengur eftir þennan boðskap.

Sennilega hefur enginn forsætisráðherra skotið sig jafn rækilega í fótinn við upphaf ferils síns og Jóhanna nú gerði. Haldi fram sem horfir verður hennar tíma ekki langur á stóli forsætisráðherra.

 

 


mbl.is Leiði mótun sjávarútvegsstefnu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Árni Gunnarsson

Það er ekki ávísun á góðan samning að ganga á fund viðsemjandans með lotningarfullu fasi og tilbeiðslu í augunum. Ég deili með þér óttanum.

Verði þessi sneypuför farin væri líklega best að þeir færu tveir, Össur og Eiríkur Bergmann. 

Árni Gunnarsson, 19.5.2009 kl. 09:47

2 Smámynd: Jakob Þór Haraldsson

Öll þjóðin deilir með þér óttanum, þetta hjónaband er VONLAUST frá byrjun.  Báðir flokkarnir ráða ekki við að stýra þjóðarskútunni, enda skilja þeir ekki efnahagsmál og hafa aldrei komið fram með neytt að viti á því svið - slíkt lið er bara ávísun á stórslys, eftir að RÁNFUGLINN hefur farið um með ránshendi hér síðustu 18 árin eða svo..!  Þessi stjórn fer í sögubækurnar fyrir KLÚÐUR, frá fyrsta degi!

kv. Heilbrigð skynsemi

Jakob Þór Haraldsson, 19.5.2009 kl. 09:58

3 Smámynd: Guðjón Sigþór Jensson

Mér finnst þú taka fulldjúpt í árina Hjörleifur!

Auðvitað er samningsstaða Íslendinga mjög slæm og við getum ekki fyllt neitt skilyrða Maastrickt. Sem neytandi er eg fylgjandi aðild en skynsemin segir mér að meðan við höfum ekki full yfirráð yfir auðlindunum þá er það ekki ásættanlegt. Annars er því ekki að neita að braskhugsunin hefur afvegaleitt þjóðina og það ekki lítið. Mikill fagurgali var t.d. tengdur málum tengdum kvótakerfinu og Kárahnjúkavirkjun. Við erum að missa stjórn á þessu.

Eini möguleikinn að þjóðin endurheimti kvótann sem væri ásættanlegur væri að afnema heimild til sölu og jafnvel veðsetninga.

Mosi

Guðjón Sigþór Jensson, 19.5.2009 kl. 10:03

4 Smámynd: Loftur Altice Þorsteinsson

Flumbrugangur Samfylkingarinnar er ótrúlegur og sú fyrirlitning sem hún sýnir samstarfsflokknum VG, boðar ekki vel fyrir ríkisstjórnar-samstarfinu. Ég tel að þessi ríkisstjórn lifi ekki meira en 12. mánuði.

Lady Jóhanna leyfir sér að bera á borð staðlausa stafi og hrópandi lygar. Hún sagði til dæmis:

Sæki Íslendingar um aðild að Evrópusambandinu og hefji formlegar aðildarviðræður skapast traustari forsendur fyrir stöðugra gengi íslensku krónunnar og lækkun vaxtastigs. Þannig myndu jákvæð áhrif koma fram strax þegar ósk um aðildarviðræður lægi fyrir og búast má við að þau jákvæðu áhrif færu vaxandi eftir því sem umsóknarferlið gengur lengra.

Aðildarumsóknin ein og sér er því hluti af lausn á þeim bráðavanda sem við glímum við um leið og hún leggur grunninn að traustri framtíð og er leiðarljós stöðugleika inn í framtíðina. Á því þarf atvinnulífið nú að halda og slík umsókn mun jafnframt endurvekja traust alþjóðasamfélagsins og erlendra fjárfesta á Íslandi.

Þessi þvættingur hefur áður sést frá ESB-sinnum og líklega er þessi orðræða tekin beint upp úr eldri áróðusritum ESB-kórsins. Samfylkingin er ófögnuður sem VG verður að losa þjóðina við, sem fyrst.

Loftur Altice Þorsteinsson, 19.5.2009 kl. 10:37

5 Smámynd: Árni Gunnarsson

Og ég er sammála þér Loftur. Þetta er ódýr þvættingur og ekki boðlegur til flutnings innan um fólk. Hvað þá inni á Alþingi.

Árni Gunnarsson, 19.5.2009 kl. 11:09

6 Smámynd: Hjörtur J. Guðmundsson

Vinstri-grænir eru nú í hliðstæðri stöðu og Sjálfstæðisflokkurinn fyrir jól, sífellt er gengið á lagið í Evrópumálunum af hálfu Samfylkingarinnar og afarkostir settir. Munurinn er þó sá að framkoma Samfylkingarinnar í garð vinstri-grænna er margfalt verri en framkoman var í garð sjálfstæðismanna. Það er alveg furðulegt að forysta vinstri-grænna hafi ákveðið að lúffa fyrir þessari ágengni í stjórnarmyndunarviðræðum. Það hefur aðeins skilað því að áfram er gengið á lagið. Og þannig mun það verða þangað til vinstri-grænir stíga niður fæti og láta ekki ráðskast með sig lengur.

Hjörtur J. Guðmundsson, 19.5.2009 kl. 18:03

7 Smámynd: Árni Gunnarsson

Áróðursmaskína Samfylkingarmanna og Bifrastarliðsins mun verða ræst jafnskjótt og umsóknin verður póstlögð.

Samfylkingin var helmingur þeirrar ríkisstjórnar sem sat makindaleg á meðan öll aðvörunarljós blikkuðu og þóttist koma af fjöllum þegar bankahrunið varð staðreynd og efnahagsleg niðurlæging okkar í augum alþjóðasamfélagsins komst að ystu mörkum.

Nú ætlar Samfylkingin að bæta um betur og senda fulltrúa þjóðarinnar með bænaskjal á fund erlends ríkjasambands og bjóða sjálfstæði okkar að launum fyrir nýja mynt. Og það þótt þessa mynt fáum við ekki til brúks fyrr en okkar eigin mynt verður orðin frambærilegur gjaldeyrir.

Verði þessi ósómi samþykktur af fulltrúum þjóðarinnar vil ég að íslenskt fólk safnist saman við Alþingishúsið og mótmæli. Og ég ætlast til þess að allir rólfærir einstaklingar, hvar á landinum sem þeir búa og eru þessu andvígir mæti þarna og geri sig skiljanlega.

Árni Gunnarsson, 19.5.2009 kl. 22:01

8 Smámynd: Jón Valur Jensson

Tek undir þessa herhvöt þína, Árni, og með innleggjum flestra, sem hér hafa skrifað, auk greinarhöfundar sem tekur hér röggsamlega á málum.

Jón Valur Jensson, 19.5.2009 kl. 23:39

9 Smámynd: Jón Lárusson

Hef alltaf haft gaman af þessum "rökum" ESB sinna sem Loftur minnist á. Bara það að sækja um, mun verða til þess að alþjóðasamfélagið líti jákvætt til okkar og erlent fjármagn í mynd erlendra fjárfesta mun flykkjast til landsins.

Ég hef oft spurt mig í þessu sambandi, ef það er svo rosalega mikið aðdráttarafl fólgið í því að sækja um, ætti þá ekki að vera enn meira aðdráttarafl fólgið í því að vera þegar kominn í klúbbinn og búinn að taka upp euro. Ef svo er, af hverju eru Írar og Spánverjar þá í þeim vandræðum sem þeir eru í. Ekki er fjöldinn af erlendum fjárfestum að hrúgast þangað inn, reyndar er það svo að erlend fyrirtæki hafa verið að loka starfstöðvum sínum á Írlandi með þeim afleiðingum að þúsundir einstaklinga hafa misst vinnuna.

Jón Lárusson, 20.5.2009 kl. 08:04

10 Smámynd: Gunnlaugur B Ólafsson

Heill og sæll frændi

Það er erfitt að hafa hugrekki til þátttöku í þessari umræðu þar sem eru samankomnir nokkrir af allra hörðustu ESB andstæðingunum. Óttinn er það sterkur að hindra á lýðræði og viðræður um samstarf innan álfunnar okkar.

Það sem er athyglivert er að þessi hópur komandi yst frá hægri og vinstri á ekkert sameiginlegt fyrir utan ESB fóbíuna. Hjörleifur vill áframhaldandi krónu, Loftur vill Ameríkutengsl, myntráð og dollar, Jón Valur vill að við göngum á Guðs vegum sem útleggst sem alþjóðapólitík Ísraels og Ameríku (sem að er blessunarlega að breytast undir stjórn Obama).

Efnahagsvandi heimsins setur blöndu af velferð og einstaklingsframtaki eins og hún hefur þróast í Evrópu í áhugavert ljós. Amerísk-breska frelsisleiðin, Reagan-Thatcherisminn er liðinn. Áhugi heimsins beinist að Evrópu. Bandaríkin verða ekki í hlutverki gerjunar í hugmyndum og nýsköpun. Það verður Evrópa.

Auðvitað er það rétt hjá Jóhönnu að það mun strax skapa trúverðugleika að við setjum upp merkið að við viljum vera virkir þátttakendur í stefnumótun og gerjun innan Evrópu. Ekki síst þegar ekki er boðið upp á aðra trúverðuga kosti og sundurleit hjörð andstöðuliðsins veit ekki hvort hún er að koma eða fara í Evrópumálum. Mbk, G

Gunnlaugur B Ólafsson, 20.5.2009 kl. 09:58

11 Smámynd: Loftur Altice Þorsteinsson

Hugsið ykkur, að Lady Jóhanna fer fremst í flokki stjórnmálamanna sem í bænum sínum falla í átt til Brussel. Hún hefur aðgang að rökstuðningi allra áróðursmeistara Evrópusambandsins. Samt er málflutningur hennar gjörsamlega innantómur og einskis virði.

Samtök atvinnulífsins er önnur fylking þessa átrúnaðar. Eftirfarandi er tekið úr skýrslu þeirra um dásemdina, sem að þeirra mati er ESB:

Með ESB aðild gefst okkur einstakt sögulegt tækifæri til að taka þátt í merkilegu samrunaferli.

Hér er kominn kjarni hins trúarlega ESB-eldmóðs. Hagsmunir Íslendinga eru ekki meginatriði, hvorki efnahagslegir hagsmunir né sjálfstæði landsins. Fyrir ESB-sinna skiptir endurreisn hins Rómverska keisaradæmis öllu máli. Að taka þátt í hinu sögulega samrunaferli er trúarleg upphafning. Þarna býðst einstakt sögulegt tækifæri, til að sýna Evrópskri yfirstétt lotningu.

Fara menn nú að skilja, við hvers konar þurs er að eiga ? Eða eins og Sigmundur Ernir orðaði afstöðu sína til þjóðarinnar, í jómfrúarræðu sinni:

Hvers á þjóðin skilið ?

Þetta "spakmæli" endurtók Sigmundur Ernir mörgum sinnum svo að boðskapurinn færi ekki milli mála.

Loftur Altice Þorsteinsson, 20.5.2009 kl. 10:02

12 Smámynd: Jón Valur Jensson

Já, ýmis gerast nú málblómin.

Ætli það fari saman óskýr hugsun og vitlaus pólitík?

Jón Valur Jensson, 20.5.2009 kl. 12:02

13 Smámynd: Jón Valur Jensson

Ég var einmitt að birta á vefsíðu minni mjög fróðlegar upplýsingar um þær blekkingar, sem kjósendur í Noregi voru beittir árið 1994 í því skyni að fá þá til að velja 'aðild' að EB, bæði frá Frosta Sigurjónssyni og þessar uppl. (bæði um áróðursbaráttuna og um vond áhrif af aðildarviðræðunum) frá Ragnari Arnalds. Þá var ekki síður fróðlegt að lesa um það hjá Ragnari, hvernig bæði Svíar og Norðmenn voru blekktir og beittir hræðsluáróðri um að þeir myndu "einangrast" ef þeir samþykktu ekki að ganga í bandalagið!

Jón Valur Jensson, 20.5.2009 kl. 12:55

14 Smámynd: Loftur Altice Þorsteinsson

Ekki ætla ég að halda því fram, að greindarskortur hrjái Gunnlaug. Þessu til staðfestingar er hægt að vísa til greiningarinnar sem hann hefur gert á fullveldissinnum. Hann segir:

Það sem er athyglivert er að þessi hópur komandi yst frá hægri og vinstri á ekkert sameiginlegt fyrir utan ESB fóbíuna. Hjörleifur vill áframhaldandi krónu, Loftur vill Ameríkutengsl, myntráð og dollar, Jón Valur vill að við göngum á Guðs vegum…….

Það er vissulega rétt, að fullveldissinnar hafa ákaflega mismunandi viðhorf til margra hluta. Það sem sameinar okkur er hins vegar skilningur á mikilvægi þess, að láta ekki erlendt vald leggja undir sig Ísland. Við tökum höndum saman um þetta göfugu markmið og leggjum til hliðar ágreining um veigaminni atriði.

Nú vantar bara að Gunnlaugur átti sig á þessari staðreynd og dragi lærdóm af. Stefnufesta okkar er mikil og samstaða órjúfanleg. Þetta eru einmitt einkenni rétts málstaðar og það ætti Gunnlaugur að íhuga. Það er honum til skammar, að hafa eftir bull og rökleysur frá Lady Jóhönnu. Stefnuræða hennar var á meðal þess aumasta sem heyrst hefur á Alþingi. Sigmundi Erni tókst þó að komast nærri klámi Jóhönnu, með:

"Hvers á þjóðin skilið ?

Loftur Altice Þorsteinsson, 20.5.2009 kl. 16:34

15 Smámynd: Jón Valur Jensson

Ég var loks núna að lesa orð Gunnlaugs hér, og mikið er yfirlætið hjá þeim manni að tala þannig niður til okkar. Fullveldissinnar koma úr öllum flokkum, en eru sameinaðir um að standa vörð um sjálfstæði Íslands. Það er ekki af sjúklegri óttakend ("fóbíu"), og Gunnlaugur þessi á hedur ekkert með að túlka hér viðhorf mín og sízt af öllu að útleggsja mína kristnu trú "sem alþjóðapólitík Ísraels og Ameríku," eins og hún komi pólitík eitthvað við.

Jón Valur Jensson, 20.5.2009 kl. 22:20

16 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Ertu viss um að þetta sé Jóhanna? Ég er á því að þarna fari Jón Baldni dulbúinn með pjöllu. Það er allavega engu líkara. Það er þvílík vanvirða við það fólk, sem bylti frá spillingarpésunum að tulka það sem svo að það hafi verið gert alfarið til að koma okkur í vistarbönd hjá EU. Fátt fer fjarri.

Ég held að þessi andskotans EU meinloka sé alvarlegt  tilfelli af afneitun. Á meðan verið er að fjasa um þessa Bjarmalandsför, þá sleppur þetta fólk við að snúa sér að því sem hendi stendur næst að gera, enda hrýs því hugur við að vinna. Þetta er svona tilfelli afneitunnar eins og hjá alkanum að snúa rökum tilverunnar á haus og telja sig drekka vegna þess hve illa sé komið fyrir honum í stað þess að það er svo illa komið vegna þess að hann ddrekkur.

Ef Steingrímur ætlar að láta sjanghæja sig ínn í þetta landráðabrugg, þá hefur hann framið pólitískt sjálfsmorð í mínum augum.  Þá eru nú fá haldreipin eftir annað en að fá þá bara nýtt fólk og henda þessu hyski út líka.

Jón Steinar Ragnarsson, 26.5.2009 kl. 03:47

17 Smámynd: Baldur Gautur Baldursson

Já þetta er skammarlegt! Sorglegt er kannski betra orð. Að skammsýnin sé svona mikil að halda að ESB innganga sé lausn allra vandamála.  Þetta segir mér bara eitt. Stjórnmálamenn á Íslandi treysta ekki sjálfum sér til að leysa vandamál þjóðarinna, heldur vilja þeir að stóribróðir í ESB taki við stjórn Íslands og hér verði bara hálfpólitískir bitlingabræður og systur við lénsstjórnina. Hryggilegt!  Ég gæti gert betur en þetta!

Baldur Gautur Baldursson, 30.5.2009 kl. 09:14

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband