19.4.2009 | 19:29
Hræðsluáróður Benedikts Jóh lýsir vel örvæntingu ESB-liðsins
Mér kom í hug orðatiltækið "Að hefna þess í héraði sem hallaðist á Alþingi" við að sitja undir síbyljuáróðri Benedikts Jóhannessonar framkvæmdastjóra síðustu daga í ríkisfjölmiðlunum. Sem Sjálfstæðisflokksmaður hefur Benedikt lengi verið ákafur talsmaður inngöngu Íslands í Evrópusambandið og hefur nú brugðið á það ráð að ganga berserksgang til að reyna að hræða þjóðina til stuðnings við málstað sinn. Benedikt framkvæmdastjóri segir að verði "ekki gripið til ráðstafana nú þegar er líklegt að yfir þjóðina dynji annað stóráfall og þjóðin verði um langa framtíð föst í fátæktargildru." (Mbl. 16. apríl 09)
Málflutningur Benedikts er allur í miklum upphrópanastíl og markast af ótta hans við að verði ekki sótt strax eftir kosningar um aðild að ESB blasi við að "þjóðin missir af Evrópulestinni næstu tíu ár." Röksemdafærslan er kostuleg, m.a. sú að aðildarumsókn strax sé "sérstaklega mikilvæg í ljósi þess að á seinni hluta árs verður Svíþjóð í forsvari í Evrópusambandinu", en síðan taki við sjálfur óvinurinn Spánn. Innlegg Benedikts ber á heildina litið annaðhvort vott um fávisku varðandi starfshætti og grundvallareglur ESB eða óvenju grófar missagnir að yfirlögðu ráði.
Hér helgar tilgangurinn meðalið, því að Benedikt hefur gerst forgöngumaður um nýja Kópavogssamþykkt undir vörumerkinu "sammála". Þar er reynt að fá sem flesta til að hylla Evrópusambandið og skrifa upp á örvæntingarákall eftir aðild, þar eð "Ólíklegt virðist að eftir kosningar verði sótt um aðild tafarlaust eins og þó er lífsnauðsyn", eins og framkvæmdastjórinn segir í Mbl. og hefur endurtekið síðan í þremur viðræðuþáttum á RÚV og í Silfri Egils í dag.
Það hallaði mjög á Benedikt og skoðanabræður hans á landsfundi Sjálfstæðisflokksins á dögunum. Í fundargerð af landsfundinum í marslok segir m.a. um framgöngu þessa magnaða víkings:
"Benedikt Jóhannesson: Segir okkur með ríkisstjórn sem færi Ísland nú marga áratugi aftur á bak. Þess vegna vill hann ekki álykta nú efnislega um þetta mál [Evrópusambandið], honum er það ljóst, að það yrði ekki að sínu skapi. Telur umræðuna enn vera óþroskaða. Vill ekki láta þetta mál splundra þjóðinni. Fylgir líkl. nefndartillögunni (Temmilegt klapp)"
Nefndarálitinu sem þarna er vitnað til var síðan breytt enn frekar andstætt óskum Benedikts og ályktaði landsfundurinn gegn aðild þvert á sjónarmið hans. Eitthvað virðist Benedikt hafa farið út af sporinu eftir yfirlýsinguna á landsfundinum í lok mars, því að nú reynir hann hvað hann getur að sundra þjóðinni með herópi sínu. - Það er þannig komið að hefndum sbr. orðtækið sem vitnað var til hér í upphafi, en það vísar til þess að margir eru djarfari á heimaslóðum en annars staðar. Þar er Benedikt nú umvafinn gæsku Samfylkingarinnar eftir að hafa gegnt af hollustu um skeið í garði Guðlaugs Þórs sem formaður TR.
Þess má svo geta að orðtækið "Að hefna þess í héraði sem hallaðist á Alþingi" er rakið til lausavísu eftir Pál lögmann Vídalín (d. 1727) svohljóðandi:
Kúgaðu fé af kotungi/ svo kveini undan þér almúgi;/ þú hefnir þess í héraði,/ sem hallaðist á alþingi.
Athugasemdir
Vel sagt, eins og allt frá þér Hjörleifur. Við hér í vestrinu skiljum ekki almennilegan þetta ramavein á landinu góða. Íslendingar eiga allt og meir en það , sem til þarf, gnægð fiskjar, ótæmda orku til hagnýtra nota, ss gróðurhúsa og annars landbúnaðar, að maður tali nú ekki um gagnabúin. Einn besta kindastofn í heiminum, sem má hæglega auka hundrað falt. Nú svo er olían í sigtinu. Gefur tækifæri til að vinna með frændum okkar norðmönnum. Svo má lengi telja.... Við lítum fram til að
Steingrímur verði næsti forsætisráðherra Islands.
Áfram Steingrimur
Björn Emilsson, 19.4.2009 kl. 23:02
Getur ekki bara einhver tekið það að sér að stofna ósammála.is og sjá hvort við fáum ekki fleiri til að kvitta þar undir 8)
Halldór Björgvin Jóhannsson, 20.4.2009 kl. 09:28
Ég hef einmitt tekið eftir þessum endalausa hræðsluáróðri ESB sinna um að allt fari í kalda kol ef við skríðum ekki strax undir pilsfald Evrópu. Ég skammast mín fyrir svona tal. Hvernig gátum við lifað sem sjáflstæð þjóð í rúm 60 ár, ef það er ekki hægt? HVernig væri að fara að bretta upp ermar og vinna okkur út úr vandanum eins og fullvaxta þjóð. Það er hægt með því að auka fiskveiðar lækka rafkostnað til garðyrkjubænda og lækka stýrivextina. Koma fyrirtækjum í gang aftur. Eitthvað er tregt í taumi þar. En að æpa bara um ESB finnst mér lákúrulegt. Segi og skrifa.
Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 20.4.2009 kl. 11:02
Hjörleifur - Nú er komið að því að þú og þínir menn hjá Vinstri Grænum svari því hvort þið ætlið að að halda áfram samstarfi við Samfylkinguna eftir kosningar.
Sko Jóhanna er að fara í samningaviðræður í júní , en þið viljið það ekki
http://mbl.is/mm/frettir/kosningar/2009/04/20/esb_vidraedur_i_juni/?ref=fphelst
Annað hvort eruð þið að ljúgja í ykkar kjósendur og eruð þess vegna mestu hræsnarar af öllum, það er nefnilega ekki nóg skiluru að benda alltaf á aðra, það gekk meðan þið voruð í stjórnarandstöðu en ekki lengur
Ekki neina útúrsnúninga það er fullt af fólki sem ætlar að kjósa ykkur út af stefnu ykkar í evrópumálum
Svo ég spyr hvernig ætlið þið að réttlæta fyrir ykkar kosningum að þið eruð búin að mynda kosningabandalag með Samfylkingunni.
Þröstur Heiðar Guðmundsson, 20.4.2009 kl. 12:55
Trú og vantrú manna á Esb hefur gengið út í öfgar í báðar áttir. Ég tel að Esb hljóti að hafa einhvrja kosti fyrst menn sækjast eftir inngöngu. Ég tel hinsvega ókostina vega meir á móti heldur en með.
Þetta er mál sem er að kljúfa þjóðina. Mörg meðrökin finnst mér út í hött en er gjarn á að taka undir mótrökin jafnvel þótt ég telji þau stórlega ýkt. Sameiningar útgerðrafélaga og sveitarfélaga hafa oftast verið byggð á svipuðum meðrökum.
Hvernig hafa smærri útgerðarfyritæki og sveitarfélög komið út úr slíkum sameiningum? Þarna hefur hagkvæmni stærðrinar verið gróflega vanmetin og litlu hagkvæmu einingarnar drepnar með skuldugum stóreiningum.
Hvað verður Ísland annað en lítið peð innan Esb? og hversu auðvelt verður að drepa peðin?
Offari, 20.4.2009 kl. 14:34
Hef aldrei verið ánægðari með minn flokk en þegar hann feldi breytingartillögu við ályktun um Esb enn hún hljóðaði um að við ættum að hefja aðildarviðræður strax hún var felld með öllum greiddum atkvæðum gegn ég sá 5.-10 sem voru henni fylgjandi, á fundinum voru á annað þúsund mans. Mæli með að það verði sett upp síða þar sem fólk getur skráð sig sem eru mótfallnir ESB.Það þarf að gerast fyrir sauðburð.
Ragnar Gunnlaugsson, 20.4.2009 kl. 16:53
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.