Samfylkingin kemst hvorki lönd eða strönd til aðildarviðræðna við ESB

Einkennileg er sjálfseyðingarhvöt Samfylkingarinnar. Eftir að Vinstri græn og Sjálfstæðisflokkurinn hafa undirstrikaða andstöðu sína við aðild að Evrópusambandinu halda nýkjörin formaður og varaformaður Samfylkingarinnar áfram að tala eins og þeirra sé að ákveða að hefja aðildarviðræður við framkvæmdastjórnina í Brussel.

Sú hrokafulla afstaða sem lýsti sér í málflutningi Jóhönnu Sigurðardóttur á landsfundi í dag um aðildarumsókn og ekki síður málflutningur þeirra pilta, Dags og Árna Páls, sem kepptu um varaformennskuna í Samfylkingunni, er fljótvirk og örugg leið til að þjóðin snúi baki við hugmyndum þeirra um ESB-aðild um langa framtíð. Það er út af fyrir sig ágætt.

Samfylkingin getur auðvitað rembst eins og rjúpa við staur fyrir og eftir kosningar með þetta hugðarefni sitt, en hvar á hún von á liðstyrk? Ekki kemur hann frá Vinstri grænum í þessu máli. Kannski reynir Jóhanna að banka upp á hjá Bjarna Ben. nýkjörnum formanni til að mynda ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokknum. Verði henni að góðu. En er líklegt að hún verði bænheyrð þar?

Samfylkingin er að stefna líkum á vinstristjórn eftir kosningar í uppnám ætli hún að halda Brussel-þráhyggjunni til streitu. 


mbl.is Tvöföld atkvæðagreiðsla tilgangslítil
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Anna Benkovic Mikaelsdóttir

Ég er í VG og tek samt undir orð Jóhönnu um ESB

Anna Benkovic Mikaelsdóttir, 29.3.2009 kl. 20:02

2 Smámynd: Ólafur Ingólfsson

Hefur þér ekki dottið í hug, Hjörleifur, að VG sé að stefna vinstri stjórn eftir kosningar í hættu með þrálátri andstöðu sinni við að ræða ESB? Hvernig væri að treysta fólki í stað þess að stöðugt hafa vit fyrir því? Það er aðeins í gegnum aðildarviðræður sem við getum fengið úr því skorið hvað ESB aðild þýddi fyrir Ísland. Niðurstöður viðræðna færu í þjóðaratkvæðisgreiðslu. Við höfum fengið  nóg af forsjárhyggjupólitík, þú eða VG vitið ekki fyrirfram hvað ESB aðild þýðir fyrir Ísland.

Ólafur Ingólfsson, 29.3.2009 kl. 22:28

3 Smámynd: Kristbjörn Árnason

Sæll Hjörleifur,

Eins og þú veist mæta vel hefur þetta ESB mál þvælst fyrir Ingibjörgu Sólrúnu alla tíð. Alveg frá því að hún var í Kvennalistanum.

Á undanförnum árum hefur hún sérstaklega talað fyrir þessum málstað en einnig aðrir forystumenn Samfylkingarinnar  og sagt að þetta sé okkar eini möguleiki íslendinga. Þessi flokkur trúiir þessu.

Þessi skoðun sem er upphaflega komin frá IS að það sé í raun óþarfi að hafa tvöfalda atkvæðagreiðslu.

Þessi kenning er ekkert verri en leikflétta Ögmundar um tvöföldu leiðina.

Sem er mér mjög kunnugleg leið sem ég kannast við úr fortíðini. Að vera á móti, en samt að  samþykkja aðra leið  sem liggur að sama marki.

Mér sýnist á þessu máli, að flokkarnir tveir hafi ekki unnið meimavinnuna áður en til landsmótana kom. 

Hjörleifur, þessir tveir flokkar verða að vinna saman eftir kosningar og það væri ótrúlega óábyrgt að eyðileggja möguleikana á slíku samstarfi með þráhyggju einni saman.

Allir vita að VG er á móti og þeir ítrekuðu það á sínu landsmóti.

Allir vita að Samfylking vill inngöngu ef samningsmarkmið nást.

Þetta er verkefni þessara flokka að vinna úr og það ekki ábyrgt nú af þungarviktarmanni með reynslu að ergja sig opinberlega á þessu máli nú.

Bara að þú vitir það gamli félagi að þá stend ég utan flokka og hef gert síðan AB var lagt niður.

kveðja. og gangi ykkur vel í baráttunni framundan

Kristbjörn Árnason, 30.3.2009 kl. 00:12

4 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Í fyrsta sinn í 80 ár eru möguleikar á að Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur verði í minnihluta og hætti að geta gert virkjanastefnu sína að úrslitaatriði í stjórn eða sem skilyrði fyrir stuðning við stjórn eins og Framsóknarflokkuriknn gerir nú.

Það verður að nást meirihluti hinna tveggja flokka sem liggja frá miðjunni til vinstri og á landsfundi Sf náðist að gera stefnu hennar þannig, að nú eru flokkarnir samstíga í þeim málum. Bendi á blogg mitt um það efni.

VG hefur allt frá að þeir lögðu fram frumvarp um þjóðaratkvæði um Kárahnjúka staðið fremst í því að koma því fram að þjóðin sjálf ráði beint um mikilvægustu mál sín.

Ég benti strax í haust á þann samkomulagsgrundvöll sem bæði Sjálfstæðisflokkur og VG hafa síðan gengist inn á að þjóðin skeri fyrst úr um það beint hvort yfirleitt eigi að sækja um aðild.

Ég treysti því að í meirihlutasamstarfi Sf og VG verði fundin lending í þessu máli því að nú er einstakt tækifæri til þess að tveir grænir flokkar taki höndum saman í stóra, stóra málinu, sem varðar milljónir ófæddra Íslendinga sem eiga eftir að búa í þessu landi.

Ómar Ragnarsson, 30.3.2009 kl. 01:07

5 Smámynd: Helgi Jóhann Hauksson

Hjörleifur, þú ættir af mikilli alvöru að fara kanna það afhverju harðsvíraðasta auðvald Íslands og náttúrböðlar leggja svo mikla orku, pening og kraft í baráttu gegn aðild að ESB, - því afli heimsins sem mest hefur lagt að mörkum á þessari Jörð til umhverfisverndar.

Þið látið Hval Hf og Kristján Loftsson, Ahab-sjálfan, stýra íslensku þjóðaskútunni til glötunar til að hann geti áfram veitt hval og ryksugað hafsborninn án truflunar, - og arðrænt íslenska alþýðu með kvótablekkingunum um skuldaveð sjávarútvegsins.

 Kristjan er Ahab2

Helgi Jóhann Hauksson, 30.3.2009 kl. 06:08

6 Smámynd: Gunnlaugur B Ólafsson

"Samfylkingin er að stefna líkum á vinstristjórn eftir kosningar í uppnám ætli hún að halda Brussel-þráhyggjunni til streitu" segir þú Hjörleifur.

Annar tónn er í Steingrími í Fréttablaði dagsins, þar sem að hann talar á þeim nótum að allt sé opið í Evrópumálum, þjóðin muni ákveða niðurstöðu í því máli eftir málefnalega, upplýsta og lýðræðislega umræðu.

Formaðurinn veit að það er ekki skynsamlegt að mæta ríflega helmingi stuðningsmanna VG sem eru hlynntir evrópsku samstarfi með hroka og þjóðrembu.

Gunnlaugur B Ólafsson, 30.3.2009 kl. 09:39

7 Smámynd: Loftur Altice Þorsteinsson

Eftir að hafa setið landsfund Sjálfstæðisflokksins í fyrsta skipti og haft samtímis fréttir af landsfundi Samfylkingar, skynja ég betur en áður grundvöll þessara flokka. Sjálfstæðisflokkurinn sækir sína hugljómun til landsins okkar og þjóðarinnar, en Samfylkingin lýtur í gras fyrir erlendum kennisetningum og erlendu valdi.

Hugsið ykkur þá fjarstæðu Samfylkingarinnar, að veifa rauðum dulum hins dauða kommúnisma og kyrja Internationalen með krepptum hnefa. Flokkur sem þannig hampar táknum hins erlenda valds á ekkert skilið nema fyrirlitningu.

Hjörleifur segir:

Einkennileg er sjálfseyðingarhvöt Samfylkingarinnar.

og vissulega er þessi þráhyggja Samfylkingarinnar einkennileg, ef maður skyggnist ekki baksviðs hjá Sossunum. Allt skal lagt í sölurnar fyrir erlenda hugmyndafræði og erlendt vald. Þótt öll rökhugsun segi annað, þótt samfélagið sé á heljarþröm, skal Samfylkingin samt einungis tala um inngöngu í Evrópubandalagið.

Allir hugsandi menn vita að efnahagslegur stöðugleiki er það sem nú vantar. Allir sem hafa til þess þekkingu vita, að "fastgengi undir stjórn Myntráðs" er okkar eina lausn í peningamálum. Eigum við að bíða lengur eftir, að Samfylkingin taki sönsum og falli frá þráhyggju sem nálgast vitfirringu ? Þurfum við að bíða lengur eftir að Jóhanna og Össur, sem bera stærsta ábyrgð á efnahagshruninu, axli þessa ábyrgð og hverfi til annara starfa ?

Loftur Altice Þorsteinsson, 30.3.2009 kl. 11:06

8 Smámynd: Hjörleifur Guttormsson

Góðir hálsar öll sömul.

Mikið er gaman að heyra ykkar viðhorf og gagnlegt þegar rýnt er í málin nú í aðdraganda kosninga.

Aðalatriðið varðandi stöðuna gagnvart Evrópusambandinu og þá tvo flokka sem nú eru í ríkisstjórn er að forystumenn þeirra og fylgjendur taki mið af því að í þessu stórmáli eru skoðanir öndverðar. Áframhaldandi samstarf flokkanna að ríkisstjórn getur ekki byggst á öðru en að aðildarumsókn að ESB verði lögð til hliðar á næsta kjörtímabili.

 Samfylkingin verður að gera upp við sig hvort hún lætur stjórnarsamstarf við VG stranda á því að fá ekki kröfu sína um aðildarviðræður við ESB uppfyllta. Hún getur ekki vænst þess að VG gangi gegn eigin stefnu sem er skýrt mörkuð í landsfundarsamþykkt flokksins og hefur verið óbreytt frá stofnun hans 1999.

Meti Samfylkingin það svo að aðildarumsókn að ESB sé úrslitaatriði snýr hún sér væntanlega annað í leit að bandamönnum til að knýja þetta hugðarefni sitt fram, og því hefur augljóslega verið haldið opnu af nýafstöðnum landsfundi. Við því er ekkert að segja af minni hálfu þótt ég búist ekki við að Sjálfstæðisflokkurinn verði til í tuskið.

Vegna orða Ólafs Ingólfssonar vil ég segja að þeim sem sett hafa sig inn í samþykktir og grundvöll ESB er ljóst hvaða kostir bjóðast á þeim bæ og til þess þarf engar aðildarviðræður að mati okkar sem teljum rangt að ganga í sambandið. Hér er um stærra mál að ræða en svo fyrir framtíð þjóðar okkar að hægt sé að gera það að verslunarvöru í ríkisstjórnarmyndun. Aðild að ESB væri mótandi ákvörðun fyrir Íslendinga um langa framtíð. ESB stendur nú um stundir, m.a. vegna kreppunnar, frammi fyrir stórum vandamálum og óvissu um eigin þróun og jafnvel tilvist sambandsins, þar á meðal að því er varðar Myntbandalagið um evruna.

Ég átta mig vel á því sem Kristbjörn er að fara og hann endurspeglar áreiðanlega viðhorf margra í báðum flokkunum (S og VG) um að þeim beri að vinna saman eftir kosningar fái þeir til þess meirihluta. - Eigi það að vera tryggt verður að leggja kröfuna um ESB-aðild til hliðar. Segir ekki stærðfræðin okkur að ef lagðir eru saman +1 og -1 kemur út 0. Það hlýtur að verða niðurstaðan í þessu máli. - Stjórnmálaflokkana greinir ekki á um, að liggi einhvern tíma fyrir aðildarsamningur eigi þjóðin að greiða um hann atkvæði.

Við Ómar baráttufélaga fyrir umhverfisvernd vil ég segja, að mikil er trú þín að Samfylkingin hafi nú tekið upp stefnu í umhverfismálum þannig að nú séu þeir samstíga VG, þar á meðal um stóriðjupólitíkina. Betur að satt væri. Bloggið þitt las ég og því miður var það ekki sannfærandi frekar en Fagra Ísland á sinni tíð. Hvað er Össur Skarphéðinsson að gera þessa dagana annað en knýja frumvarp sitt um Helguvíkurál í gegnum Alþingi? Og hvað segir Kristján Möller um Bakkaál? Samfylkingin er afar langt frá því að hafa mótað sér græna umhverfisstefnu, því miður!

Og svo ert það þú Gunnlaugur frændi sem lifir í voninni. Ég held þú hafir tekið til við að setja eigin hugsanir á milli orðanna sem Fréttablaðið hefur eftir Steingrími J á þessum morgni. Það vill svo til að hann eins og aðrir forystumenn VG eru bundnir af stefnu eigin flokks sem markast af samþykktum landsfunda, og auðvitað á Steingrímur stóran hlut að þeirri stefnumótun. - Ekki erum við í VG að mæla gegn "evrópsku samstarfi" sem er allt annað mál en aðild að Evrópusambandinu.

Ég þakka svo Lofti athyglisverða hugleiðingu sem var að berast mér og sendi ykkur öllum góðar kveðjur.

Hjörleifur Guttormsson, 30.3.2009 kl. 11:30

9 Smámynd: Helgi Jóhann Hauksson

Hjörleifur, þú og aðrir sem staðhæfa að ekkert sé að semja um ættir að kynna þér hve sérstakt og öðru vísi fyrirkomulag fiskveiðistjórnunar er á hverju hafsvæði eftir vistfræðilegu eðli þess og öllum aðstæðum. Miðjarðarhafin, Eystrasalt, Skagerak og Kattgat, Kanríaeyjar, Madeira, Franska Giena, Reunion, Azoeyjar og fleiri aðskilin svæði frá megin hafsvæðinu hafa sérstaka eigin fiskveiðistjórn með alt öðrum reglum en megin hafsvæði ESB, Fiskveiðistjórnun er þar með allt öðrum hætti en á megin svæðinu og telst falla að heildarstefnunni skv gögnum ESB ef aðeins fiskveiðistjórnun þeirra leiði til sjálfbærra fiskveiða.

Ef þið teljið ykkur geta svarað um hvað ESB gerir um „frávik“ verðið þið að kynna ykkur frávikin sem fyrir eru og þau eru regla en ekki undantekning.

Helgi Jóhann Hauksson, 30.3.2009 kl. 13:05

10 Smámynd: Helgi Jóhann Hauksson

Svo má auðvitað bæta við Hjaltlandseyjum og Möltu

Helgi Jóhann Hauksson, 30.3.2009 kl. 13:06

11 Smámynd: Helgi Jóhann Hauksson

Vænta Hjörleifur og VG-menn þess að Samfylkingin gangi gegn sinni stefnu? - Að enn eftir að við höfum nú fallið í hramm IMF aðeins til bjargar krónunni sem aldrei hefði orðið með ESB-aðild og evru, verði hunsað að leita samninga við samtök Evrópuríkja?

Yfirlætið er botnlaust þegar sagt er: 

„Samfylkingin verður að gera upp við sig hvort hún lætur stjórnarsamstarf við VG stranda á því að fá ekki kröfu sína um aðildarviðræður við ESB uppfyllta. Hún getur ekki vænst þess að VG gangi gegn eigin stefnu sem er skýrt mörkuð í landsfundarsamþykkt flokksins“

Ætla VG-menn að láta brjóta á kröfu sinni um að ekki verði leitað semninga við ESB og þjóðinni leift að samþykja hann eða hafna?

Með ofangreindum rökum Hjörleifs hvernig dettur honum í hug að Samfylkingin eiga að ganga gegn sinni stefnu sem ekki aðeins hefur verið skýrt mörkuð með landsfundarsamþykktum heldur með alsherjar-atkvæðagreiðslu meðal flokksmanna?

Helgi Jóhann Hauksson, 30.3.2009 kl. 16:35

12 Smámynd: Gunnar Rögnvaldsson

Áfram Hjörleifur!

Bara ef evrusvæðið hefði aldrei verið fundið upp

Þessa óska sér heitt og innilega þessi lönd - núna:

- Ítalía

- Spánn

- Írland

- Frakkland

- Grikkland

- Portúgal

Hvers vegna? Jú, vegna þess að þessi lönd þola ekki lengur gengisskráningu hins nýja þýska marks, sem núna heitir evra. Og þau þola heldur ekki lengur að hafa misst sína eigin peningastjórn og fullveldi.

En hvað er þá vandamálið, af hverju segja þessi lönd sig ekki bara úr evru?

VEGNA ÞESS AÐ ÞAÐ ER EKKI HÆGT!

En hvað geta þessi lönd þá gert? Ekkert minn kæri, ekkert annað en að drepast í heildarsamgjaldþroti evrusvæðis. Summan af neikvæðum afleiðingum ervuaðildar eru miklu stærri en summan af neikvæðum þáttum eigin peningastjórnar.

Vissir þú að á sama tíma og EURIBOR viðmiðunarvextir evrusvæðis eru í allra allra lægsta lægi, þá hækka og hækka og hækka og hækka vextir á húsnæðislánum Spánverja. Hvers vegna skyldi þessi Samfylkingarsannleikur vera svona? Það skyldi þó aldrei hafa eitthvað að gera með það að PENINGASTJÓRN ECB VIRKAR EKKI Á SPÁNI.

Meðalvextir á húsnæðislánum Spáverja voru núna í janúar 5.64%. Þeir hafa hækkað um 15% frá því í janúar á síðasta ári - þrátt fyrir að verðhjöðnun Spánar er núna um 6-7% á ársgrundvelli - og EURIBOR vextir eru aðeins um 2%.

Kveðjur

PS: samkvæmt fréttum Open Europe í dag hefur matvælaverð hækkað um 20% í Bretlandi við það eitt að verða í ESB.

Já Samfylkingin er einstök svala. Alveg úti að aka einstefnuakstri hinna heilaþvegnu.

Gunnar Rögnvaldsson, 30.3.2009 kl. 17:41

13 Smámynd: Helgi Jóhann Hauksson

Gunnar, þú heldur áfram að plata. Vel yfir 90% Íra vildu vera áfram í ESB og lýstu sig ánægða með aðildina í skoðanakönnunum þegar þeir samt  felldu Lisssabon samninginn.

- Það má minna á að þú ert enn einn harði velferðar-andstæðingurinn og Bandaríkjaaðdáandinn og frjálshyggjupostulinn sem berst hatramlega gegn ESB-aðild. Í þínum orðum og greinum líkir þú ESB margoft við Sósílaistaríki.

- Þér virðist duga að einhverjir Írar og einhverjir Grikkir og einhverjir Spánverjar sé andstæðir ESB til að þú lýsir Íra almennt, Grikki almennt, Spánverja almennt og allar aðrar þjóðir þar sem einhvejir lýsa efasemdum um ESB, ver sem þjóð í heild á leið útúr ESB.

Svipuðu hefur þú og skoðanabræður þínir lýst frá upphafi sögu ESB og einnig frá upphafi sögu evrunnar - en enn er ekkert ESB ríki á leið út og heldur ekkert evruríki að hætta við evru, og ekkert þeirra ríkja sem undangengin ár hafa verið á leið til að taka upp evru hefur í reynd tekið þá stefnu að hætta við það. 

- Þannig að sagan um áratugi afsannar sífellt orð ykkar en að háttum sannra heimsendaspámanna bætið þið sífellt við að nú sé að koma að því að hrakfara-spáin ykkar rætist.

- Á sama tíma hafa hinsvegar nær allr þjóðir sem gengu í EFTA yfirgefið okkur  og við erum nær ein eftir í EFTA, en engin þeirra 27 ríkja sem hafa gengið í ESB hefur yfirgefið ESB, - hvað segir það?

Helgi Jóhann Hauksson, 30.3.2009 kl. 18:45

14 Smámynd: Hans Miniar Jónsson.

Það eru engar reglur um það hvernig maður segir sig úr ESB, þannig að það segir lítið að enginn hafi gert það.

Hans Miniar Jónsson., 30.3.2009 kl. 19:21

15 Smámynd: Gunnar Rögnvaldsson

Ég þigg með gleði allar þær nafngiftir sem Helgi getur klínt á mína persónu ef það getur hugsanlega stuðlað að því að Íslenska lýðveldið haldi áfram klettfast í sitt fullveldi og sjálfstæði. En fullveldi og sjálfstæði Íslands eru forsendurnar fyrir því að velmegun og velferð geti haldið áfram að myndast á Íslandi.

Kveðjur

Gunnar Rögnvaldsson, 30.3.2009 kl. 19:24

16 Smámynd: Gunnar Rögnvaldsson

Framhald:

. . . svo geta menn rifist um afganginn.

En sem sagt: án óskerts fullveldis og sjálfstæði Íslensku þjóðarinnar mun velmegun og velferð hætta að geta myndast á Íslandi. Og þá verður ekkert til að rífast um, nema um bauðmolana.

Kveðjur

Gunnar Rögnvaldsson, 30.3.2009 kl. 19:31

17 Smámynd: Helgi Jóhann Hauksson

Reyndar gekk Grænland sem ekki er heilt rík úr ESB, svo það hafa aldrei verið neinar hindranir frá ESB um það.

Hinsvegar er nú beinlínis tekið fram í Lissabon-sáttmálanum, til að svara þessum tilbúna áróðri breskra Samveldissinna (breskir íhaldsmenn sem vilja fremur halda í heimsveldisdraum Breta en vinna með Evrópu), að sérhvert aðildarríki geti hvenær sem er ákveðið að ganga úr ESB.

- Vel að merkja þá er ekkerti í EFTA-samningnum heldur um úrsögn en samt hafa flestar þjóðir sem gengu í EFTA yfirgefið það fyrir löngu og við sitjum nær ein eftir.

Helgi Jóhann Hauksson, 30.3.2009 kl. 19:37

18 Smámynd: Hjörleifur Guttormsson

Sæl verið þið góðir gestir.

Hér færist fjör í leikinn. Helgi Jóhann er greinilega afar sannfærður um sinn málstað og ekkert við því að segja. Hann vék hér að ofan að fiskveiðistefnu ESB og öðru fyrirkomulagi á vissum svæðum, fyrst og fremst tengt fjarlægum eyjum og innhöfum. Það er ekkert óvænt í þessu, enda Sameiginlega fiskveiðistefnan njörvuð niður í samþykktum ESB og þar sem um þriðju ríki er að ræða sem ekki eru í sambandinu reynir á sérstaka fiskveiðisamninga, sem eru á forræði framkvæmdastjórnarinnar í Brussel annarsvegar og viðkomandi þriðja ríkis hins vegar. Um sérsamninga við fjarlæg eyríki og leifar nýlenduveldis ESB-ríkja er kveðið á um Amsterdamsáttmála ESB frá 1999 og þau koma hugsanlegri aðild Íslands ekkert við enda um fátæk þróunarsvæði að ræða. Um innhöfin þar sem mætast auðlindalögsögur þriðju ríkja og ESB-hafsvæði reynir á sérsamninga um nýtingu og veiðar úr einstökum stofnum. Hér er því ekki í neitt að vísa sem snertir ESB og íslenskar aðstæður.

Einn af alvarlegum þáttum í Sameiginlegu fiskveiðistefnu ESB er að ríki sem gerist aðili  tapar forræði sínu í samningum við þriðju ríki um nýtingu fiskistofna í hendur framkvæmdastjórnarinnar í Brussel.

Annars þarf engar hrakfara- eða heimsendaspár til að útmála afleiðingar ESB-aðildar. Þær blasa nú við í hverju landinu á fætur öðru, auk vandræðanna í þeim ríkjum sem Gunnar nefnir hér fyrir ofan einnig m.a. í Lettlandi sem tengt hefur gjaldmiðil sinni við evru en efnahagsstarfsemin þar er nú föst í þeim viðjum sem þeirri bindingu fylgir.

Hjörleifur Guttormsson, 30.3.2009 kl. 19:58

19 Smámynd: Gunnar Rögnvaldsson

Hvað sagði seðlabanki Grænlands við þessu Helgi?

Hvað gerði grænlenski fjármálageirinn? og grænlenskir sparifjáreigendur? Fluttu þeir peningana sína til evrusvæðis vegna þess að þeir vissu að fjármál Grænlands yrðu lögð í rúst við að segja sig úr ESB og evru? Höfðu þeir svona sterka trú á grænlensku krónunni Helgi? Eða var eitthvað annað sem spilaði þarna inn?

En hvers vegna sögðu Grænlendingar úr úr ESB Helgi? Og af hverju sögðu þeir sig ekki úr Danmörku í leiðinni?

Því mðiur Helgi minn. Þetta er eitt af því sem þú hefur heyrt hjá sölumönnum ESB á Íslandi. Það er engin leið út úr evru aftur. Skoðaðu þessa grein hér. Ég skrifaði hana sjálfur eftir 25 ára búsetu í einmitt ESB: Þrífst frelsið í faðmi ESB og evru?

Kveðjur

PS: það er samt athyglisvert að vextir á húsnæðislánum Spánverja skuli hækka og hækka þegar þeir samkvæmt Samfylkingarmönnum ættu að lækka og lækka, þarna inni í miðju evrusvæðinu. Vissulega athyglisvert. Það skyldi þó ekki geta hugsast að þetta ætti einnig við um Ísland ef Ísland væri með evru núna? Það skyldi þó ekki geta hugsast að ef Ísland væri með evru núna að þá myndi sennilega engin lifandi sál getað fengið lán fyrir svo mikið sem einum bílskúr á Íslandi.

Gunnar Rögnvaldsson, 30.3.2009 kl. 19:59

20 Smámynd: Anna Benkovic Mikaelsdóttir

Ítreka að mjög margir félagsmanna VG eru með ESB atkvæðagreiðslu!...enda þjóðin sjálf sem greiðir atkvæði!

Anna Benkovic Mikaelsdóttir, 30.3.2009 kl. 21:09

21 Smámynd: Helgi Jóhann Hauksson

Óveðrið gengur yfir allar þjóðir. Með ESB aðild og evru er meira skjól og stöðugri undirstaða en annars væri, eftir sem áður hefur hvert ríki  sjálft haft mest með það að gera hver stða þess er. Þau ESB ríki sem eiga í erfiðleikum eiga í þeim þrátt fyrir ESB en ekki vegna ESB.

- Og án vafa værum við að tala um mikla erfiðleika hér ef við hefðu gengið í ESB með Svíum og Finnum og tekið tímanlega upp evru, jafnvel ef þeir væru ekki nema tíundi partur þess sem þeir nú eru, og vissulega væri IMF ekki ekki hér að ráðskast með okkur til að bjarg krónunni ef hér hefði verið evra, og ESB-andstæðingar væru auðvitað að rukka okkur um hvort ekki ætti allt að vera betra með ESB, - en engann mann hefði getað grunað hvað gerðist í reynd utan ESB og án stöðugri grunns með evru og án einhvers skjóls af ESB-aðild.

Helgi Jóhann Hauksson, 30.3.2009 kl. 21:28

22 Smámynd: Gunnar Rögnvaldsson

Anna. Það eru stór vandamál samfara því að leyfa að lýðræðið sé kosið undan öllum Íslendingum um aldur og æfi. Lýðræðið okkar, barna okkar og svo barna þeirra um ókomna framtíð.

Þetta er ekki neitt venjulegt mál eða málefni. Hé gilda alveg sérstakar aðstæður og það verður að fara allveg sérstaklega sérstaklega varlega í svona málefnum.

ESB er að breytast hratt. Ef vonir ESB manna rætast þá verður ESB orðið að United States og Europe innan ekki svo langs tíma. Kanski eftir aðeins 20-40 ár. ESB getur aldrei staðist eins og þar er núna - sem krypplingur.

Sum þeirra landa sem hafa verið hvað lengst í ESB myndu ekki endilega kjósa að fara þangað inn núna, ef þau væru að taka ákvörðun um það núna. Öll Austur Evrópa hefði gengið í nánast hvað sem var þegar járntjaldið féll.

Aðstaða flestra landa á meginlandi Evrópu er þó óendanlega miklu erfiðari en aðstaða Íslands. Ísland er eyríkí og mun alltaf geta staðið eitt og sér og haldið sér fast við að vera sjálfstætt ríki á eigin forsendum. Það hefur Ísland sannað. Ísland er einnig ríkt land.

Aðstaða flestra ríkja í Evrópu er allt önnur. Til dæmis þá stendur Tékkland í stórum og miklum vandamálun núna því það gæti haft dramatískar afleiðingar fyrir þá að hlýða ekki eins og leppríki því sem ESB leggur fram sem hádegismat fyrir Tékka núna. Tékkar eiga t.d. engar hafnir að sjó. Þeir hafa risa á nánast allar hliðar og geta átt að verða settir í einangrun ef þeir segja ekki já og amen við öllu sem ESB ber á borð fyrir þá. Eftirfarandi var til dæmis í fréttum í dag.

=========================

French Foreign Minister: No Lisbon Treaty, no enlargement

According to the Irish Times, outgoing Czech PM Mirek Topolanek has said he will "plead" with his party to support the EU Lisbon Treaty, saying he believes the Treaty will be ratified before his country's presidency of the EU ends on June 30th. Czech Foreign Minister Karel Schwarzenberg said that he thought failure to ratify the Treaty would leave his country "absolutely isolated" in central Europe, saying "For us, that would be an awful result. Ireland as an island at least has free access to the sea. We are fully surrounded by the EU. We would thus isolate ourselves within it".

However, EUobserver reports that the deputies of his Civic Democrats (ODS) are largely sceptical about the Treaty and are now seen as unlikely to align with Topolanek's line on Europe, and instead align themselves more strongly with ODS founder and Czech President Vaclav Klaus.

In an interview with Die Welt, Schwarzenberg said "I'm rather sure that the Czech Republic will ratify the Lisbon Treaty in the coming weeks", however adding that "of course the EU could function with the Nice Treaty. The world would not go under". Süddeutsche Zeitung quotes Luxembourg's Foreign Minister Jean Asselborg saying that, "[Ratification] is going to be very difficult."

=========================

Ef Tékkar væru Íslendingar þá myndu þeir ALDREI ALDREI ALDREI ganga í ESB. Aldrei. Sama gildir um flestar þjóðir á meginlandi Evrópu.

Kveðjur

Gunnar Rögnvaldsson, 30.3.2009 kl. 21:36

23 Smámynd: Helgi Jóhann Hauksson

Gunnar, hverjir eru „ESB-menn“ og hverjar eru „vonir ESB-manna“? - Eru það einhverjir sem ráða því sem hver einasta ESB-þjóð veður að samþykkja?

Með nákvæmlega sama hætti og þú alhæfir á grundvelli einstakra radda og andstætt almennum skoðanakönnum virtra stofnanna, um hvert Írar og aðrir vilja stefna, þá alhæfir þú um einhverja „ESB-menn“ á grunni einstakra radda og einstaka greina einstaklinga.

- Í ESB eru saman komnar allar skoðanir sem eru til og allar skoðanir sem eru til hafa fengið rökstuðning á vettvangi ESB. - Eðli máls vegna ekki síst um sambandið sjálft. Allar mögulegar og ómögulegar útgáfur af þróun og örlögum þess hafa verið rökstuddar og viðraðar, ef það eru ekki tillögur aðildarríkja eða stofnanna ESB eru þær ekkert annað en það - partur af öllum hugsanlegum skoðunum.

Þú talar eftir hentugleikum ýmist um ESB sem sundurþykk samtök sem eru að leysast upp vegna sundurþykkju eða sem eina vitsmunalega heild með einn vilja og eina skoðun eins og hér.

Með nákvæmlega sama hætti og þú/þið hafið ýmist haldið því fram að engu sé hægt að breyta í ESB og svo því að allt geti breyst fyrirvarlaust, ýmist segið þið að engu sé hægt að breyta í fiskveiðistefnu ESB, því taki því ekki að ganga til aðildarviðræðna því þið vitið hver útkoma væri, og svo hinsvegar þegar lagt er á borðið að fiskveiðistefnan er um margt okkur hagfelld svo sem reglan „um hlutfallslegan stöðugleika“ og hefðarrétt til veiða í hverju ICES-hólfi er sagt að það geti allt fyrirvarlaust breyst og því sé okkur ekki óhætt að taka hliðsjón af því.

Allt eftir því hvað hentar hverju sinni.

Helgi Jóhann Hauksson, 30.3.2009 kl. 22:05

24 Smámynd: Andri Geir Arinbjarnarson

Á endanum mun þjóðin fá að kjósa um ESB aðild í þjóðaratkvæði, það er aðeins tímaspursmál.  Bíðum og sjáum hvað setur þegar fjárlagafrumvarp þessa árs kemur fyrir Alþingi!  Þegar kemur að því  að brúa kr. 200ma halla að ekki sé talað um Icesave skv. kröfum AGS þá fer EBS aðild að hljóma betur.  Hamarshögg AGS mun negla okkur við ESB.  Tölurnar munu tala og erlendir kröfuhafar með AGS í fararbroddi mun setja okkur stólinn fyrir dyrnar.  Við eru á hraðleið inn í skilorðsbundið sjálfstæði.  Það væri óskandi að svo væri ekki en ástandið er mun alvarlegra en margir gera sér grein fyrir.

Andri Geir Arinbjarnarson, 30.3.2009 kl. 22:21

25 Smámynd: Gunnar Rögnvaldsson

Helgi: Mér finnst að þú ættir að segja Tékkum frá þessu . Og einnig Austurríkismönnum sem fyrir nokkrum árum voru settir í pólitíska einangrun í ESB útaf innanríkismálum sínum. útaf innri málefnum og úrslitum kosninga.

En ef það mun einhverntíma fara fram þjóðaratkvæðagreiðsla um þessi mál Helgi, eða um önnur mál og ef minn málstaður bíður lægri hlut og þinn málstaður bíður hærri hlut, þá spyr ég þig að einu: megum við ekki fá að kjósa aftur. Kjósa aftur þangað til það kemur rétt úr úr kosningunum fyrir MIG! Er það þetta lýðræði sem þú villt innleiða á Íslandi? Ef svo er þá leyfi ég mér að segja: það á ekki að gefa mönnum kost á að kjósa undan sér lýðræðið því það mun aldrei koma aftur til þín. Aldrei. 

Ef leyfi mér einnig að pósta hér eftirfarandi pistil. Ég vona að Hjörleifur hafi ekki á móti því (ef ekki þá biðst ég velvirðingar á framfærni minni). Mér finnst við standa öxl við öxl í þessu mikilvæga máli. Reyndar hef ég alltaf virt Vinstri Græna mikið fyrir hreina afstöðu í þessu máli. Ég vona svo innilega að Vinstri Grænir megni að standa við sína sannfæringu um að Ísland eigi áfram að vera fullvalda og sjálfstætt ríki og því standa utan við svona þjóðasamsteypur eins og ESB er. Að sjálfstæðið sé hin sanna og sívirka auðlind Íslands og megi halda áfram að vera það.  

3 stjórnarskrár


Það þurfa öll 27 lönd/héruð í Evrópusambandinu að segja já við nýju stjórnarskrá Evrópusambandsins til þess að hún geti tekið gildi. Öll löndin/héruðin þurfa að samþykkja þá stjórnarskrá sem þau eiga að lifa og búa undir. Þetta eru engin smá mál sem stjórnarskráin nær yfir:

  • Efnahags-málin
  • Gjaldmiðla-málin
  • Peninga-málin
  • Félagslegu-málin
  • Landbúnaðar-málin
  • Sjávarútvegs-málin
  • Umhverfis-málin
  • Vinnumarkaðs-málin
  • Skatta-málin
  • Réttarfars-málin
  • Umferðar-málin
  • Neytenda-málin
  • Menningar-málin
  • Stjórn-málin
  • Utanríkis-málin

Nei nei og nei 

Í byrjun var ákveðið að leyfa kjósendum að kasta atkvæði um þessa 400 blaðsíðna stjórnarskrá sem á að stýra 500 milljón manns. Það hlýtur að standa sitt hvað á þessum 400 blaðsíðum. En hvað gerðist þá?

  • Frakkar sögðu nei
  • Hollendingar sögðu nei
  • Írar sögðu nei

Þetta eru 3 nei. En hvað gera menn þá? Jú það á ekki að leyfa þessum 500 milljón manns að segja hvað þeim finnst um þessa nýju stjórnarskrá. Það eru nefnilega næstum 500 milljón fábjánar í þessu bandalagi, samkvæmt skilningi þeirra sem taka ákvarðanir um þetta mál fyrir einmitt þessar 500 milljónir manns. Hreint ótrúlegt þetta Evrópusamband að ætla að byggja nýtt ríki með 500 milljón manns sem eru of vitlausir til að geta vitað í hvernig þjóðfélagi þeir vilja búa. Herra félagi Leonid Brezhnev hinn sálugi hefði varla getað slegið þessum hroka við.

Er hægt að drepa hana? Hvað þarf til? Byltingu? Verkföll? Óeirðir? Upplausn?

Er yfirhöfuð hægt að drepa þessa stjórnarskrá? Er hægt að láta hana detta niður dauða og sýna sig aldrei aftur? Þessu reynir varaformaður Evrópunefndarinnar að svara í einhliða viðtali við okkur hérna á moggabloggiu. Hvað þarf til?

Viðtal við Margot Wallström, varaformann ESB

Margot Wallström 

 Smella hér að neðan til að horfa á viðtalið

Margot Wallström on Newsnight (Treaty of Lisbon rejection) 

Hvernig á að lesa nýju stjórnarskrá Evrópusambandsins?

Því svarar til dæmis einn af ráðgjöfum Vaclav Klaus forseta Tékklands, Petr Mach, hér . Tékkinn Petr Mach fór einnig einu sinni í heimsókn til Brussel til að tala um hversu áætlanir Evrópusambandsins líktust mikið áætlunum Sovétríkjanna. En einn aðalmunurinn, sagði Petr Mach, væri sá að 5 ára áætlanir Sovétríkjanna lögðu mesta áherslu á að það væri þungaiðnaðurinn sem ætti að fá Sovétríkin til að ná hagsæld Bandaríkjamanna. En í Evrópusambandinu voru það hinsvegar tölvur sem árið 2000 áttu að fá Evrópusambandið til að ná hinni miklu hagsæld Bandaríkjanna fyrir árið 2010. Þetta voru því tvennar en mjög ólíkar áætlanir. Ein var einungis til fimm ára og studdist við kola- og stálverk. Hin áætlunin var hinsvegar til 10 ára og studdist við tölvur og internet, eða svo nefnda "upplýsingatækni". Ræðan hans Petr Mach frá þessari jómfrúar Brusselferð er hér.  

En hérna erum við allt í einu komin út í allt annað er stjórnarskránna. Við erum farin að tala um Lissabon 2000 markmið Evrópusambandsins, en þau ganga út á það (já meira að segja ennþá) að Evrópusambandið verði samkeppnishæfasta og ríkasta hagkerfi heimsins árið 2010. Hérna er hægt að lesa um hvernig þetta gengur hjá Evrópusambandinu: Breytt mynd af ESB - höfuðstefna

 

The main objective of the Lisbon Agenda, that Europe should become "the most competitive and most dynamic economy in the world by 2010," might sound like an innocent or even a good idea to the people who have been living in the West for decades. But to those who used to live under the Communist rule in Central Europe, such slogans about catching up with the United States sound all too familiar. The difference is that instead of promoting information technology, the communist planners put more emphasis on heavy industry. Whereas coal and steel used to be the fashion fifty years ago, now it is computers. But the principle remains the same – the politicians believe that they are better qualified than the people in a free market to decide how much money should be invested and in what industries. This principle did not work under communism, and it will not work this time either.

 

Sjá einnig: Forsætisnefnd Evrópusambandsþingsins notar Tékkland sem dyramottu

Gunnar Rögnvaldsson, 30.3.2009 kl. 22:34

26 Smámynd: Loftur Altice Þorsteinsson

Menn hafa ranghugmyndir um AGS !

Þegar við loksins tilkynnum AGS, að við ætlum að taka upp "fastgengi undir stjórn Myntráðs", mun AGS samþykkja það. Þá verður líka óþarfi að taka að láni 5 milljarða USD.

Jafnframt munum við hafa aðstöðu til að afskrifa Krónubréfin og neita að borga Icesave. Ef reynt verður að þvinga okkur til inngöngu í ESB, mun verða gerð vopnuð uppreisn í landinu.

Loftur Altice Þorsteinsson, 30.3.2009 kl. 22:39

27 Smámynd: Anna Benkovic Mikaelsdóttir

Gunnar, ef íslendingar eru sammála þér munu þeir kjósa það SJÁLFIR!....ekki satt?

Anna Benkovic Mikaelsdóttir, 30.3.2009 kl. 22:43

28 Smámynd: Gunnar Rögnvaldsson

Nei Anna. Þá veður bara kosið aftur og aftur. Eins og í Noregi. ESB mun svo hella nógu miklu afli og stuðningi inn í baráttuna. Ef fjölmiðlar eru einnig í vasanum á ESB mönnum þá mun þjóðin loks gefa eftir fyrir áróðrinum.

.

Eigum við að hafa þjóðaratkvæðagreiðslu um að afnema lýðræði og fullveldi á Íslandi? Mér finnst svo sannarlega ekki. Ísland hefur aðeins verið fullvalda ríki í 65 ár. Það kostaði mikið að fá fullveldið

Kveðjur

Gunnar Rögnvaldsson, 30.3.2009 kl. 22:55

29 Smámynd: Anna Benkovic Mikaelsdóttir

Gunnar ...þú veist greinilega ekki að eitt af skilmálum þess að ganga í ESB er að vera fullvalda ríki!!! M.a. þess vegna háðu sumar Austantjaldsþjóðir blóðuga baráttu...til að geta sótt um í ESB?

Anna Benkovic Mikaelsdóttir, 30.3.2009 kl. 23:16

30 Smámynd: Helgi Jóhann Hauksson

Gunnar býrðu ekki enn í Danmörku? - Hvað hefur þú lengi valið að búa í ESB-ríkinu Danmörku? Hvað hefur þú lengi búið á Íslandi síðustu 10 árin?

Helgi Jóhann Hauksson, 30.3.2009 kl. 23:54

31 Smámynd: Gunnar Rögnvaldsson

Anna. Nei það held ég ekki að sé skjalfest skilyrði af ESB hálfu. En auðvitað gengur ekki að lönd sem eru í eigu annarra (t.d. nýlendur ESB í Afríku (eða fyrrverandi Austur Evrópa) gangi í ESB. Þau eiga sig nefnilega ekki sjálf þannig hvernig ættu þau að geta selt sig til ESB? Nema að ESB taki við þýfi. Frakkland getur til dæmis ekki lengur gengið í USA vegna þess að Frakkland er í ESB og ESB á Frakkland núna.

Kveðjur

Gunnar Rögnvaldsson, 31.3.2009 kl. 00:06

32 Smámynd: Anna Benkovic Mikaelsdóttir

Það er skjalfest skilyrði Gunnar...að eiga sig sjálf! Og þannig er ESB byggt upp ....á vilja þjóðanna sjálfra!  Hver er að selja hvað?

Anna Benkovic Mikaelsdóttir, 31.3.2009 kl. 00:15

33 Smámynd: Helgi Jóhann Hauksson

UM kosningar, þá er kosið hér til þings að minnsta kosti á 4ra ára fresti og það er þingmanna að ákveða hvort þeir fela þjóðinni að kjósa um einstök mál.

- Sé vilji kjósenda sem svo þýðist sem vilji þingmanna til að leggja aðild eða úrsögn að ESB fyrir þjóðaratkvæði stendur ekkert í vegi þess - nema flokkarnir sem við kjósum til þings.

- Nái breytingar á stjórnarskránni fram að ganga sem nú er lagt til að verði getur tiltekinn hluti kjósenda knúið fram þjóðaratkvæðagreiðslu um mál og þar með bæði um aðild eða svo úrsögn úr ESB.

- Ég er viss um að þér finnst ekkert athugavert við það t.d.  ef Sjálfstæðisflokkur missir verulegt fylgi nú að samt verði kosið aftur til þings eftir 4 ár eða fyrr og svo afttur og aftur á 4 ára fresti.

Kosningar um ESB-mál í ESB-ríkjum hafa aldrei verið endurteknar án þess að tillögu sem til umfjöllunar er hafi verið breytt í millitíðinni. - Það er heldur ekkert sérstklega lýðræðislegt að mál sem 26 ríki hafa samþykkt sé stöðvað af naumum meirihluti í einu ríki því 27da og það jafnvel af allt öðrum ástæðum en þeim sem til umfjöllunar eru t.d. vegna óvinsælda ríkisstjórnar eða eitthvað þess háttar (yfir 90% Íra vildu áframhaldandi veru í ESB þegar þeri felldu Lissabonsamninginn).

- Engu að síður er þetta hin mikilvægasta regla ESB og sú sem heldur því saman öðru fermur að engin grundvallar mál eru ráðin til lykta nema með samþykki allra aðildaríkja og ef hindranir eru á veginum er allt reynt til að laga og finna viðunandi lausn.

Bretum og stórþjóðunum finnst þetta vera lýðræðishalli en hann er í þágu sáttar og í þágu smáþjóðanna.

Helgi Jóhann Hauksson, 31.3.2009 kl. 00:26

34 Smámynd: Helgi Jóhann Hauksson

Það var horfið frá stjórnarskránni sem snérist um að skipta „sáttmálanum“ upp í stjórnarskrárhluta og almennan hluta vegna andstöðu. Því er það ekki gert heldur ráðist í að endurnýja sáttmálan í heild sinni.

Þegar andstæðingar bandalagsins börðust gegn stjórnarskrárhugmyndinni höfnuðu þeir algerlega þeim rökum að „sáttmálinn“ væri stjórnarskrár-ígildi og því væri í raun verið að skera niður gildandi stjórnarskrá ESB eins og stuðningsmenn sögðu, nú hinsvegar bera þeir á borð viðsnúin sömu rök, nú er „sáttmálinn“ í heild sinni „stjórnarskrá“ og það sem meira er alltof stór stjórnarskrá sbr Gunnar hér ofar, sem voru rökin þeirra sem vildu uppskiptingun sem var felld og fallið frá.

Helgi Jóhann Hauksson, 31.3.2009 kl. 00:42

35 Smámynd: Baldur Gautur Baldursson

Það hryggir mig mest að sjá skammsýni ESB sinna, sem ég get svo sem unnt að stýra landinu, en að því gefnu að þeir láti af blindni sinni og takist á við málfluttning beggja, þeirra sem eru með inngöngu í ESB OG þeirra sem telja ESB vera lakasta urræði landsins í hremmingum þess.  Það ber einnig að hugsa til framtíðar. Fólk virðist vera slegið blindu á að gangi maður í ESB er enginn útvegur þaðan. Gangi Ísland í ESB mun ekki líða að löngu uns við semjum af okkur fiskveiðilögssögu okkar eða verðum beitt refsingum ellegar fyrir að vera ósamstarfsfús. Þjóðir sem hafa frábrugðna lífssýn en við höfum, þjóðir sem eru múslímskar, þjóðir sem búa við annað loftslag, tala tungumál af framandi málaætt, hafa kannski ekki búið við lýðræði, búa við aðrar efnahagsforsendur sem stýrast af grannskap við aðrar þjóðir og menningarheim, þjóðir sem búa við vafasöm mannréttindi, dómskerfi og hafa hryðjuverk og stríð sem daglegt brauð. Hvernig ætlar Ísland að tengjast þessu sambandi og ná einhverjum rétti?

Ég held nú ekki!

Baldur Gautur Baldursson, 31.3.2009 kl. 12:06

36 Smámynd: Hjörleifur Guttormsson

Hér hefur margt athyglisvert komið fram, ekki síst hjá Gunnari Rögnvaldssyni sem greinilega hefur sett sig vel inn í gangverk Evrópusambandsins.

Eitt þyrfti sem flestum að vera ljóst. ESB-aðild er engin lausn á þeim mikla vanda sem Íslendingar glíma nú við. Þar hjálpa engin töfrabrögð eins og Samfylkingin reynir að telja mönnum trú um. Þvert á móti myndi ESB-aðild auka á vandann og skerða með óafturkræfum hætti fullveldi Íslendinga. ESB horfir fram á gífurlega innri erfiðleika á næstu árum, m.a. vegna hvers hve sambandið hefur þanist út síðasta áratuginn. Það reynir mjög á þanþol Myntbandalags ESB-ríkjanna 16 og jafnvel Joschka Fischer hefur sett spurningarmerki við hvort það haldi. Inn í þennan suðupott á Ísland ekkert erindi. Þeir sem bera lýðræði fyrir brjósti átta sig vonandi á því að með aðild að ESB myndu Íslendingar fjarlægjast þær hugmyndir um lýðræði, þ.e. áhrif þjóðar okkar í eigin málum, sem hefur verið krafa fjölda manna hér undanfarið.

Formaður VG rifjaði upp í morgunútvarpi RÚV á þessum degi, hversu langsótt það er að að setja fram kröfu um aðildarviðræður við ESB sem skilyrði fyrir myndun ríkisstjórnar að loknum kosningum. Hann minnti á að þetta mál er ekki nýtt í umræðunni. Samfylkingin hóf hér ríkisstjórnarsamstarf fyrir tveimur árum án þess að aðild að ESB væri á dagskrá. Ætli hún að gera þá kröfu nú að úrslitaatriði er hætt við að fáir verði viðmælendur.

Hjörleifur Guttormsson, 31.3.2009 kl. 15:09

37 Smámynd: Andri Geir Arinbjarnarson

Á endanum mun ESB aðild snúast um lífskjör.  Flestar þjóðir hafa gengið inn í ESB til að auka eða vernda lífskjör sinna borgara.  Engin ástæða fyrir Noreg og Sviss að ganga inn, þeirra þjóðartekjur á mann eru hærri en ESB meðaltalið og svona hefur þetta verið á Íslandi.  Ef þjóðartekjur á Íslandi fara að dragast aftur úr ESB meðaltalinu mun ESB aðild fá meiri hljómgrunn sem því nemur.  Geta VG og D náð saman um þá efnahagslegu framtíðarsýn utan ESB sem mun trygga áframhaldandi jákvæðan mun á íslenskum þjóðartekjum á mann og ESB meðaltalinu?

Andri Geir Arinbjarnarson, 31.3.2009 kl. 15:55

38 Smámynd: Fannar frá Rifi

það blæs á okkur andartaks andvari og allir hrökkva í kút um að núna á næsta leiti sé svarti dauði væntanlegur til landsins og spánskaveikin þar á eftir.

lífskjör á spáni eru ekkert að batna. hér erum við að sjá fram á allt að 10% atvinnuleysi. svartar tölur. á spáni eru það 20%. 1 af hverjum 5 atvinnulaus. já Andir það kallar þú að vernda lífsgæðin. 

Fannar frá Rifi, 31.3.2009 kl. 22:01

39 Smámynd: Andri Geir Arinbjarnarson

Ekki veit ég hvar Fannar fær sínar tölur en samkvæmt IMF (sjá http://www.imf.org/external/index.htm) er atvinnuleysi á Spáni 9.5%.  Það var viðvarandi um 20% áður en þeir gengu inn í ESB skv. sömu heimild.  Við höfum misst okkar fjárhagslega sjálfstæði, erum í gæslu hjá AGS og með erlendan Seðlabankastjóra sem er gæslumaður en ekki lausamaður.  Hvaða Svíi eða Dani haldið þið að mynduð vilja segja sig úr ESB til að fara í spor Íslands í dag?

Ég er sammála Fannari að nú er andvari á undan storminum.  Fjárlög 2010 verða ekki falleg.

Andri Geir Arinbjarnarson, 31.3.2009 kl. 22:33

40 Smámynd: Anna Benkovic Mikaelsdóttir

Ég er VINSTRI og get vel stutt hugmyndafræði ESB!...tek fram að þar má margt betur fara.  Auðlindir Íslands eru þegar svo skuldsettar að börn okkar og barnabörn eiga enga framtíð hér án ESB?

Anna Benkovic Mikaelsdóttir, 1.4.2009 kl. 16:08

41 Smámynd: Loftur Altice Þorsteinsson

Eru ummæli Jóns Frímanns ekki hámark fáránleikans ? Hann leyfir sér að segja:

… Íslendingar hafa lifað með lögum og reglum ESB frá árinu 1994. Það er ekki að sjá að eitthvað slæmt hafi gerst hérna á landi.

Efnahagshrunið hefur sem sagt algjörlega farið fram hjá þessum riddara Evrópusambandsins. Hann hlýtur að vera bæði heyrnarlaus og sjónlaus !

Loftur Altice Þorsteinsson, 4.4.2009 kl. 17:33

42 Smámynd: Loftur Altice Þorsteinsson

Jón Frímann. Hvernig gátu Icesave reikningar Landsbankans farið fram hjá þér ? Hvernig gatst þú misst af samræmdri atlögu ESB að hagsmunum okkar ?

Við eigum skýlausan rétt til lána hjá Alþjóða gjaldeyrissjóðnum, en ESB misbeitir aðstöðu sinni hjá sjóðnum. Bretar eru ennþá með okkur á hryðjuverka-listanum og halda ólöglega tug-milljörðum Króna, sem eru eign Íslendskra fyrirtækja.

Svo kemur Jón Frímann á vettvang og segir ESB engan hlut eiga að máli. Hann er ekki bara heyrnarlaus og sjónlaus. Eitthvað mikið hrjáir málstöðvar hans líka. 

Loftur Altice Þorsteinsson, 6.4.2009 kl. 11:03

43 Smámynd: Gunnlaugur B Ólafsson

Það er nokkuð merkilegt að sjá og skynja að tengslin við ESB verða eitt helsta kosningamálið. Þar er staða Samfylkingarinnar skýr.

Aðrir eru ekki búnir að ljúka fyllilega úttekt, umræðu og niðurstöðu um ESB og myntsamstarf við aðrar þjóðir.

Heyrði í Guðfríði Lilju lýsa því yfir í kosningaútvarpi þ.s. ég var á leið frá Akureyri að óskin um lýðræðislegt uppgjör í málinu myndi ráða.

Stefna VG væri að ef 15% þjóðarinnar óskuðu eftir kosningu að þá yrði fylgt þeim vilja. Meirihluti vill aðildarviðræður.

Gunnlaugur B Ólafsson, 9.4.2009 kl. 00:05

44 Smámynd: Loftur Altice Þorsteinsson

Gunnlaugur, "það er nokkuð merkilegt að sjá" hvað þú hefur tekið skakkt eftir umræðunni um ESB. Samfylkingin er eini flokkurinn sem vill fara inn í Evrópusambandið, vegna þess að það eru trúarbrögð í þeim flokki. Þetta er 20 ára Sossa-draumur.

Stefna Sjálfstæðisflokks og VG er skýrt "NEI-við-ESB". Framsókn fer bakaleiðina eins og svo oft áður, en það gerir sama gagn. Skilyrði þeirra eru svo ströng að þeir munu verða manna harðastir gegn aðild.

Það eru allir nema Samfylkingin sammál um að beita lýðræðislegum kosningum til að ákveða hvort farið verður í viðræður. Málið mun stöðvast þar, vertu viss.

                              NEI-við-ESB

Loftur Altice Þorsteinsson, 9.4.2009 kl. 01:14

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband