Ráðleysi og ósamstaða á meðan kreppan dýpkar

Heimurinn stendur frammi fyrir dýpstu efnahagskreppu í 80 ár. Framundan er fundur 20 helstu efnahagsvelda veraldar (G20) en það sem við blasir er ósamstaða og ringulreið. Hagfræðingar og talsmenn um efnahagsmál greinir á um hver vera eigi viðbrögðin og hvert skuli stefna til að vinna bug á kreppunni. Hugmyndir Obama Bandaríkjaforseta um að dæla áfram risastórum upphæðum í banka og efnahagslíf mæta mikilli tortryggni á Bandaríkjaþingi og í ýmsum Evrópuríkjum. Það er helst að Gordon Brown styðji hugmyndir Hvíta hússins og fær bágt fyrir hjá mörgum.

Næststærsta efnahagskerfi heims, Japan, stendur frammi fyrir hrikalegum samdrætti. Útflutningur hefur fallið um 50% á einu ári og Alþjóða gjaldeyrissjóðurinn spáir nær 6% samdrætti á árinu 2009.

Innan Evrópusambandsins er ástandið óbjörgulegt svo ekki sé meira sagt. Talsmaður sambandsins nú á fyrrihluta ársins, Tékkinn Mirek Topolanek, tapaði meirihluta sínum sem forsætisráðherra heima fyrir og sambandið er þannig hálflamað í aðdraganda Evrópuheimsóknar Bandaríkjaforseta. Efnahagsmál margra ESB-ríkja eru í uppnámi, ekki síst á svæðinu austanverðu með efnahag Lettlands í rúst og Ungverjaland á í miklum erfiðleikum, að ekki sé horft austuryfir til Úkraínu.

Leiðtogar víða í álfunni óttast þá félagslegu gerjun sem fylgir sívaxandi atvinnuleysi. Á Írlandi mættu 120 þúsund manns í kröfugöngu fyrir fáum dögum og í Frakklandi gæti verið skammt í götuuppreisnir. Enginn veit í raun hvort Evrópusambandið kemst heilt út úr kreppunni, einnig Myntbandalagið með evruna. Í ljósi þessa eru þeim mun undarlegri tillögur sumra stjórnmálaflokka hérlendis, Samfylkingar og Framsóknar,  að Íslandi eigi að sækja um aðild að ESB.

Athyglisverðast af öllu er þó vöntun á gagnrýninni umræðu um framtíðarskipan heimsbúskaparins, burt frá því eymdarkerfi kapítalismans sem dregið hefur löndin niður í kviksyndi sem engin sannfærandi leið er upp úr. Það er grimm öld sem bíður mannkyns ef ekki tekst að koma þróun landanna inn á sjálfbært spor, gjörólíkt þeirri braut sem fetuð hefur verið um langa hríð.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Þorsteinsson

Heill og sæll Hjörleifur

Óheftur kapítalismi, og óheftur sósíalismi hefur sýnt sig að leiði til ófarnaðar. Þú rekur að staðan sé afar dökk, en hvar eru tillögurnar um lausnir?

Sigurður Þorsteinsson, 27.3.2009 kl. 17:09

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband