17.2.2009 | 11:45
Frumvarp Steingríms J um bann við umferð kjarnorkuknúinna farartækja
Árekstur bresks og fransks risakafbáts á Atlantshafi í byrjun þessa mánaðar hefur vakið heimsathygli. Hvort skipið um sig er knúið kjarnorku og hafði um borð 16 langdrægar margodda kjarnaflaugar, samtals 32. Bresk yfirvöld ætluðu að halda atvikinu leyndu en franski sjóherinn birti frétt um það á heimasíðu sinni. Af talsmönnum Campaign for Nuclear Disarmament er talið að aðeins hafi munað hársbreidd að hér hafi orðið gífurlegt umhverfisslys með ófyrirsjáanlegum afleiðingum á stóru hafsvæði. Með ólíkindum þykir að slíkt atvik skuli hafa gerst og það milli kafbáta tveggja vinveittra grannþjóða.
Frá árinu 1987 að telja hefur Steingrímur J Sigfússon haft forystu um flutning frumvarps til laga "um friðlýsingu Íslands fyrir kjarnorkuvopnum og bann við umferð kjarnorkuknúinna farartækja." Markmið þess er að gera allt íslenskt yfirráðasvæði kjarnorkuvopnalaust og draga úr hættunni af kjarnrkuóhöppum hérlendis og á hafsvæðunum í grennd við Ísland. Mál þetta liggur fyrir yfirstandandi þingi og eru flutningsmenn með Steingrími úr öllum þingflokkum nema Sjálfstæðisflokki.
Væntanlega verður þessi voveiflegi árekstur kjarnorkukafbáta á miðju Atlantshafi til þess að frumvarp Steingríms verði lögfest og í kjölfarið unnið að því að afla hinu friðlýsta svæði alþjóðlegrar viðurkenningar. Slíkir samningar hafa verið samþykktir af fjölda ríkja á suðurhveli. Þannig eru Mið- og Suður-Ameríka, Suðaustur-Asía, Eyjaálfa og eyjarnar í Suður-Kyrrahafi ásamt Suðurskautslandinu svæði sem hafa verið friðlýst fyrir kjarnorkuvopnum.
Athugasemdir
Já þetta er hræðilegra en hægt er að lýsa með orðum. Maður spyr sig hvaða ástæða er fyrir því að vera með hlaðið kjarnorkuforðabúr um borð í kafbáti á æfingu á friðartímum?
Varðandi með frumvarpið sem þú vísar til þá styð ég það eindregið.
Þór Ludwig Stiefel TORA, 17.2.2009 kl. 14:18
Sammála þér Hjörleifur.
En ansi er ég hræddur um að erfitt verði fyrir okkur að fylgjast með að eftir verði farið ef bannið yrði samþykkt.
Björn Jónsson, 18.2.2009 kl. 08:44
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.