1.2.2009 | 22:51
Ánægjulegt að sjá Jóhönnu á ráðherrastóli
Það leggst vel í mig að Jóhanna Sigurðardóttir leiði ríkisstjórnina þennan spöl fram á vorið. Hún kom inn á þing í sömu kosningum og sá er þetta skrifar, þ.e. vorið 1978. Ég var samtíma henni á þingi í 21 ár. Kynntist henni lítið persónulega og var ekki alltaf sáttur við hennar málflutning, t.d. í húsnæðismálum þegar hún var ráðherra kringum 1990. Henni hætti til að kenna öðrum um þegar seint gekk að stytta biðraðir eftir íbúðalánum. Hins vegar leyndi sér ekki að hún var fylgin sé, enda kvartaði Jón Hannibalsson sáran undan henni sem samráðherra.
Nú reynir á Jóhönnu með öðrum hætti við borðsendann en sem fagráðherra. Það er betra að hafa hana í því hlutverki og vonandi miðar stjórninni áleiðis. Ég myndi hins vegar vera spar á loforð fyrirfram því að við ramman reip er að draga. Það á ekki bara við um Ísland heldur nánast um veröld víða nú í kreppunni, allt stopp í bönkum og helsta ráð kapítalistana að láta ríkið taka þá flesta yfir.
Ég tók eftir sneiðinni frá Jóhönnu til Björns Bjarnasonar í dag um að hann hefði verið svifaseinn. Ég hefði geymt mér slíka einkunnagjöf þar til í þinginu þegar fyrrum samráðherra hennar hefði getað svarað fyrir sig. Sjálfur þekki ég ekki málavöxtu, en mér hefur sýnst Björn athafnasamur sem ráðherra.
Dálítið finnst mér skrítin öll umræðan um samkynhneigð Jóhönnu svo sjálfsagt sem manni finnst að kynhneigð skipti ekki máli út fyrir ramma einkalífsins. En fordómarnir eru víða og kannski ryður Jóhanna einhverja braut á þessu sviði nánast óafvitandi. Það þarf víst ekki lengra en til Færeyja til að upplifa ramma fordóma gagnvart þessu sviði mannlegra samskipta.
Aðalatriðið er að Jóhanna reynist góður og sanngjarn verkstjóri yfir því ágæta liði sem settist með henni á ráðherrastóla í dag.
Birni þótti lítið leggjast fyrir Jóhönnu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Sæll Hjörleifur.
Það eru bundnar miklar vonir við þessa ríkisstjórn. Jafnvel svo miklar að það verði erfitt fyrir stjórnina að standa undir væntingum á þeim stutta tíma sem er til kosninga. En vonandi standa þau sig vel og vissulega eru það góð tíðindi að VG sé loksins komið í stjórn. VG er auðvitað eini flokkurinn sem varaði við þeirri óheftu markaðshyggju sem allir sá nú hvert hefur leitt okkur.
Þó er eitt sem ég hef verulegar áhyggjur af. Það er þetta loðna orðalag í verkáætlun ríkisstjórnarinnar: Engin ný áform um álver verða á dagskrá ríkisstjórnarinnar.
Hvað er átt við með þessu? Er verið að gefa grænt ljós á allar þær ofboðslegu framkvæmdir sem þegar eru áform um? Það eru vissulega ekki ný áform enda hefa áform um stóriðju verið all svakaleg hjá síðustu ríkisstjórnum?
Svo ég segi eins og krakkarnir; plís Hörleifur segðu að ég sé að misskilja þetta loðna orðalag.
Jón Kristófer Arnarson, 1.2.2009 kl. 23:44
Hafa þau ekki varan á fyrir lagalegum viðsnúningi.
Ekki er víst að hægt sé að snúa orðnum hlut rétt sí svona, því miður
Kristján Logason, 2.2.2009 kl. 00:24
Sæll Hjörleifur.
Ég óttast bjartsýniskastið sem fylgir þessari stjórnarmyndun. Má næstum líkja því við bjarsýnisbrjálæðið í Bandaríkjunum er Obama Hussein tók þar við völdum.
Við búum í veröld sem við ráum ekkert við í dag. Helsta von mín varðandi þessa ríkistjórn er að hún hreinsi til og leggi grunnin að rétlátara samfélagi. Það þarf að moka út úr Seðlabankanum, taka til í ráðuneytum og öðrum stofnunum þar sem vinumog flokkssistkynum hefur verið plantað, finna frambjóðendur og undirbúa stjórnlagaþing, auk þess að reyna að halda bankakerfinu í gangi. Það er grundvöllurinn fyrir að atvinnulífið gangi og besta trygging heimilanna.
Held að þessi rikistjórn komi ekki nálægt neinum stórvirkjunarframkæmdum eða neinum nýjum málum þeim tengdum. Til þess hefur hún einfaldlega ekki tíma.
Dunni, 2.2.2009 kl. 07:52
Tek undir þetta allt, Hjörleifur. Hvað sem segja má um Björn Bjarnason verður ekki frá honum tekið að hann er mjög duglegur maður. Hann hefur nú þegar svarað ásökunum Jóhönnu og það eru nú ekki meðmæli með Jóhönnu ef fyllyrðing Björns er rétt. En við skulum vera hæfilega bjartsýn. Þessir 80 dagar verða fljótir að líða. Ég vona það besta og hlakka til að ganga að kjörborðinu í apríl.
Sigurður Sveinsson, 2.2.2009 kl. 08:45
Ég tek undir þetta með þér Hjörleifur að mestu en hef ekki orðið var við fordóma í garð Jóhönnu vegna kynhneigðar hennar, þvert á móti. Umfjöllun um fólk er góðu heilli sjaldnast rætin. Ég man vel eftir allri umfjölluninni um Vigdísi Finnbogadóttur og hennar einkalíf. En hún varð forseti þó hún atti kapp við öfluga og vinsæla keppinauta. Kannski er það einmitt merki um fordómaleysi okkar að geta rætt opinskátt um samkynhneigð eða aðra manlega eiginleika án þess að svelgjast á? Mér líkar ágætlega við Jóhönnu en burtséð frá því finnst mér ágætt að hún braut þennan ís. Kannski eru það fordómar hjá mér?
Sigurður Þórðarson, 11.2.2009 kl. 10:30
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.