31.1.2009 | 21:01
Góðar óskir fylgja ríkisstjórn í erfiðu hlutverki
Það eru stór tíðindi að á einni viku er að verða til ný ríkisstjórn á Íslandi. Minnihlutastjórn Samfylkingar og Vinstri grænna mun starfa í tæpa þrjá mánuði fram að alþingiskosningum og glíma við afar erfið úrlausnarefni. Á þeim tíma fer fram kosningabarátta í aðdraganda þess pólitíska uppgjörs sem meirihluti þjóðarinnar hefur krafist að undanförnu. Væntanlega tekst stjórninni að þoka nokkrum af stefnumálum sínum áleiðis og á framkvæmdastig á þessum stutta tíma, en óvarlegt er að búast við miklu. Úrslit kosninganna munu ráða mestu um framhaldið til lengri tíma litið.
Geysileg gerjun er í hugum Íslendinga eins og almennings víða um heim. Stoðir fjármála- og efnahagslífs hafa brostið og atvinnuleysi fer hríðvaxandi. Vantrú og gagnrýni á kapítalismann fer ört vaxandi en engar einfaldar lausnir eru í boði. Krafan um lýðræði og opið stjórnkerfi á ríkan hljómgrunn. Taka verður til á öllum sviðum samfélagsmála ætli menn í reynd að komast á spor sjálfbærrar þróunar. Yfirvofandi ógnir loftslagsbreytinga af mannavöldum gera verkefnið enn brýnna. Lykill að farsælli lausn á hrikalegum vanda felst í setja á dagskrá ný gildi undir gömlum merkjum um jöfnuð, réttlæti og hófsemi samhliða gjörbreyttri sambúð manna við umhverfi sitt á heimilinu jörð.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.