Hvað verður um myntbandalag ESB? Af heimasíðu minni 1. nóvember 2008Þær hremmingar sem nú ganga yfir efnahagskerfi veraldar eiga eftir að hafa djúpstæð áhrif og innan tíðar getur blasað við gjörbreytt landslag í viðskiptum og alþjóðamálum. Það á m.a. við um forsendur hnattvæðingarinnar og ríkjasamsteypur eins og Evrópusambandið. ESB og Evru-svæðið innan þess er afar illa búið undir þá kreppu sem nú ristir æ dýpra í efnahagslíf heimsins. Þýskaland, sem ásamt Frakklandi er burðarás í Evru-myntbandalaginu, er sem vöruútflytjandi afar viðkvæmt fyrir samdrætti. Þótt Evru-löndin séu ekki skuldsettari á heildina litið en Bandaríkin hefur hagvöxtur þar verið langtum minni og aldurssamsetning önnur og óhagstæðari líkt og hið sama á einnig við um Japan. Að auki er atvinnuleysi innan ESB þegar gífurlegt vandamál, um 70% meira en í Japan og tvöfalt meira en verið hefur í Bandaríkjunum. Efnahagsvöxturinn sem átti að fylgja innri markaðnum hefur látið á sér standa og ESB er þannig afar illa undir frekari samdrátt búið. Leiðandi ríki á Evrusvæðinu hafa að undanförnu brotið meginreglur Maastricht-sáttmálans um ríkisfjármál, skuldsetningu og efnahagslegan stöðugleika. Aðsteðjandi kreppa getur því fyrr en varir sett myntbandalagið í uppnám. Kjarninn í hertum áróðri hérlendis fyrir að Ísland sæki um aðild að ESB hvílir þannig á ótraustum grunni, svo ekki sé litið til annarra þátta sem mæla gegn aðild. Heilvita menn ættu að sjá að við núverandi aðstæður og dýpkandi alþjóðlega kreppu framundan væri hreint glapræði að fara að bindast Evrópusambandinu í meira mæli en orðið er.
Flokkur: Bloggar | Facebook
«
Síðasta færsla
|
Næsta færsla
»
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.