Sjávarútvegsráðherra hleypur burt frá 20% aflareglunni

Ákvörðun sjávarútvegsráðherra um að auka þorskkvóta um 30 þúsund tonn í 160 þúsund tonn á yfirstandandi fiskveiðiári og gefa út að þorskkvóti verði ekki lægri á næsta fiskveiðiári ber vott um mikinn og illa rökstuddan hringlandahátt. Með þessari ákvörðun hleypur ráðherrann frá þeirri stefnumótun um uppbyggingu þorskstofnsins sem hann studdi á síðasta ári í samræmi við tillögur Hafrannsóknastofnunar.  

Forstjóri Hafró Jóhann Sigurjónsson segir nú um þessa ákvörðun ráðherrans:

„Ef það gengur eftir sem lesa má úr tilkynningu sjávarútvegsráðuneytisins, að þessari aukningu fylgi viðlíka aukning á næsta ári, þá náttúrulega stefnir þetta uppbyggingarstarfinu í algjöra óvissu. Og það eru vaxandi líkur á að það langtímamarkmið að stækka hrygningarstofninn, sem ég held að allir hafi verið sammála um, hreinlega náist ekki. Það eru mikil vonbrigði. Tíðar breytingar á aflalreglunni í þorski, sem hafa óneitanlega verið á undanförnum árum, færa okkur augljóslega frá markmiðinu um uppbyggingu stofnsins og þeim markmiðum að veita atvinnugreininni meiri stöðugleika.“

Þetta er skýrt og ákveðið hjá Jóhanni. Í þessu sambandi er ástæða til að vitna í skýrslu Hafrannsóknastofnunar frá árinu 2007 (fjölrit nr. 129) þar sem segir m.a. á bls. 7:

"Nýliðun síðustu sex árin hefur verið slök og meðalþyngd allra aldurshópa í sögulegu lágmarki. Í ljósi þessa telur Hafrannsóknastofnunin mikilvægt að veiðihlutfall verði nú þegar lækkað og að aflamark á komandi árum miðist við 20% af viðmiðunarstofni í stað 25% sem verið hefur." Í samræmi við þetta ákvað sjávarútvegsráðherra aflamark í þorski 130 þúsund tonn, en hefur nú hlaupið frá þeirri afstöðu með órökstuddu pennastriki.

Athygli vekur að Friðrik J Arngrímsson talsmaður LÍU hefur fyrirvara um þessa ákvörðun um aukningu kvóta en Örn Pálsson hjá smábátamönnum fagnar í stíl við þá hentistefnu sem forysta Landssambands smábátamanna hefur fylgt að undanförnu.


mbl.is Stjórn LÍÚ fagnar kvótaaukningu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Kristjánsson

Sæll Hjörleifur

Tilvitnun þín í skýrslu Hafró 

"Nýliðun síðustu sex árin hefur verið slök og meðalþyngd allra aldurshópa í sögulegu lágmarki. Í ljósi þessa telur Hafrannsóknastofnunin mikilvægt að veiðihlutfall verði nú þegar lækkað og að aflamark á komandi árum miðist við 20% af viðmiðunarstofni í stað 25% sem verið hefur."

segir mér sem náttúrufræðingi að  þorskstofninn vanþrífist, sé horaður vegna fæðuskorts og hindri nýliðun með því að éta eigin afkvæmi.

Við slík skilyrði getur það varla talist fagleg ráðgjöf að draga úr veiðum og stuðla þannig að meira hungri og auknu sjálfáti.

það er eitthvað annað að baki ráðgjafar, sem stangast á við almenna þekkingu í náttúrufræði?

Jón Kristjánsson, 16.1.2009 kl. 19:40

2 Smámynd: Haraldur Baldursson

Raddir þeirra sem fiskinn draga eru samt samhljóma um að nægur fiskur (aðallega talað um þorsk þó) sé í kringum landið.

Ég held að vert væri að hefja vísindaveiðar, þar sem smábátar og trillur fengju að veiða næst landi. Hver sá hluti fisksins (lifur, hrogn, ...) sem henta þykir má safna til að gera raunverulegar rannsóknir á til mats á dreifingu þorskins (og annarra tegunda) ættu að gefa nokkuð skýra mynd ef þessum aðilum yrði þá líka heimilt að koma með smáfisk að landi. Reynist forsendur frekari veiða vera til staðar, má þá setja formlegri ramma utanum vísindaveiðarnar, en samt halda þeim utan kvótakerfisins.

Haraldur Baldursson, 16.1.2009 kl. 19:43

3 Smámynd: Sigurður Þórðarson

Þetta eykur veðhæfni flotans.

Sigurður Þórðarson, 16.1.2009 kl. 20:28

4 Smámynd: Árni Gunnarsson

Þrátt fyrir að veiða nær þrefalt meira en fiskifræðingar ráðlögðu árið 2000 í Barentshafi hefur Rússum og Norðmönnum tekist að fimmfalda ráðlagt aflamagn í dag. Þeir mega veiða um 500,000 tonn af þorski en ráðgjöfin 2000 var 110 þús. tonn ef ég man rétt eða ámóta og okkur var talið óhætt að veiða. Nú hefur okkur "tekist" að þoka ráðlögðu aflamarki þorsks upp í 130 þús.

Ég vona að þessar tölur séu nokkuð réttar en ég hef þær ekki fyrir framan mig.

Niðurstaða: Ef við tókum rétta ákvörðun með því að fylgja ráðgjöf Hafró árið 2000 þá hlýtur ákvörðun Rússa og Norðmanna að hafa verið röng og þar með hættuleg.

Spurning: Er röng ákvörðun ekki heillavænlegri?

Þú hlýtur að hafa skoðun á þessu Hjörleifur.

Ragnar Árnason, merkur kennari við akademiuna telur að við eigum að geyma fiskinn í sjónum eins og vörubretti á lager.

Bóndi í Skagafirði vildi ganga á hólm við úreltar venjur og skipaði ráðsmanni sínum að halda öllum kúnum undir naut tilgreindan dag til hagræðingar og tímasparnaðar.

Árni Gunnarsson, 16.1.2009 kl. 21:50

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband