Samfylkingin án samningsmarkmiða um ESB-aðild

Grein Stefáns Jóhanns Stefánssonar

Varaborgarfulltrúi Samfylkingarinnar í Reykjavík, Stefán Jóhann Stefánsson, hefur valdið uppnámi innan Samfylkingarinnar með grein sem birtist í Morgunblaðinu 23. desember sl. undir fyrirsögninni "ESB-stefna Samfylkingar?". Þar rekur hann hvernig staðið var að stefnumótun flokksins í Evrópumálum á árunum 2002-2003. Mikið hefur verið gert úr því að Samfylkingin sé eini flokkurinn sem hafi skýra stefnu um að sækja um aðild að Evrópusambandinu og hefur verið vísað í því sambandi í póstkosningu haustið 2002. Spurningin sem um 80% svarenda guldu jáyrði sitt við hljóðaði þannig:

"Á það að vera stefna Samfylkingarinnar að Íslendingar skilgreini samningsmarkmið sín, fari fram á viðræður um aðild að Evrópusambandinu og að hugsanlegur samningur verði síðan lagður fyrir þjóðina til samþykktar eða synjunar?"

Landsfundarsamþykkt Samfylkingarinnar 2003 

Haustið 2003 markaði Samfylkingin stefnu sína í Evrópumálum með eftirfarandi samþykkt:

"Samfylkingin ákvað á stofnfundi sínum vorið 2000 að gera heildstæða úttekt um tengsl Íslands og Evrópusambandsins. Á grunni víðtækra upplýsinga tók síðan almennur flokksfélagi í Samfylkingunni ákvörðun í sögulegri kosningu haustið 2002 um að setja aðildarumsókn að Evrópusambandinu á stefnuskrá flokksins á grundvelli skilgreindra samningsmarkmiða. Í ljósi áhrifaleysis og einstakra milliríkjamála verður æ ljósara að erfitt verður að byggja á EES-samningnum til frambúðar.

Samfylkingin mun því stofna sérstakan 9 manna málefnahóp um Evrópumál sem m.a. skoði ávinning Íslands af aðild að Evrópusambandinu, skilgreini hver helstu samningsmarkmið eigi að vera við aðildarumsókn, meti stöðu EFTA og EES- samningsins og greini áhrif evrunnar á íslenskt efnahagslíf."

Samningsmarkmiðin aldrei verið skilgreind

Í grein sinni í Morgunblaðinu rekur síðan Stefán Jóhann framhaldið. Framkvæmdastjórn Samfylkingarinnar skipaði skömmu síðar umræddan starfshóp og var Stefán Jóhann meðal þeirra sem beðin voru um að vera í hópnum.

"Óskað var ítrekað eftir því að hann [starfshópurinn] kæmi saman, en af því varð aldrei og því hefur ekkert starf farið fram svo vitað sé. Þess vegna verður ekki séð að Samfylkingin hafi fylgt því eftir sem samþykkt var í póstkosningunni og samþykkt á landsfundi árið 2003, þ.e. að skilgreina svokölluð samningsmarkmið sem væru forsenda umsóknar um aðild að Evrópusambandinu."

Lýðræði fyrir borð borið

Ekki er að undra að varaborgarfulltrúanum þyki lítið leggjast fyrir lýðræðisleg vinnubrögð í eigin flokki í svo stóru máli þar sem hann segir:

"Ætla mætti að í svo stóru máli yrðu lýðræðislegar samþykktir virtar. Enn hefur engin sjáanleg vinna farið fram um samningsmarkmiðin meðal flokksmanna með þeim hætti sem samþykkt var í póstkosningunni 2002 og áréttað í landsfundarsamþykktum eftir það. Þjóðin veit því enn ekkert um hvað Samfylkingin vill semja, þ.e. hver stefna hennar sem flokks er þegar kæmi að því að semja."

Ingibjörg reynir að drepa málinu á dreif

Samdægurs og grein Stefán Jóhanns birtist í Morgunblaðinu var Ingibjörg Sólrún spurð á Stöð 2 um álit sitt á málflutningi hans og sagði hún af því tilefni:

"Ég er nú ekki sammála honum [Stefáni Jóhanni] því að það hefur verið mikil Evrópuumræða í flokknum árum saman raunar og fyrir síðustu kosningar þá var tekin heilmikil atrenna að þessum málum og m.a. var vinnuhópur sem að vann í því að móta samningsmarkmiðin og í honum voru fjölmargir einstaklingar sem að hafa mikla þekkingu á málaflokknum."

Samningsmarkmiðin enn óskilgreind

Í kosningastefnuskrá Samfylkingarinnar fyrir alþingiskoningarnar 2007 er ekkert að finna um samningsmarkmið flokksins komi til aðildarviðræðna vi'ð ESB en þar stendur eftirfarandi skv. heimasíðu Samfylkingarinnar:

"Samfylkingin vill að utanríkisstefna þjóðarinnar verði mótuð í ljósi þjóðarhagsmuna og sé sæmandi sjálfstæðri þjóð. Sótt verði um aðild að Evrópusambandinu og aðildarviðræður hafnar. Unnið verði að víðtækri samstöðu um samningsmarkmið og niðurstöður bornar um þjóðaratkvæði."

Af þessu er ljóst að Samfylkingin hefur ekki unnið heimavinnuna í Evrópumálum, ekki unnið samkvæmt eigin flokkssamþykktum og aðeins liggja fyrir útvatnaðir og almennir textar eins og ofangreint brot úr kosningastefnuskrá ber vott um.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jónas Tryggvi Jóhannsson

Samfylkinginn var eini flokkurinn með það að stefnumáli að sækja um í Evrópusambandið fyrir síðustu kostningar; því er Samfylkinginn eini flokkurinn sem hefur skýrt umboð kjósenda sinna að sækja um í Evrópusambandið.

Hinir flokkanir hafa það ekki - aðeins Samfylkinging sama þótt Stefán Jóhann sé að snúa útur, og þið poppulista pólitíkusanir lepji það upp eftir honum.

Jónas Tryggvi Jóhannsson, 27.12.2008 kl. 12:24

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband