Hlutur Samfylkingarinnar og ISG í efnahagshruninu

Það er mikil kokhreysti hjá formanni Samfylkingarinnar að ætla að þvo hendur sínar og Samfylkingarinnar af því hvernig nú er komið í íslensku efnahagslífi.

Sjálf klauf hún sig út úr þingflokki kvennalistans upp úr 1990 til að styðja EES-samninginn með óheftum fjármagnsflutningum sem eina af meginstoðum samningsins. Á grundvelli EES-tilskipana gátu íslensku einkabankarnir síðan farið um víðan völl erlendis og stofnað þar útibú og efnt til Icesafe-reikninga og viðlíka gjörninga.

Samfylkingin studdi einkavæðingu margra ríkisfyrirtækja, þar á meðal ríkisbankanna, sem afhentir voru síðan gæðingum á silfurfati.

Samfylkingin og ISG sem borgarstjóri studdu Kárahnjúkavirkjun og álbræðslu Alcoa en skuldsetning þjóðarbúsins og ofurþenslan í kjölfarið áttu drjúgan hlut í hruninu sl. haust með stóraukinni skuldsetningu þjóðarbúsins og Landsvirkjunar. 

Samfylkingin í stjórnarandstöðu hlúði með ráðum og dáð að útrásinni og dró þar taum Baugsveldisins sérstaklega.

Samfylkingin boðaði og studdi skattalækkanir þegar þenslan var sem mest í efnahagslífinu sl. 5 ár.

Í ríkisstjórn aðhafðist Samfylkingin ekkert frekar en Sjálfstæðisflokkurinn til að bregðast við hættuboðum og aðvörunum vegna yfirbyggingar fjármálageirans.

Ofsafrjálshyggjan sem ISG kennir öðru fremur um hvernig komið er blómstraði hérlendis með beinum og óbeinum stuðningi Samfylkingarinnar. Evrópusambandið sem Samfylkingin hefur að meginstefnumáli að Ísland verði aðili að byggir á niðurnjörvaðri frjálshyggju sem getur hvenær sem er tekið á sig mynd þeirrar ofsafrjálshyggju sem formaður Samfylkingarinnar telur meginorsök þess hvernig nú er komið málum hérlendis.

 

 


mbl.is Ingibjörg: Orsökin liggur í ofsafrjálshyggjunni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Björgvin R. Leifsson

Eins og talað út úr mínu hjarta.

Björgvin R. Leifsson, 18.12.2008 kl. 20:41

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband