26.11.2008 | 16:47
Rökleysur forsætisráðherra Finnlands
Hvaðan skyldi Matti Vanhanen koma sú viska að aðild Noregs og Íslands að Evrópusambandinu myndi styrkja þróun heimsskautasvæðisins. Hverjum í hag? Kannski fyrir hagsmuni Mið-Evrópu-ríkja eins og Þýskalands og Frakklands og vina okkar Breta, að ógleymdum Finnum sjálfum sem ekki eiga land að Íshafinu. Evrópusambandið myndi yfirtaka samningsumboð varðandi norðurheimsskautssvæðið af Íslandi og Noregi ef löndin gegngju í ESB, eins og aðra samninga, svo sem um nýtingu fiskistofna.
Það er svo ekkert nýtt að forsætisráðherrar norrænna ESB-ríkja blandi sér í afstöðu norrænna ríkja utan Evrópusambandsins þegar um ESB-aðild er að ræða. Ég minnist Paul Schlüters þá forsætisráðherra Dana á þingi Norðurlandaráðs upp úr 1990 þar sem hann lagði að Íslendingum að ganga í ESB. Íhlutun hans andmælti ég og hann varð heldur kindarlegur blessaður. Þannig eigum við að frábiðja okkur áróður eins og finnski forsætisráðherrann nú hefur uppi. Skyldu Finnar ekki hafa nóg með sig?
Telur Ísland og Noreg munu ganga í ESB | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Fyrir aðeins fjórum árum var Matti Vanhanen, forsætisráðherra Finnlands, staddur hér á landi í opinberri heimsókn. Morgunblaðið spurði hann þá m.a. að því hvort hann teldi að Íslendingar og Norðmenn ættu að ganga í Evrópusambandið. Hann vildi ekki taka afstöðu til þess þá og sagði að þjóðirnar tvær yrðu að ákveða það sjálfar. Hins vegar tók hann fram að hann skildi vel að sameiginleg sjávarútvegsstefna sambandsins væri vandamál að mati Íslendinga.
Nú fjórum árum síðan finnst Vanhanen allt í einu í lagi að hafa ekki aðeins skoðun á innanríkismálum Íslendinga og Norðmanna í þessum efnum heldur telur sig geta spáð fyrir um aðild landanna að Evrópusambandinu. Þess utan segist hann nú ekki telja að þjóðirnar tvær ættu í neinum vandræðum með að uppfylla aðildarskilyrði sambandsins. Hvað breyttist á fjórum árum í þessum efnum? Svarið er einfalt, ekkert. Sameiginleg sjávarútvegsstefna Evrópusambandsins hefur þannig t.a.m. ekki orðið betri.
Er von að maður velti því fyrir sér hvort eitthvað sé að marka blessaðan manninn? Og um leið hvort það kunni að vera að "Vanhanen" þýði vindhani á finnsku?
Hjörtur J. Guðmundsson, 26.11.2008 kl. 17:19
Það færi betur á því ef við legðum við hlusti þegar erlendir aðilar sem teljast til okkar helstu vina og frænda ráða okkur heilt. Því miður erum við svo litlir í okkur, svo smáir í hugsun og mikil merahjörtu að skömm er að. Einu vandkvæðin við inngöngu í ESB finnst mér vera þau ein, að framsal fullveldis verður ekki nema brot af því sem æskilegt væri.
Það segir sig nefnilega sjálft að á Evrópuþinginu, þar sem Evrópuúrval stjórnmálamanna er samankomið eiga íslenskir stjórnmálamenn sáralítið erindi - vegna skorts á andlegu atgervi og félagsfælni.
Atli Hermannsson., 26.11.2008 kl. 19:07
Atli. það eina sem er þarna er í Brussel eru menn sem ekki kunna að stemma bókhald. enda hefur bókhald sambandsins ekki verið samþykkt í 14 eða 15 ár.
Fannar frá Rifi, 27.11.2008 kl. 01:27
Tek undir orð þín Hjörleifur, að við Íslendingar eigum að frábiðja okkur áróður af þessu tagi. Nú hefur það sýnt sig að enginn er annars bróðir í leik. Norðurlandaþjóðirnar héldu allar að sér höndum þar til Evrópusambandið gaf grænt ljós á að lána mætti Íslandi. Það má vera hverjum manni ljóst að þá er fornir vinir Íslendinga hafa gengið til liðs við Evrópusambandið að þá er áhuginn fyrir litla frænda út í hafi horfinn með öllu.
Þetta minnir helst á leik krakka á skólalóðinni: Þegar nýja ríka stelpan í tískufötunum og með veskið úttroðið af peningum kemur og vill leika, eru hinir yngri og minna frökku yfirgefnir fyrir það sem glansar á og glitrar á. Svo þegar gera á heimalexíuna og hratt ber að skiladegi, þá, og bara þá verður hægt að tala við gömlu vinina.
Baldur Gautur Baldursson, 30.11.2008 kl. 09:50
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.