20.11.2008 | 23:04
Varað við óheftum fjármagnshreyfingum í EES fyrir 18 árum
Þegar forsætisráðherra nú ítrekað bendir á EES-samninginn sem undirrót þess að ekki var unnt að koma böndum á útþenslu íslensku bankanna sé ég ástæðu til að rifja upp eftirfarandi.:
Vorið 1988 setti Alþingi á fót svonefnda Evrópustefnunefnd sem skipuð var fulltrúum allra þingflokka. Hún fjallaði næstu árin um þróun mála innan ESB [þá EB] og hugmyndina um stofnun Evrópsks efnahagssvæðis sem Ísland gerðist aðili að árið 1994. Undirritaður átti sæti í nefndinni meðan hún starfaði sem fulltrúi þingflokks Alþýðubandalagsins. Nefndin gaf í maí 1990 út "Áfangaskýrslu til Alþingis" sem hafði m.a. að geyma álit einstakra nefndarmanna. Undirritaður skilaði gildu áliti undir fyrirsögninni "Íslensk leið í samskiptum við umheiminn."
Þar sagði um "Óheftar fjármagnshreyfingar og þjónuststarfsemi" m.a.:
Óheftir fjármagnsflutningar eru eitt undirstöðuatriði innri markaðar EB sem áformað er að yfirfæra til EFTA-ríkjanna. Ísland hefur sérstöðu að því leyti að hér eru miklar hömlur á þessu sviði. Með þátttöku í EES yrðum við skuldbundnir til að aflétta þessum hömlum innan skamms og fórnuðum þannig þeim stjórntækjum í efnahagsstarfsemi sem í þeim felast.
Þótt bent sé á vissa kosti sem fylgt geti fjármagnshreyfingum, tengjast þeim mörg vandamál, ekki síst fyrir litla efnahagsheild eins og þá íslensku. Þannig takmarka óheftar fjármagnshreyfingar verulega möguleikann á að reka sjálfstæða peningastefnu og hafa stjórn á gengi og vöxtum. Niðurstaðan af því að aflétta hömlum af fjármagnshreyfingum gæti að því er Ísland varðar orðið verulegt útstreymi á fjármagni úr landi, auk þeirrar hættu sem tengist spákaupmennsku og undandrætti frá sköttum.
"Frjáls" þjónustuststarfsemi varðar m.a. fjármálaþjónustu með óheftum rétti til hvers konar banka- og tryggingastarfsemi, ... Fyrir Ísland gæti "frelsi" á þjónustusviði haft í för með sér miklar breytingar sem m.a. kæmu fram í því að erlendum bönkum yrði leyft að starfa hérlendis með tilheyrandi heimild til fjármagnsflutninga milli landa.
Fyrir liggur að í könnunar- og undirbúningsviðræðum voru engir ákveðnir fyrirvarar gerðir af Íslands hálfu .... Telja verður með ólíkindum að ekki skuli hafa verið settir skýrir fyrirvarar af Íslands hálfu varðandi samningaviðræður um þjónustu- og fjármagnssviðið.
Þetta var skrifað fyrir 18 árum. EES-samningurinn var samþykktur af meirihluta á Alþingi og síðan hafa margir haft um hann hástemmdar yfirlýsingar, þó enginn eins og þáverandi utarríkisráðherra Jón Hannibalsson, sem dró ágæti þeirra niðurstöðu sem í samningnum fólst fyrir Ísland þá með orðunum ALLT FYRIR EKKERT.
Nú þegar jaðrar við þjóðargjaldþrot í skjóli ákvæða þessa samnings er kannski ástæða til að staldra við og halda ekki lengra en orðið er inn í gin Evrópusambandsins.
Athugasemdir
Vel gert að draga fram bakgrunn hörmungarinnar sem margir eru að byrja að upplifa nú af alvöru.
Baldur Gautur Baldursson, 21.11.2008 kl. 11:08
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.