Samfylkingin og 350 þúsund tonna álver í Helguvík

Upplýst var í kvöldfréttum 14. nóvember 2008 að Norðurál ráðgeri að stækka fyrirhugað álver sitt í Helguvík um 100 þúsund tonn, úr 250 þúsund tonna ársframleiðslu í 350 þúsund tonn fram til ársins 2015. Um þetta hafa ráðherrarnir Árni Matt og Össur rætt við Norðurál. Segir sá síðarnefndi litla hrifningu innan síns flokks á þessum áformum. Samt ætlar iðnaðarráðherrann að halda þessum viðræðum áfram.

Bygging álvers í Helguvík er hafin miðuð við 250 þúsund tonna hámark og umhverfismat hefur farið fram. Óljóst er með öllu hvaðan orka eigi að koma til að knýja þetta álver, hvað þá stærri verksmiðju. Fallist Samfylkingin á fyrirætlanir Norðuráls er ljóst að nýtt mat á umhverfisáhrifum þarf að fara fram, sem sennilega tekur þá til alls fyrirtækisins. Gerist það gefst Þórunni umhverfisráðherra tækifæri til að setja allt gumsið, verksmiðju, virkjanir og raflínur í sameiginlegt umhverfismat eins og hún gerði með álvershugmyndina á Bakka við Húsavík.

Framkvæmdir í Helguvík eru í hægagangi vegna lánsfjárskorts og álverð á hraðri niðurleið. Ekki er ósennilegt að öllum hugmyndum um nýjar álbræðslur og stækkun í Straumsvík verði slegið á frest. Það breytir því ekki að stóriðjumeirihlutinn í Samfylkingunni mun berjast hetjulega fyrir þessum framkvæmdum rétt eins og hann gerði þegar Fjarðaál og Kárahnjúkavirkjun áttu í hlut.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband