12.11.2008 | 20:44
EES-samningurinn og ESB-ríki koma í bakið á Íslendingum
Staðan sem Ísland er í gagnvart ESB-ríkjunum Bretlandi, Hollandi og Þýskalandi í deilu um Icesafe-reikningana tengist aðild okkar að EES-samningnum frá 1994. Útþensla íslensku einkabankanna gerðist í skjóli ESB-tilskipana og hefði ekki gerst sem raun bar vitni án lögfestingar gegnum EES-samninginn. Hömlulausir fjármagnsflutningar eru eitt af svonefndum fjórfrelsum sem eru grunnstoðir innri markaðarins.
Önnur meginstoð er skráð í 4. grein EES-samningsins þar sem stendur: Hvers konar mismunun á grundvelli ríkisfangs er bönnuð á gildissviði samnings þessa nema annað leiði af einstökum ákvæðum hans. - Nú er okkur sagt að það sé þetta ákvæði sem þjóðirnar þrjár ætli að beita fyrir sig í kröfunni um greiðslu Íslands á Icesafe-reikningunum, fremur en tilskipanir um bankastarfsemi.
Forseti Íslands vakti á fundi með erlendum sendiherrum athygli á að afstaða norrænu ESB-ríkjanna Svíþjóðar, Danmerkur og Finnlands gagnvart Íslandi í yfirstandandi deilum væri önnur en Norðmanna og Færeyinga sem standa utan ESB. Er ósennilegt að Evrópusambandsaðild fyrrnefndu ríkjanna þriggja valdi hiki þeirra við að styðja einarðlega við bak Íslendinga?
Íslendingar hljóta að spyrja sig í þessari stöðu, hvort það sé skynsamlegt miðað við framtíðarhagsmuni að sækjast eftir aðild að Evrópusambandinu.
Athugasemdir
Það er rétt hjá þér að málið snýst aðeins um jafnræðisreglu og það má þakka inngöngu okkar í EFTA 1994 að þessi regla var innleidd hér sem hefur haft í för með sér miklar réttarbætur fyrir almenning á Íslandi.
Ákvörðun íslenskra stjórnvalda að vernda sérstaklega reikninga Íslenskra sparisjóðseigenda er brot á jafnræðisreglu.
Hinsvegar hefði verið hægt að komast fram hjá henni en það er annað mál og of seint að tala um það núna.
Ég á ekki von á að þjóðir sem tengjast þessu broti gefi eftir í því, hér er um grundvallarmannréttindi að ræða.
Ég hugsa að ef aðild að evrópusambandinu sé skoðuð kallt, án fordóma og pólitískrar tengingar sé hægt að finna fleiri kosti en galla með inngöngu.
Þorsteinn Ásgeirsson (Icerock), 12.11.2008 kl. 21:27
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.