5.1.2010 | 18:07
Icesafe-málið er samsafn rangra ákvarðana í 15 ár
Íslenska þjóðin situr áfram föst í Icesafe-dýkinu og sér hvergi í land. Sú ótrúlega staða að einkabankar geti stofnað til skuldbindinga í útlöndum sem leiði til endurkröfu á íslenska ríkið á rætur í EES-samningnum sem ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Alþýðuflokks stóð að fyrir 15 árum og helmingur þingflokks Framsóknar skrifaði upp á.
Icesafe-skuldbindingarnar áttu drjúgan þátt í að fella íslensku bankana haustið 2008 og þáverandi ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar skrifaði upp á endurkröfu Breta og Hollendinga og fékk hana samþykkta með ályktun Alþingis 5. desember 2008 svohljóðandi:
"Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að leiða til lykta samninga við viðeigandi stjórnvöld vegna innstæðna í útibúum íslenskra viðskiptabanka á Evrópska efnahagssvæðinu á grundvelli þeirra sameiginlegu viðmiða sem aðilar hafa komið sér saman um."
Meðal þeirra sameiginlegu viðmiða sem þarna er vísað til og birt voru í greinargerð stjórnartillögunnar stóð m.a.:
"Aðilar [íslensk, bresk og hollensk stjórnvöld] komu sér saman um að tilskipunin um innstæðutryggingar hafi verið felld inn í löggjöfina um Evrópska efnahagssvæðið í samræmi við samninginn um Evrópska efnahagssvæðið og gildi því á Íslandi með sama hætti og hún gildir í aðildarríkjum Evrópusambandsins." Um pólitíska niðurstöðu sagði m.a. í greinargerð: "Gert er ráð fyrir því að þau ríki sem hlut eiga að máli muni aðstoða sjóðinn við að standa undir þessu verkefni og það verði í formi lánveitinga viðkomandi ríkja til sjóðsins með ábyrgð íslenska ríkisins."
Þessari málsmeðferð greiddu atkvæði þingmenn Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks, þingmenn Framsóknar sátu hjá en allir viðstaddir þingmenn VG greiddu á móti svo og Pétur H. Blöndal. Breytingartilaga Péturs H. Blöndal um að bera ætti væntanlega samningana undir Alþingi var felld af stjórnarliðinu.
Með þessari samþykkt Alþingis á aðventu 2008 var brautin vörðuð sem leitt hefur í núverandi stöðu. Á því ber núverandi ríkisstjórn einnig ábyrgð og hún hefur vissulega gert ýmis mistök í meðferð málsins.
Með synjun forseta Íslands í dag á staðfestingu á lögunum um ríkisábyrgð frá því á gamlársdag er deilan um Icesafe færð á nýtt óvissustig sem áskorendurnir undir kröfu um þjóðaratkvæðagreiðslu hafa margir hverjir enga grein gert sér fyrir. Hvergi hillir undir leikslok í þeirri hryllingsóperu sem efnt hefur verið í sl. 15 ár undir merkjum EES-samningsins.
Athugasemdir
Það eru orð að sanni, sem margir kalla ný-frjálshyggju í framkvæmd.
Júlíus Björnsson, 5.1.2010 kl. 18:56
Ég get sannarlega tekið undir allt í þessari glass þinni en hún er langt frá því að vera tæmandi eins og við vitum.
Auðvitað er tekin áhætta með þessu en hinn kosturinn sem boðið er uppá að kaupa þennan aðgöngumiða að ESB var einfaldlega það slæmur við höfðum engu að tapa.
Sigurður Þórðarson, 5.1.2010 kl. 20:22
Gleðilegt ár Hjörleifur. Þú hefur oft viðhaft réttmæt aðvörunarorð.
Kristinn Pétursson, 5.1.2010 kl. 20:51
Takiði eftir því að Hjörleifur áttar sig á lagalegu skuldbindingunni þessu máli viðvíkjandi ?
Þið ættuð nú að biðja Hjörleif um að uppfræða ykkur því eg sé menn hérna að ofan sem hafa NEITAÐ því að um lagalega skuldbindingu væri að ræða !
"Sú ótrúlega staða að einkabankar geti stofnað til skuldbindinga í útlöndum sem leiði til endurkröfu á íslenska ríkið á rætur í EES-samningnum..."
Skuldbinding sem leiðir til endurkröfu og á rætur í ees - þetta er alveg nógu skýrt.
Ómar Bjarki Kristjánsson, 5.1.2010 kl. 23:21
Góð upprifjun, Hjörleifur. Láttu heyra í þér miklu oftar um þetta mál og ýmis önnur.
Sigurður Sveinsson, 6.1.2010 kl. 07:12
Tek heilshugar undir orð Sigurðar Sveinssonar, mjög mikilvægt að RÖDD þín heyrist oftar..!
kv. Heilbrigð skynsemi (fun.blog.is)
Jakob Þór Haraldsson, 6.1.2010 kl. 17:42
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.