Færsluflokkur: Bloggar

1. desember og fullveldið

Það fer ekki mikið fyrir hátíðarhöldum nú á fullveldisdaginn og náðist þó 1918 sá áfangi sem skipti sköpum fyrir Íslendinga sem þá urðu þjóð meðal þjóða. Í æsku minni heima á Hallormsstað var þetta hátíðisdagur ekki síður en 17. júní eftir lýðveldisstofnunina 1944. Það er kaldhæðnislegt að nú skuli vera við völd á Íslandi ríkisstjórn sem vinnur að því baki brotnu að færa til baka þann ávinning sem forfeður okkar náðu fram í sjálfstæðisbaráttunni. Hvernig má það vera að meirihluti á Alþingi Íslendinga skuli ekki sjá að sér og draga til baka umsóknina um aðild að Evrópusambandinu? Þessa dagana verður það ljósara en áður að færa á vald yfir fjármálum ESB-ríkja undir kommissarana í Brussel, til viðbótar við það fullveldisafsal sem fyrir var. Mætti ég biðja þá þingmenn VG sem greiddu aðildarumsókn atkvæði sitt óheilladaginn 16. júlí 2009 að hugsa sinn gang. Þeirra er ábyrgðin að haldið er áfram viðræðum við ESB um að farga fullveldinu.

Hárrétt ákvörðun hjá Ögmundi

Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra hefur reynst farsæll í starfi og ekki minnkar hlutur hans við þá ákvörðun að synja umsókn Kínverjans um kaup á Grímsstöðum á Fjöllum. Ákvörðunin er byggð á réttri lagatúlkun, yfirveguð og vel rökstudd. Það er heldur bágt að hlusta á viðbrögð þeirra sem gagnrýna niðurstöðu Ögmundar í þessu máli á fjárhagslegum forsendum. Þingmaður Samfylkingarinnar sem fór offari í Kastljósi Sjónvarps í gærkvöldi sá í hillingum 400 störf í hótelrekstri á Hólsfjöllum sem nú væru orðin að engu. Mörgum virðist fyrirmunað að læra af sögunni og kollsteypum sem kölluðu yfir þjóðina efnahagslegt hrun haustið 2008. Margur verður af aurum api segir orðtækið og það á vel við um þá sem láta glepjast af gylliboðum eins og hér voru á ferðinni og krefjast þess að ráðamenn sniðgangi lög landsins.

Of mikið færst í fang samtímis

Fyrirsögnin er sótt í pistil minn sem birtist á heimasíðu um sl. áramót. Þar var m.a. átt við stjórnlagaþingið sem nú er í uppnámi. Eftir að hafa bent á stór viðfangsefni í kjölfar hrunsins, Icesafe og vanda heimilanna, vék ég að stjórnlagaþinginu og ESB-umsókninnni þessum orðum:

Allt hefði þetta nægt landslýð og stjórnkerfi að fást við þótt ekki væri ráðist í viðameiri mál horft til framtíðar, svo sem endurskoðun stjórnarskrár lýðveldis okkar, að ekki sé talað um að sækja fyrir Íslands hönd um aðild að Evrópusambandinu. Hvoru tveggja var þó knúið fram fyrir forgöngu ríkisstjórnar og með þátttöku stjórnarandstöðu á Alþingi, umsókn um ESB-aðild með naumum meirihluta en aðeins einn greiddi atkvæði gegn lögum um stjórnlagaþing. Svikist var aftan að kjósendum með fyrri ákvörðunina og sú síðari um endurskoðun stjórnarskrárinnar hefði þurft mun lengri aðdraganda og betri undirbúning, meðal annars til að ræða ítarlega spurninguna um samskipti Íslands við önnur ríki.

Nú eftir niðurstöðu Hæstaréttar ætti Alþingi að taka sér góðan tíma áður en næstu skref eru stigin. Lítil þátttaka í kosningum til stjórnlagaþingsins bar ekki vott um að meirihluti þjóðarinnar teldi málið brýnt. - Sjálfur notaði ég atkvæðisréttinn eins og í öllum almennum kosningum til þessa og er eftir sem áður þeirrar skoðunar að endurskoða þurfi stjórnarskrána í heild sinni.

Hugmynd forsætisráðherra um að Alþingi skipi þá fulltrúa sem kjörnir voru á stjórnlagaþingið sem einskonar ráðgefandi nefnd án þess að til kosninga komi tel ég ótæka. 

 


Á stjórnlagaþingi hvílir mikil ábyrgð

Ástæða er til að óska þeim velgengni sem valdir voru á stjórnlagaþing. Þeirra bíður mikið og vandasamt verkefni sem ætlaður er stuttur tími til að leysa. Aðdragandi þingsins hefur ekki verið sem skyldi, sáralítil málefnaleg umræða í samfélaginu um verkefnið, þ.e. sjálfa stjórnarskrána, kynning frambjóðenda takmörkuð og oft yfirborðsleg af þeirra hálfu, flókið kosningakerfi og síðast en ekki síst afar lítið þátttaka í kosningunum, sem óhjákvæmilega veikir umboð samkomunnar.

Niðurstaða kosninganna var ef til vill fyrirsjáanleg, þar sem inn á þingið velst fyrst og fremst fólk sem hefur verið áberandi í umræðunni eftir hrunið, þótt það hafi tjáð sig um annað meira en nýja stjórnarskrá. Þannig felst í útkomunni aðvörun þegar kemur að spurningunni um persónukjör. Sama á við um fjarvist landsbyggðarfólk á samkomunni.

Mér fannst Þorvaldur Gylfason gefa rangan tón í upphafi í fjölmiðlum og mæla af yfirlæti en ekki hógværð eftir góða útkomu. Hvernig datt honum í hug strax í upphafi að boða helmings fækkun þingmanna og láta það síðan fylgja sögunni að Alþingi mætti ekkert um slíka hugmynd segja, ef hún birtist sem tillaga frá stjórnlagaþingi? Hefur hann ekki kynnt sér lagarammann um þetta þinghald? Þar með er ekki sagt að núverandi fjöldi þingmanna eða kjördæmaskipan eigi að vera óumbreytanlegar stærðir. Um þau álitamál hef ég tjáð mig á fyrri stigum.

Vonandi sýna kjörnir fulltrúar á þetta þing yfirvegun um leið og þeir leitast við að búa sig sem best undir verkefnið fram að upphafi þinghaldsins, m.a. með því að hlusta á sem flestar raddir í samfélaginu.

 


Tillagan um ESB-aðild sem flokksráð VG hafnaði

Á flokksráðfundi VG í Hagaskóla 20. nóvember 2010 var hafnað með 38 atkvæðum gegn 28 viðaukatillögu Ragnars Arnalds varðandi  ESB-aðild. Efnið var sótt í upphaflega tillögu 70 flokksmanna sem Atli Gíslason flutti á fundinum, en sú tillaga var dregin til baka í von um samkomulag um málið. Sú von brást. Formaður flokksins, Steingrímur J. Sigfússon, lét ekki svo lítið að eyða einu orði að þessari tillögu.   

 

Viðbótin við tillögu VG-forystunnar sem meirihluti á flokksráðsfundinum felldi var eftirfarandi:  

 

Fyrirhugað aðlögunarferli á því að stöðva og ekki að leyfa boðaðar fjárveitingar úr sjóðum ESB inn í íslenskt efnahags- og stjórnmálalíf.  Jafnframt telur flokksráð VG óhjákvæmilegt að núverandi umsóknarferli verði fært í nýjan farveg og þegar á þessum vetri fáist á hreint í samningaviðræðum hver sé afstaða ESB til ýmissa helstu grundvallarhagsmuna Íslands, meðal annars: 
  • Hvort Ísland hafi óbreytt og óskorað forræði yfir 200 mílna fiskveiðilögsögu.
  • Hvort áfram verði í gildi sú undanþága sem Ísland hefur samkvæmt EES samningi til að takmarka fjárfestingar erlendra aðila í sjávarútvegi.
  • Hvort Ísland haldi rétti sínum sem strandríki og fari áfram með samningsumboð og forræði vegna íslenskrar lögsögu á sviði fiskveiða og hafréttar meðal annars með tilliti til deilistofna.
  • Hvort íslensk stjórnvöld hafi rétt til að takmarka og eftir atvikum banna innflutning á lifandi dýrum, hráu kjötmeti og öðrum þeim vörum sem ógnað geta hreinleika og öryggi í íslenskum landbúnaði og íslenskri náttúru.
  • Hvort Íslendingar ráði sjálfir hvernig hagað verði framleiðslustýringu í landbúnaði og geti dregið úr styrkjum og aukið þá án utanaðkomandi afskipta.
  • Hvort Ísland geti staðið utan Evrópsku varnarmálastofnunarinnar og staðið utan við samstarf ESB á sviði varnarmála sem útheimti m.a. liðsmenn til viðbragða, friðargæslu og hernaðar.
  • Hvort Ísland haldi ótvíræðu forræði sínu og stöðu sem strandríki og sjálfstæður samningsaðili meðal ríkja á norðurslóðum.
  • Hvort tryggt verði að íslenskir kjarasamningar gildi á íslenskum vinnumarkaði þannig að launakjör séu ekki sett á alþjóðlegan uppboðsmarkað eins og ítrekað hefur gerst  innan Evrópusambandsins m.a. með ákvörðunum ESB-dómstólsins.
 Þegar svör liggja fyrir af hálfu ESB verði kannað í þjóðaratkvæðagreiðslu hvort landsmenn séu reiðubúnir til áframhaldandi viðræðna við ESB um aðildarsamning á þeim grundvelli.  

Írland finnur fyrir blessun evrunnar

Innantökur Evrusvæðisins halda áfram. Í kjölfar Grikklands fylgir Írland sem nú skal dregið í böndum á sóttarsæng af ESB-forystunni, þvert á vilja og yfirlýsingar ráðamanna í Dublin að þeir geti séð um sig sjálfir. Óttinn við að gríska veikin sé að breiðast út um allt evrusvæðið er slíkur að van Rompuy "forseti ESB" sagðist í gær óttast um framtíð sambandsins. Á eftir Írlandi smitist Portúgal og þá fer að styttast í að Ítalía og Spánn taki veikina, en það eru bitar sem engir öryggissjóðir ráða við að kyngja. Vandi þessara ríkja er af mismunandi toga en sameiginlegt þeim er að vera reyrð í spennitreyju evrunnar. Það er þó sú höfn sem Samfylkingin vill sigla Íslandi inn í, hvað sem það kostar og megi það taka 10-20 ár í aðlögun. Þann 12. október sl. lásum við í Morgunblaðinu langt fagnaðarerindi Össurar utanríkisráðherra um framtíð Íslands innan ESB. Hann sagði þar m.a. um gjaldmiðilinn:

"Kostir okkar í þessum efnum eru einungis tveir: Króna í fjötrum hafta eða evran. ... Evran tryggir okkur viðskiptafrelsi á nýjan leik, agar fjármálalífið, og skapar stöðugra umhverfi, þar sem vextir verða sambærilegir og í helstu viðskiptalöndum okkar."

Fróðlegt er að bera þennan boðskap saman við þann veruleika sem nú blasir við á Írlandi. Viðbótarkostnaður á erlend lán er að sliga Íra, þar sem áhættuvextir eru um 10% á sama tíma og Þjóðverjar og fleiri búa við 3%. Fjárlagahalli Íra nemur nú um 30% af vergri landsframleiðslu og er um tífalt hærri en forskrifað er í Maastricht-reglunum. Tala atvinnuleysingja á Írlandi er að nálgast hálfa milljón og aðeins Spánn og Lettland hafa hærra atvinnuleysishlutfall.

Hvernig væri að Össur legði lykkju á leið sína og kæmi við í Dublin á næstunni til að halda þar fyrirlestur um ágæti evrunnar og framtíðarsýn sína um Ísland í ESB.  


Eitthundrað sendu forystu VG áskorun vegna ESB-umsóknar

Á málþingi VG um utanríkismál fyrir helgina var lögð fram áskorun undirrituð af 100 félögum og stuðningsmönnum flokksins víða að af landinu svohljóðandi:

"Við undirrituð félagar og stuðningsfólk Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs hvetjum forystu flokksins til að beita sér gegn aðild Íslands að Evrópusambandinu og aðlögunarferli sem hefur slíka aðild að markmiði.  

 

Á því rúma ári sem liðið er frá því naumur meirihluti Alþingis tók ákvörðun um aðildarumsókn hafa forsendur breyst í grundvallaratriðum. Umsóknin snýst ekki lengur um að kanna hvað í boði er af hálfu ESB, eins og áður var látið í veðri vaka, heldur er nú að hefjast flókið ferli aðlögunar að regluverki og stofnanakerfi ESB með milljarða fjáraustri frá Brussel. Slíkar greiðslur frá Evrópusambandinu gera að engu þær vonir að hér fari fram lýðræðisleg og hlutlæg umræða um kosti og galla aðildar.   

 

Í öðru lagi hefur komið skýrt fram hjá stækkunarstjóra ESB að Evrópusambandið veitir ekki varanlegar undanþágur frá meginreglum Lissabonsáttmálans, m.a. þeirri reglu að Evrópusambandið tekur sér úrslitavald til yfirráða yfir sjávarauðlindum aðildarríkjanna. Nýleg viðbrögð Evrópusambandsins við veiðum íslenskra skipa á makríl í íslenskri lögsögu sýna áþreifanlega hvers er að vænta ef þjóðin afsalar sér samningsrétti um veiðar úr deilistofnum í hendur ESB.   

 

Í þriðja lagi hafa allar skoðanakannanir seinasta árið sýnt andstöðu yfirgnæfandi meirihluta kjósenda við aðild Íslands að ESB. Áframhaldandi aðlögunarferli er því gróf ögrun við lýðræði í landinu.   

 

Vinstrihreyfingin grænt framboð hefur margítrekað andstöðu sína við ESB-aðild, m.a. fyrir seinustu alþingiskosningar.  Öll þessi atburðarás er í fullkominni andstöðu við stefnu VG og fyrirheit forystumanna flokksins. Við undirrituð gerum skýlausa kröfu um að trúnaðarmenn VG fylgi stefnu flokksins, bæði í orði og á borði."    

 

Hér var um táknræna aðgerð en ekki almenna undirskriftasöfnun að ræða. Viðbrögð forystunnar við áskoruninni munu væntanlega koma í ljós á næstu vikum. 

 


Nárrúruverndarráð hafnaði súrálsverksmiðju við Straumsvík 1975

Árið 1975 leitaði Viðræðunefnd um orkufrekan iðnað álits Náttúruverndarráðs á þeirri hugmynd Alusuisse að reisa súrálsverksmiðju við Straumsvík til að vinna súrál úr innfluttu báxíti fyrir álverksmiðju fyrirtækisins. Rauðu leðjunni eitruðu sem nú hefur valdið mesta mengunarslysi í sögu Ungverjalands átti að koma fyrir í Merardal á Reykjanesi. Gert var ráð fyrir að dæla henni þangað í leiðslum með sjóvatni frá verksmiðjunni.

Rök Náttúruverndarráðs sem ég átti þá sæti í voru aðallega tvíþætt: margskonar mengun frá sjálfri verksmiðjunni, m.a. mikil rykmengun, og andstaða við að safna upp eitruðum úrgangi á áður óröskuðu svæði á Reykjanesskaga.


Aðlögunarferlið að ESB er gróf íhlutun með milljarða mútugreiðslum

Í löngu minnisblaði til utanríkismálanefndar sem menn geta kynnt sér í heild á slóðinni http://www.eldhorn.is/hjorleifur/vett2010/IPAMinnisblad.doc kemur fram hvernig fyrirhugað er að nota 28 milljónir evra eða á fimmta milljarð króna til að sannfæra íslensku þjóðina um ágæti aðildar að Evrópusambandinu. Vinnu að sérstakri landsáætlun og nýtingu fjármunanna verður miðstýrt frá Brussel, þar á meðal stuðningi "sem rekinn er beint af framkvæmdastjórninni og felur m.a. í sér aðstoð sérfræðinga og fjármögnun fræðslu- og kynnisferða sem álitnar eru mjög mikilvægar í umsóknarferlinu."

Með svonefndri "fjölærri heildaráætlun" sem framkvæmdastjórnin í Brussel útbýr á að "styrkja stjórnsýsluna ... til að hún geti tekist á við þær breytingar sem innleiðing ESB-löggjafarinnar hefur í för með sér" og "undirbúa jarðveginn fyrir væntanlega þátttöku í sjóðum og samstarfsáætlunum." Með "skjótvirkri" tæknilegri aðstoð (TAIEX) fá Íslendingar "aðgang að stórum hópi sérfræðinga frá aðildarríkjum ESB sem aðstoða við undirbúning að breytingu á löggjöf, reglum og innleiðingu", allt að fullu styrkt af Evrópusambandinu.

Þessu til viðbótar er kveðið á um "verkefnastuðning" m.a. til að tryggja FYRIRFRAM samræmt innheimtu- og upplýsingakerfi um tolla og virðisaukaskatt, og "þarf slíkt kerfi að vera til staðar þegar við inngöngu og verður nauðsynlegt að hefja undirbúning ÁÐUR EN ljóst er hvort Ísland mun gerast aðili eða ekki."

Væntanlegir eru hingað herskarar af erlendum áróðursmönnum ESB auk þess sem Íslendingum gefst kostur á styrkjum til utanfarar til höfuðstöðva ESB og víðar til að sannfærast um ágæti ESB-aðildar. Grófari íhlutun í íslensk málefni hefur ekki sést í manna minnum með tilboðum um mútugreiðslur í duldu og ódulbúnu formi. Á heimasíðu minni www.eldhorn.is/hjorleifur ræði ég um hvernig þessi aðför rímar saman við yfirlýsta stefnu VG undir fyrirsögninni "Eigum við að trúa þessu um VG-forystuna?"


Mikilvægar samþykktir vegna aðildarumsóknar að ESB

Nýliðin helgi skilaði góðum niðurstöðum fyrir okkur sem andsnúin erum aðild að Evrópusambandinu og gert höfum kröfu um að umsókn um aðild verði dregin til baka. Samþykkt landsfundar Sjálfstæðisflokksins í málinu er afdráttarlaus og markar tímamót í afstöðu þess flokks. Á flokksráðsfundi Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs bar einnig hátt umræðu um sama efni. Fyrir fundinum lá tillaga þar sem skorað var á þingflokk VG að standa að því að draga aðildarumsókn Íslands til baka. Á fundinum lýstu margir ræðumenn yfir stuðningi við þá kröfu en einnig komu fram efasemdarraddir um að rétt væri að stíga slíkt skref með tilliti til ríkisstjórnarsamstarfsins.

Eftirfarandi afgreiðsla fundarins á tillögunni hlýtur að vekja athygli og teljast til tíðinda:

"Flokksráðsfundur VG samþykkir að vísa tillögu um aðildarumsókn að Evrópusambandinu til málefnaþings, sem haldið verður á haustmánuðum. Forsendur ESB umsóknar eru breyttar og í því ljósi er mikilvægt að málið verði tekið til gagngerrar endurskoðunar. Jafnframt felur flokksráð stjórn flokksins að skipa hið fyrsta undirbúningshóp til að halda utan um meðferð málsins fram að málefnaþinginu vegna fyrirhugaðs málefnaþings. Flokksráð ítrekar andstöðu VG við aðild að Evrópusambandinu og vísar til fyrri samþykkta í þeim efnum." 

Þessar samþykktir í stofnunum tveggja íslenskra stjórnmálaflokka koma 10 dögum eftir að ESB fellst formlega á að taka upp aðildarviðræður. Þær bætast við þær skýru vísbendingar sem fram hafa komið í skoðanakönnunum þar sem aðeins um fjórðungur aðspurðra lýsir yfir fylgi við aðildarumsókn. Jafnvel Samfylkingin ætti að gera sér ljóst hversu ábyrgðarlaust það er að ætla að halda fast við fyrri ákvörðun og verja dýrmætum tíma og miklum fjármunum í ferli sem skýr meirihluti landsmanna er andsnúinn.

 

 

 


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband