7.12.2009 | 11:26
Kaupmannahöfn: Markmið sem duga skammt
Loftslagsbreytingarnar fela í sér skelfilegustu ógn sem mannkynið hefur staðið frammi fyrir til þessa. Með loftslagssamningi Sameinuðu þjóðanna í Ríó 1992 var hættan viðurkennd af alþjóðasamfélaginu en viðbrögðin hafa verið alltof hikandi til þessa. Kýótó-bókunin var áfangi en náði alltof skammt og nú reynir á langtum ákveðnari og stærri skref. Vísindalegur grunnur hefur styrkst mikið síðasta áratuginn og meirihluti mannkyns virðist samkvæmt skoðanakönnunum viðurkenna loftslagsógnina sem vandamál. Ráðstefnan í Kaupmannahöfn er 15. ársþing aðila að loftslagssamningnum og það sem nú knýr á eru nýjar og langtum metnaðarfyllri ákvarðanir í framhaldi af Kýótó. Því miður bendir fátt til að þær séu í boði í Kaupmannahöfn og það hefur í för með sér að vandinn vex og getur orðið óviðráðanlegur fyrr en varir. Um hvað snýst þetta?
Lítum á það sem Kevin Anderson forstöðumaður Tyndall rannsóknastöðvarinnar í Manchester á Englandi telur að þyrftu að verða niðurstöðurnar í Kaupmannahöfn til að ná því markmiði að stöðva hlýnun á heimsvísu við 2°C, en það eru mörk sem alþjóðasamfélagið virðist sammála um að stefna beri að. Um þetta segir Anderson í blaðinu Independent í dag m.a.:
"Ríku löndin (OECD-ríkin) þurfa að ná fram samdrætti í heildarlosun gróðurhúsalofts frá og með árinu 2012, minnka losun frá orkuframleiðslu um að minnsta kosti 60% til ársins 2020 og losna að fullu undan notkun jarðefnaeldsneytis ekki síðar en 2030. Samhliða þessu þurfa þróunarríkin (utan OECD) að ná fram lækkun í heildarlosun gróðurhúsalofts um árið 2025 og hætta að fullu notkun jarðefnaeldsneytis í orkukerfum sínum árið 2050. Slíkur samdráttur er sem stendur langt frá því sem samningamenn í Kaupmannahöfn ætla sér svo mikið sem að íhuga."
Það er jafn gott að stjórnmálamenn sem og almenningur geri sér grein fyrir því að þau markmið sem nú eru til umræðu í Kaupmannahöfn duga skammt. Með skammsýni og ráðleysi er þannig stefnt í ólýsanlega ófæru fyrir líf á jörðinni í fyrirsjáanlegri framtíð.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.