Er ekki kominn tími til að Ísland losi sig úr Schengen?

Íslendingar voru árið 2001 plataðir inn í Schengen af þáverandi utanríkisráðherra. Áróðursmiðinn var sú staðhæfing hans að þá þyrftu Íslendingar ekki að sýna vegabréf á öllu EES-svæðinu. Allir vita nú hver innistæða er fyrir slíku og hvaða verði aðildin hefur verið keypt. Nú rápa glæpagengin inn og út úr landinu án þess vegabréfaeftirliti verði við komið og dæmdir erlendir sakborningar í farbanni sleppa ítrekað úr landi þrátt fyrir bann á pappírnum. Lögreglumenn víða um land eru farnir að láta til sín heyra eins og ályktun félags þeirra á Vestfjörðum 28. október sl. ber vott um.

Sá sem þetta skrifar varaði sem þingmaður eindregið við Schengen-aðild á árunum 1998 og 1999. Auk ítrekaðra fyrirspurna til þáverandi utanríkis- og dómsmálaráðherra flutti ég tillögu til þingsályktunar "um úttekt á Schengen-aðild og innflutningi fíkniefna" (sjá 597. mál á 122. löggjafarþingi og 11. mál á 123. þingi). Tillagan fékk þá jákvæða umsögn frá lögreglustjóranum í Reykjavík og ríkislögreglustjóri sagði í umsögn að þarft gæti verið að fram færi úttekt á líklegum áhrifum Schengen-aðildar. Þetta nægði þó ekki þáverandi ríkisstjórnarmeirihluta til að samþykkja tillögu mína sem í hvorugt skiptið fékkst afgreidd út úr nefnd á Alþingi.

Nú hafa menn átta ára reynslu af Schengen og ég hygg þeir séu ekki margir sem séu ánægðir með hana. Sérstaklega hafa neikvæð áhrif af aðildinni aukist og orðið auðsæ eftir stækkun ESB í austurátt frá og með árinu 2005. Ekkert mælir með því fyrir eyríki eins og Ísland að binda sig í slíkt kerfi.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Karl Ólafsson

Ég hef verið að velta fyrir mér þessari spurningu upp á síðkastið. Í dag hins vegar var viðtal við Rögnu Árnadóttur, dómsmálaráðherra, á Bylgjunni þar sem hún kom inn á þessa spurningu.

Hún segir að það sé eðlilegt að þessu sé velt upp, en sannleikurinn sé sá að í gegnum Schengen höfum við aðgang að þjónustu og upplýsingum v. landamæraeftirlits, sem við hefðum annars ekki. Hún vill meina að vandamál okkar liggi e.t.v. frekar í því að við Íslendingar séum of linir í að nýta okkur þau úrræði sem okkur standa í raun til boða innan ramma Schengen. Við getum ekki borið okkur saman við t.d. Bretland hvað þetta varðar, annars vegar vegna stærðar og þar af leiðandi slagkrafts þeirra og hins vegar vegna þeirrar staðreyndar að þeir eru jú innan ESB og njóta því sama aðgangs og við njótum aðeins í gegnum Schengen.

Ég held að Ragna hafi rétt fyrir sér í því að við eigum að halda áfram innan Schengen, en við verðum að vera frakkari í því að nota okkur þau úrræði sem Schengen býður upp á. Til þess þarf án efa að veita meiri peningum í landamæravörslu okkar, með meiri mannafla, en ekki væru þær upphæðir sem í það fara minni ef við segjum okkur úr Schengen.

Sem sagt, ég tel rétt að við önum ekki að neinu í þessum efnum, en grípum þegar til aðgerða til að efla landamæravörslu okkar.

Karl Ólafsson, 6.11.2009 kl. 00:11

3 Smámynd: Marteinn Steinar Þórsson

Rápa glæpagengin inn og út úr landinu?  Bíddu, vorum við ekki með stærsta glæpagengi í heimi bara hérna við eldhúsborðið hjá okkur.  Þurftum enga utanaðkomandi hjálp í því. Löggan á Vestfjörðum vill "stun guns" sem hafa tvisvar drepið einstaklinga í Kanada, saklausa einstaklinga.  Þeirra stærsta mál síðustu tvö ár var þegar einn heimamaður ætlaði að drepa eiginkonu sína með haglabyssu.  Auðvitað þarf öfluga löggæslu, en hvílík og önnur eins útlendingafóbía er ekki góð.  Eigum við ekki bara að taka upp einangrunarstefnu?

Marteinn Steinar Þórsson, 6.11.2009 kl. 09:25

4 Smámynd: Axel Þór Kolbeinsson

Ertu að gera Hjörleifi upp útlendingafóbíu Marteinn?  Ef svo er þá er ég viss um að eiginkona hans eigi eftir að hlæja mikið.

Axel Þór Kolbeinsson, 6.11.2009 kl. 09:34

5 Smámynd: Ágúst H Bjarnason

Sæll Hjörleifur.

Ég er hjartanlega sammála.

Hef tvisvar fjallað um málið og lagt til að við hættum þátttöku vegna slæmrar reynslu: 1. júlí 2008 og aftur 24. október s.l.

Með kveðju,

Ágúst H Bjarnason, 6.11.2009 kl. 11:46

6 Smámynd: Eiríkur Sjóberg

Segja upp Schengen.  Og hvað svo?

Af hvaða þjóðerni er sá lýður sem kvartað er undan?  Getur verið að þar sé um íbúa í löndum austur Evrópu að ræða? Þeir mega koma hingað algerlega óháð Schengen. Ekki stendur skrifað á enni einstakra manna að þeir komi til með að fremja afbrot inni í landinu, eða hvað?

Hinn ytri heimur hefur breyst mikið og af því förum við ekki varhluta. Schengen eða ekki Schengen hefur alls ekkert með það að gera.  Schengen gengur hins vegar út á margt annað en að komast án vegabréfaeftirlits milli Evrópulanda. Schengen gengur út á samvinnu á löggæslusviðinu. Það samstarf eflir eftirlit með útlendingum sem dvelja í landinu, m.a. á forsendum EES.

Ég skil ekki þessa umræðu. Telja menn að útlendingum fækki í landinu ef við segjum okkur frá Schengen? Eða að við getum vísað frá mönnum sem myndu síðar fremja afbrot inni í landinu?  Hvers konar fásinna er þetta! Eru menn ekki saklausir uns sekt er sönnuð og allt það?

 Það er hárrétt hjá Rögnu Árnadóttur og Stefáni Eiríkssyni að í lögum eru heimildir til að frávísa útlendingum sem gerast brotlegir. Þær heimildir eigum við að nýta okkur. Og eins og Stefán segir, við eigum að hafa zero tollerance gagnvart mönnum sem hingað eru komnir í þeim eina tilgangi að brjóta af sér. Skoðið ákvæði 41. gr. útlendingalaga. Þeir brjóta þó ekki af sér á landamærunum heldur inni í landinu!

Vandinn er sá að efla þarf löggæsluna og fullnýta þarf heimildirnar sem eru í lögunum. Eitt af verkfærunum sem lögreglan notar er samstarfið við Schengen ríkin. Einhverjir ókostir kunna að fylgja Schengen samstarfinu en brotlegir útlendingar sem koma við sögu hér á landi eru ekki hér vegna Schengen samstarfsins. Íslensk löggæsla hefur haft mikinn ávinning af samstarfinu og mun hafa það til framtíðar.

Eiríkur Sjóberg, 6.11.2009 kl. 14:32

7 Smámynd: Axel Þór Kolbeinsson

Það má benda þér á það Eiríkur, að hvorki Bretland né Írland eru fullir meðlimir í Schengen-samstafinu.  Þau lönd eru aðilar að því sem snýr að löggæslu en eru ekki aðillar að sameiginlegu landamærunum.

Axel Þór Kolbeinsson, 6.11.2009 kl. 14:37

8 Smámynd: Eiríkur Sjóberg

Sæll Axel

Rétt er það. Ég leyfi mér að benda þér á það að Bretar og Írar eru í Evrópusambandinu og eru af þeim forsendum í lögreglusamvinnu við Schengen ríkin, m.a. Ísland. Þeir hafa ekki virkjað þann hluta Schengen sem snýr að hinni frjálsu för en eru þó með tengingu við SIS gagnagrunninn t.d.  Þannig að þeir koma að Schengen samstarfinu aðeins að hluta.

Kannski mætti skoða úrsögn úr Íslands úr Schengen ef við gerðumst aðilar að Evrópusambandinu og hefðum þann grunn til að byggja löggæslusamstarfið á við Evrópulöndin.

En taktur eftir því að Bretar og Írar kvarta síst minna undan útlendingavanda en við hér á Fróni eða önnur Evrópuríki!

Hinn ytri veruleiki hefur breyst (meira um flóttamenn og skipulagða glæpastarfsemi sem virðir engin landamæri). Við breytum ekki veruleikanum heldur tökumst á við hann. Eitt þeirra tækja sem er mikilvægt fyrir Ísland í þessu samhengi er Schengen samstarfið!

Eiríkur Sjóberg, 6.11.2009 kl. 14:59

9 Smámynd: Axel Þór Kolbeinsson

Nú er samvinna á löggæslusviðinu líka við Europol, sem hefur aðgang að öllum sömu upplýsingum og SIS.

Ég er ekki viss um að full aðild að Schengen-samstarfinu henti okkur, en ég segi ekkert um það af eða á.  Þetta er hinsvegar eitthvað sem þarf að skoðast m.t.t. löggæslusamvinnu Íslands við önnur ríki.

Axel Þór Kolbeinsson, 6.11.2009 kl. 15:12

10 Smámynd: Eiríkur Sjóberg

Sæl Axel

Europol samstarfið byggir á Schengen aðild Íslands!

Ég er algerlega sannfærður um að Schengen aðild Ísland hefur fleiri og mikilvægari kosti en galla.

Ég skil ekki hvernig menn telja að hægt sé í praxís að koma í veg fyrir að skipulagðir glæpahópar (frá austur-Evrópu) hreiðri um sig hér á landi með því að segja sig frá Schengen. Menn segja, taka upp landamæraeftirlit. Já, en hvað svo? Hvernig hrekjum við í burtu tilvonandi brotamenn? Tala nú ekki um þegar við höfum ekki upplýsingar á reiðum höndum frá öðrum Schengen ríkjum, verandi búin að loka dyrunum að samstarfinu?  Þetta þarf að útskýra, hvernig upptaka landamæraeftirlits á innir landamærum á að taka á þessu í raun og praxís.

Það er Íslendingum tamt að hlaupa upp til handa og fóta og hrópa skyndilausnir út í loftið, án raunverulegrar innistæðu. En rökin vantar oft, að því er mér finnst.

Kannski vilja menn einagra Ísland frá umheiminum. Verði þeim þá að góðu sem það vilja. En þá flyt ég héðan!

Eiríkur Sjóberg, 6.11.2009 kl. 15:20

11 Smámynd: GRÆNA LOPPAN

Öll Norðurlöndin nema tvö gengu í ESB og til þess að ekki þyrfti að vera vegabréfsskoðun á Norðurlöndunum fengu Noregur og Ísland aukaaðild að Schengen... sussum ekki flóknara en það.

GRÆNA LOPPAN, 6.11.2009 kl. 17:50

12 Smámynd: Loftur Altice Þorsteinsson

Algerlega rétt hjá þér Hjörleifur og þú átt þakkir skyldar fyrir baráttu gegn þessari Schengen vitleysu, fyrr og síðar. Ég bloggaði um þetta mál fyrir stuttu:

http://altice.blog.is/blog/altice/entry/974655/

Loftur Altice Þorsteinsson, 6.11.2009 kl. 18:28

13 Smámynd: Sigurður Þórðarson

Sammála.

Ég gleymi seint debatinum milli þín og Valgerðar Sverrisdóttur um þetta mál. Þú varst ólíkt henni vel undirbúinn en hún reyndi að jafna metin með dónaskap. Úff.

Sigurður Þórðarson, 6.11.2009 kl. 22:08

14 Smámynd: Sveinn Þór Hrafnsson

Sammála

Schegen er bara reglur annara ríkisvalda yfir okkur. Þeir vilja meiri skrumma líð inna okkar landamæra... Takið eftir því! því tímin mun leyða það í ljós..

Sveinn Þór Hrafnsson, 7.11.2009 kl. 01:16

15 Smámynd: Loftur Altice Þorsteinsson

Eiríkur notar mörg orð með litlu innihaldi og þetta staðfestir hann sjálfir þegar hann segir:

 

Ég skil ekki þessa umræðu.

 

Þetta er það eina sem er vitrænt í orðræðu Eiríks. Hann skilur greinilega ekki um hvað er verið að fjalla. Hann sér ekki það vandamál sem blasir við öllum landsmönnum og sem var til dæmis Bretum og Írum augljóst frá upphafi Schengen-vitleysunnar. Það er þess vegna sem þeir hafna þátttöku.

 

Á það hefur verið bent, að með Schengen erum við að færa landamæri okkar frá því að vera náttúruleg landfræðileg landamæri og til þess að liggja langt í austri. Í raun höfum við engin landamæri lengur. Eru einhverjir kostar við það ? Örugglega fyrir glæpamenn af ýmsu tagi, en ekki var Schengen tekið upp fyrir glæpamenn eða hvað ?

 

Félagsmenn í Lögreglufélagi Vestfjarða eru með skýra afstöðu til Schengen. Þeir vilja vilja að Ísland hætti þátttöku í Schengen-samstarfinu og taki í staðinn upp vegabréfaeftirlit eins og tíðkaðist áður en til Schengen-aðildar kom 2001. Ályktun þess efnis var samþykkt á aðalfundi félagsins þann 28.október 2009.

 

Gylfi Þór Gíslason, lögreglumaður á Ísafirði og formaður lögreglufélagsins, segir að aðild að Schengen hafi ekki gefið góða raun. Fólk sem hingað komi í þeim tilgangi að fremja afbrot eigi greiða leið inn í landið. Hann segir að lögreglan hafi ekki mannafla til að stemma stigu við vaxandi glæpastarfsemi í landinu og því verði að bregðast við með einhverjum hætti.

 

Þó að fjölga þyrfti fólki í landamæra-eftirliti myndi það álag sem fylgir löggæslu og öðru umstangi vegna glæpa minnka. Hann telur einsýnt að með sjálfstæðu og öflugu landamæraeftirliti yrði hægt að stöðva talsvert af því fólki sem kemur til landsins til að fremja glæpi. Sú skipulagða glæpastarfsemi sem talin er hafa skotið hér rótum kunni að hafa gert það í skjóli frjálsu fararinnar.

 

Eiríkur virðist ekki átta sig á, að samstarf við lögreglu í öðrum löndum er ekki bundið við Schengen. Ekki veit ég betur, en Bretska og Írska lögreglan hafi aðgang að öllu því samstarfi við önnur lönd, sem þeir óska eftir og telja gagnlegt. Hins vegar njóta þessi lönd ekki þeirrar fjarlægðar-verndar sem við gerum og því eru þau ekki laus við glæpa-gengi úr austri. Að auki eru þetta miklu stærri þjóðfélög en okkar sem skapar sjálfstæðan vanda.

 

Loftur Altice Þorsteinsson, 7.11.2009 kl. 13:14

16 Smámynd: Eiríkur Sjóberg

Sæll Loftur

Úr því ég er svona tregur, þá kannski útskýrir þú fyrir mér með rökum á hvern hátt það verður hægt að stöðva komu brotamanna til landsins eftir uppsögn aðildar Íslands að Schengen samstarfinu.

Sem sé, sestu í stól landamæravarðarins og útskýrðu fyrir mér í smáatriðum hvernig þú ætlar að verjast komu EES borgara sem síðar kunna að brjóta af sér inni í landinu. Mundu að þú hefur ekki upplýsingar frá öðrum Schengen ríkjum, verandi búinn að segja þig frá samstarfinu. Ræða þín er "innihaldslaus" nema þú sýnir fram á að þetta verði betra fyrir okkur í praxís.

Hvað Breta og Íra varðar þá byggja þeir samstarf sitt við löggæsluyfirvöld í Evrópu á Evrópusambandsaðildinni.

Eiríkur Sjóberg, 7.11.2009 kl. 16:01

17 Smámynd: Loftur Altice Þorsteinsson

Eiríkur, ég visa til þess sem lögreglumaðurinn Gylfi Þór Gíslason segir:

 

....með sjálfstæðu og öflugu landamæraeftirliti yrði hægt að stöðva talsvert af því fólki sem kemur til landsins til að fremja glæpi. Sú skipulagða glæpastarfsemi sem talin er hafa skotið hér rótum kunni að hafa gert það í skjóli frjálsu fararinnar.

 

Afbrotamenn eru þeir sem fengið hafa dóm fyrir afbrot. Þeir lenda við það á sakaskrá í sínu heimalandi og samþjóðlegar skrár. Auðvitað getum við fengið aðgang að sakaskrám frá öðrum löndum. Ég endurtek fyrir Eirík það sem ég skrifaði áður:

 

Eiríkur virðist ekki átta sig á, að samstarf við lögreglu í öðrum löndum er ekki bundið við Schengen. Ekki veit ég betur, en Bretska og Írska lögreglan hafi aðgang að öllu því samstarfi við önnur lönd, sem þeir óska eftir og telja gagnlegt.

 

Ekki er nauðsynlegt að byggja samstarf við erlendar lögreglur á ESB eða öðrum slíkum samtökum. Um aðgang er hægt að semja, vegna þess að það er allra hagur að gagnkvæmar upplýsingar séu veittar. ESB hefur hag af að fá upplýsingar frá okkur, eins og við hjá þeim. Hvaðan hefur þú fullyrðinguna:

 

Mundu að þú hefur ekki upplýsingar frá öðrum Schengen ríkjum, verandi búinn að segja þig frá samstarfinu.

 

Ég tel þetta ranga fullyrðingu, þar til þú hefur sannað annað.

 

Loftur Altice Þorsteinsson, 7.11.2009 kl. 16:51

18 Smámynd: Eiríkur Sjóberg

Sæll Loftur

Enn gerir þú ekki grein fyrir því hvernig úrsögn úr Schengen getur raunverulega hjálpað okkur. Þú bendir á orð annars manns, sem ekkert segja efnislega meira um það en þú sjálfur.

Þú fullyrðir að samstarf við lögreglu í öðrum löndum sé ekki bundin við Schengen. Ef til vill hefur þú í huga Interpol. Þar er um allt annars konar samstarf að ræða en Schengen samstarfið, mun formlegra og takmarkaðra hvað varðar draumsýn þína.

"Um aðgang er hægt að semja." Já, einmitt. Slíkur samningur er sem sé ekki til! Og hvers konar samningur yrði það? Það veistu ekki. Ertu að segja að við fengjum aðgang að sakaskrám erlendra ríkisborgara, beintengdan við landamærin hér? Og er réttlætanlegt að frávísa erlendum borgurum af því að þeir eru á sakaskrá í öðru landi?

Hvað endurtekningu þína varðar, endurtek ég að Írar og Bretar eru í ESB og byggja samstarfið á þeim grunni! Til viðbótar get ég upplýst þig um það að þeir taka jafnframt að hluta þátt í Schengen samstarfinu.

 Á bls. 409 í bókinni Uppbrot hugmyndakerfis (ritstjóri Valur Ingimundarson) segir:"Ljóst er að opin landamæri eru meira í orði en á borði þar sem ferðamönnum er jafnt sem áður, og jafnvel frekar en áður, skylt að bera á sér vegabréf eða önnur sambærileg skilríki til að sanna hverjir þeir eru....Ef til vill eru Evrópuríkin betur í stakk búin til að mæta auknu eftirliti fyrir tilstuðlan Schengen-samstarfsins."

Skipulagðir glæpir virða ekki landamæri!

Þér virðist létt að hafa orð annarra í flimtingum, séu þau þér á móti skapi. Slíkt er slök rökræða, meira til þess fallin að þjóna ákveðnum hagsmunum en komast að skynsamlegri niðurstöðu. Mér finnst málflutningur þinn ekki ábyggilegur.

Eiríkur Sjóberg, 7.11.2009 kl. 19:08

19 Smámynd: Sigurður Þórðarson

Eftir að Íslendingar gerðust aðilar að  schengen hafa alþjóðlegir glæpahópar sem stunda eiturlyfjavioðskipti og mansal náð hér fótfestu. Hjörleifur og fleiri voru búnir að vara við þessu.

En ástandið er  valfrjálst við getum losað okkur við þessa óværu með því að segja okkur úr Schengen. 

p.s. ég hvet þig Eiríkur til að lesa aftur röksemdir Lofts og aðgæta hvort þú skiptir ekki um skoðun.

Sigurður Þórðarson, 7.11.2009 kl. 20:16

20 Smámynd: Eiríkur Sjóberg

Sigurður

Svaraðu þessu:

 1) Hverrar þjóðar eru þeir helst sem þú telur til óværu hér á landi?

2) Hvernig er hægt að stöðva þá á landamærum hér, óháð Schengen?

Eiríkur Sjóberg, 7.11.2009 kl. 21:26

21 Smámynd: Hjörleifur Guttormsson

Góðir viðmælendur.

Þetta er fróðleg umræða. Getum við ekki verið sammála um að rétt sé að gera nú þegar úttekt á aðild okkar að Schengen með tilliti til baráttunnar gegn innflutningi fíkniefna og annarri ólögmætri starfsemi hérlendis sem tengist óheftri umferð á Schengensvæðinu og afnámi vegabréfaeftirlits? Út á það gekk tillaga mín á Alþingi fyrir áratug sem ekki fékkst þá samþykkt. 

Fjölmargt hefur komið fram sem kallar á úttekt og endurskoðun á núverandi skipan mála. Það er fráleitt að halda því fram ekki sé hægt að hafa æskilega samvinnu við lögregluyfirvöld og aðra erlendis með öðrum hætti en gegnum Schengen.

 Ég vil hér rifja upp ummæli Kristjáns Péturssonar fyrrverandi deildarstjóra, sem gjörkunnugur var þessum málum, í Morgunblaðinu 18. janúar 1997 en þá var Schengen-aðild Íslands komin á dagskrá. Kristján sagði þar m.a.: "Í langflestum tilvikum þegar fíkniefni finnast hjá farþegum við komu til landsins liggur að baki mikil og oft flókin upplýsingaöflun tollgæslu fíkniefnadeildar lögreglunnar. Svo hægt sé að hafa hendur í hári grunsamlegra komufarþega, innlendra sem erlendra, verður að skoða skilríki þeirra, þar sem oft er um að ræða ókunna aðila (burðardýr). Eftir að vegabréfaskoðun Schengen-farþega verður lögð af, er ekki lengur fyrir hendi nein aðstaða til slíks eftirlits í flugstöðinni."

Eftir að Ísland gerðist formlegur aðili að Schengen 2001 hefur aðildarríkjum ESB fjölgað um nær helming og Schengen-svæðið stækkað að sama skapi. Þeir sem ætlað var að verjast gegn m.a. með SIS-kerfinu og Sirene-gagnabankanum eru nú innan svæðisins og eru þar með undanþegnir vegabréfaeftirliti.

Hjörleifur Guttormsson, 8.11.2009 kl. 10:58

22 Smámynd: Eiríkur Sjóberg

Sæll Hjörleifur

Að sjálfsögðu er hollt að skoða og endurmeta stöðu öryggismála sem og annara þjóðfélagsmála reglulega. Ég hef engin rök heyrt enn um það að hag Íslands væri betur borgið utan Schengen samstarfsins.

Tollaeftirlit hefur ekki lagst niður með aðildinni að Schengen! Áfram er öflug fíkniefnalöggæsla með komufarþegum til landsins, algerlega óháð Schengen. Ekki er langt síðan að tollgæslan á Keflavíkurflugvelli var valinn "maður ársins" fyrir einstakan árangur í baráttunni gegn ólöglegum innflutningi fíkniefna.

Skipulagðir glæpir virða ekki landamæri. EES borgarar sem tengjast slíkum glæpum hafa heimild til komu hingað til lands á forsendum EES, algerlega óháð Schengen. Mikilvægt tæki í baráttunni við slíka glæpi er samvinna lögreglu milli landa.

SIS kerfið er ekki síður tæki fyrir lögregluna "inni í landinu" en fyrir landamæraverði. Þannig er hægt að tryggja aukið eftirlit með fólki á götum okkar.

Það sem þarf að gera er að efla löggæsluna með því að fjölga lögreglumönnum, mennta þá til að takast á við verkefnið og nýta heimildirnar sem þegar eru í lögunum.

Schengen samstarfið er styrkur fyrir lögregluna í landinu. Það væri afturför, byggð á miklum misskilningi, ef Ísland segði sig frá því samstarfi.

Eiríkur Sjóberg, 8.11.2009 kl. 12:57

23 Smámynd: Sigurður Þórðarson

Sæll Eiríkur þú beinir til mín tveimur spurningum.

1. Glæpamenn, einkum síbrotamenn og þeir sem hafa gerst brotlegir við lög hérlendis eru ekki æskilegir hverrar þjóðar sem þeir eru.

 2. Ég hef orð lögreglumanna sem vinna við eftirlit með glæpamönnum fyrir því að Schengen geri störf þeirra erfiðari og ómarkvissari.

Sigurður Þórðarson, 8.11.2009 kl. 20:37

24 Smámynd: Baldur Gautur Baldursson

Sammála ther Hjörleifur. Eins og alltaf....

Baldur Gautur Baldursson, 9.11.2009 kl. 15:55

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband