12.10.2009 | 11:47
Umhverfisþing með áherslu á sjálfbæra þróun
Um liðna helgi var haldið Umhverfisþing sótt af yfir 400 skráðum þátttakendum. Yfirlit um það helsta sem þar gerðist má lesa á heimasíðu minni www.eldhorn.is/hjorleifur Þetta var 6. þingið af þessu tagi frá aldamótum og tók þá við af Náttúruverndarþingum. Meginmál þingsins nú var að fjalla um sjálfbæra þróun í íslensku samfélagi og skilaði sér fjöldi hugmynda í framlögðum gögnum og erindum. Fulltrúar félagasamtaka og hagsmunaaðila ávörpuðu þingið svo og ungt fólk sem lýsti viðhorfum sínum til samfélagsins. Hrund Skarphéðinsdóttir talaði fyrir hönd umhverfisverndarsamtaka og gagnrýndi harðlega áframhaldandi stóriðjustefnu sem birtist í áformum um 760 þúsund tonna árlega viðbót í álframleiðslu á sama tíma og flest er á huldu um hvaðan raforka eigi að koma til þeirrar starfsemi. Við allt annan tón kvað hjá Vilhjálmi Egilssyni framkvæmdastjóra Samtaka atvinnulífsins, en hann taldi alltof hægt miða í stóriðjuframkvæmdum og gagnrýndi harðlega ákvarðanir umhverfisráðherra um frekari skoðun einstakra þátta eins og Suðvesturlínu. Eitt fróðlegasta erindið flutti Hjalti Þór Vignisson sveitarstjóri Hornafjarðar en hann var heiðursgestur þingsins. Minnti hann m.a. á heilræði Þórbergs Þórðarsonar að sjá hið stóra í því smáa. Ljóst er að leið Hornfirðinga þræðir spor sjálfbærrar þróunar en það sama verður ekki sagt um stóriðjusóknina þar sem stöðugt er verið að bæta eggjum í eina og sömu körfu.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.