10.5.2009 | 21:11
Ekki er sopið kálið þótt í ausuna sé komið
ESB-þráhyggja Samfylkingarinnar er meinvættur í íslenskum stjórnmálum og á eftir að bitna stórlega á því brýna endurreisnarstarfi sem ætti að vera meginverkefni stjórnvalda næstu árin. Það er því óskandi að Alþingi stöðvi í fæðingu áformin um að leggja inn umsókn um aðild að Evrópusambandinu og beini kröftum sínum og framkvæmdavaldsins í annan og uppbyggilegan farveg.
Umsókn um ESB-aðild af Íslands hálfu mun sigla í strand þegar á umræðustigi hjá framkvæmdastjórn ESB, verði hún á annað borð tekin þar fyrir. Menn munu strax reka sig á þann vegg sem lög og reglur Evrópusambandsins eru og sem ekki samrýmast þjóðarhagsmunum Íslendinga. Því er ólíklegt að í tíð núverandi ríkisstjórnar eða á kjörtímabilinu liggi fyrir aðildarsamningur sem forsvaranlegt sé að leggja fyrir þjóðina. Áður yrði raunar ef til kæmi að rjúfa þing vegna breytinga á stjórnarskrá og þær alþingiskosningar sem fylgdu myndu enn og aftur snúast um aðildina að ESB. Margir eru nú þegar farnir að kvarta yfir þessu "ESB-kjaftæði", en hver halda menn að verði stemmningin eftir að rimman hefur staðið hérlendis í mörg ár í viðbót.
Allt kostar þetta brölt stórar upphæðir og orku fjölmargra aðila innan og utan þings og tefur fyrir vinnu að þeim raunverulegu og miklu vandamálum sem blasa við Íslendingum. Stjórnarflokkarnir eru á öndverðum meiði í þessu stórmáli og deilur um það á næstu misserum munu draga úr þrótti og starfi við brýn úrlausnarefni sem almenningur gerir kröfu til að leyst verði úr fyrr en seinna.
Aðildarumsókn fari í júlí | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Það er sorglegt að einn stjórnmálaflokkur skuli geta haldið þjóðinni í herkví á meðan hann leikur sér að fjöreggi þjóðarinnar.
Ég get ekki betur séð en að umsókn um aðild að ESB, án þess að þjóðin fái um það að segja og án þess að breytingar á stjórnarskránni þar að lútandi eigi sér stað fyrst, sé brot á stjórnarskránni og flokkist undir landráð.
Tómas Ibsen Halldórsson, 10.5.2009 kl. 21:48
Það er fyrst og fremst sorglegt að menn einsog Hjörleifur Guttormsson, Ragnar Arnalds og fleiri þokumunkar úr fortíðinni skuli ekki þekkja sinn vitjunartíma og hætta sínu forsjárbrölti og meintri umhyggju fyrir íslenskri þjóð. Þessir menn ásamt Davíð Odddsyni og öðrum af hægri væng stjórnmálanna eru haldnir þeirri áráttu eða þráhyggju að reyna stöðugt að hindra eðlilegt lýðræði í þessu landi.
Meðan þeir sátu á Alþingi lítilsvirtu þeir þingið og aðhylltust ráðherraræði vegna þess að þeirra skoðun er sú, að þegar ráðherrastóli sé náð eigi stólhafinn að stjórna og teyma sína flokksmenn á asnaeyrunum undir sínar ákvaraðanir.
Núna kann svo að fara að æ fleiri þingmenn ætli ekki að láta rekast einsog sauðfé á þingi, heldur að fylgja sinni sannfæringu og er það vel. Vonandi ber þingið gæfu til að ná saman um ESB málið og inngönguferlið hefjist von bráðar.
Gangi stjórnmálaleiðtogar til þings með þá hugsun að setja pólitíkina ofar hagsmunun þessarar þjóðar og geri sér leik að hindra nauðsynleg mál í meðförum þingsins þá spái ég því að þjóðin mæti fljótlega tilleiks á Austurvöll og kannske með eitthvað áhrifaríkara í farteskinu en potta og pönnur.
Ágúst Marinósson, 10.5.2009 kl. 22:26
"ESB-þráhyggja Samfylkingarinnar er meinvættur í íslenskum stjórnmálum og á eftir að bitna stórlega á því brýna endurreisnarstarfi sem ætti að vera meginverkefni stjórnvalda næstu árin." Sem ESB sinnuðum Sjálfstæðismanni er fróðlegt að lesa þessa pistla þína. Miðaru aldrei til að eiga möguleika á að hitta í mark...?
Kær kveðja
Sveinn
Sveinn Valdimar Ólafsson, 11.5.2009 kl. 01:22
Er það rangt hjá mér að einungis 5 af 14 þingmönnum Vg séu á móti aðildarviðræðum og jafnframt munu þeir lúta vilja meirihluta Alþingis? Skil að þetta er þér erfið ausa.
Gísli Baldvinsson (IP-tala skráð) 11.5.2009 kl. 08:28
Ég hef enn ekki heyrt neinn þingmann VG taka fram að hann ætlaði að greiða frumvarpi Össurar atkvæði sitt og þegar fram kemur breytingartillaga um að vísa málinu til þjóðaratkvæðagreiðslu er nokkuð víst að slík tillaga mun hafa meiri stuðning en frumvarp Össurar.
Héðinn Björnsson, 11.5.2009 kl. 11:10
Þarna hittir þú í mark Héðinn. Einmitt þessa leið hef ég komið auga á og ég ætlast til þess að þeir fulltrúar kjósenda inni á Alþingi sem eru andvígir því að enn verði aukið í útgjöld ríkisins krefjist þess að ófögnuðurinn verði borinn undir þjóðina áður en honum verður hafnað í Brussel.
Við höfum ekki efni á því að leggja niður landbúnað á Íslandi svo eitthvað sé nefnt.
Árni Gunnarsson, 11.5.2009 kl. 11:55
Ágúst. þoka fortíðarinnar sem þú kallar svo heitir lífsreynsla. Viska. þeir sem eldri eru í landinu sjá sumir hverjir bæði fortíð og framtíð sjá mikið meir en þeir sem bara sjá bara framtíðina í lygaljóma. Ísland er svo ríkt að ef ætti að taka jörðina alla kæmi Ísland út í plús. Bið þig vinsamlegast að hugleiða það góði minn. Átt þú syni? Ef svo er, viltu þá senda þá óviljuga í herþjónustu? þeir gætu verið skyldaðir til að drepa eða það sem verra er, pynta vini sína fyrir augunum á þér. Hef unnið með fólki sem flúði frá herskyldu því þeir vildu gera allt til að þurfa ekki að drepa eða pynta sína nánustu. Bið þig og aðra að kynna ykkur hvað þið eruð að tala um. Með fullri virðingu fyrir þinni skoðun. Gangi þér vel með þinn boðskap góði minn.
Anna Sigríður Guðmundsdóttir, 11.5.2009 kl. 16:15
Ágúst telur greinilega að það skipti máli í þessu sambandi hvaða skoðanir þeir hafa. Ef þeir eru ekki sammála honum eru þeir þokumunkar í forsjárbrölti sem láta ekki rekast eins og sauðfé. Ef þeir eru hins vegar sammála honum fylgja þeir sannfæringu sinni, setja ekki pólitík ofar hagsmunum þjóðarinnar og hindra ekki nauðsynleg mál í meðförum þingsins.
Það sem er fyrst og fremst sorglegt eru einmitt aðilar eins og Ágúst sem greinilega hafa ekkert umburðarlyndi gagnvart skoðunum annarra.
Hjörtur J. Guðmundsson, 11.5.2009 kl. 19:57
Hjörleifur, ég vildi gjarnan geta verið eins bjartsýn og þú; að ESB vitleysan verði stöðvuð áður en hún kosti þjóðina stórfé í aðildarviðræðum, svo ekki sé nú minnst á tímasóunina þegar önnur og brýnni mál ættu að vera í brennidepli.
Því miður er ég nú sem stendur afar svartsýn.
Kolbrún Hilmars, 11.5.2009 kl. 20:57
Hjörleifur. Er ekki orðið tímabært að leitað verði leiða út úr göngunum sem þjóðin er að villast í núna. Hún staulast um í myrkrinu, rekandi sig sífellt á það sem liggur fyrir henni í óreiðunni.
Það verður að fara í farveginn og sækja um samband og enn frekari samvinnu við bræðra og frændþjóðir okkar Íslendinga.
Það verður að ganga til viðræðnanna með stolti. Það verður að vera breið fylking um það að ganga til samninga. Verði það samþykkt á Alþingi með litlum meirihluta að ganga til umræðu um samning er samningsstaðan slæm. Ef ekki næst breið samstaða um að ganga til fundar við EB er ekki víst að niðurstaðan verði ásættanleg.
Ef fólk ætlar að vera tvístígandi og ekki fylgjandi umsóknarviðræðum er eins gott að það komi þá með leiðir og lausnir til framtíðar fyrir Íslenska þjóð.
Njörður Helgason, 11.5.2009 kl. 21:27
Það hvimleiða í þessu samhengi er að spyrða alltaf orðin "þráhyggja", "vitleysa" og "kjaftæði" við ESB af þeim sem eru andsnúnir. Svo virðist sem að það sé ekki skilningur á fjölbreytileika í skoðunum og þörfina á að leiða hann í lýðræðislegan farveg.
Það gefst öllum tækifæri til að ræða brýnni mál, stöðu heimilana og atvinnuskapandi verkefni. Hvar bólar á slíku í búðum ESB andstæðinga. Þeir eyða orkunni að reyna að kynda undir ótta um fjöreggið. Já, blessað fjöreggið sem langstærstur hluti landa Evrópu hafa "tapað" án vandræða.
Það vantar heildarsýn og lausnir inn í umræðuna. Eigum við að standa endalaust með Noregi og Sviss í dyragættinni? Er ekki nauðsynlegt að segja EES samningnum upp svo að þessi jómfrúarstefna gangi upp, kæri Hjörleifur? Mbk, G
Gunnlaugur B Ólafsson, 12.5.2009 kl. 15:41
Góðu bloggarar.
Það dapurlega við ESB-áróðurinn er að hann þjónar engum tilgangi utan óhemju fyrirhöfn og tilkostnaði ef svo færi að sótt yrði um aðild. Jafnframt dregur hann úr þrótti stjórnvalda við að takast á við stóru vandamálin hér heima fyrir.
Þeir sem halda að ESB-aðild leysi okkar efnahagsvanda og peningamál geta beðið lengi, því að engin evra er hér í sjónmáli næstu ár og líklega áratugi.
Annaðhvort sundrast Evrópusambandið á meðan á þeirri bið stendur eða skrefið verður stigið til fulls að ríkisheild. Þar yrði gamli ESB-kjarninn áfram ráðandi, þau ríki sem mynduðu með sér kola- og stálbandalagið á 6. áratug síðustu aldar.
Hjörleifur Guttormsson, 12.5.2009 kl. 20:07
Ágæti Hjörleifur, ég verð því miður að lýsa yfir vonbrigðum mínum yfir framókn VG í rimmunni við Samfó, um hvaða aðferðafræði skuli beitt varðandi umsókn að ESB ?
Ég er líka ósáttur við, ríkisfjölmiðlarnir, Mogginn og RÚV, sem margir vinstri menn telja æðstu musteri íhaldsins, skuli vera hvað ófeimnastir í hálfgerðum
Þriðja Ríkis áróðri gegn okkur, sönnum andskotum ESB ?
Ég spyr þig, Hjörleifur Guttormsson, þar sem þú ert klókur gamall refur, hvað er eiginlega til ráða gegn þessari ESB-óværu ? Ég veit frá fyrri tíð, að þú og þínir nánustu eruð á móti eiturnotkun. Við verðum kannske að notast við kínversku aðferðina og plokka óværuna af okkur ?
Með kveðju frá Karlskrónu, KPG.
Kristján P. Gudmundsson, 14.5.2009 kl. 09:57
Vestur-Íslendingurinn Stephan G. Stephansson hlaut þau örlög að eiga "einhven veginn ekkert föðurland. Í kvæðinu - Jóns Sigurðssonar varðinn vestra- segir hann í einu erindi af átta:
Ver hvöt vor; í athöfn og orði að festa,
að Íslendingsréttur sé jafnhár þess besta,
að honum sé vansi að lúta þeim lögum,
sem ljóður er talinn á sjálfráðra högum.
Árni Gunnarsson, 14.5.2009 kl. 16:27
Sæll Kristján.
Ég vil benda þér á greinina "Tundurskeyti í farangrinum" sem er á heimasíðu minni www.eldhorn.is/hjorleifur Þar fjalla ég um þá grautargerð sem hnoðað var saman af stjórnarflokkunum um Evrópumál og gagnrýni undanlátssemi VG gagnvart kröfum Samfylkingarinnar.
Ég býst ekki við að þótt sótt yrði um ESB-aðild verði niðurstaðan samningur sem íslenskir samningamenn þori að sýna þjóðinni. Samt sem áður er þetta grafalvarlegt skref, m.a. vegna þess að með öllu bramboltinu er kröftum sundrað í þeirri glímu við efnahagshrunið sem hér þarf að heyja en í staðinn verða ráðuneyti og embættiskerfi undirlögð við að útbúa gögn og pappíra ofan í kvörnina í Brussel.
Brýnt er að upplýsa þjóðina um alla þætti ESB-gangverksins þannig að menn greiði atkvæði með opin augun ef einhverntíma kemur að því að þjóðaratkvæðagreiðsla verði um aðildarsamning.
Bestu kveðjur til Karlskróna
Hjörleifur Guttormsson, 14.5.2009 kl. 19:26
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.