26.4.2009 | 11:05
VG ótvíræður sigurvegari kosninganna
Í tvennum kosningum 2007 og 2009 hefur VG verið hástökkvarinn: Fer úr 8,8% í 14,3% og nú 21,7% og 14 þingmenn. Sigur VG opnar á rauðgræna meirihlutastjórn ef Samfylkingin áttar sig í ESB-málum.
Íslendingar eru ekki á leið inn í Evrópusambandið eins og Samfylkingin reynir að telja sínu fólki og umheiminum trú um. Sjálf hefur hún engin samningsmarkmið önnur en bara inn, inn í gin úlfsins. Slíku fólki er ekki treystandi fyrir íslenskum hagsmunum. ESB sjálft er á leið í djúpa kreppu sem óvíst er hvort sambandið lifir af í núverandi mynd.
Framundan bíða erfiðustu pólitísk verkefni á lýðveldistímanum. Arfleifð þríflokksins (D+B+S) skilur víða eftir sviðna jörð og rústir. Við þessar aðstæður reynir öðru fremur á VG að jafna byrðunum, rífa þjóðina upp úr hörmungunum samhliða því að standa vörð um náttúru og umhverfi. Endurmótun stjórnarskrár bætist við þau verk sem bíða.
Frjálslyndi flokkurinn er horfinn í gröf sem hann gróf sér sjálfur. Borgarahreyfingin fyllir í sæti hans á Alþingi, tímabundið afl að eigin sögn og óráðið um flest.
Stjórnarmyndun getur tekið tíma þótt mikið sé þrýst á VG og Samfylkingu að endurnýja samstarfið með stjórnarsáttmála til frambúðar. Það er næsti kapall nú eftir að þjóðin hefur fellt sinn dóm.
Athugasemdir
Sæll Hjörleifur,
Til hamingju með góðan sigur, þíns flokks,sem er fyrst og fremst SJS að þakka. Nú er Evrópuleiðin greið. Þegar menn tala um mikla fylgisaukningu VG gleyma menn því gjarnan að Alþýðuflokkurinn þrefaldaði fylgi sitt frá 1974 til 1978, þegar við tveir, meðal margra annarra, hrukkum inn á þing.
Einangrun og hræðsla við alþjóðasamstarf hefur aldrei gefist íslensku þjóðinni vel.
Vonandi siglum við saman inn í aukið alþjóðlegt samstarf.
Eiður Svanberg Guðnason, 26.4.2009 kl. 11:23
ES: Er ekki sigurvegarinn sá sem fær flesta þingmenn kjörna ????
Ég hefði haldið það.
Eiður Svanberg Guðnason, 26.4.2009 kl. 11:25
Fjölmiðlar halda áfram ESB vegferð sinni og tala nú upp sigur ESB sinna með sigri Samfylkingarinnar. Þeir ætla sér að beygja ykkur VG með góðu eða illu og hóta nú öðru stjórnarsamstarfi. Ég skil bara ekki hvernig hægt er að túlka þessi úrslit sem sigur ESB sinna þegar litið er til sigurs VG um allt land sem telur það ekki þjóna hagsmunum Íslands að gerast aðili að ESB.
En VG á einnig annan kost sem er að mynda stjórn með Framsóknar- og Sjálfstæðisflokki sem hefði góðan þingmeirihluta á Alþingi og gæti farið í þessi ESB mál af meiri hófsemi og yfirvegun. Besta stjórnin væri náttúrulega þjóðstjórn sem hefði einhverja burði til að taka á efnahagsmálum af myndarskap og vinna okkur út úr vandanum.
Valið sem þið VG fólk standið frammi fyrir er: Ætlið þið að láta beygja ykkur í ESB málinu eða ætlið þið að taka Sjálfstæðis- og Framsóknarflokkinn í sátt eftir þá endurnýjun sem þeir flokkar hafa farið í gegnum?
Jón Baldur Lorange, 26.4.2009 kl. 14:02
Heill og sæll Hjörleifur!
Til hamingju með sigurinn, þetta er sigur svo sannarlega, en hamingjan varir ekki lengi, því eins og þú segir verður þetta líklega eitt erfiðasta kjörtímabil þeirra þingmanna sem nú voru kosnir.
Evrópusambandið er engin allsherjarlausn, satt er það, en spurning hvort sé önnur lausn í peningamálum, án ESB? Ég er efins.
Hins vegar finnst mér óþarfi að tala um Evrópusambandið sem einhvern óargar Fenrisúlf. Evrópa er fyrst og fremst fólk eins og við. Bendi á skemmtilega grein Hauks Más Helgasonar á Nei.
Einar Karl, 26.4.2009 kl. 16:01
Jón Baldur, mér finnst þessi umræða um sigur ESB leiðar Samfylkingarinnar vera svo arfavitlaus, þar sem 70,2% þjóðarinnar kaus leið yfirvegunar og varúðar. Þessir aðilar vilja fyrst spyrja þjóðina og svo fara í viðræður.
VG bætti við sig ríflega 50% frá síðustu kosningum og Borgarahreyfingin fór frá núlli í 7,2%. Ef þessir aðilar eru ekki sigurvegarar kosninganna, þá veit ég ekki hvað er hægt að kalla þá.
Marinó G. Njálsson, 26.4.2009 kl. 17:44
ESB er félagshyggja og ekkert annað þetta hef eg kynnt mer serstaklega hjá Vinstri Grænum á málingum sem haldið hefur verið í vetur.Ekki er auðvelt að skilja afstöðu þeirra í þessum málum.Staðreyndir lyggja fyrir félag sjalfstæðra þjóða sem first og fremmst hugsar um rettindi folks til samræmingar laga og rettar.Það var einkum skrítið að andstæðingar hja VG mættu ekki á þessi málþing í vetur ,ef þeir hefði gert það væru þeir betur upplýstir.
Árni Björn Guðjónsson, 26.4.2009 kl. 21:16
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.