Gaman og alvara í Laugardalslaug að morgni kjördags

Ég naut þess að heimsækja Laugardalslaug í morgun, taka sundsprett og hlýja mér með kunningjum í heita pottinum. Björn Bjarnason var á næstu braut eins og venjulega en við Bjarni Guðnason busluðum saman og rifjuðum á eftir upp kosningabaráttu í alþingiskosningum á Austurlandi 1978 og 1979. Bjarni var þá í 1. sæti fyrir Alþýðuflokkinn í Austurlandskjördæmi en ég í 3. og síðan 2. sæti fyrir Alþýðubandalagið.  - Fyrnefndu kosningarnar lyftu A-flokkunum í áður óþekktar hæðir með um 45% samanlagt og 14 þingmenn hvor flokkur. Bjarni var ekkert langt frá því að vinna þingsæti eystra en fór af landi brott alla leið til Ástralíu á ráðstefnu viku fyrir kjördag. Fiskisagan flaug um allt Austurland samdægurs og við settum í fyrirsögn kosningablaðs: "Frambjóðandi Alþýðuflokksins farinn á kengúruveiðar í Ástralíu." Þetta kann að hafa kostað Bjarna þingsætið. Bjarni er með skemmtilegri mönnum og í pottinum rifjaði hann upp veru sína í Hraunkoti í Lóni þaðan sem hann fór með Sigurlaugu og Skafta á framboðsfund 1937 9 ára gamall. Þar sló hann mig út því ég man fyrst eftir framboðsfundi sem ég sótti á Reyðarfirði fyrir haustkosningarnar 1949. Saman hefðum við Bjarni getað bætt ýmsu kryddi í stjórnmálasögu fyrri hluta 20. aldar ef sagnfræðingur hefði verið nærstaddur.

Alvaran leyndi sér hins vegar ekki undir niðri meðal baðgesta í Laugardalslaug. Maður sem sjaldan er margmáll tók af skarið um að ekki myndi hann nú kjósa Sjálfstæðisflokkinn sem staðinn væri að því að hafa þegið mútur voldugra hagsmunasamtaka fyrir síðustu kosningar. Annar kvað upp úr um það óspurður í tveggja manna tali að nú færi hann beint á kjörstað og kysi það sem verst kæmi Sjálfstæðisflokknum. Því er ljóst að það sýður á mörgum fyrrum stuðningsmönnum flokksins. - Árni Björn "kristni" var staðinn að því að dreifa miðum á setbekki karlabaðklefanna merkta x0. Hann er því kominn í heilan hring í flokkaflórunni og endar sennilega hjá Ástþóri undir kvöld.

Nú er Dagur umhverfisins og vel til fundið að líta við í Iðnó eftir hádegið þar sem rýnt verður í framtíðina. Allt eru það smáræði erfiðleikarnir sem við blasa á Íslandi og heimsbyggðinni allri hjá þeim ógnum sem barnabörnin þurfa að glíma við vegna röskunar á umhverfi jarðar af mannavöldum þegar líður á þessa öld. Miðað við þær horfur er jafngott að Íslendingar gæti vel að því sem þeir þó eiga, landi og fiskimiðum, og gangi ekki stórveldabandalögum á hönd.

Svo sjáum við til kvað kemur upp úr kössunum þá kvöldar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband