Hugarórar og rangfærslur fyrrverandi bankamálaráðherra

Það kemur kannski ekki mjög á óvart að fyrrum bankamálaráðherra kynni sér ekki mál og fari með rangfærslur og fleipur á Alþingi. Hér tekur þó steininn úr þegar þessi frambjóðandi Samfylkingarinnar getur ekki vitnað rétt í stuttorða samþykkt landsfundar VG um svonefnd Evrópumál, hvað þá lagt út af efni hennar.

Í ályktuninni er ítrekuð andstaða VG við aðild að Evrópusambandinu eins og lesa má hér fyrir neðan. Samkvæmt frétt Mbl.is staðhæfði Björgvin "að í landsfundarafgreiðslu VG hefði falist mikil opnun í Evrópumálum þegar talað væri um tvöfalda þjóðaratkvæðagreiðslu. Þessi afstaða markaði tímamót." Hvers konar órar eru þetta? Í samþykktum landsfundarins er ekki að finna orð um "tvöfalda þjóðaratkvæðagreiðslu". 

Samþykkt landsfundarins er svohljóðandi: "Vinstrihreyfingin - grænt framboð telur nú sem fyrr að hagsmunum Íslands sé best borgið utan Evrópusambandsins. Sjálfsagt er og brýnt að fram fari opin og lýðræðisleg umræða um samskipti Íslands og sambandsins. Landsfundur VG leggur áherslu á að aðild Íslands að ESB eigi að leiða til lykta í þjóðaratkvæðagreiðslu. Landsfundur telur mikilvægt að fyrirkomulag þjóðaratkvæðagreiðslu fái rækilega umræðu og að hliðsjón verði höfð af væntanlegum stjórnarskrárbreytingum og hvað eðlilegt getur talist þegar afdrifaríkar ákvarðanir eru teknar um framsal og fullveldi."


mbl.is Kollhnísafréttaskýringar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Enn stendur eftir spurningin: Tvær þjóðaratkvæðagreiðslur? Ein um hvort fari verði í viðræður og önnur um lokaafgreiðslu þjóðar? Má svara með jái eða nei-i.

Gísli Baldvinsson (IP-tala skráð) 24.3.2009 kl. 21:02

2 Smámynd: Hjörleifur Guttormsson

Hér er talað um eina þjóðaratkvæðagreiðslu ef svo færi að einhvern tíma yrði greitt atkvæði um aðildarsamning.

Fyrir umsókn um aðild að ESB er ekki sýnilegur þingmeirihluti nú eða eftir komandi kosningar þannig að ólíklegt er að þjóðin þurfi að ganga til atkvæða um aðildarsamning á næsta kjörtímabili og vonandi aldrei.

Hjörleifur Guttormsson, 24.3.2009 kl. 22:05

3 identicon

En það svarar ekki þeirri áleitnu spurningu HVORT eigi að hefja könnunarviðræður. Svar þitt sem manni á fremsta bekk veldur mér svo áhyggjum. Kv gb

Gísli Baldvinsson (IP-tala skráð) 25.3.2009 kl. 11:34

4 Smámynd: Hjörleifur Guttormsson

Sæll Gísli.

Könnunarviðræður við ESB hafa enga formlega merkingu í sambandi við aðild að ESB. Áþreifingar og spjall hafa verið í gangi við ESB um langt árabil, fulltrúar frá Alþingi (Evrópustefnunefndir þingsins), fulltrúar hagsmunasamtaka, einstakir stjórnmálamenn etc.

Engra marktækra svara er að vænta út úr slíku spjalli. Menn þurfa heldur ekki að fara út í slíka leiðangra til að vita "hvaða kostir bjóðast", reglur Evrópusambandsins segja það sem menn þurfa að vita, þó alltaf með fyrirvara um túlkanir Dómstólsins, sem hefur stefnumarkandi áhrif sem beinast fyrst og fremst að túlkun á regluverkinu í átt til aukins samruna.

Til að sækja um aðild þarf þingmeirihluta og hann verður ekki sóttur til þeirra sem eru andvígir aðild að ESB. Ég hef sama mat á líkum á að hann myndist hér eftir kosningar og Björn Bjarnason, þ.e. að þær séu litlar sem engar. Engu að síður þurfa andstæðingar aðildar að halda vöku sinni og mér sýnist þú vera í þeim hópi.

Hjörleifur Guttormsson, 25.3.2009 kl. 11:48

5 Smámynd: Birnuson

Sæll Hjörleifur,

Við skulum fullyrða varlega um afstöðu Gísla til Evrópusambandsaðildar. Þetta er úr bloggfærslu hans frá 9. mars undir fyrirsögninni Förum að vilja fólksins: „Nú þurfa Vinstri grænir að samþykkja "fumlaust" að aðildarviðræður hefjist innan tíðar við ESB. Þetta þarf að vera e.k. sáttmáli eða tákn um áframhaldandi samstarf.“ En avant Gísli!

Birnuson, 25.3.2009 kl. 12:28

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband