1.3.2009 | 17:36
Verndun strandminja spennandi verkefni
Það var skemmtileg tilbreyting að skreppa í gær austur á Norðfjörð og spjalla þar við áhugahóp um verndun vita og annarra strandminja. Þarna stóðu áhugasamtök undir forystu Sigurbjargar Árnadóttur fyrir málþingi og fengu sem framsögumenn auk undirritaðs Kristján Sveinsson frá Siglingamálastofnun sem fjallaði um vita á Austfjörðum og Hörð Sigurbjarnarson á Húsavík sem kynnti afþreyingu á sjó í formi hvalaskoðunar.
Vitafélag Íslands mun hafa starfað frá því um 2000 og byggir á svipuðum grunni og áhugafélag í Noregi, sem margt gott hefur látið af sér leiða. Sjálfur hef ég reynt að halda til haga upplýsingum um útræði, heimver og útver á Austfjörðum í ritum mínum um Austurland. Af ótrúlega miklu er að taka um þessi efni og kynning á því og verndun slíkra minja getur auðgað mannlífið og störf að ferðaþjónustu.
Eystra er nú snjór í meðallagi , land allt undir hvítum feldi og líflegt var á skíðasvæðum á þessum sólbjarta degi.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.